Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver er uppruni og merking orðanna uppstúfur og jafningur? Þessi orð eru notuð yfir hvíta sósu gerða úr mjólk og hveiti og þykir ómissandi með hangikjöti og bjúgum.
Orðin uppstúfur, uppstúf og uppstú eru notuð um hvíta sósu eins og nefnt er í fyrirspurninni. Þau eru að öllum líkindum löguð að danska orðinu opstuvning. Í sögulegu dönsku orðabókinni Ordbog over det danske sprog kemur fram að átt sé við jafning sem gerður er úr hveiti, smjöri og mjólk. Að baki liggur sögnin að stuve op sem notuð er um að hita upp mat við lágan hita í vökva, til dæmis jafningi. Myndin uppstúfur er aðlögun að íslensku beygingarkerfi.
Uppstúfur, uppstúf eða uppstú þykir ómissandi með hangikjöti.
Í dæmum er oft erfitt að greina hvort um er að ræða myndina uppstúfur eða uppstúf til dæmis í eftirfarandi dæmi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans sem er þar hið eina um uppstúf. Það er úr blaðinu Hlín frá 1932:
Njólinn hefur á seinni árum dálitið verið notaður til matar hjer á landi í uppstúf sem spínat.
Hér er uppstúf þolfall annaðhvort af uppstúfur eða uppstúf.
Elsta dæmi í ritmálssafninu um uppstú er úr bókinni Fuglinn í fjörunni eftir Halldór Laxness. Það er svona:
[betra fólkið] hafði á hverjum degi ýmist kjötsúpu eða kjöt með kartöflum og uppstúi.
Eitt dæmi frá 1891 var um lýsinarorðið uppstúfaður:
múskat …er haft í uppstúfaðar kartöflur, og danskt nafn yfir það.
Orðið jafningur er einnig aðlagað dönsku orði, jævning. Eiginleg merking er „eitthvað sem jafnað er saman“.
Elsta heimild í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Riti þess Islendska Lærdóms-Lista Felags en þau komu út á árunum 1781–1798.
Almúga-fólk lætr sér nægia at giøra jafnínginn af miólk, og sigtudu bygg-miøli.
Aðeins yngri heimild er í ritinu Einfaldt Matreidslu Vasa-Qver fyrir heldri manna Húss-freyjur sem Marta María Stephensen, eiginkona Magnúsar Stephensen stiftamtmanns skrifaði og gefið var út árið 1800.
Þetta er nú bleytt út, og hrært sundur í jafníng.
Í elstu íslensku matreiðslubókunum er jafningur notaður til að þykkja sósur og súpur. Síðar virðist hann notaður í sömu merkingu og uppstú(f(ur)) eins og sjá má í einni af endurminningabókur Sigurðar A. Magnússonar, Möskvar morgundagsins:
nú lagði hún síðustu hönd á jólamatinn með því að [...] búa til jafning sem við kölluðum reyndar aldrei annað en uppstú.
Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni og merking orðanna uppstúfur og jafningur?“ Vísindavefurinn, 13. maí 2015, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68765.
Guðrún Kvaran. (2015, 13. maí). Hver er uppruni og merking orðanna uppstúfur og jafningur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68765
Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni og merking orðanna uppstúfur og jafningur?“ Vísindavefurinn. 13. maí. 2015. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68765>.