Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Örnefnið Glanni er að minnsta kosti á tveimur stöðum á Vesturlandi, annars vegar foss í Norðurá í Mýrasýslu, suður undan Hreðavatni. Hann hét áður Glennrar (máldagi 1306) eða Glennunarfoss (1397) (Íslenskt fornbréfasafn IV:122; Glunnrarfoss í nafnaskrá). Í sóknarlýsingu eftir sr. Jón Magnússon frá 1840 er talað um „sjónhending í Glannarafoss í Norðurá hvar hann hvítfaxar“ (Sýslu- og sóknalýsingar Mýra- og Borgarfjarðarsýslna, (útgáfa væntanleg), bls. 39).
Glanni er einnig nafn á streng eða fossi í Langá á Mýrum. Í sóknarlýsingu sr. Þorkels Eyjólfssonar frá 1873 er talað um „svaðafossinn Glanna“ (sama rit, bls. 107). Með svaðafossi er líklega átt við farveg þar sem hávaðar eru, samanber sóknarlýsingu Keldnasóknar á Rangárvöllum frá um 1840 (Rangárvallasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar 1968, bls. 150).
Fossinn Glanni í Norðurá. Líklegt er að merking fossnafnsins Glanni sé ‘hinn skínandi’.
Merking orðsins glanni er meðal annars ‘blika, gljá’ og orðsins glenna ‘birta, skin’ > ‘ljósop (í lofti eða skógi)’ > ‘rifa, auður blettur’. Orðin eru skyld orðunum gláma og glóa. Skyld orð eru glan (hvk.) sem merkir ‘gljái’ og glana (so) ‘birta til’. Sögnin hefur síðar orðið að so. glaðna (til) vegna merkingarskyldleika. Glan(u)r var maki sólar og hestsheiti, samkvæmt Snorra-Eddu og er afbrigði þess Glen(u)r ‘hinn skínandi’ (samkvæmt orðabók um skáldamálið forna (Lexicon poeticum (1931), bls.188)).
Orðið glanni merkti í fornu máli eins og í nútímamáli “fremfusende og overmodig person” (Lexicon poeticum (1931), bls.187). Það var einnig nafn á manni, samkvæmt handriti af Snorra-Eddu (Johan Fritzner, Ordbog over Det gamle norske sprog IV:128 (1972)). Á 18. öld er það þekkt úr Orðabók Björns Halldórssonar í merkingunni ‘importunus scurra’ á latínu, ‘en paatrængende Nar’ á dönsku. Líklegra er að merking fossnafnsins Glanni sé frekar ‘hinn skínandi’ en ‘uppáþrengjandi’ þó svo að merkingin ‘fremfusende’ geti út af fyrir sig hugsast um foss af þessu tagi.
En því má einnig velta fyrir sér hvort skyldleiki við sögnina glenna (sundur) ‘kljúfa í tvennt’ komi til greina.
Mynd:
Svavar Sigmundsson. „Hvað merkir nafnið á fossinum Glanna?“ Vísindavefurinn, 18. maí 2015, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70155.
Svavar Sigmundsson. (2015, 18. maí). Hvað merkir nafnið á fossinum Glanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70155
Svavar Sigmundsson. „Hvað merkir nafnið á fossinum Glanna?“ Vísindavefurinn. 18. maí. 2015. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70155>.