Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Auðnæm er ill danska

Guðrún Kvaran

Inngangur

Lengi hefur tíðkast að amast við dönskum áhrifum á íslensku og lengur en marga grunar. Ýmsir muna líklega eftir ummælum Arngríms lærða í Crymogæu frá 1609 þar sem hann segir (í þýðingu Jakobs Benediktssonar):
Til þess að varðveita hreinleik hennar [þ.e. tungunnar] getum vér einkum stuðst við tvö atriði: annarsvegar handritin sem varðveita fornan hreinleika tungunnar og glæsilegan stíl, hins vegar lítil samskipti við útlendinga. En ég vildi að landar mínir nú á dögum bættu við hinu þriðja, það er að þeir öpuðu ekki eftir Dönum eða Þjóðverjum í ræðu og riti, heldur leituðu sér fyrirmynda í auðlegð og snilld móðurmáls síns, sem á nóg af henni, og beittu til þess vitsmunum og lærdómi; þá yrði minni hætta á breytingum tungunnar framvegis; en að öðrum kosti mundi ekki þurfa samskipti við útlendinga til þess að spilla tungunni.
Um miðja 17. öld safnaði Jón Rúgmann saman íslenskum málsháttum og meðal þeirra er ,,öd næm er ill danska“. Litlu eldri er heimild úr ljóðum eignuðum Hallgrími Péturssyni þar sem ort er: ,,Illa danskan auðnæm er.“ Síðar verður algengara að nota málsháttinn í myndinni ,,auðlærð er ill danska.“ Það er einmitt danskan, eða réttara sagt dönsku tökuorðin, sem verður umræðuefni mitt í dag. Ég fór að velta því fyrir mér síðla sumars er leið hvort ekki ætti að líta á dönsku tökuorðin, sem voru á hvers manns vörum þegar ég var að alast upp hér í Reykjavík en eru nú óðum að týna tölunni, sem eins konar málminjar sem þyrfti að skrá eins og fornminjar. Margt er auðvitað að finna í söfnum Orðabókar Háskólans, en það kom mér samt á óvart hversu margt vantaði og virtist ekki hafa komist á bækur.

Guðmundur Finnbogason

Í leit minni að dæmum fór ég að taka eftir því að tvö dæmi voru til um sum þeirra orða sem ég leitaði að og voru bæði úr sömu grein Guðmundar Finnbogasonar. Eldra dæmið var skráð úr Skírni frá 1928, hið yngra úr bókinni Huganir með safni áður birtra greina eftir Guðmund. Þar er talinn upp fjölda orða, sem notuð voru á myndarlegu reykvísku heimili í byrjun aldarinnar. Eftir að hafa birt orðalistann skrifar Guðmundur:
Hver óspilltur Íslendingur, sem þetta les, finnur undir eins, að það er ekki hrein íslenzka, heldur argvítugasta hrognamál, og hann finnur það einmitt þess vegna, að málið í heild sinni er ennþá hreint, svo að þessar og aðrar slíkar útlendar slettur stinga í stúf og særa jafnt auga sem eyra. Sannleikurinn er sá, að lifnaðarhættir þjóðarinnar hafa breytzt stórkostlega í öllum greinum síðustu áratugi. Fjöldi nýrra efna og áhalda til fæðis, klæða, húsa og iðnaðar hefir steymt inn til þjóðarinnar, fjöldi hluta, sem hún átti engin nöfn yfir. Menn hafa ekki verið viðbúnir að finna öllu þessu góð og gild íslenzk heiti jafnóðum og það kom, og þessvegna hafa hálfútlendu orðskrípin læðzt inn í daglegt mál og auglýsingar. En nú er þetta mjög að breytast. Menn eru að vakna til skilnings á því, að útlendu sletturnar eru ekki samboðnar íslenzkunni, og alþýða manna tekur fúslega við hverju góðu orði, sem myndað er í stað orðskrípanna. Má því vel svo fara, að sletturnar verði horfnar eftir fáein ár.
Og aðeins síðar heldur hann áfram:
Útlendu orðin eru hægindi hugsunarletinnar. Þau standa boðin og búin til að fylla í eyðurnar, þegar andinn dottar. Sé leyft að sletta útlendum orðum, þá þarf enginn að ætla, að það verði ekki gjört nema þar sem íslenzk orð eru ekki til. Það verður gjört hvenær sem rithöfundurinn þarf eitthvað að hafa fyrir því að rifja upp íslenzk orð, þó nóg sé af þeim.
Þetta var maður sem þorði að segja hvað honum fannst.

Einhvern veginn þóttist ég viss um að Guðmundur hefði ekki reynst sannspár þegar hann lét sig dreyma um að orðskrípin yrðu horfin eftir nokkur ár en vegna þess hve dæmi okkar á Orðabókinni voru fá ákvað ég að leita til heimildarmanna okkar um frekari vitneskju. Þar kom ég ekki að tómum kofanum fremur en fyrri daginn. Ég ætla þó ekki að tala um þessi orð alveg strax heldur fjalla lítillega fyrst um viðhorf fleiri manna til dönsku og annarrar útlensku um það leyti sem Guðmundur skrifaði grein sína sem hann nefndi reyndar ,,Hreint mál“.

Kristján Albertsson og Halldór Laxness

Tvær greinar um þetta efni birtust árið 1939, önnur eftir Kristján Albertsson en hin eftir Halldór Laxness. Grein Kristjáns nefndist ,,Þróun íslenzkunnar“ og birtist í Skírni. Kristján vildi vera maður nýrra tíma og opinn fyrir breytingum, þar á meðal nýjum tökuorðum. Hann segir m.a.
Höfundar hins nýja tíma krefjast þess, að mega láta hugsun sína alla í ljós, með þeirri nákvæmni og þeim styrkleik, sem ritmenning tímans heimtar, og án þess að hún verði fyrir það fátæklegri og svipminni, að þeim sé meinað að rita þau orð, sem ein fá skilað henni óskertri, eðlilegri og lifandi yfir í huga annarra manna.
Hann var þó ekki opnari en svo að hann hafði áhyggjur af málinu í Reykjavík, rétt eins og Guðmundur.
Málið, sem talað er í Reykjavík er sérstakt viðfangsefni, sem ekki skal frekar rætt að þessu sinni. En öllum má vera ljóst, hvað af því myndi leiða ef fremstu rithöfundar veittu allt í einu flóði af útlendum orðum inn í ritmálið. ... Sá höfundur, sem lengst fer í notkun erlendra orða, er Þórbergur Þórðarson. Í bók hans um för sína til Rússlands er m.a. þessi orð að finna:: konfirmraður, dúmmheðer, keisarabílæti, skilerí, nervös (því ekki nervus, eins og sagt er á Íslandi?), diplómatískur, kaffiselskap, hysterískur, blaseraður, tatóveraður, sálararistokrat, stúdíó, slurkur, gullgallóneraður, að útþrykkja, mórall, móralskur, huggulegur, óhuggulegur, bomba, marséra, að fýra af skoti, slúður, trannsportéra, lifibrauð, agitatórískur, júblandi, þvers og kruss, seremóníur, skopfígúra, að dumpa inn í eitthvað, bugta sig og beygja, húmorlaus, teoríur, kapítal, balkon, músikantar.
Ég er nokkuð viss um að flest þessara orða heyrast í máli manna enn í dag. Kristján vildi þó reyna að bera blak af Þórbergi og segir:
Nú ber þess að gæta, að Þórbergur skrifar mjög sérkennilegan og persónulegan stíl. Það má ekki taka öllum þessum slettum sem fúlustu alvöru, því að dönskunni ætlar hann oft það sérstaka hlutverk, að bregða skoplegum blæ yfir það, sem hann segir. Engu að síður dylst manni ekki, að hér er hurðinni lokið upp á gátt fyrir aðstreymi útlendra orða inn í íslenzkuna. Og höfðingjarnir hvað hafast að, hinir ætla sér leyfist það.
Grein Halldórs, sem nefndist “Ill danska”, var á allt öðrum nótum. Hann fann að því hvernig dönskukunnáttu þjóðarinnar væri komið og hversu miklu meira bæri á dönskuslettum í rituðu máli en áður, ,,síðan menn slettu dönsku af fordild á 18. öld.“ Hann skrifaði:
Fáum er hættara við dönskuskotnu máli en þeim Íslendingum, sem litla eða enga dönsku kunna. ... Fáir virðast eins grunlausir um þau víti, sem ber að varast og hinir einkennilega ómenntuðu ritarar dagblaðanna nú á tímum, í ritsmíðum þeirra úir og grúir af danskkynjuðum málleysum ...
Síðan birti hann ,,nokkur sýnishorn af dönskuþrugli” sem hann hafði veitt athygli í Reykjavíkurblöðunum. Í þessum lista er margt að finna sem lifir góðu lífi enn í dag. Ég ætla ekki að lesa upp öll dæmin, aðeins fáein þau fyrstu:
  • finna út úr einhverju (finde ud af noget)
  • ekki nóg med það (ikke nok med det)
  • slá e-u föstu (fastslaa; illskárra væri að segja á íslenzku: slá e-ð fast)
  • ganga út frá einhverju (gaa ud fra)
  • ganga inn á eitthvað (gaa ind paa)
  • það gengur út á (det gaar ud paa)
  • reikna með einhverju (regne med)
  • vera mættur, voru mættir (var mödt)
  • bera sig að (bære sig ad)
Tveimur árum síðar skrifaði Halldór grein í Tímarit Máls og menningar undir heitinu “Málið”. Tilefni greinarinnar eru aðfinnslur sem hann hafði orðið fyrir í Morgunblaðinu um orðaval, stafsetningu og fleira og lesendabréf til Tímaritsins. Í bréfinu er fundið að því að Halldór noti t.d. orðin Amrika, spásséra og sosum og ýmis önnur “orðskrípi” eins og þau eru nefnd í bréfinu. Í svarinu finnur hann ekki lengur að dönskuslettum eins og í fyrri greininni heldur skrifar:
Sé byrjað að skifta málinu í orð og orðskrípi, leggja á orð einhverskonar siðferðislega dóma, lenda menn fljótt í ófærum. Annaðhvort er orðið rétt eða rángt valið þar sem það stendur og um það er ekki annað úrskurðarvald en háttvísi hins góða rithöfundar.

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað. Það eru aðeins til rithöfundar misjafnlega háttvísir í orðavali. Beri orð í sér hinn rétta lit, sem til þarf að fullkomna geðblæ setningar í skáldriti - ef það er eina orðið sem fær léð greininni þennan blæ að hundrað hundruðustu, þá er það hið eina rétta orð - jafnvel þótt það heiti tildragelsi, pípí eða bumbulpe sem Þórbergur notar á sérstökum stöðum.
Nokkur dönsk tökuorð

Ég hef nú rakið skoðanir þriggja andans manna frá því fyrir miðja 20. öld. En nú er tími til kominn til að huga aftur að Guðmundi Finnbogasyni og fyrirmyndarheimilinu. Ekki er viðlit að fjalla um öll orðin en þið getið sjálf dundað ykkur við að skoða þau sem ég hef ekki tíma til að ræða um. Höskuldur Þráinsson notaði sum orðin úr grein Guðmundar í umfjöllun sinni um áhrif dönsku á færeysku og íslensku og vík ég að henni þar sem ástæða er til. Rétt er að nefna að árið 1927 kom út lítið kver, