Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Finnst kóngafólk í íslenskum örnefnum?

Hallgrímur J. Ámundason

Langt er nú umliðið síðan kóngur og drottning áttu ríki sitt á Íslandi. Síðustu konungshjónin yfir landinu voru Kristján X. Danakonungur (hét fullu nafni Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm) og Alexandrine drottning. Formlegu konungssambandi þeirra við Ísland lauk 17. júní 1944 enda þótt það hefði þá um hríð legið niðri vegna heimsstyrjaldarinnar síðari. Eftir að þessu konunglega sambandi lauk voru Íslendingar þó ekki að öllu leyti án kóngafólks því sumt af því lifði áfram í örnefnum.

Nokkrir bæir á Íslandi hafa verið kenndir við konunga. Kóngsbakki er í Helgafellssveit, tvíbýlt var þar um hríð: Innri- og Ytri-Kóngsbakki. Götunafn með sama heiti er í Neðra-Breiðholti: Kóngsbakki 1-16. Í Eyrbyggjasögu er bærinn í Helgafellssveit nefndur Bakki en hann hefur fengið viðbót við nafnið með tímanum, líklega vegna þess að hann hefur verið í konungseign einhvern tíma. Flest örnefni eru þar kennd við bæinn með auknu nafni, til dæmis Kóngsbakkaeyjar og Kóngsbakkaklettar, en þó er þar til nafnið Bakkafljót á Ytri-Kóngsbakka og vísar ef til vill til eldra heitisins.

Ytri-Kóngsbakki og Innri-Kóngsbakki í Helgafellssveit.

Kóngsstaðir eru í Svarfaðardal. Þetta nafn er nokkuð gamalt, kemur fyrir í bréfi snemma á 14. öld en þá í myndinni Konungsstaðir (Dipl.Isl. II, 455). Aðrir staðir kenndir við konung eru nefndir í Patreksfirði:

Á milli Skápadals og Kots er bæjarstæði og túngarða að sjá. Hefur túnið temmilega stórt verið. Þetta bæjarstæði kalla menn almennilega Konálsstade (aðrir kalla það Konungsstade). Sumir ætla það kóngseign verið hafa fyrir löngu. Engir vita þó neinar bevísingar þar til, og ætla sumir þessi sögn muni af Konungsstaðanafni sinn uppruna fengið hafa. Þetta bæjarstæði hefur í eyði verið meir en í 100 ár, og so lengi eður lengur fylgt Skápadal. (Jarðabók Árna og Páls VI, bls. 329.)

Kóngsgerði var tómthús við Gufuskála á Suðurnesjum. Þess er getið í örnefnaskrá að þar muni konungsútgerð hafa verið á tímabili. Kóngspartur var hluti af Helgustöðum í Reyðarfirði. Hann var fyrr „fremur hjáleiga en venjulegt grasbýli og átti kóngur land frá fjöru til fjalls milli Stóralækjar og Kóngspartslækjar“ segir í örnefnaskrá.

Í grennd við Geysi í Haukadal eru Konungssteinar. Þeir bera fangamark konunganna Kristjáns IX., Friðriks VIII. og Kristjáns X. og ártölin 1874, 1907 og 1921 sem vísa til heimsóknarára konunganna. Þar er einnig Konungshver.

Kóngsey er á Húnaflóa, utan við Eyjar undir Balafjöllum (sem eitt sinn var konungseign). Kóngshreiður er á Oddleifsey á Breiðafirði (heyrir undir Hergilsey). Um er að ræða dæld eða skoru innst á eyjunni samkvæmt örnefnaskrá og ekki útilokað að nafnið sé frekar dregið af æðarkóngi en krýndum þjóðhöfðingja. Kóngsvör er í Fuglavík í Miðneshreppi. Í Jarðabók Árna og Páls er Fuglavík (þar kölluð Fúlavík) í konungseigu.

Ótalmörg önnur örnefni kennd við kóng eru á Íslandi. Ýmsir vegir hafa gengið undir nafninu Kóngsvegur og í grennd við höfuðborgina eru Stóra- og Litla-Kóngsfell í Bláfjöllum. Á sömu slóðum er fjallið Drottning. „Nafn fjallsins mun vera nýlegt“ segir í Árbók FÍ 1985 (bls. 42). „Líklega stafar það af nálægðinni við Stóra-Kóngsfell“ . Á skíðasvæðinu í Bláfjöllum eru Kóngsgil og Drottningargil kennd við fellin.

