Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getur verið að Íslendingar hafi ruglast á orðunum sæng og dýna?

Guðrún Kvaran

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Nú segja Íslendingar sæng og dýna meðan Danir segja seng og dyne (seng þýðir þá rúm) og dyne þýðir sæng. Það hefur mikið verið rætt á okkar heimili sem er íslenskt og danskt, hvort sé upprunalega rétt. Það er hvort rugluðumst við Íslendingar eða Danir á merkingu eða notkun þessara orða.

Orðið sæng kemur víða fyrir í fornum ritum og þá í merkingunni 'rúm, hvíla'. Hér eru fáein dæmi fengin úr orðabók Johans Fritzners (III:640):

hann kemr at einni lokrekkju, þar brann ljós á kertastiku; Þ. sér, at kona liggr í sænginni.
var Skjaldvöru fylgt til þeirrar skemmu ok sængr, sem Sigurðr bóndi hennar svaf í.
sængin var svá há, sú er þau skyldu sofa í, at jarlinn féll niðr öðrum megin sængrinnar.

Freska frá því um 1306 eftir ítalska málarann Memmo di Filippuccio.

Ef litið er í Ritmálssafn Orðabókar Háskólans er elsta dæmi um sæng frá 1549 (en í því safni eru ekki fornmálsdæmi):

Item skáli með grenivið, fjórar sængur hvoru megin með rúmstokkum, bríkum og skörum.

Þarna er greinilega átt við rúm. Sama er að segja um þetta dæmi úr Nýja testamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar sem gefin var út 1540, fyrst íslenskra bóka á prenti:

lietu suo sængina nidr siga sem hin<n> siuke la i.

Dæmið er úr Markúsarguðspjalli, öðrum kafla, fjórða versi. Í Biblíuútgáfunni frá 1981 stendur:

Og létu síga ofan rekkjuna sem hinn lami lá í.

Þarna er sæng greinilega í merkingunni 'rúm' en þýðendur hafa vilja færa málið nær nútímanum með því að velja rekkju.

Orðin undirsæng og yfirsæng finnast í Ritmálssafni elst frá fyrri hluta 18. aldar. Í dæmi frá 1714 stendur til dæmis um yfirsæng:

með undirdýnum, yfirsæng, sparlökum með víðara.

Þarna er yfirsæng notað í sömu merkingu og sæng í dag og undirdýna sömuleiðis um það sem kallað er dýna í nútímamáli. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókarinnar um undirsæng er frá 1746:

Einni vaðmáls undir-sæng með heyi í.

Undirsængurnar voru yfirleitt grófari en yfirsængur. Dæmi um undirdýnu eru mun eldri en um undirsæng. Þetta er úr Guðbrandsbiblíu frá 1584 (Jesaja 14. kafli, 11. vers):

Mølurenn mun vera þin vnderdyna og Madkarner þijn Abreida.

Í nýjustu biblíuþýðingunni er textinn svona:

Ormar eru breiddir undir þig / og maðkar eru ábreiða þín.

Áhugaverð er lýsing Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili í ritinu Íslenzkir þjóðhættir sem samið var um aldamótin 1900 (1961:9–10):

Þá er að geta rúmanna. Þau voru heldur léleg hjá almenningi. Undirsængur höfðu ekki nema sumir, en margir lágu á heydýnum, og var oftast einhver vernefna utanum heyið – venjulega úr grófu íslenzku vaðmáli. Stundum voru og dýnur gerðar úr dýjamosa, stundum úr þangi. … Hjá heldri mönnum og bændum voru fiðursængur undir, oftast úr rjúpnafiðri eða sjófugla, og voru þá verin oftast úr boldangi. Koddar voru eins og sængurnar. Yfir var þá oft yfirsæng og lök af líni. Þau voru þó sjaldan höfð daglega. Æðardúnn oftast í yfirsængunum eða kofnadúnn og undirdúnn af sjófuglum.

Heydýna búin til. Myndin er frá árinu 1942.

Orðið dýna kemur fyrir í fornu máli og er skýrt svo hjá Fritzner ( I:276): 'overstrø, fylde med Dun'.

Ýmis föst orðasambönd sýna að sæng merkti 'rúm', til dæmis ganga í eina sæng með e-m 'ganga í hjónaband', leggjast á sæng 'taka léttasótt', liggja á sæng 'liggja í rúminu eftir barnsburð', færa á sængina 'færa sængurkonu gjöf í tilefni fæðingar'.

Ekki er í daglegu máli talað um undirsæng og er dýna hið almenna mál um það sem legið er á, hugsanlega stytting úr undirdýna. Sæng í nútímamáli er að sama skapi líklega stytting úr yfirsæng.

Heimildir:
  • Fritzner, Johan. 1886. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Første Bind. A–Hj. Kristiania.
  • Fritzner, Johan. 1896. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Tredie Bind. R–Ö. Kristiania.
  • Jónas Jónasson frá Hrafnagili. 1961. Íslenzkir þjóðhættir. Einar Ól. Sveinsson bjó undir prentun. Þriðja útgáfa. Reykjavík.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.

Myndir:

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

24.11.2015

Spyrjandi

Inger Ericson

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Getur verið að Íslendingar hafi ruglast á orðunum sæng og dýna?“ Vísindavefurinn, 24. nóvember 2015, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70178.

