Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Að mæla nákvæma lengd vatnsfalla er ekki alltaf eins einfalt og það kann að virðast í fyrstu. Þrír þættir skipta þar töluverðu máli: Hver skilgreind upptök vatnsfallsins eru, hvar það endar nákvæmlega og hversu nákvæm gögn eru notuð til þess að mæla fjarlægðina þar á milli.
Vatn í stórum vatnsföllum kemur venjulega úr mörgum ám. Upptök vatnsfalls eru þá yfirleitt miðuð við upptök þeirrar ár sem er lengst frá ósum þó svo að sú á kunni að bera annað heiti en meginvatnsfallið. Slíkt á til dæmis við um Þjórsá, lengsta vatnsfall á Íslandi, sem við upptök sín kallast Bergvatnskvísl en fær ekki nafnið Þjórsá fyrr en neðar.
Þó svo að búið sé að ákvarða við hvaða á skal miða upptök tiltekins vatnsfalls þá er þrautin ekki endilega unnin. Sem dæmi má nefna að í tilfelli dragáa (sjá nánar um mismunandi flokka vatnsfalla í svari við spurningunni Úr hvaða jökli kemur Þjórsá?) eru engin glögg upptök heldur verða þær til úr sytrum í dældum og daladrögum og stækka smám saman eftir því sem neðar dregur.
Oftast nær er nokkuð ljóst hvar vatnsfall endar, það er hvar það fellur til sjávar. Hins vegar getur reynst erfitt að ákvarða nákvæmlega við hvað á að miða, sérstaklega þar sem um stóra árósa (e. estuary) er að ræða. Árósar taka breytingum, strandlínan getur færst fram vegna framburðar eða þá gengið getur á ströndina vegna rofs. Affallið er því ekki einn ákveðinn staður um aldur og ævi heldur færist til.
Áin Níl er yfirleitt talið lengsta fljót heims. Hvíta Níl á upptök í Viktoríuvatni í Úganda og Bláa Níl í Tanavatni í Eþíópíu. Þær koma saman í Kharthoum í Súdan og þaðan rennur áin Níl um Egyptaland til sjávar.
Þegar búið er að ákvarða við hvaða upptök og ósa á að miða kemur þriðji þátturinn til sögunnar, það er að segja hversu nákvæm gögnin eru. Eftir því sem nákvæmari loftmyndir eða kort eru notuð mælist vatnsfallið lengra. Æskilegast er að nota kort eða loftmynd í svo stórum kvarða að þau sýni breidd árinnar en slíkar upplýsingar eru ekki alltaf til staðar. Við nákvæma mælingu skiptir einnig máli hvort miðað er við ána miðja eða við bakkann og hvernig lengdin er mæld þar sem áin rennur í stöðuvatn.
Af þessum sökum getur reynst erfitt að mæla nákvæma lengd vatnsfalla.
Víða á netinu er að finna lista yfir lengstu ár heims. Heimildum ber þó ekki endilega nákvæmlega saman um hverjar þær eru, hversu langar og í hvaða röð þar sem viðmiðin geta verið mismunandi. Einnig er misjafnt hvort litið er á ákveðin vatnakerfi sem eina heild eða mörg vatnsföll. Einn slíkan lista er að finna á Wikipedia.org en samkvæmt honum eru 10 lengstu vatnsföll heims eftirfarandi:
Vatnsfall*
Lengd (km)
Upptök
Ósar
Lönd
Níl
6.690
Viktoríuvatn í Úganda (Hvíta Níl) og Tanavatn í Eþíópíu (Bláa Níl)
Miðjarðarhaf
Egyptaland, Súdan, Úganda, Eþíópía
Amason-
fljót
6.387
Andesfjöll - Perú
Atlantshaf
Brasilía og Perú
Mississippi-
Missouri**
6.270
Klettafjöll í Bandaríkjunum
Mexíkóflói
Bandaríkin
Yangtze
6.211
Qinghai-Tíbet hásléttan í vesturhluta Kína
Austur-
Kínahafa
Kína
Yenisei - Angara - Selenga
5.550
Mongólía
Norðuríshaf
Rússland, Mongólía
Ob-Irtysh
5.410
Altaífjöll í Kína
Norðuríshaf
Rússland, Kasakstan, Kína
Gulafljót
4.667
Vesturhluta Kína
Gulahaf
Kína
Kongófljót
4.371
Norðaustur Sambía
Atlantshaf
Kongó, Lýðveldið Kongó, Sambía
Amur
4.368
Kína/Mongólía
Okhotskahaf
Rússland, Kína
Lena
4.260
Baikalfjöll
Norðuríshaf
Rússland
*Þar sem tvö nöfn eru nefnd er um að ræða vatnakerfi þar sem árnar eru stundum taldar tvær eða fleiri, en stundum taldar sem ein heild eins og gert er hér.
