Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessi heimspekingur hét Herakleitos eða Heraklítos og var frá borginni Efesos á vesturströnd Litlu-Asíu, skammt norðan við Míletos sem var mikil miðstöð mannlífs og fræða á þessum tíma. Efesos kemur talsvert við sögu í Nýja testamentinu og er núna fjölsóttur ferðamannastaður því að fornar leifar hennar hafa varðveist vel. Hún var á sínum tíma hafnarborg en höfnin lagðist af vegna árframburðar og rústir borgarinnar eru núna drjúgan spöl inni í landi.
Herakleitos mun hafa verið uppi um það bil 540-480 fyrir Krist. Hann var sagður bæði hrokagikkur, furðufugl og mannafæla. Hann var einnig (viljandi) myrkur í máli í bók þeirri er hann skrifaði, svo að túlkun hennar hefur vafist fyrir mönnum æ síðan. Einna frægastur er hann fyrir sögnina um ána sem svo er sagt frá í heimildum:
Á þá sem stíga út í sömu ána streyma í sífellu ný og ólík vötn... Þau dreifast og ... safnast, ... koma saman og streyma burt, ... nálgast og sundrast.
Þessi sögn er annars öllu aðgengilegri í endursögn Platons sem hljóðar svo:
Herakleitos segir einhvers staðar að allir hlutir séu á iði og ekkert sé kyrrt. Hann líkir hlutum sem eru til við straum í fljóti og segir að ekki sé hægt að stíga tvisvar út í sömu ána.
Herakleitos hélt því fram að himintunglin væru eldskálar, myrkvar yrðu þegar botn skálanna sneri að okkur, og kvartilaskipti tunglsins stöfuðu af því að skál þess snerist hægt og hægt. Að öðru leyti fjallaði hann ekki um fræði náttúrunnar.
Hann er fyrst og fremst dæmi um það hvernig nýir fletir voru að koma upp í viðfangsefnum hugsunarinnar á þessum tíma. Lesandinn ætti ekki að auka sér gremju af því að hann sé litlu nær um sjálfar hugmyndir þessa sérvitrings, því að þannig hefur mörgum farið. Þrátt fyrir það eru þessar glefsur Herakleitosar minnisstæðar og áleitnar til umhugsunar.
Viðameira svar Geirs Þórarinssonar um Herakleitos er að finna undir spurningunni Hvaða áhrif hafði Herakleitos, hvað gerði hann?
Þetta svar fer nærri texta sama höfundar í bókinni Heimsmynd á hverfanda hveli I, Reykjavík: Mál og menning, 1986. Þar má lesa sitthvað fleira um spekinga og fræðimenn á þessum tíma, einkum að því er varðar vísindaleg efni eins og stjörnufræði og heimsmynd.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvaða heimspekingur sagði að við getum ekki stigið tvisvar í sama lækinn?“ Vísindavefurinn, 13. desember 2007, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6960.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2007, 13. desember). Hvaða heimspekingur sagði að við getum ekki stigið tvisvar í sama lækinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6960
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvaða heimspekingur sagði að við getum ekki stigið tvisvar í sama lækinn?“ Vísindavefurinn. 13. des. 2007. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6960>.