Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Bjór, eða bifur eins og hann er stundum kallaður, er nagdýr (rodentia) af bjóraætt (Castoridae). Til bjóra (Castor spp.) teljast tvær tegundir, evrasíski bjórinn (C. fiber) og kanadíski bjórinn eða norður-ameríski bjórinn (C. canadiensis).
Þeir sem lesið hafa gamlar amerískar landnemabækur kannast kannski við lýsingar á einkennilegum timburvirkjum úti í stöðuvötnum sem voru ekki mannvirki heldur reist af þessum atorkusömu nagdýrum sem. Gátu þessi timburvirki staðið eins og kastalar upp úr vatninu og verið margir metrar í þvermál og legið að minnsta kosti metra undir yfirborðið. Margar þjóðir frumbyggja Norður-Ameríku álitu bifurinn vera guðdómlega veru vegna þessara byggingahæfileika og að hann hafi hjálpað andanum mikla við að byggja jörðina.
Norður-amerískur bjór (Castor canadiensis)
Bjórinn er annað stærsta núlifandi nagdýrið, aðeins brasilíska flóðsvínið (Hydrochoerus hydrochaeris) er stærra. Það er ekki óalgengt að fullorðnir bjórar geti orðið yfir 25 kg að þyngd.
Bjórategundirnar tvær, sú kanadíska og sú evrasíska, eru líkar í útliti, reyndar svo að áður fyrr töldu dýrafræðingar að um sömu tegund væri að ræða. Við nánari skoðun hefur þó komið í ljós að bygging höfuðkúpnanna er ólík og litningafjöldinn er ekki sá sami, evrasíski bjórinn er með 48 litninga en kanadabjórinn með 40 litninga. Það er því útilokað að þessar tegundir geti átt saman frjó afkvæmi en það hefur verið notað til merkis um hvort mismunandi stofnar tilheyra sömu tegund.
Öll líkamsgerð og útlit bjóra ber merki góðrar aðlögun að vatnalífi. Feldurinn er vatnsheldur, sérlega þéttur og mjúkur. Eyru og nasir eru lítil og getur bjórinn lokað þeim þegar hann kafar. Þá hefur hann sundfit á milli táa sem auðveldar honum að synda um.
Hali bjórsins er um margt afar merkilegur útlimur og áberandi útlitseinkenni. Hann er nær hárlaus með hreisturflögum, spaðalaga og nýtist vel sem stýri þegar dýrið spyrnir sér áfram í kafi með hjálp sundfitanna. En halinn er til fleiri hluta nytsamlegur, til dæmis safnar hann fitu á haustin sem nýtist bjórnum sem orka yfir kaldann veturinn. Í sumarhitunum getur halinn virkað sem hitastillir þar sem yfirborð hans er tiltölulega stórt. Á köldum vetrardögum sést bjórinn oft sitja á halanum til að draga úr hitatapi.
Við endaþarm bjórsins eru tvær gerðir af kirtlum. Önnur gerðin gefur frá sér fitu, líkt og stélrótarkirtill á fuglum, og dýrið notar hana til að smyrja feldinn og gera hann vatnsheldan. Hin gerðin eru kirtilpokar sem gefa frá sér afar lyktsterkt efni sem dýrið notar til að merkja sér yfirráðasvæði. Í eina tíð skáru veiðimenn kirtilpokana úr dauðum dýrunum, létu þorna og blönduðu svo innihaldinu í vínanda eða smyrsl. Svona útþynnt verður þetta lyktsterka efni, sem kallast bjór-olía (castoreum), afar ilmgott og hefur verið notað sem ilmefni, sem bragðefni í mat og sem lækningalyf, til dæmis gegn kyndeyfð.
Bjórar erum mjög vel aðlagaðir lífi í vatni.
Bjórar eru jurtaætur. Helsta fæða þeirra er trjábörkur, laufblöð og greinar af trjátegundum eins og víði og ösp. Á sumrin þegar lífríkið er í blóma éta þeir mikið af grænum jurtum og plöntuhlutum, meðal annars vatnajurtir svo sem tjarnablöðkur, vatnaliljur af ýmsum tegundum og mjaðurt.
Bjórinn er dæmigert vatnaspendýr, þunglamalegur á landi en algjörlega á heimavelli í vatni. Enda er hann sífellt á sundi og syndir þá oft langar leiðir aðeins með höfuðið uppi, en hann þarf aðeins að vera með trýnið uppi við yfirborðið til að geta andað og séð í kringum sig.
Bjórinn velur sér yfirleitt bústaði þar sem vatn er ekki grynnra en 1,5 metrar. Það má ekki þorna upp á sumrin né botnfrjósa á veturna og vatnshæð þarf að vera sem jöfnust yfir árið. Kjörlendi hans eru þar sem víðir eða aspir vaxa við bakkana en ekki í gömlum skógum með eikum.
Bjórar eru afar vel rannsökuð dýr sökum þess hversu einstæðir þeir eru meðal spendýra hvað varðar byggingagerð og skógarhögg sitt. Þegar bjórinn hefur fellt tré þá byrjar hann á því að naga börkinn utan af því og mjúkar greinar og laufblöð. Svo fer hann að afkvista trjábolinn og að síðustu nagar hann bolinn niður í heppilega búta, frá 50 til 100 cm og hrúgar þeim við bústað sinn. Venjulega skilur hann eftir sverustu hlutana. Hann tekur einnig trjágreinar sem hann fer með í bælið sitt. Uppáhaldstrétegundir bjórsins eru mýkri trjátegundir eins og víðir, aspir og elri en síður harðari tegundir eins og birki, hlynur og álmur.
