Sólin Sólin Rís 07:52 • sest 18:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:56 • Sest 17:43 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:59 • Síðdegis: 20:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:51 • Síðdegis: 14:13 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:52 • sest 18:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:56 • Sest 17:43 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:59 • Síðdegis: 20:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:51 • Síðdegis: 14:13 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir sömdu allar málfræðireglur í íslensku og hvers vegna eru þær enn í gildi?

Guðrún Kvaran

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Elstu skrif sem finna má um íslenskt mál eru fjórar ritgerðir sem varðveittar eru í svonefndri Ormsbók Snorra-Eddu, handriti frá því um miðja 14. öld. Í elstu ritgerðinni, sem oft er kölluð „Fyrsta málfræðiritgerðin“ og samin var á 12. öld, er reynt að fella latneska stafrófið að íslensku hljóðkerfi. Í annarri ritgerðinni er einnig fjallað um hljóðkerfið en í þeirri þriðju og fjórðum um mælskulist og stílfræði.

Fyrstu íslensku málfræðina skrifaði hins vegar Runólfur Jónsson og kallaði Recentissima antiquissimæ linguæ septentrionalis incunabula id est grammaticæ islandicæ rudimenta. Á þessum tíma voru fræðirit yfirleitt skrifuð á latínu. Bókin var gefin út í Kaupmannahöfn 1651. Runólfur reynir að lýsa beygingarkerfi málsins fyrstur manna og hafði lýsingar á latínu að fyrirmynd. Honum tókst ekki alls kostar vel upp en allnokkuð gagn má þó hafa af bókinni.

Næstur Runólfi til að skrifa málfræði var Jón Magnússon. Hann komst lengra en Runólfur í að lýsa beygingarkerfi málsins en var þó eins og hann allfastur í latneskri málfræðihefð. Þessi málfræði var skrifuð á árunum 1737–1738 en var ekki gefin út fyrr en 1930 og hafði því lítil áhrif.

Það var fyrst með athugunum danska málfræðingsins Rasmusar Kristjáns Rasks að Íslendingar eignuðust góða lýsingu á tungu sinni. Rask var vel lesinn fræðimaður, samanburðarmálfræðingu með brennandi áhuga á tungumálum. Málfræði hans, Vejledning til det Islandske eller gamle nordiske Sprog, var gefin út í Kaupmannahöfn 1811 en stytt útgáfa, Kortfattet Vejledning til det oldnordiske eller gamle islandske Sprog kom út 1832 og var notuð sem kennslubók í íslensku fram eftir 19. öld. Bókin þótti þó á ýmsan hátt óhentug til kennslu, knöpp og erfið unglingum.

Halldór Kr. Friðriksson, kennari við Lærða skólann í Reykjavík, bætti um betur og skrifaði Íslenzka málmyndalýsingu 1861. Má segja að með þeirri bók hafi verið lagður grunnurinn undir síðari kennslubækur í íslensku. Halldóri tókst nokkuð vel að setja fram helst reglur málsins bæði í hljóðfræði og beygingarfræði. Margir komu að gerð málfræðibóka á eftir Halldóri en Rask og honum hafði tekist að lýsa málinu allvel. Kennslubókahöfundar sem á eftir fylgdu höfðu það að markmiði að reyna að setja reglurnar þannig fram að þær væru nemendum sem auðskildastar.

Málfræðireglur eru í raun ekkert annað en lýsing á málkerfinu hverju sinni, hvernig orðin eru mynduð, hvernig þau eru borin fram, hvernig þau beygjast og hvernig þau raðast saman í setningar. Ef breytingar verða einhvers staðar í málkerfinu þarf að lýsa því á annan hátt. Ef borin er saman málfræði forníslensku og málfræði nútímamálsins sést að margt er eins en margt er einnig mjög ólíkt.

Um rannsóknarsögu íslenskrar orðmuyndunar- og beygingarfræði má lesa í bókinni Íslensk tunga II, bls. 27–82, sem gefin var út 2005.

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

28.7.2007

Spyrjandi

Kári Walter, f. 1992

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hverjir sömdu allar málfræðireglur í íslensku og hvers vegna eru þær enn í gildi?“ Vísindavefurinn, 28. júlí 2007, sótt 6. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6731.