Fleiri drottningar koma fyrir í íslenskum örnefnum og er drottning íslenskra fjalla þó ekki talin þar með. Á Strandseli í Ögursveit eru tveir stórir steinar sem heita Kóngur og Drottning. Ástæðu nafngiftar er ekki getið en gæti verið sama eðlis og þegar stórum steinum eða björgum eru gefin heitin Karl og Kerling. Á Svarðbæli í Húnaþingi vestra eru þrjú melholt sem ganga undir nöfnunum Kóngur, Drottning og Kóngsson. Það fylgir sögunni að þetta séu ung nöfn.

Prinsvörður tvær voru inni á Steinadal upp af Kollafirði við Húnaflóa. Nú er þar aðeins ein eftir, „önnur fór í veg árið 1930“ segir í örnefnaskrá (Steinadalur).

Prinsessur koma lítt eða ekki fyrir í örnefnum en embættið er þó ekki alveg afrækt. Í landi Grafar í Þorkelshólshreppi í Vestur-Húnavatnssýslu er eitt örnefni sem mun lengi halda á loft nöfnum kóngsdætra: „Sunnan og vestan til í Sundunum í stefnu austur af Rauðanúp er lítið strútmyndað holt, efst á því er steinn með vörðubroti á. Var það kallað Kóngsdóttir“ (örnefnaskrá Grafar).

Ekki er hægt að líta framhjá því að kóngafólk var líka af innlendum meiði. Fjallkóngarnir íslensku eru foringjar gangnamanna, einnig kallaðir leitarforingjar eða gangnastjórar. Embættið heitir fjallkóngur en á síðari árum hafa gegnt því bæði karlmenn og kvenmenn. Örnefni tengd fjallkóngum koma sjálfsagt fyrir víða á landinu. Á Flóamannaafrétti er örnefnið Kóngsás alþekkt. Það er talsvert norður af Búrfelli, milli Þjórsár og Hvítár. Um örnefnið segir í Göngum og réttum (II, 1984:47-8): "Kóngsás er allhár ás. Ber hann nafn af því, að fjallkóngurinn fer þarna fram og hefir þaðan gott útsýni yfir nágrennið."

Mynd:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Hallgrímur J.  Ámundason

fyrrverandi verkefnisstjóri nafnfræðisviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

4.12.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Hallgrímur J. Ámundason. „Finnst kóngafólk í íslenskum örnefnum?“ Vísindavefurinn, 4. desember 2013. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=66201.

Hallgrímur J. Ámundason. (2013, 4. desember). Finnst kóngafólk í íslenskum örnefnum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=66201

Hallgrímur J. Ámundason. „Finnst kóngafólk í íslenskum örnefnum?“ Vísindavefurinn. 4. des. 2013. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=66201>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Finnst kóngafólk í íslenskum örnefnum?
Langt er nú umliðið síðan kóngur og drottning áttu ríki sitt á Íslandi. Síðustu konungshjónin yfir landinu voru Kristján X. Danakonungur (hét fullu nafni Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm) og Alexandrine drottning. Formlegu konungssambandi þeirra við Ísland lauk 17. júní 1944 enda þótt það hefði þá um hríð legið niðri vegna heimsstyrjaldarinnar síðari. Eftir að þessu konunglega sambandi lauk voru Íslendingar þó ekki að öllu leyti án kóngafólks því sumt af því lifði áfram í örnefnum.

Nokkrir bæir á Íslandi hafa verið kenndir við konunga. Kóngsbakki er í Helgafellssveit, tvíbýlt var þar um hríð: Innri- og Ytri-Kóngsbakki. Götunafn með sama heiti er í Neðra-Breiðholti: Kóngsbakki 1-16. Í Eyrbyggjasögu er bærinn í Helgafellssveit nefndur Bakki en hann hefur fengið viðbót við nafnið með tímanum, líklega vegna þess að hann hefur verið í konungseign einhvern tíma. Flest örnefni eru þar kennd við bæinn með auknu nafni, til dæmis Kóngsbakkaeyjar og Kóngsbakkaklettar, en þó er þar til nafnið Bakkafljót á Ytri-Kóngsbakka og vísar ef til vill til eldra heitisins.

Ytri-Kóngsbakki og Innri-Kóngsbakki í Helgafellssveit.

Kóngsstaðir eru í Svarfaðardal. Þetta nafn er nokkuð gamalt, kemur fyrir í bréfi snemma á 14. öld en þá í myndinni Konungsstaðir (Dipl.Isl. II, 455). Aðrir staðir kenndir við konung eru nefndir í Patreksfirði:

Á milli Skápadals og Kots er bæjarstæði og túngarða að sjá. Hefur túnið temmilega stórt verið. Þetta bæjarstæði kalla menn almennilega Konálsstade (aðrir kalla það Konungsstade). Sumir ætla það kóngseign verið hafa fyrir löngu. Engir vita þó neinar bevísingar þar til, og ætla sumir þessi sögn muni af Konungsstaðanafni sinn uppruna fengið hafa. Þetta bæjarstæði hefur í eyði verið meir en í 100 ár, og so lengi eður lengur fylgt Skápadal. (Jarðabók Árna og Páls VI, bls. 329.)

Kóngsgerði var tómthús við Gufuskála á Suðurnesjum. Þess er getið í örnefnaskrá að þar muni konungsútgerð hafa verið á tímabili. Kóngspartur var hluti af Helgustöðum í Reyðarfirði. Hann var fyrr „fremur hjáleiga en venjulegt grasbýli og átti kóngur land frá fjöru til fjalls milli Stóralækjar og Kóngspartslækjar“ segir í örnefnaskrá.

Í grennd við Geysi í Haukadal eru Konungssteinar. Þeir bera fangamark konunganna Kristjáns IX., Friðriks VIII. og Kristjáns X. og ártölin 1874, 1907 og 1921 sem vísa til heimsóknarára konunganna. Þar er einnig Konungshver.

Kóngsey er á Húnaflóa, utan við Eyjar undir Balafjöllum (sem eitt sinn var konungseign). Kóngshreiður er á Oddleifsey á Breiðafirði (heyrir undir Hergilsey). Um er að ræða dæld eða skoru innst á eyjunni samkvæmt örnefnaskrá og ekki útilokað að nafnið sé frekar dregið af æðarkóngi en krýndum þjóðhöfðingja. Kóngsvör er í Fuglavík í Miðneshreppi. Í Jarðabók Árna og Páls er Fuglavík (þar kölluð Fúlavík) í konungseigu.

Ótalmörg önnur örnefni kennd við kóng eru á Íslandi. Ýmsir vegir hafa gengið undir nafninu Kóngsvegur og í grennd við höfuðborgina eru Stóra- og Litla-Kóngsfell í Bláfjöllum. Á sömu slóðum er fjallið Drottning. „Nafn fjallsins mun vera nýlegt“ segir í Árbók FÍ 1985 (bls. 42). „Líklega stafar það af nálægðinni við Stóra-Kóngsfell“ . Á skíðasvæðinu í Bláfjöllum eru Kóngsgil og Drottningargil kennd við fellin.

Fleiri drottningar koma fyrir í íslenskum örnefnum og er drottning íslenskra fjalla þó ekki talin þar með. Á Strandseli í Ögursveit eru tveir stórir steinar sem heita Kóngur og Drottning. Ástæðu nafngiftar er ekki getið en gæti verið sama eðlis og þegar stórum steinum eða björgum eru gefin heitin Karl og Kerling. Á Svarðbæli í Húnaþingi vestra eru þrjú melholt sem ganga undir nöfnunum Kóngur, Drottning og Kóngsson. Það fylgir sögunni að þetta séu ung nöfn.

Prinsvörður tvær voru inni á Steinadal upp af Kollafirði við Húnaflóa. Nú er þar aðeins ein eftir, „önnur fór í veg árið 1930“ segir í örnefnaskrá (Steinadalur).

Prinsessur koma lítt eða ekki fyrir í örnefnum en embættið er þó ekki alveg afrækt. Í landi Grafar í Þorkelshólshreppi í Vestur-Húnavatnssýslu er eitt örnefni sem mun lengi halda á loft nöfnum kóngsdætra: „Sunnan og vestan til í Sundunum í stefnu austur af Rauðanúp er lítið strútmyndað holt, efst á því er steinn með vörðubroti á. Var það kallað Kóngsdóttir“ (örnefnaskrá Grafar).

Ekki er hægt að líta framhjá því að kóngafólk var líka af innlendum meiði. Fjallkóngarnir íslensku eru foringjar gangnamanna, einnig kallaðir leitarforingjar eða gangnastjórar. Embættið heitir fjallkóngur en á síðari árum hafa gegnt því bæði karlmenn og kvenmenn. Örnefni tengd fjallkóngum koma sjálfsagt fyrir víða á landinu. Á Flóamannaafrétti er örnefnið Kóngsás alþekkt. Það er talsvert norður af Búrfelli, milli Þjórsár og Hvítár. Um örnefnið segir í Göngum og réttum (II, 1984:47-8): "Kóngsás er allhár ás. Ber hann nafn af því, að fjallkóngurinn fer þarna fram og hefir þaðan gott útsýni yfir nágrennið."

Mynd:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi....