
Árið 1930 keypti Kaupfélag Hrútfirðinga Riis-verslunina og lauk þar með kaupmannsverslun á Borðeyri. Árið eftir brann nýlegt verslunarhús Kaupfélagsins og fluttu menn sig þá yfir í gömlu hús Riis-verslunarinnar. Kaupfélagið var lengi starfandi á Borðeyri og lengi vel hafði Kaupfélagið á Hvammstanga þar útibú en nú er þar ekkert kaupfélag lengur heldur verslun sem kallast Lækjargarður.
Þann 7. maí árið 1934 spruttu upp miklar kjaradeilur í kjölfar kjarasamninga nýstofnaðs Verkalýðs- og smábændafélags Hrútfirðinga. Deilurnar snerust um forgangsrétt félagsmanna til vinnu en þann 7. maí sáu utanfélagsmenn á vegum Kaupfélagsins um uppskipun úr Lagarfossi Eimskipafélags Íslands. Verkalýðssamband Norðurlands lagði í kjölfarið bann á afgreiðslu Lagarfoss á Akureyri, Húsavík, Eskifirði og Siglufirði. Nokkrum dögum síðar lagði Verkalýðssambandið afgreiðslubann á öll skip Eimskipafélagsins eftir átök við uppskipun á Akureyri. Á Siglufirði urðu svo mestu átökin þann 13. maí, við uppskipun úr Dettifossi, jafnan nefnt Dettifossslagurinn, en eftir það var samið um kaup og kjör sem kjarasamningur Verkalýðsfélagsins kvað á um ásamt því að forgangsréttur félagsmanna var ákveðinn sem 7/10 hlutar. Þessar deilur voru einu nafni nefndar Borðeyrardeilan og er hún ein sú hatrammasta í íslenskri verkalýðssögu.
Frá Borðeyri eru ættaðir að minnsta kosti þrír þjóðþekktir einstaklingar. Sigurður Eggerz fæddist þar árið 1875 en hann var ráðherra Íslands 1914-15 og forsætisráðherra í Borgarastjórn II á árunum 1922-24. Einnig er fæddur á Borðeyri við Hrútafjörð listmálarinn Þorvaldur Skúlason (1906), frumkvöðull í íslenskri afstraktmálun, en hann var sonur Skúla Jónssonar, faktors í Riis-versluninni og Elínar Theodórsdóttur. Karl Kvaran (1924-1989) listmálari er þriðji þjóðþekkti einstaklingurinn sem fæddist á Borðeyri. Hann var einn meðlima í svokölluðum Septem-hópi myndlistarmana.

- Borðeyri á Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu.
- Þorvaldur Skúlason á Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu.
- Sigurður Eggerz á Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu
- Saga Riishúss á Borðeyri, grein eftir Georg Jón Jónsson.
- Svæðislýsing Stranda - Borðeyri á Vestfirðir.is, © Strandagaldur.
- Einar Laxness. 1995. Íslandssaga a-h. Borðeyrardeilan, bls. 75-76. Vaka Helgafell, Reykjavík.
- Íslenska alfræðiorðabókin. 1990. Borðeyri, bls. 188. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík.
- Loftmynd af Borðeyri: Mats: Myndagallerí © Mats Wibe Lund. Sótt 9.8.2007.
- Riis-hús: Saga Riishúss á Borðeyri. Sótt 9.8.2007.
- Mynd af Þorvaldi Skúlasyni er fengin af umm.is - Upplýsingavefur um myndlist og myndhöfunda á Íslandi. Sótt 9.8.2007.
- Mynd af Sigurði Eggerz er fengin af vef Alþingis. Sótt 9.8.2007.