Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Jörgen Jörgensen (1780–1841), betur þekktur sem Jörundur hundadagakonungur, var danskur ævintýramaður sem varð hæstráðandi á Íslandi í átta vikur sumarið 1809 eins og rakið er í svari sama höfundar við spurningunni Hver var Jörundur hundadagakonungur og hvað var hann að gera á Íslandi?
Íslandsævintýri Jörgensens endaði með því að hann var settur af. Í London var hann síðan fangelsaður fyrir að hafa farið ólöglega úr landi sem stríðsfangi. Eftir ársdvöl á fangaskipi fyrir utan London var hann látinn laus og dvaldi næsta árið í enska bænum Reading. Þar hélt hann áfram að skrifa bækur sínar, en í fangelsi hafði hann byrjað að skrifa sögu „byltingarinnar“ eins og hann upplifði hana. Þessa sögu skrifaði hann upp þrisvar sinnum og ítrekaði ávallt að hann hefði ekki haft neitt annað í huga en að frelsa Íslendinga undan kúgun Dana. Frá Reading fór hann aftur til London þar sem hann féll fyrir áfengis- og spilafíkn sinni sem olli því að hann lenti reglulega í skuldafangelsi.
Jörgen Jörgensen (1780–1841) sem ungur maður í Danmörku.
Næstu ár í lífi Jörgensens einkenndust af þessum sama vítahring, fyrir utan stutta dvöl á Spáni árið 1812 þar sem hann barðist með Bretum gegn Napóleoni en særðist. Árið 1814 var hann látinn laus á ný og ráðinn til starfa hjá bresku leyniþjónustunni. Fyrst sem þýðandi og síðan sem njósnari á meginlandi Evrópu. Fyrst fór hann til Belgíu og þaðan til Frakklands. Þar féll hann fyrir spilafíkninni á ný og tapaði hverjum einasta eyri í spilavítum Parísarborgar. Niðurbrotinn og blankur fór hann fótgangandi til Þýskalands og ferðaðist síðan þar um. Eftir þrjú ár á ferð sneri hann síðan til London og gaf út ferðabók sína.
Næstu þrjú árin í London einkenndust enn og aftur af gamla vítahringnum; áfengi, spilafíkn og skuldafangelsi. Árið 1820 var hann síðan dæmdur fyrir þjófnað og settur í fangelsi. Eftir eitt ár þar var hann látinn laus gegn því skilyrði að hverfa frá Bretlandi. Það gerði hann þó ekki og var handtekinn ári síðar. Í þetta sinn var hann dæmdur til dauða. Nú varð hann örvæntingarfullur, en með hjálp kunningja var dóminum breytt í ævilangt fangelsi. Jörgensen dvaldi næstu þrjú árin í sama fangelsinu þar sem hann stundaði skriftir og lærði einnig lækningar sem aðstoðarmaður fangelsislæknisins. Þá gerðist hann jafnframt maður trúarinnar, skrifaði bók um kristna trú og predikaði yfir samföngum sínum.
Undir lok ársins 1825 var Jörgensen fluttur á fangaflutningaskip og kvaddi Bretland að eilífu. Stefnan var tekin á bresku nýlenduna Tasmaníu, en hann hafði sjálfur hjálpað til við að gera hana að nýlendu tveimur áratugum áður. Í miðri ferð braust út faraldur á skipinu sem varð skipslækninum að bana. Jörgensen, sem hafði lært lækningar í fangelsi, hljóp í skarðið og tókst að binda enda á faraldurinn. Við komuna til Tasmaníu var hann þó eftir sem áður fangi og var skipað að vinna sem aðstoðarmaður í tollhúsinu, en í Tasmaníu var algengt að fangar væru notaðir sem vinnuafl.
Stuttu síðar var honum skipað að leiða könnunarleiðangur á óbyggðar slóðir Tasmaníu. Á því ári leiddi hann þrjá leiðangra með takmörkuðum árangri þar sem þeir áttu við ýmsa erfiðleika að stríða. En Jörgensen þótti engu að síður hafa staðið sig vel og var látinn laus með skilyrðum.
