
Einingin watt dregur auðvitað nafn sitt af James Watt. Eitt watt samsvarar 1 júl á sekúndu. Vinnan 1 júl er sama og 1 Nm (njútonmetri), það er að segja sú vinna sem krafturinn 1N framkvæmir við eins metra færslu. Krafturinn 1 N er sá kraftur sem gefur 1 kg hröðunina 1 m á s2 eða eykur með öðrum orðum hraðann um 1 m/s á hverri sekúndu. Eitt hestafl er 746 W. Það felst í upphaflegri skilgreiningu mælieiningarinnar að meðalhestur býr yfir einu hestafli, það er að segja að meðalhestur á að geta lyft 75 kg um einn metra á sekúndu, en sumir hestar geta auðvitað meira og aðrir minna. Hestafl er ekki eina orðið dregið af hestum sem við notum sem mælieiningu. Orðið hestburður var notað fyrr á tíð um bagga sem hestar báru. Fyrir tíð vinnuvéla var heyi rakað saman í sátur sem bundnar voru í bagga. Hestarnir báru síðan tvo bagga í hlöðu og það var hestburður. Bagginn var um 40-50 kg og hestburður er því um 100 kg. Hægt er að lesa meira um hestburð í svari við spurningunni Hver er mælieiningin 'hestar' um hey? Eru það hestburðir? Um James Watt er hægt að lesa meira í svari við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um James Watt?
Heimild og mynd: