Herakleitos (um 540 – um 480 f. Kr.) var grískur heimspekingur frá borginni Efesos í Jóníu í Litlu-Asíu (nú í Tyrklandi). Lítið er vitað með vissu um ævi Herakleitosar og flestar sögur um hann eru hæpnar. Samkvæmt einni á hann til dæmis að hafa látist í mykjuhaug (McKirahan: 128).
Herakleitos ritaði eina bók sem hann geymdi í Artemisarhofinu í Efesos. Bókin er nú glötuð en úr henni eru aftur á móti varðveitt rúmlega hundrað brot. Mörg brotanna eru torræð en Herakleitos var þegar í fornöld þekktur fyrir að vera myrkur í máli. Ein saga hermir að harmleikjaskáldið Evripídes hafi gefið heimspekingnum Sókratesi bók Herakleitosar og svo spurt hann álits á bókinni. Sókrates á að hafa sagt að sá hluti bókarinnar sem hann skildi væri hreint ágætur. Hann héldi að hinn hluti bókarinnar, sem hann skildi ekki, væri það líka en það þyrfti deleyskan kafara til að komast til botns í henni.
Herakleitos var sagður vera hrokagikkur sem hafði lítið álit á öðrum hugsuðum. Til dæmis sagði hann að Hesíódos og Pýþagóras, Xenofanes og Hekatajos hefðu ekki öðlast skilning, þrátt fyrir mikinn lærdóm (brot 40). Sömuleiðis taldi hann réttast að skáldin Hómer og Arkílokkos yrðu hýdd (brot 42).
Herakleitos er ef til vill þekktastur fyrir að hafa haldið því fram að allt væri stöðugt að breytast. Hann lýsti þessari hugmynd með því að segja að maður stigi aldrei tvisvar í sömu ána, því að þegar maður stígur fætinum í ána rennur sífellt um hann nýtt vatn (brot 12). Samt hélt Herakleitos að í allri breytingunni og sundrunginni væri stöðugleiki (brot 10, 84a). Allt gerist í samræmi við lögmálið (gr. logos) og samkvæmt lögmálinu er allt eitt (brot 50). Þess vegna bæði stígum við og stígum ekki í sömu ána, við bæði erum og erum ekki (brot 49a).
Þetta lögmál er meðal annars fólgið í átökum eða togstreitu milli andstæðna. Herakleitos lýsir þessu með dæmi um boga og lýru (brot 51) þar sem jafnvægið er beinlínis fólgið í spennunni milli viðarins og strengsins. Eins er stöðugleikinn í sundrung heimsins fólginn í togstreitunni milli andstæðna og í sjálfum síbreytileikanum. Herakleitos segir að með því að breytast haldist hluturinn stöðugur (brot 84a).
Fyrirrennarar Herakleitosar frá Míletos, heimspekingarnir Þales frá Míletos, Anaximandros og Anaximenes, héldu að uppspretta alls væri tiltekið frumefni á borð við vatn eða loft. Herakleitos valdi eldinn sem táknmynd lögmálsins (brot 90, 66) en taldi þó ekki að brennandi logi væri bókstafleg uppspretta í sama skilningi; það er lögmálið eða logos sem er uppspretta og undirstaða alls. Þetta lögmál þurfum við að skilja til að öðlast visku. Vandinn er að náttúran er í feluleik (brot 123) og augu og eyru eru slæm vitni ef menn hafa „barbarasálir“ (brot 107).1 Samt virðist Herakleitos vera almennt bjartsýnn um vitnisburð skynfæranna (br. 55).
Vilji menn kynna sér þau mál nánar er þeim bent á svör við spurningunumSkynjum við hið rétta eðli heimsins með skilningarvitunum? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur og Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur? eftir Atla Harðarson.

Þekktasta hugmynd Herakleitosar er að allt sé stöðugt að breytast. Því sé ómögulegt að stíga tvisvar í sömu ána.
1 Þetta er ef til vill orðaleikur. Upphaflega vísaði orðið „barbari“ almennt til útlendinga, það er þeirra sem töluðu ekki grísku heldur böbluðu einungis bar-bar-bar (samanber bla-bla-bla). Þannig gæti sá sem hefur barbarasál verið einhver sem skilur ekki grísk orð en á grísku merkir logos einmitt orð. Logos er sama orðið og Herakleitos notar um lögmálið sitt. Ef til vill á Herakleitos því við að þeir sem hafa barbarasálir séu þeir sem skilja ekki lögmálið, logos.
Heimildir og frekari fróðleikur
- Barnes, J., The Presocratic Philosophers (London: Routledge, 1979/1982).
- Brown, T. M. (ritstj. og þýð.), Heraclitus: Fragments. A Text and a Translation with a Commentary. University of Toronto Press, 1987.
- Eyjólfur Kjalar Emilsson og Patricia Kenig Curd, „Frumherjar grískrar heimspeki“, hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991.
- Guthrie, W. K. C., A History of Greek Philosophy volume I: The earlier Presocratics and Pythagoreans (Cambridge: Cambridge University Press, 1962).
- Graham, D. W., „Heraclitus“ í Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007).
- Kirk, G. S., Raven, J. E. og Schofield, M., The Presocratic Philosophers, 2. útgáfa. Cambridge: Cambridge University Press, 1983.
- McKirahan, R. D., Philosophy Before Socrates (Indianapolis: Hackett, 1994).
- Wilbur, J. B. og Allen, H. J., The Worlds of the Early Greek Philosophers (Buffalo: Prometheus Books, 1979).
- Image: Hendrik ter Brugghen - Heraclitus.jpg. Wikimedia Commons. Málverk eftir Hendrick ter Brugghen.
- Laura's foot. Flickr.com. Höfundur myndar er David Salafia. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.