Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvað er að vera „forpokaður“ og hver er eiginlega uppruni orðsins? Íslensk orðsifjabók stendur hér á gati.

Sögnin að forpokast merkir að hnigna andlega, glata fjöri og áhuga samkvæmt Íslenskri orðabók (2002:371) og sá sem er forpokaður er þá áhugalaus, gamaldags, oft afturhaldssamur og lítt hugsandi um nýjungar og framfarir.

Uppruninn er ekki fulljós. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um sögnina forpokast er úr ritinu Hafnarstúdentar skrifa heim og dæmið er úr bréfi frá 1888. Í næstu dæmum í aldri er orðið sett í gæsalappir eins og notandinn hafi ekki talið það gott og gilt orð. Sama er að segja um nafnorðið forpokun að elsta dæmi þar er úr verki eftir Jón Trausta frá fyrsta þriðjungi 20. aldar og í gæsalöppum. Nokkur dæmi eru um bæði orðin. Hvort sem það er tilviljun eða ekki við orðasöfnunina þá virðist lýsingarorðið forpokaður komast síðar á prent. Elsta heimild Orðabókarinnar er frá 1959 í riti eftir Thor Vilhjálmsson.

Orðin forpokun, forpokaður og forpoka tengjast líklega orðunum poki og pokaprestur.

Ekki hef ég fundið samsvörun í dönskum orðaókum. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal, sem kom út á árunum 1920–1924, er sögnin forpokast þýdd með danska orðinu ‛forsumpe’ þannig að Sigfús, sem bjó lengi í Kaupmannahöfn, hefur ekki þekkt samsvörun við íslensku sögnina. Hann vísar í orðið pokaprestur sem notað er um andlausan og heldur lélegan prest. Elstu heimildir um það í söfnum Orðabókarinnar eru frá miðri 19. öld. Stundum var einfaldlega notað orðið poki um slíka presta: ,,Hann er óttalegur poki“. Orðin forpokun, forpokaður og forpoka finnast ekki í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar frá 1989.

Ég tel líklegast að orðin séu innlend og tengist orðunum poki og pokaprestur (einnig er þekkt pokabiskup) i fyrrgreindri merkingu. Forskeytið for- er notað í ýmsum merkingum, t.d. ‛fyrir, áður, undan, fram’ en einnig með herðandi og/eða neikvæðu tákngildi (Íslensk orðsifjabók 1989:201). Forskeytið for- kemur fyrir í mörgum tökuorðum úr dönsku, t.d. forganga, forgengilegur, forkelast, og skýrir það gæsalappirnar í elstu dæmunum.

Mynd:

Útgáfudagur

30.9.2013

Spyrjandi

Gunnlaugur Þór Briem

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvað er að vera „forpokaður“ og hver er eiginlega uppruni orðsins? Íslensk orðsifjabók stendur hér á gati. .“ Vísindavefurinn, 30. september 2013. Sótt 26. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=65687.

Guðrún Kvaran. (2013, 30. september). Hvað er að vera „forpokaður“ og hver er eiginlega uppruni orðsins? Íslensk orðsifjabók stendur hér á gati. . Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65687

Guðrún Kvaran. „Hvað er að vera „forpokaður“ og hver er eiginlega uppruni orðsins? Íslensk orðsifjabók stendur hér á gati. .“ Vísindavefurinn. 30. sep. 2013. Vefsíða. 26. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65687>.

Chicago | APA | MLA

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Guðrún Kvaran

1943

Guðrún Kvaran er málfræðingur og prófessor emeritus. Hún starfaði um áratuga skeið við Orðabók Háskólans og varð forstöðumaður hennar árið 2000. Guðrún hefur skrifað fjölda greina sem birst hafa innanlands og erlendis og flutt fjölmarga fyrirlestra um fræðasvið sín, en viðfangsefnin eru einkum íslenskur orðaforði í sögulegu ljósi, nafnfræði og orðabókafræði.