Sólin Sólin Rís 06:40 • sest 20:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:55 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:45 • Síðdegis: 17:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:40 • sest 20:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:55 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:45 • Síðdegis: 17:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er syndafallskenning Rousseaus?

Geir Sigurðsson

Að tala um „syndafall“ í kenningum svissneska heimspekingsins Jean-Jacques Rousseau (1712-1778) er líklega villandi þar sem hann fjallaði ekki um eiginlega „synd“ í kristilegum skilningi. Í ritinu Ritgerð um uppruna og grundvöll ójöfnuðar meðal manna (Discours sur l'origine et les fondements de l'inégualité parmi les hommes) frá árinu 1753 setti hann þó fram kenningu um hnignun og fall mannkyns frá upphaflegu paradísarástandi til hins stéttskipta og ójafna samfélags átjándu aldar. Þessi hugmynd hans gæti eflaust einnig átt við fjölmörg samfélög í nútímanum.

Rousseau taldi að í hinu upphaflega náttúruríki hafi maðurinn lifað í fullkominni sátt og samlyndi við umhverfi sitt og aðra menn. Hann dró því upp mynd sem er afar ólík hugmyndum enska hugsuðarins Thomas Hobbes (1588-1679), en Hobbes hélt því fram að í náttúruríkinu ríkti stríð allra gegn öllum. Samfélagið yrði svo til í formi sáttmála sem byndi endi á þetta óþolandi stríðsástand. Hobbes sá þannig stofnsetningu samfélagsins sem nauðsynlega framför. Rousseau sá hana hins vegar sem lið í stigvaxandi afturför mannkyns.


Rousseau setti fram kenningu um hnignun og fall mannkyns frá upphaflegu paradísarástandi. Málverk eftir Michelangelo.

Samkvæmt Rousseau var manneskjan í náttúruríkinu frumstæð en fyrir vikið hamingjusöm. Samskipti kynjanna voru einföld og einkenndust af því að svala náttúrulegum fýsnum. Einstaklingarnir lifðu í talsverðri einangrun og voru öðrum algerlega óháðir. Hver og einn var sjálfum sér næstur og skeytti ekki um aðra. Þarna voru engar iðnaðarframkvæmdir, ekkert tungumál og engar djúpar vangaveltur. Rousseau sagði hugsunina vera einkenni úrkynjunar – því dýpri sem hún væri þeim mun sjúkari væri manneskjan. Fullkomlega heilbrigð manneskja þarf ekki að íhuga áður en hún framkvæmir, heldur bregst hún við með náttúrulegum hætti, það er að segja samkvæmt eðlisávísun sinni. Þetta getum við ekki lengur þar sem spillandi áhrif samfélagsins hafa kæft eðlisávísunina og því hefur hugsunin tekið við sem viðbragð við þessari „fötlun“.

En hvernig stóð á því að sæluskeiðinu hnignaði? Rousseau sagði þetta hafa hafist þegar einhverjum datt í hug að slá eign sinni á skikann sem hann bjó á – krefjast þess að skikinn tilheyrði einungis honum. Þegar menn féllust á þetta og tóku að deila á milli sín eignum voru hagsmunaárekstrar óhjákvæmilegir. Til dæmis var einungis hægt að stækka við sig á kostnað annarra. Fyrir vikið varð til stéttaskipting landeigenda og leiguliða og í fyrsta skipti tók að bera á ráni og ofbeldi. Mennirnir urðu gráðugir, eigingjarnir og illir.

Ef til vill mætti segja að samkvæmt Rousseau hafi illræmt náttúruríki Hobbes þarna orðið til. Stríð allra gegn öllum var í uppsiglingu. Til að binda enda á þetta ófremdarástand og þó einkum til að tryggja eignir sínar tóku auðmennirnir þá ákvörðun að bindast samtökum, aðalsmannasamfélaginu, sem héldi vörð um eignarréttinn. Í þessu skyni urðu til ríkisvald og lagakerfi. Um leið, sagði Rousseau, tókst auðkýfingum að réttlæta yfirráð sín yfir fátæklingum og binda þau í eilíf lög, eins og samfélag átjándu aldar í Frakklandi var til marks um.

Þannig var um að ræða þrjú þrep í hnignun mannsins. Hið fyrsta var tilurð eignarréttarins sem skipti mannkyni í ríka og fátæka. Annað þrepið átti sér stað með yfirvaldi sem bjó til yfir- og undirstétt. Þriðja þrepið fólst svo í því þegar gjörræðislegur stéttamunurinn á húsbændum og þrælum var bundinn í lög.


Stéttaskipting: Hinir fátæku strita fyrir þá ríku.

Hvað er þá til ráða? Er einhver leið til að ráða bót á þessu? Rousseau gerði tilraun til að finna slíka leið í riti sínu Um Samfélagssáttmálann (Du Contrat social ou Principes du droit politique), en einnig með tillögum sínum um uppeldi barna sem hann setti fram í heimspekilegu skáldverki sínu Émile.