Guðrún Kvaran. (2015, 24. nóvember). Getur verið að Íslendingar hafi ruglast á orðunum sæng og dýna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70178

Guðrún Kvaran. „Getur verið að Íslendingar hafi ruglast á orðunum sæng og dýna?“ Vísindavefurinn. 24. nóv. 2015. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70178>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getur verið að Íslendingar hafi ruglast á orðunum sæng og dýna?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Nú segja Íslendingar sæng og dýna meðan Danir segja seng og dyne (seng þýðir þá rúm) og dyne þýðir sæng. Það hefur mikið verið rætt á okkar heimili sem er íslenskt og danskt, hvort sé upprunalega rétt. Það er hvort rugluðumst við Íslendingar eða Danir á merkingu eða notkun þessara orða.

Orðið sæng kemur víða fyrir í fornum ritum og þá í merkingunni 'rúm, hvíla'. Hér eru fáein dæmi fengin úr orðabók Johans Fritzners (III:640):

hann kemr at einni lokrekkju, þar brann ljós á kertastiku; Þ. sér, at kona liggr í sænginni.
var Skjaldvöru fylgt til þeirrar skemmu ok sængr, sem Sigurðr bóndi hennar svaf í.
sængin var svá há, sú er þau skyldu sofa í, at jarlinn féll niðr öðrum megin sængrinnar.

Freska frá því um 1306 eftir ítalska málarann Memmo di Filippuccio.

Ef litið er í Ritmálssafn Orðabókar Háskólans er elsta dæmi um sæng frá 1549 (en í því safni eru ekki fornmálsdæmi):

Item skáli með grenivið, fjórar sængur hvoru megin með rúmstokkum, bríkum og skörum.

Þarna er greinilega átt við rúm. Sama er að segja um þetta dæmi úr Nýja testamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar sem gefin var út 1540, fyrst íslenskra bóka á prenti:

lietu suo sængina nidr siga sem hin<n> siuke la i.

Dæmið er úr Markúsarguðspjalli, öðrum kafla, fjórða versi. Í Biblíuútgáfunni frá 1981 stendur:

Og létu síga ofan rekkjuna sem hinn lami lá í.

Þarna er sæng greinilega í merkingunni 'rúm' en þýðendur hafa vilja færa málið nær nútímanum með því að velja rekkju.

Orðin undirsæng og yfirsæng finnast í Ritmálssafni elst frá fyrri hluta 18. aldar. Í dæmi frá 1714 stendur til dæmis um yfirsæng:

með undirdýnum, yfirsæng, sparlökum með víðara.

Þarna er yfirsæng notað í sömu merkingu og sæng í dag og undirdýna sömuleiðis um það sem kallað er dýna í nútímamáli. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókarinnar um undirsæng er frá 1746:

Einni vaðmáls undir-sæng með heyi í.

Undirsængurnar voru yfirleitt grófari en yfirsængur. Dæmi um undirdýnu eru mun eldri en um undirsæng. Þetta er úr Guðbrandsbiblíu frá 1584 (Jesaja 14. kafli, 11. vers):

Mølurenn mun vera þin vnderdyna og Madkarner þijn Abreida.

Í nýjustu biblíuþýðingunni er textinn svona:

Ormar eru breiddir undir þig / og maðkar eru ábreiða þín.

Áhugaverð er lýsing Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili í ritinu Íslenzkir þjóðhættir sem samið var um aldamótin 1900 (1961:9–10):

Þá er að geta rúmanna. Þau voru heldur léleg hjá almenningi. Undirsængur höfðu ekki nema sumir, en margir lágu á heydýnum, og var oftast einhver vernefna utanum heyið – venjulega úr grófu íslenzku vaðmáli. Stundum voru og dýnur gerðar úr dýjamosa, stundum úr þangi. … Hjá heldri mönnum og bændum voru fiðursængur undir, oftast úr rjúpnafiðri eða sjófugla, og voru þá verin oftast úr boldangi. Koddar voru eins og sængurnar. Yfir var þá oft yfirsæng og lök af líni. Þau voru þó sjaldan höfð daglega. Æðardúnn oftast í yfirsængunum eða kofnadúnn og undirdúnn af sjófuglum.

Heydýna búin til. Myndin er frá árinu 1942.

Orðið dýna kemur fyrir í fornu máli og er skýrt svo hjá Fritzner ( I:276): 'overstrø, fylde med Dun'.

Ýmis föst orðasambönd sýna að sæng merkti 'rúm', til dæmis ganga í eina sæng með e-m 'ganga í hjónaband', leggjast á sæng 'taka léttasótt', liggja á sæng 'liggja í rúminu eftir barnsburð', færa á sængina 'færa sængurkonu gjöf í tilefni fæðingar'.

Ekki er í daglegu máli talað um undirsæng og er dýna hið almenna mál um það sem legið er á, hugsanlega stytting úr undirdýna. Sæng í nútímamáli er að sama skapi líklega stytting úr yfirsæng.

Heimildir:
  • Fritzner, Johan. 1886. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Første Bind. A–Hj. Kristiania.
  • Fritzner, Johan. 1896. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Tredie Bind. R–Ö. Kristiania.
  • Jónas Jónasson frá Hrafnagili. 1961. Íslenzkir þjóðhættir. Einar Ól. Sveinsson bjó undir prentun. Þriðja útgáfa. Reykjavík.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.

Myndir:

...