Sólin Sólin Rís 08:54 • sest 18:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:18 • Sest 09:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:41 • Síðdegis: 19:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:33 • Síðdegis: 12:58 í Reykjavík

Hvernig var jólamaturinn í gamla daga?

Árni Björnsson

Frá því er ekki sagt berum orðum í fornritum hver hafi frá alda öðli verið helsti jólamatur á Íslandi, en allt bendir til að það hafi verið kjötmeti af einhverju tagi, og upphaflega nýtt kjöt. Einna gleggst sést þetta af ákvæði í þjóðveldislögunum að slátrun fjár til matar var eitt af hinu fáa sem leyft var að vinna um jól. Á fyrstu þrem til fjórum öldum byggðar eða frá því um 900 til 1300 gat verið um margskonar sláturfé að ræða. Auk sauðfjár var þá enn talsvert af svínum, geitum og aligæsum, og nautgripir voru hlutfallslega tvöfalt fleiri en síðar varð.

Ekkert bendir til þess að hrossakjöt hafi nokkru sinni verið veislumatur, enda þurfti öðru fremur að nýta hestana sem samgöngutæki meðan þeir entust. Ugglaust hefur þó eitthvað verið borðað af unghrossum. Kjöt af gömlum hrossum hefur trúlega verið fátækramatur og því fannst alþingismönnum lítil hagsýni í því við kristintökuna að banna mönnum að eta hrossakjöt, enda fengu þeir því ákvæði frestað.

Hangikjöt hefur lengi verið hefðbundinn jólamatur á Íslandi.

Þegar kuldaskeið hafði varað sleitulítið í nokkrar aldir tók gróðri að hnigna svo mjög, einkum til fjalla, að útigangur varð oft erfiður fyrir önnur húsdýr en hina harðgeru sauðkind og hestinn. Svín, geitur og alifuglar hurfu að mestu. Þá hafði bann kirkjunnar við neyslu hrossakjöts öðlast gildi og óhugsandi var að hafa það sem hátíðarmat þótt sennilega hafi það enn verið borðað í neyð. Ekki voru fleiri nautgripir settir á vetur en þeir sem áttu að lifa áfram. Nýfæddir kálfar voru ekki látnir eyða hinu dýrmæta heyi. Kálfskjöt á jólum kom helst til greina ef einhver kýrin bar skömmu fyrir hátíðar.

Kindakjöt var því næstum hið eina sem til greina kom þegar frá leið. Til þess að geta borðað nýtt kjöt á jólunum tóku sæmilega efnuð heimili stundum eina kind frá að hausti og geymdu hana til jólanna. Hún var því kölluð jólaærin. Eggert Ólafsson staðfestir þetta um miðja 18. öld. Þeir sem áttu þess kost hylltust við að geyma jólaána í grösugri eyju eða hólma þar sem ekki var flæðihætta til að spara heyið við hana, auk þess sem hún gat haldist í betri holdum en ella. Þessi jólaslátrun þekktist sumstaðar langt fram á 20. öld eða þar til nýtt eða frosið kjöt varð öllum aðgengilegt í verslunum og ísskápur sjálfsagður á flestum heimilum.

Ekki höfðu allir efni á að slátra kind fyrir jólin. Næsti kostur var hangiketið og annar reyktur matur sem hafði verið geymdur frá haustinu. Þáttur hans mun hafa farið vaxandi með hverri öldinni sem leið. Sú venja varð smám saman algeng að hafa kjötsúpu á aðfangadagskvöld, annað hvort af nýslátruðu eða saltkjöti, og kalt hangiket á jóladag. Á 20. öld breyttist þetta á þá lund að fólk tók að hafa ýmislegt annað en kjötsúpu á sjálfu jólakvöldinu, en hangiketið hélt sínum sessi á jóladaginn, enda minna fyrir því að hafa og oft búið að sjóða það tveimur dögum áður.

Þeir sem vildu fá nýtt kjöt á jólunum, en höfðu hvorki kind né kálf til að slátra og áttu jafnvel ekki hangiket, reyndu sumir að veiða rjúpur í jólamatinn, ef þeir bjuggu á rjúpnaslóðum. Rjúpan er því upphaflega jólamatur fátækra. Til þess vísar trúlega þessi kredda: ‚Ætíð er sultur og seyra í því búi sem mikið er veitt af rjúpum.‘ Eftir að farið er að auglýsa jólamat í blöðum er hún líka kynnt þannig í fyrstu. Þannig auglýsir Sláturfélag Suðurlands árið 1915: ´Rjúpur, ódýr og góður jólamatur.‘ Tíu árum síðar auglýsti Matarbúðin á Laugarvegi 42 að þeir sem óski að fá ´spekkaðar rjúpur‘ fyrir jólin þurfi að senda pantanir í tæka tíð. Að spekka var að bæta fleski í rjúpnakjötið sem þá hefur þótt heldur þurrt. Hér er rjúpan sennilega á leið til að verða sá fíni jólamatur sem síðar kom á daginn.

Það afbrigði var til í sveitum sem lágu mjög langt frá sjó og fiskimiðum, að borða gott fiskmeti á jólunum ef það fékkst. Það þótti sumum meiri nýbreytni til dæmis á Hólsfjöllum þar sem löngum var gnægð til af hangiketi. Einnig kynnu þetta að vera leifar frá þeim katólska tíma þegar ekki þótti rétt að borða kjöt fyrr en eftir miðaftan á aðfangadag eða jafnvel ekki fyrr en á jóladag eins og enn gætir víða á katólsku svæði.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Sögu jólanna og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Útgáfudagur

20.12.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Árni Björnsson. „Hvernig var jólamaturinn í gamla daga?“ Vísindavefurinn, 20. desember 2013. Sótt 24. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=66506.