Guðrún Kvaran. (2007, 28. júlí). Hverjir sömdu allar málfræðireglur í íslensku og hvers vegna eru þær enn í gildi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6731

Guðrún Kvaran. „Hverjir sömdu allar málfræðireglur í íslensku og hvers vegna eru þær enn í gildi?“ Vísindavefurinn. 28. júl. 2007. Vefsíða. 6. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6731>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir sömdu allar málfræðireglur í íslensku og hvers vegna eru þær enn í gildi?
Elstu skrif sem finna má um íslenskt mál eru fjórar ritgerðir sem varðveittar eru í svonefndri Ormsbók Snorra-Eddu, handriti frá því um miðja 14. öld. Í elstu ritgerðinni, sem oft er kölluð „Fyrsta málfræðiritgerðin“ og samin var á 12. öld, er reynt að fella latneska stafrófið að íslensku hljóðkerfi. Í annarri ritgerðinni er einnig fjallað um hljóðkerfið en í þeirri þriðju og fjórðum um mælskulist og stílfræði.

Fyrstu íslensku málfræðina skrifaði hins vegar Runólfur Jónsson og kallaði Recentissima antiquissimæ linguæ septentrionalis incunabula id est grammaticæ islandicæ rudimenta. Á þessum tíma voru fræðirit yfirleitt skrifuð á latínu. Bókin var gefin út í Kaupmannahöfn 1651. Runólfur reynir að lýsa beygingarkerfi málsins fyrstur manna og hafði lýsingar á latínu að fyrirmynd. Honum tókst ekki alls kostar vel upp en allnokkuð gagn má þó hafa af bókinni.

Næstur Runólfi til að skrifa málfræði var Jón Magnússon. Hann komst lengra en Runólfur í að lýsa beygingarkerfi málsins en var þó eins og hann allfastur í latneskri málfræðihefð. Þessi málfræði var skrifuð á árunum 1737–1738 en var ekki gefin út fyrr en 1930 og hafði því lítil áhrif.

Það var fyrst með athugunum danska málfræðingsins Rasmusar Kristjáns Rasks að Íslendingar eignuðust góða lýsingu á tungu sinni. Rask var vel lesinn fræðimaður, samanburðarmálfræðingu með brennandi áhuga á tungumálum. Málfræði hans, Vejledning til det Islandske eller gamle nordiske Sprog, var gefin út í Kaupmannahöfn 1811 en stytt útgáfa, Kortfattet Vejledning til det oldnordiske eller gamle islandske Sprog kom út 1832 og var notuð sem kennslubók í íslensku fram eftir 19. öld. Bókin þótti þó á ýmsan hátt óhentug til kennslu, knöpp og erfið unglingum.

Halldór Kr. Friðriksson, kennari við Lærða skólann í Reykjavík, bætti um betur og skrifaði Íslenzka málmyndalýsingu 1861. Má segja að með þeirri bók hafi verið lagður grunnurinn undir síðari kennslubækur í íslensku. Halldóri tókst nokkuð vel að setja fram helst reglur málsins bæði í hljóðfræði og beygingarfræði. Margir komu að gerð málfræðibóka á eftir Halldóri en Rask og honum hafði tekist að lýsa málinu allvel. Kennslubókahöfundar sem á eftir fylgdu höfðu það að markmiði að reyna að setja reglurnar þannig fram að þær væru nemendum sem auðskildastar.

Málfræðireglur eru í raun ekkert annað en lýsing á málkerfinu hverju sinni, hvernig orðin eru mynduð, hvernig þau eru borin fram, hvernig þau beygjast og hvernig þau raðast saman í setningar. Ef breytingar verða einhvers staðar í málkerfinu þarf að lýsa því á annan hátt. Ef borin er saman málfræði forníslensku og málfræði nútímamálsins sést að margt er eins en margt er einnig mjög ólíkt.

Um rannsóknarsögu íslenskrar orðmuyndunar- og beygingarfræði má lesa í bókinni Íslensk tunga II, bls. 27–82, sem gefin var út 2005....