Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvað var rússneski fútúrisminn?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Í Rússlandi var fútúrismi mikill áhrifavaldur á lista- og menningarlíf á öðrum áratugi 20. aldar. Rússnesku fútúristarnar nefndu sig í fyrstu kúbó-fútúrista og töldu sig eiga lítið sameiginlegt með ítölsku fútúristunum. Meginmunur hreyfinganna fólst í því að hinir rússnesku voru ekki eins uppteknir af tækninýjungum nútímans þó að vissulega komi þær fyrir í list þeirra. Rússnesku fútúristarnir héldu því fram að þeir hefðu í raun verið fyrri til að boða fútúrisma og upphófu sjálfa sig á kostnað Ítalanna. Slíkar tilhneigingar voru eitt einkenni á framúrstefnuhreyfingum 20. aldarinnar.

Blómaskeið rússneska fútúrismans var á árunum 1912-1914. Fyrsta stefnuyfirlýsing þeirra nefndist Almennum smekk gefið á kjaftinn og hún kom út árið 1912. Rússnesku fútúristarnir vildu, líkt og þeir ítölsku, að listin væri samhengislaus, því þannig fannst þeim nútímaborgarlíf vera. Listin átti að leysa úr læðingi orku líkt og þegar mótor eða bílvél er ræst og ekið á ofsahraða um borgina.


Dæmi um það hvernig rússnesku fútúristarnir myndskreyttu með orðum.

Þekktasta skáld rússneska fútúrismans var Vladimir Majakovskij (1893-1930). Hann ráðlagði þeim sem vildu yrkja ástarljóð að taka sér far með strætisvagni því fátt væri betra til að laða fram unaðslegt og fagurt ástarkvæði en hristingur í strætisvagni. Þessi skáldskaparfræði Majakovskijs eru gott dæmi um það hvernig rússnesku fútúristarnir leituðust við að setja mannlegar tilfinningar eins og ást, í samhengi við hreyfiafl nútímaborgarlífs.

Fagurfræði rússnesku fútúristanna snerist fyrst og fremst um það að frelsa tungumálið frá ofurvaldi bókmenntahefðarinnar. Að því leyti var rússneski fútúrisminn samstíga þeim ítalska. Bæði ítölsku og rússnesku fútúristarnir myndskreyttu með orðum frekar en að þeir hafi alltaf notað orð til að skrifa merkingarbæran texta. Stundum prentuðu þeir og gáfu út handskrifað efni. Í textum rússnesku fútúristanna er orðum oft raðað upp og niður á síðuna, þau stækka eða minnka á víxl og mynda hin ýmsu form.

Kveðskapur rússnesku fútúristanna var þó ekki eingöngu af myndrænum toga heldur lögðu þeir einnig mikla áherslu á hljómfall tungumálsins. Stundum glataði tungumálið nær algjörlega merkingu sinni, eins og til að mynda í kunnu hljóðljóði eftir Kruchonykh (1886-1968). Á rússnesku gefa hljóðin þó til kynna einhvern vísi að merkingu en í enskri þýðingu er kvæðið svona:
dyr bul schyl

ubeshchur

skum

vy so bu

r l ez

Ljóðskáldið hélt því fram að þetta kvæði væri þjóðlegra en allt höfundarverk rússneska þjóðskáldins Alexanders Púshkin (1799-1837). Eins og ítölsku fútúristarnir voru hinir rússnesku andsnúnir hefðinni og þeir lýstu því yfir í fyrsta ávarpi sínu að réttast væri að kasta Púshkin fyrir borð af gufuskipi nútímans.

Hægt er að lesa um ítalska fútúrismann í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um fútúrisma?

Hægt er að lesa meira um fútúrisma í bókinni Þættir úr menningarsögu, Nýja bókafélagið, Reykjavík 2004. Þar fjallar höfundur þess svars um sömu hluti. Texti svarsins fer nærri því sem stendur í bókarkafla um fútúrisma.

Mynd:

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

12.2.2008

Spyrjandi

Guðbjörg Einarsdóttir

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað var rússneski fútúrisminn?“ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2008. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=7062.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2008, 12. febrúar). Hvað var rússneski fútúrisminn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7062

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað var rússneski fútúrisminn?“ Vísindavefurinn. 12. feb. 2008. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=7062>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað var rússneski fútúrisminn?
Í Rússlandi var fútúrismi mikill áhrifavaldur á lista- og menningarlíf á öðrum áratugi 20. aldar. Rússnesku fútúristarnar nefndu sig í fyrstu kúbó-fútúrista og töldu sig eiga lítið sameiginlegt með ítölsku fútúristunum. Meginmunur hreyfinganna fólst í því að hinir rússnesku voru ekki eins uppteknir af tækninýjungum nútímans þó að vissulega komi þær fyrir í list þeirra. Rússnesku fútúristarnir héldu því fram að þeir hefðu í raun verið fyrri til að boða fútúrisma og upphófu sjálfa sig á kostnað Ítalanna. Slíkar tilhneigingar voru eitt einkenni á framúrstefnuhreyfingum 20. aldarinnar.

Blómaskeið rússneska fútúrismans var á árunum 1912-1914. Fyrsta stefnuyfirlýsing þeirra nefndist Almennum smekk gefið á kjaftinn og hún kom út árið 1912. Rússnesku fútúristarnir vildu, líkt og þeir ítölsku, að listin væri samhengislaus, því þannig fannst þeim nútímaborgarlíf vera. Listin átti að leysa úr læðingi orku líkt og þegar mótor eða bílvél er ræst og ekið á ofsahraða um borgina.


Dæmi um það hvernig rússnesku fútúristarnir myndskreyttu með orðum.

Þekktasta skáld rússneska fútúrismans var Vladimir Majakovskij (1893-1930). Hann ráðlagði þeim sem vildu yrkja ástarljóð að taka sér far með strætisvagni því fátt væri betra til að laða fram unaðslegt og fagurt ástarkvæði en hristingur í strætisvagni. Þessi skáldskaparfræði Majakovskijs eru gott dæmi um það hvernig rússnesku fútúristarnir leituðust við að setja mannlegar tilfinningar eins og ást, í samhengi við hreyfiafl nútímaborgarlífs.

Fagurfræði rússnesku fútúristanna snerist fyrst og fremst um það að frelsa tungumálið frá ofurvaldi bókmenntahefðarinnar. Að því leyti var rússneski fútúrisminn samstíga þeim ítalska. Bæði ítölsku og rússnesku fútúristarnir myndskreyttu með orðum frekar en að þeir hafi alltaf notað orð til að skrifa merkingarbæran texta. Stundum prentuðu þeir og gáfu út handskrifað efni. Í textum rússnesku fútúristanna er orðum oft raðað upp og niður á síðuna, þau stækka eða minnka á víxl og mynda hin ýmsu form.

Kveðskapur rússnesku fútúristanna var þó ekki eingöngu af myndrænum toga heldur lögðu þeir einnig mikla áherslu á hljómfall tungumálsins. Stundum glataði tungumálið nær algjörlega merkingu sinni, eins og til að mynda í kunnu hljóðljóði eftir Kruchonykh (1886-1968). Á rússnesku gefa hljóðin þó til kynna einhvern vísi að merkingu en í enskri þýðingu er kvæðið svona:
dyr bul schyl

ubeshchur

skum

vy so bu

r l ez

Ljóðskáldið hélt því fram að þetta kvæði væri þjóðlegra en allt höfundarverk rússneska þjóðskáldins Alexanders Púshkin (1799-1837). Eins og ítölsku fútúristarnir voru hinir rússnesku andsnúnir hefðinni og þeir lýstu því yfir í fyrsta ávarpi sínu að réttast væri að kasta Púshkin fyrir borð af gufuskipi nútímans.

Hægt er að lesa um ítalska fútúrismann í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um fútúrisma?

Hægt er að lesa meira um fútúrisma í bókinni Þættir úr menningarsögu, Nýja bókafélagið, Reykjavík 2004. Þar fjallar höfundur þess svars um sömu hluti. Texti svarsins fer nærri því sem stendur í bókarkafla um fútúrisma.

Mynd:

...