Greining Rousseaus á stöðu og skilyrðum mannsins var grundvöllur baráttu hans fyrir jafnræði, lýðræði og borgaralegum réttindum. Samfélagssáttmálinn gerir kröfu um að sérhver einstaklingur veiti almannavilja umboð til að taka ákvarðanir sem varða hagsmuni alls samfélagsins. Þannig fellst einstaklingurinn á sameiginleg lög sem gilda jafnt fyrir alla. Þetta átti eftir að vera forsprökkum frönsku byltingarinnar árið 1789 mikill innblástur, þá einkum Maximillian Robespierre (1758-1794) sem sótti Rousseau heim um áratug fyrir byltinguna. Þannig hafði Rousseau ómæld áhrif á framvindu lýðræðisríkisins.

Heimspekingurinn Immanuel Kant (1724-1804) dáðist einnig mjög af kenningum Rousseaus, og höfðu þær mikil áhrif á hugmyndir Kants um mannvirðingu og þar með mótun nútímahugmynda um almenn mannréttindi. Um Kant má lesa nánar í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Hver var Immanuel Kant? Kenningar Rousseaus um spillingarmátt samfélagsins höfðu jafnframt bein áhrif á Karl Marx (1818-1883) og hugmyndir hans um afnám eignarréttarins og falska vitund mannsins um eigin hagsmuni. Hægt er að lesa meira í svari Ragnheiðar Kristjánsdóttur við spurningunni Hver var Karl Marx og hverjir höfðu mest áhrif á hugmyndir hans um samfélagið?

Allt frá upphafi hefur Rousseau þó einnig þurft að þola óvægna gagnrýni fyrir að hatast út í siðmenningu og draga upp rómantíska og óraunsæja mynd af „göfuga villimanninum“. Franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Voltaire (1694-1778) fór til dæmis hörðum orðum um þessar hugmyndir í bréfi til Rousseaus eftir að hafa lesið ofangreinda bók hans um ójöfnuðinn. Þar sagði hann meðal annars: „Aldrei hefur nokkur maður leitast við af meiri ástríðu en þér að gera okkur að einberum skepnum. Lestur bókar yðar knýr mann nánast til að skríða á fjórum fótum. En þar sem ég hætti því fyrir einum sextíu árum á ég því miður bágt með að taka það upp að nýju.“

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Myndir

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

13.3.2007

Spyrjandi

Lilja Hilmisdóttir

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Hver er syndafallskenning Rousseaus?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2007, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6531.

Geir Sigurðsson. (2007, 13. mars). Hver er syndafallskenning Rousseaus? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6531

Geir Sigurðsson. „Hver er syndafallskenning Rousseaus?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2007. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6531>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er syndafallskenning Rousseaus?
Að tala um „syndafall“ í kenningum svissneska heimspekingsins Jean-Jacques Rousseau (1712-1778) er líklega villandi þar sem hann fjallaði ekki um eiginlega „synd“ í kristilegum skilningi. Í ritinu Ritgerð um uppruna og grundvöll ójöfnuðar meðal manna (Discours sur l'origine et les fondements de l'inégualité parmi les hommes) frá árinu 1753 setti hann þó fram kenningu um hnignun og fall mannkyns frá upphaflegu paradísarástandi til hins stéttskipta og ójafna samfélags átjándu aldar. Þessi hugmynd hans gæti eflaust einnig átt við fjölmörg samfélög í nútímanum.

Rousseau taldi að í hinu upphaflega náttúruríki hafi maðurinn lifað í fullkominni sátt og samlyndi við umhverfi sitt og aðra menn. Hann dró því upp mynd sem er afar ólík hugmyndum enska hugsuðarins Thomas Hobbes (1588-1679), en Hobbes hélt því fram að í náttúruríkinu ríkti stríð allra gegn öllum. Samfélagið yrði svo til í formi sáttmála sem byndi endi á þetta óþolandi stríðsástand. Hobbes sá þannig stofnsetningu samfélagsins sem nauðsynlega framför. Rousseau sá hana hins vegar sem lið í stigvaxandi afturför mannkyns.


Rousseau setti fram kenningu um hnignun og fall mannkyns frá upphaflegu paradísarástandi. Málverk eftir Michelangelo.

Samkvæmt Rousseau var manneskjan í náttúruríkinu frumstæð en fyrir vikið hamingjusöm. Samskipti kynjanna voru einföld og einkenndust af því að svala náttúrulegum fýsnum. Einstaklingarnir lifðu í talsverðri einangrun og voru öðrum algerlega óháðir. Hver og einn var sjálfum sér næstur og skeytti ekki um aðra. Þarna voru engar iðnaðarframkvæmdir, ekkert tungumál og engar djúpar vangaveltur. Rousseau sagði hugsunina vera einkenni úrkynjunar – því dýpri sem hún væri þeim mun sjúkari væri manneskjan. Fullkomlega heilbrigð manneskja þarf ekki að íhuga áður en hún framkvæmir, heldur bregst hún við með náttúrulegum hætti, það er að segja samkvæmt eðlisávísun sinni. Þetta getum við ekki lengur þar sem spillandi áhrif samfélagsins hafa kæft eðlisávísunina og því hefur hugsunin tekið við sem viðbragð við þessari „fötlun“.

