Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Amalie Emmy Nöther fæddist árið 1882 í gyðingafjölskyldu í Erlangen í Bæjaralandi í Þýskalandi. Faðir Emmy var stærðfræðingurinn Max Nöther en móðir hennar hét Ida Kaufmann. Hún hafði upphaflega ætlað að verða tungumálakennari, en tók síðan að nema stærðfræði sem áheyrnarnemandi hjá föður sínum við Háskólann í Erlangen. Hún fór í Háskólann í Göttingen árið 1903, aftur sem áheyrnarnemandi, en fluttist til baka til Erlangen árið 1904, þegar loksins var leyft að konur innrituðust í háskólann þar, og lauk doktorsprófi í stærðfræði árið 1907 undir handleiðslu Paul Gordan. Ritgerðin nefndist Über die Bildung des Formensystems der ternären biquadratischen Form. Emmy kenndi fyrir föður sinn í sjö ár við Háskólann í Erlangen án launa og titils en á þeim tíma voru konur að mestu útilokaðar frá kennarastöðum við háskóla. Árið 1915 buðu Felix Klein og David Hilbert Emmy að koma aftur til Göttingen sem þá var óumdeild þungamiðja rannsókna í stærðfræði í heiminum. Emmy hafði þá þegar ritað hálfa tylft merkra fræðigreina. Þá fór hún að vinna með Klein og Hilbert við almennu afstæðiskenningu Einsteins. Árið 1918 sannaði hún tvær kenningar sem voru bæði grunnur að almennu afstæðiskenningunni og öreindafræði. Önnur þeirra er ennþá kunn undir heitinu Nöther-kenningin.
Emmy Nöther (1882-1935).
Heimspekideild Háskólans í Göttingen lagðist gegn því að kona yrði ráðin til starfa svo að Hilbert lét Emmy kenna námskeið í sínu nafni. Emmy lauk síðara doktorsprófi sínu, svonefndu habilitation, árið 1919. Það veitti henni rétt til ráðningar sem Privatdozent. Það er lægsta staða háskólakennara þar sem kennarinn þarf sjálfur að innheimta laun sín frá nemendum. Hún var þá orðin kunn fyrir mikilvægar niðurstöður á sviði diffurreiknings (e. differential invariants). Árið 1922 fékk Emmy aðra dósentsstöðu sem einnig átti að vera ólaunuð. Verðbólga var þá orðin mikil í Þýskalandi svo að stúdentar gátu ekki greitt nægilega fyrir kennsluna. Emmy fór þá að fá lágar greiðslur sem ætlaðar voru þeim sem fluttu fyrirlestra um sérsvið sín. Það voru einu launin sem Emmy fékk á meðan hún bjó í Þýskalandi. Henni var ekki einungis fundið til foráttu að vera kona heldur líka að hún væri gyðingur, sósíaldemókrati og friðarsinni.
Frá 1920 lögðu verk Emmy Nöther grundvöll að fræðilegri algebru, þar sem hún vann að grúpufræði, kenningum um bauga og talnafræði. Stærðfræðikenningar hennar komu að notum í eðlisfræði og kristallafræði en voru þó umdeildar. Deilt var um hvort stærðfræði ætti að vera hugtakabundin og hlutfirrt eða fremur byggð á raunheiminum og vera hagnýt. Hugtakabundin nálgun Emmy Nöther leiddi af sér safn kenninga sem sameinuðu algebru, rúmfræði, línulega algebru, grannfræði og rökfræði.
Frá og með 1927 einbeitti Emmy sér að óvíxlinni algebru (þar sem röð staka í aðgerð skiptir máli). Meðal merkra greina sem hún ritaði á þessu tímabili eru Hyperkomplexe Grössen und Darstellungstheorie (1929) og Nichtkommutative Algebra (1933).
Emmy Nöther reyndist ekki auðvelt að fá launaða kennarastöðu við háskóla í Þýskalandi og lagðist þar á eitt að hún var kona, gyðingur, sósíaldemókrati og friðarsinni.
Emmy var gistiprófessor við Háskólann í Moskvu 1928-29 og árið 1930 kenndi hún í Frankfurt. Henni var boðið að flytja framsöguerindi á Alþjóðaþingi stærðfræðinga í Zürich árið 1932 og sama ár voru henni veitt hin mikilsmetnu Ackermann-Teubner-minningarverðlaun í stærðfræði. Þrátt fyrir þetta var henni meinað að kenna í apríl 1933 eftir að nasistar komust til valda. Hún þáði þá stöðu gistiprófessors við Bryn Mawr College í Bandaríkjunum en hann var kvennaháskóli. Hún kynntist þar öðrum kvenstærðfræðingum og undi sér mjög vel. Hún flutti einnig fyrirlestra við Institute for Advanced Study í Princeton. Hún var skorin upp við æxli í legi í apríl 1935 og lést af völdum sýkingar eftir uppskurðinn en öflug sýklalyf voru þá ekki komin fram.
Jafnframt kennslu og rannsóknum aðstoðaði Emmy við útgáfu Mathematische Annalen. Mörg verka hennar komu fram í greinum sem samstarfsmenn hennar og nemendur rituðu, fremur en undir hennar eigin nafni. Mikil nýsköpun átti sér stað í kringum Emmy. Henni var ekki sýnt um að setja hugmyndir sínar fram fyrir nemendur en þeir sem lærðu að fylgjast með hugsun hennar urðu tryggir fylgendur hennar. Kennsluaðferðir hennar leiddu nemendur til að setja fram eigin hugmyndir. Margir þeirra urðu merkir stærðfræðingar og þökkuðu henni fyrir að hafa kennt þeim að kenna sér sjálfir.
Emmy þótti ekki kvenleg eins og ætlast var til af stúlkum í efri miðstétt. Sagt var að hún liti út eins og kraftmikil og mjög nærsýn þvottakona. Kvenleiki hennar þótti þó koma fram í einlægri nærgætni og einstakri alúð sem hún sýndi fólki, starfi sínu og mannkyninu í heild.
Heimildir og myndir:
Boyer Carl og Merzbach, Uta C. (1989). A History of Mathematics. New York: Wiley.
Emmy Noether. Í Encyclopaedia Britannica. Encyclopaedia Britannica Online Academic Edition. (2014). Encyclopædia Britannica Inc. (Skoðað 31. júlí 2014).
Maisel, Merry og Smart, Laura (1997).Emmy Noether: Creative Mathematical Genius. Í Women in Science. A Selection of 16 Significant Contributors. San Diego Supercomputer Center. (Skoðað 31. júlí 2014).
O'Connor, John J., og Robertson, Edmund F. (1997). Emmy Amalie Noether. University of St. Andrews. School of mathematics and statistics. (Skoðað 31. júlí 2014).
Reid, Constance (1986). Hilbert – Courant. New York: Springer.
Kristín Bjarnadóttir. „Hver var Emmy Nöther og hvert var framlag hennar til stærðfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 26. ágúst 2014, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67873.
Kristín Bjarnadóttir. (2014, 26. ágúst). Hver var Emmy Nöther og hvert var framlag hennar til stærðfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67873
Kristín Bjarnadóttir. „Hver var Emmy Nöther og hvert var framlag hennar til stærðfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 26. ágú. 2014. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67873>.