** Missouri fellur í Mississippi. Ágreiningur er um hvort þessara vatnsfalla skuli teljast lengsta fljót Bandaríkjanna en saman eru þær ótvírætt lengsta fljót Norður-Ameríku.
Rétt er að taka fram að í sumum heimildum er þess getið að ágreiningur sé um hvort Níl eða Amasonfljót teljist lengsta vatnsfall heims og fer niðurstaðan eftir þeim viðmiðum sem notuð eru í mælingunni. Hins vegar er Amasonfljót ótvírætt breiðasta fljót heims; á köflum er breidd þess á milli bakka 4-6 km. Um 20% af því vatni sem fellur til sjávar með vatnsföllum er í Amasonfljótinu, meira en Níl, Mississippi og Yangtze samanlagt. Það er því óhætt að segja að Amasonfljót sé mesta vatnsfall í heimi þó að það sé ekki endilega það lengsta.
Amasonfljót er breiðasta vatnsfall heims og jafnframt það vatnsmesta.
Vatnsföll hafa leikið stórt hlutverk í sögu mannkyns. Í árþúsundir hefur framburður stórfljóta verið áburður á ræktarland og vatn úr þeim notað í áveitur á akra. Þau hafa séð fólki fyrir neysluvatni og á seinni tímum verið notuð í iðnaði og til raforkuframleiðslu. Mörg af elstu menningarsvæðum heims eru við eða í nágrenni stórfljóta svo sem Nílardalurinn, Mesópótamía (á milli fljótanna Efrat og Tígris), Indusdalurinn og Gulárdalurinn í Kína (sjá nánar í svari Haraldar Ólafssonar við spurningunni Hvenær er talið að siðmenning eins og við þekkjum hana hafi byrjað?). Enn í dag er það svo að þéttbýlustu svæði jarðar eru í nágrenni við fljót eða strönd þar sem jarðvegur er frjósamur og loftslag oft þægilegt til búsetu.
En stórfljótin eru ekki bara blessun heldur líka böl þar sem flóð í þeim geta valdið miklu eignartjóni og mannskaða. Sem dæmi má nefna að flóð í Yangtze-ánni í Kína árið 1954 varð 30.000 manns að bana. Nærtækara dæmi eru flóðin í Evrópu vorið 2006. Þau ollu töluverðu tjóni og neyddu fjölda fólks til að yfirgefa heimili sín en voru sem betur fer ekki mannskæð.
Í gegnum tíðina hafa vatnsföll gegnt mikilvægu hlutverki í samgöngum og vöruflutningum. Þau hafa ekki síður verið mikilvæg til þess að skilja á milli landa, en landamæri fylgja gjarnan fyrirbærum í náttúrunni eins og ám eða fjallgörðum. Sem dæmi má nefna að Amur, sem er hér á listanum sem níunda lengsta fljót jarðar, markar stóran hluta norðausturlandamæra Kína og Rússlands. Landamærin á milli Vestur- og Austur-Kongó liggja að sama skapi að miklu leyti eftir Kongófljóti.
Það skapar samt ákveðin vandamál þegar vatnsfall rennur á mörkum tveggja eða fleiri landa eða í gegnum mörg lönd. Eftir því sem mannfólkinu fjölgar og lífskjör batna eykst þörfin fyrir vatn og samkeppnin um þessa auðlind verður meiri. Slíkt hefur leitt til árekstra og gera má ráð fyrir að ágreiningsmálum vegna nýtingar vatns eigi aðeins eftir að fjölga í framtíðinni.
Heimildir og myndir:
Peter Östman o.fl. 2000. Landafræði, maðurinn, auðlindirnar, umhverfið. Reykjavík, Mál og menning.
Þorleifur Einarsson. 1991. Myndun og mótun lands. Reykjavík, Mál og menning.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver eru lengstu fljót í heimi?“ Vísindavefurinn, 28. mars 2007, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6560.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2007, 28. mars). Hver eru lengstu fljót í heimi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6560
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver eru lengstu fljót í heimi?“ Vísindavefurinn. 28. mar. 2007. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6560>.