Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
"Úllen dúllen doff" er ein vinsælasta úrtalningarromsan sem íslensk börn nota og hefur verið það lengi. Flest börn hafa hana svona:
Úllen dúllen doff
kikke lane koff
koffe lane bikke bane
úllen dúllen doff.
Ljóst er að þessi romsa kemur snemma til Íslands. Í handriti eftir fræðimanninn Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi (1838-1914) sem talið er skrifað í kringum 1860 er minnst á svipaða romsu í sambandi við Kóngsleik. Þar segir:
...hann bendir á hvurt eptir annað og mælir þessi málleisu [sic] orð: "úlin, dúlin, doff, fíngel, fængel, foff, foffúr alinn, merki, penni, e, be, bu, bú, kol, vaff, enn; dje, sloff, enn". Sá sem seinast lendir "enn" á verður kóngur...
Þessi gerð af romsunni er vafalaust komin frá Danmörku. Í danskri bók, Anna Erslevs Legebog frá 1904, er hún á þessa leið:
Ullen dullen dof
fingen fangen fof
fof for alle Mærkepanden
E B ba buf.
Í öðrum norrænum leikjabókum má sjá gerðir af romsunni sem eru enn líkari þeirri sem við notum nú. Þannig stendur í norsku bókinni Gøy i barneselskap frá 1964:
Ole dole doff
kinkliane koff
koffliane birkebane
Ole dole doff.
Og í sænsku bókinni Svenska folklekar och dansar (Tillhagen og Dencker) er romsan næstum nákvæmlega eins og hjá okkur:
Ole dole doff
kinke lane koff
koffe lane birke bane
ole dole doff,
Höfundar þeirrar bókar segja að romsan sé einnig þekkt í Þýskalandi og að líkindum séu orðin afbakanir á latnesku töluorðunum unum, duo og quinque sem merkja "eitt", "tvö" og "fimm". "Unum" ætti þannig að hafa orðið að "úllen", "duo" að "dúllen" og "quinque" að "kikke". Þetta getur verið rétt, en þó er það undarlegt að þá vantar orðin "þrír" og "fjórir", það er að segja "tres" og "quattuor". Í stað þeirra er komið "doff" sem líkist þeim ekki hið minnsta.
Þorvaldur Friðriksson hefur haft samband við mig og komið með áhugaverða kenningu: að romsan sé keltnesk að uppruna. Samkvæmt gelísku MacBain´s orðabókinni á Netinu merkir orðið "dòid" "hönd" eða "handtak", og "dòrn" merkir "hnefi" bæði á írsku og skosku. Þetta er nokkuð athyglisvert því hjá flestum íslenskum börnum gilda sérstakar reglur um "Úllen dúllen doff". Ekki er talið úr með því að benda, heldur kreppa allir hnefana og rétta fram hendurnar. Sá sem telur úr slær með krepptum hnefa sínum á alla hnefana um leið og hann fer með textann, og sá hnefi sem hann slær á síðast er lagður fyrir aftan bak. Svo er haldið áfram þangað til aðeins einn hnefi er eftir.
"Úllen dúllen doff" hefur sérstöðu hvað þetta varðar, í öðrum romsum er látið nægja að benda. Fleiri orð má finna í gelísku sem líkjast orðunum í "Úllen dúllen doff", en ekkert skal samt fullyrt um það hvort þessi kenning er rétt eða ekki. Lengra hef ég ekki getað rakið sögu þessarar romsu.
Skoðið einnig svar sama höfundar við spurningunni Hvaðan er textinn "Atti katti nóa" kominn? Er þetta bara bull, erlendur texti eða einhver afbökun?
Una Margrét Jónsdóttir. „Er eitthvað vitað um uppruna romsunnar "úllen dúllen doff..."?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2007, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6943.
Una Margrét Jónsdóttir. (2007, 5. desember). Er eitthvað vitað um uppruna romsunnar "úllen dúllen doff..."? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6943
Una Margrét Jónsdóttir. „Er eitthvað vitað um uppruna romsunnar "úllen dúllen doff..."?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2007. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6943>.