Væri réttara nafn á Hleiðólfsfjalli/Hlíðólfsfjalli ekki Leiðólfsfjall? Leiðólfur kappi var landnámsmaður og frændi Gunnólfs kroppa sem gaf Gunnólfsfelli sitt nafn. Er ekki líklegt að fjallið hafi upphaflega verið nefnt eftir Leiðólfi?Minnst er á Leiðólf kappa í Landnámabók. Við hann eru kenndir Leiðólfsstaðir á Síðu og Leiðólfsfell á Síðu. Ekki er getið um tengsl hans við Hleiðólfs-/Hlíðólfsfjall, hvorki í Landnámu, Íslendingasögum né Sturlungu. Það er því alls óvíst að bein tengsl séu milli fjallsins á Langanesi og Leiðólfs á Síðu, þótt menn kynnu að hafa ímyndað sér að svo væri, með réttu eða röngu. Þótt þessi tengsl væru fyrir hendi, milli Leiðólfs og Hleið-/Hlíðólfsfjalls, væri ekki óhugsandi að nöfn fjallanna tveggja, Leiðólfsfells á Síðu og Hleiðólfs-/Hlíðólfsfjalls á Langanesi, hefðu þróast hvort í sína áttina. Þannig hefðu á endanum geta orðið til tvö mismunandi örnefni þótt þau hefðu upphaflega verið kennd við það sama/þann sama.
![](/../myndir/hlidolfsfjall_langanesbyggd_010615.jpg)
Það er alls óvíst að bein tengsl séu milli Hleiðólfs-/Hlíðólfsjalls á Langanesi og Leiðólfs á Síðu, þótt menn kynnu að hafa ímyndað sér að svo væri, með réttu eða röngu. Umrætt fjall sést vinstra megin á myndinni. Til hægri á myndinni er Gunnólfsvíkurfjall.
- Mats Wibe Lund. (Sótt 1.06.2015). © Mats Wibe Lund.