Næsta starf hans var sem lögregluþjónn, en þá voru skilorðsbundnir fangar gjarnan fengnir til að manna lögreglulið Tasmaníu. Í því starfi vaktaði hann stór svæði og leitaði fyrst og fremst að búfjárþjófum. Meðal þeirra þjófa sem hann náði var írsk stúlka að nafni Nora Corbett. Hún hafði einnig komið sem fangi og átti eins og hann við áfengisfíkn að stríða. Jörgensen varð ástfanginn af henni, en vegir þeirra skildu þar sem Noru var skipað að vinna annar staðar. Jörgensen hélt áfram störfum hjá lögreglunni en var síðan náðaður árið 1830, með því skilyrði að hann skyldi aldrei snúa til Bretlands. Að öðru leyti var hann frjáls maður og lét af störfum hjá lögreglunni. Hann tók þó þátt í enn einu verkefni stuttu síðar sem var stórátak tasmanskra stjórnvalda til að leysa vandamál við ófriðsama frumbyggja með því að hrekja þá af landi þeirra. Ári síðar varð hann fimmtugur og giftist þá írsku stúlkunni, Noru Corbett, sem áður er nefnd.
Jörgensen og kona hans Nora Corbett bjuggu um tíma í bænum Ross í Tasmaníu þar sem hann njósnaði um spillingu. Andlit þeirra hjóna eru höggvin í brú þar í bæ, hann sem konungur og þá vísað til Íslandsævintýris hans og hún sem drottning.
Síðust ár ævinnar vann Jörgensen að mestu við skriftir. Hann tók þó enn eitt verkefni að sér hjá lögreglunni þar sem hann njósnaði um spillingu í tasmönskum bæ. Síðan gaf hann út sjálfsævisöguna sína og seldist hún nokkuð vel. Hann var þá þegar þekktur fyrir ævintýri sín en reyndar einnig fyrir að slangra ölvaður um götur Hobart í Tasmaníu. Þar dó hann árið 1841, sextugur að aldri.
Jörgensen var ævintýramaður, fjölhæfur og tókst að bjarga sér hvert sem hann fór. Það var sagt um hann að hann hafi sjálfur verið sinn versti óvinur, enda réð hann ekki við áfengis- og spilafíknina og var þar af leiðandi lengst af ævinni ófrjáls maður. Hann var góður penni, skrifaði ótal blaðagreinar og skildi eftir sig fjölda bóka, allt frá ferðalýsingum að leikritum. Jörgensen hafði alist upp á tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 og heillast mjög af róttækum byltingarhugsjónum. Á Íslandi mun hann hafa séð í hendi sér einstakt tækifæri til að láta byltingarkennda drauma sína rætast. Íslandsævintýrið var hápunktur í lífi hans og minntist hann síðar gjarnan þess að hann hafi einu sinni verið æðsti ráðamaður á Íslandi.
Heimildir og myndir:
Bakewell, Sarah, The English Dane: a life of Jorgen Jorgenson. London, 2005. (Einnig til í íslenskri þýðingu: Bakewell, Sarah, Jörundur hundadagakonungur: ævisaga. Björn Jónsson þýddi. Reykjavík, 2005.)
Jörgensen, Jörgen, Historical Account of a Revolution on the Island of Iceland in the Year 1809. Væntanlegt til birtingar.
Óðinn Melsted, „About the author: Jörgen Jörgensen“. Væntanlegt til birtingar.
Óðinn Melsted. „Hvað varð um Jörund hundadagakonung eftir byltinguna á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 2. desember 2013, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66157.
Óðinn Melsted. (2013, 2. desember). Hvað varð um Jörund hundadagakonung eftir byltinguna á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66157
Óðinn Melsted. „Hvað varð um Jörund hundadagakonung eftir byltinguna á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 2. des. 2013. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66157>.