En hvernig stóð á því að sæluskeiðinu hnignaði? Rousseau sagði þetta hafa hafist þegar einhverjum datt í hug að slá eign sinni á skikann sem hann bjó á – krefjast þess að skikinn tilheyrði einungis honum. Þegar menn féllust á þetta og tóku að deila á milli sín eignum voru hagsmunaárekstrar óhjákvæmilegir. Til dæmis var einungis hægt að stækka við sig á kostnað annarra. Fyrir vikið varð til stéttaskipting landeigenda og leiguliða og í fyrsta skipti tók að bera á ráni og ofbeldi. Mennirnir urðu gráðugir, eigingjarnir og illir.

Ef til vill mætti segja að samkvæmt Rousseau hafi illræmt náttúruríki Hobbes þarna orðið til. Stríð allra gegn öllum var í uppsiglingu. Til að binda enda á þetta ófremdarástand og þó einkum til að tryggja eignir sínar tóku auðmennirnir þá ákvörðun að bindast samtökum, aðalsmannasamfélaginu, sem héldi vörð um eignarréttinn. Í þessu skyni urðu til ríkisvald og lagakerfi. Um leið, sagði Rousseau, tókst auðkýfingum að réttlæta yfirráð sín yfir fátæklingum og binda þau í eilíf lög, eins og samfélag átjándu aldar í Frakklandi var til marks um.

Þannig var um að ræða þrjú þrep í hnignun mannsins. Hið fyrsta var tilurð eignarréttarins sem skipti mannkyni í ríka og fátæka. Annað þrepið átti sér stað með yfirvaldi sem bjó til yfir- og undirstétt. Þriðja þrepið fólst svo í því þegar gjörræðislegur stéttamunurinn á húsbændum og þrælum var bundinn í lög.


Stéttaskipting: Hinir fátæku strita fyrir þá ríku.

Hvað er þá til ráða? Er einhver leið til að ráða bót á þessu? Rousseau gerði tilraun til að finna slíka leið í riti sínu Um Samfélagssáttmálann (Du Contrat social ou Principes du droit politique), en einnig með tillögum sínum um uppeldi barna sem hann setti fram í heimspekilegu skáldverki sínu Émile.

Greining Rousseaus á stöðu og skilyrðum mannsins var grundvöllur baráttu hans fyrir jafnræði, lýðræði og borgaralegum réttindum. Samfélagssáttmálinn gerir kröfu um að sérhver einstaklingur veiti almannavilja umboð til að taka ákvarðanir sem varða hagsmuni alls samfélagsins. Þannig fellst einstaklingurinn á sameiginleg lög sem gilda jafnt fyrir alla. Þetta átti eftir að vera forsprökkum frönsku byltingarinnar árið 1789 mikill innblástur, þá einkum Maximillian Robespierre (1758-1794) sem sótti Rousseau heim um áratug fyrir byltinguna. Þannig hafði Rousseau ómæld áhrif á framvindu lýðræðisríkisins.

Heimspekingurinn Immanuel Kant (1724-1804) dáðist einnig mjög af kenningum Rousseaus, og höfðu þær mikil áhrif á hugmyndir Kants um mannvirðingu og þar með mótun nútímahugmynda um almenn mannréttindi. Um Kant má lesa nánar í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Hver var Immanuel Kant? Kenningar Rousseaus um spillingarmátt samfélagsins höfðu jafnframt bein áhrif á Karl Marx (1818-1883) og hugmyndir hans um afnám eignarréttarins og falska vitund mannsins um eigin hagsmuni. Hægt er að lesa meira í svari Ragnheiðar Kristjánsdóttur við spurningunni Hver var Karl Marx og hverjir höfðu mest áhrif á hugmyndir hans um samfélagið?

Allt frá upphafi hefur Rousseau þó einnig þurft að þola óvægna gagnrýni fyrir að hatast út í siðmenningu og draga upp rómantíska og óraunsæja mynd af „göfuga villimanninum“. Franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Voltaire (1694-1778) fór til dæmis hörðum orðum um þessar hugmyndir í bréfi til Rousseaus eftir að hafa lesið ofangreinda bók hans um ójöfnuðinn. Þar sagði hann meðal annars: „Aldrei hefur nokkur maður leitast við af meiri ástríðu en þér að gera okkur að einberum skepnum. Lestur bókar yðar knýr mann nánast til að skríða á fjórum fótum. En þar sem ég hætti því fyrir einum sextíu árum á ég því miður bágt með að taka það upp að nýju.“

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Myndir

...