Árni Björnsson. (2013, 20. desember). Hvernig var jólamaturinn í gamla daga? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=66506

Árni Björnsson. „Hvernig var jólamaturinn í gamla daga?“ Vísindavefurinn. 20. des. 2013. Vefsíða. 24. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=66506>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig var jólamaturinn í gamla daga?
Frá því er ekki sagt berum orðum í fornritum hver hafi frá alda öðli verið helsti jólamatur á Íslandi, en allt bendir til að það hafi verið kjötmeti af einhverju tagi, og upphaflega nýtt kjöt. Einna gleggst sést þetta af ákvæði í þjóðveldislögunum að slátrun fjár til matar var eitt af hinu fáa sem leyft var að vinna um jól. Á fyrstu þrem til fjórum öldum byggðar eða frá því um 900 til 1300 gat verið um margskonar sláturfé að ræða. Auk sauðfjár var þá enn talsvert af svínum, geitum og aligæsum, og nautgripir voru hlutfallslega tvöfalt fleiri en síðar varð.

Ekkert bendir til þess að hrossakjöt hafi nokkru sinni verið veislumatur, enda þurfti öðru fremur að nýta hestana sem samgöngutæki meðan þeir entust. Ugglaust hefur þó eitthvað verið borðað af unghrossum. Kjöt af gömlum hrossum hefur trúlega verið fátækramatur og því fannst alþingismönnum lítil hagsýni í því við kristintökuna að banna mönnum að eta hrossakjöt, enda fengu þeir því ákvæði frestað.

Hangikjöt hefur lengi verið hefðbundinn jólamatur á Íslandi.

Þegar kuldaskeið hafði varað sleitulítið í nokkrar aldir tók gróðri að hnigna svo mjög, einkum til fjalla, að útigangur varð oft erfiður fyrir önnur húsdýr en hina harðgeru sauðkind og hestinn. Svín, geitur og alifuglar hurfu að mestu. Þá hafði bann kirkjunnar við neyslu hrossakjöts öðlast gildi og óhugsandi var að hafa það sem hátíðarmat þótt sennilega hafi það enn verið borðað í neyð. Ekki voru fleiri nautgripir settir á vetur en þeir sem áttu að lifa áfram. Nýfæddir kálfar voru ekki látnir eyða hinu dýrmæta heyi. Kálfskjöt á jólum kom helst til greina ef einhver kýrin bar skömmu fyrir hátíðar.

Kindakjöt var því næstum hið eina sem til greina kom þegar frá leið. Til þess að geta borðað nýtt kjöt á jólunum tóku sæmilega efnuð heimili stundum eina kind frá að hausti og geymdu hana til jólanna. Hún var því kölluð jólaærin. Eggert Ólafsson staðfestir þetta um miðja 18. öld. Þeir sem áttu þess kost hylltust við að geyma jólaána í grösugri eyju eða hólma þar sem ekki var flæðihætta til að spara heyið við hana, auk þess sem hún gat haldist í betri holdum en ella. Þessi jólaslátrun þekktist sumstaðar langt fram á 20. öld eða þar til nýtt eða frosið kjöt varð öllum aðgengilegt í verslunum og ísskápur sjálfsagður á flestum heimilum.

Ekki höfðu allir efni á að slátra kind fyrir jólin. Næsti kostur var hangiketið og annar reyktur matur sem hafði verið geymdur frá haustinu. Þáttur hans mun hafa farið vaxandi með hverri öldinni sem leið. Sú venja varð smám saman algeng að hafa kjötsúpu á aðfangadagskvöld, annað hvort af nýslátruðu eða saltkjöti, og kalt hangiket á jóladag. Á 20. öld breyttist þetta á þá lund að fólk tók að hafa ýmislegt annað en kjötsúpu á sjálfu jólakvöldinu, en hangiketið hélt sínum sessi á jóladaginn, enda minna fyrir því að hafa og oft búið að sjóða það tveimur dögum áður.

Þeir sem vildu fá nýtt kjöt á jólunum, en höfðu hvorki kind né kálf til að slátra og áttu jafnvel ekki hangiket, reyndu sumir að veiða rjúpur í jólamatinn, ef þeir bjuggu á rjúpnaslóðum. Rjúpan er því upphaflega jólamatur fátækra. Til þess vísar trúlega þessi kredda: ‚Ætíð er sultur og seyra í því búi sem mikið er veitt af rjúpum.‘ Eftir að farið er að auglýsa jólamat í blöðum er hún líka kynnt þannig í fyrstu. Þannig auglýsir Sláturfélag Suðurlands árið 1915: ´Rjúpur, ódýr og góður jólamatur.‘ Tíu árum síðar auglýsti Matarbúðin á Laugarvegi 42 að þeir sem óski að fá ´spekkaðar rjúpur‘ fyrir jólin þurfi að senda pantanir í tæka tíð. Að spekka var að bæta fleski í rjúpnakjötið sem þá hefur þótt heldur þurrt. Hér er rjúpan sennilega á leið til að verða sá fíni jólamatur sem síðar kom á daginn.

Það afbrigði var til í sveitum sem lágu mjög langt frá sjó og fiskimiðum, að borða gott fiskmeti á jólunum ef það fékkst. Það þótti sumum meiri nýbreytni til dæmis á Hólsfjöllum þar sem löngum var gnægð til af hangiketi. Einnig kynnu þetta að vera leifar frá þeim katólska tíma þegar ekki þótti rétt að borða kjöt fyrr en eftir miðaftan á aðfangadag eða jafnvel ekki fyrr en á jóladag eins og enn gætir víða á katólsku svæði.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Sögu jólanna og birt með góðfúslegu leyfi höfundar....