Helstu óvinir bjórsins fyrir utan manninn eru úlfar (Canis lupus). Þeir eru þó afar fátíðir í vesturhluta Evrópu en sennilega nokkuð skæðir í Norður-Ameríku og Síberíu þar sem tegundirnar skarast. Fullorðnir bjórar eru afar kröftugar skepnur þannig að smærri rándýr en úlfar eiga litla möguleika á að veiða þá. Ungar eru í meiri hættu á að verða ránfuglum og ránfiskum svo sem geddum að bráð. Gömul rannsókn á dánarorsökum bjóra í Vestur Evrópu, nánar tiltekið við Saxelfi í Þýskalandi, sýndi að af þrjátíu og þremur dauðum bjórum drápust ellefu (33%) af völdum skotvopna þrátt fyrir friðun. Þrír (9%) voru drepnir með öðrum aðferðum, þar af tveir með bareflum og einn af hundi. Fjórir lentu í fiskinetum, tveir drápust vegna mengunar og fimm vegna sjúkdóma svo sem berkla en berklar geta verið skæðir hjá bjórum. Aðeins einn (3%) dó úr elli en dánarorsök sjö dýra var óljós.
Stofnstærð bjórsins hefur sveiflast mikið. Fyrr á öldum voru bjórar algengir í nánast öllum ám og vötnum í Evrópu á tempraða svæðinu og rannsóknir hafa sýnt að þeir lifðu allt suður til Grikklands og í Tyrklandi á steinöld (um 4000 f.Kr). Gegndarlausar bjórveiðar síðastliðin 500 ár, fyrst og fremst til að ná í skinnið á þeim, ollu því að tegundirnar tvær urðu nær aldauða. Strax á 17. öld var farið að stórsjá á evrasíubjórnum. Fyrst hvarf hann í Englandi, svo í vestanverðri Evrópu í Hollandi, Belgíu og Frakklandi og síðar í Þýskalandi og víðs vegar um Mið-Evrópu. Á sama tíma stunduðu rússneskri veiðimenn magnveiðar á honum í Síberíu. Við lok 19. aldar voru aðeins smáir og dreifðir stofnar, í Noregi, í Saxelfi í Þýskalandi, Rón í Frakklandi og á nokkrum stöðum í Síberíu, líklega aðeins um 1.200 dýr í það heila. Ráðist var í ýmsar aðgerðir til þessa að reisa stofninn við aftur og hefur það skilað góðum árangri. Árið 2006 var talið að heildarstofnstærð evrasíska bjórsins væri alla vega 639.000 dýr.
Bjórar eru þekktir fyrir stíflur sínar. Hér má sjá stutt myndskeið af bjór við stíflugerð.
Í löndum þar sem bjór var áður útrýmt en stofninn endurreistur hefur honum vegnað vel. Til að mynda á Bretlandseyjum en veiðar á bjórum eru meira en þúsund ára gömul iðja þar. Talið er að bjórar hafi horfið úr náttúru Englands og Wales í kringum árið 1526, en á sama tíma voru þeir enn nokkuð algengir í Skotlandi. Frá síðustu aldamótum hefur bjórum verið sleppt í votlendi á nokkrum stöðum á Bretlandi og virðist þeim vegna vel og fjölga sér. Bjórum hefur einnig verið sleppt í Danmörku og Svíþjóð og víðar.
Hér áður fyrr, þegar talið var að bjórar í Evrópu og Ameríku væru sömu tegundar, var kanadabjórum sleppt í náttúru Finnlands. Þeirri tegund vegnar vel í finnskri náttúru.
Talið er að áður en Evrópumenn komu til nýja heimsins hafi verið 100–200 milljón dýra bjórastofn í Norður-Ameríku. Gegndarlausar veiðar þar sem tugir þúsunda dýra voru drepnar árlega á 200 ára tímabili leiddu til gríðarlegrar fækkunar. Veiðarnar voru umfangsmestar rétt upp úr 1800 þegar bjóraskinn urðu vinsæl í Evrópu, sérstaklega í höfuðföt. Varð þá sannkallað „gullæði“ (eða „feldæði“) í Norður-Ameríku og ásóknin í bjóra varð mjög mikil. Til að mynda seldi Hudsonflóafélagið árið 1854 hálfa milljón skinna á breska markaðnum. Undir lok 19. aldar var bjórinn friðaður í Norður-Ameríku og hefur náð sér nokkuð vel á strik þó stofnstærðin sé ekki viðlíka og hún var áður en veiðar Evrópumanna hófust. Stofninn telur nú einhverjar milljónir dýra og vegnar honum til að mynda vel á austurströnd Bandaríkjanna þar sem honum hafði áður verið útrýmt.
Heimildir og frekari fróðleikur:
Batbold, J., Batsaikhan, N., Shar, S., Amori, G., Hutterer, R., Kryštufek, B., Yigit, N., Mitsain, G. & Palomo, L.J. 2008. Castor fiber. The IUCN Red List of Threatened Species. Version 2014.3.
Linzey, A.V. & NatureServe (Hammerson, G. & Cannings, S.) 2013. Castor canadensis. The IUCN Red List of Threatened Species. Version 2014.3
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um dýrið bjór?“ Vísindavefurinn, 26. mars 2015, sótt 14. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68531.
Jón Már Halldórsson. (2015, 26. mars). Hvað getið þið sagt mér um dýrið bjór? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68531
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um dýrið bjór?“ Vísindavefurinn. 26. mar. 2015. Vefsíða. 14. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68531>.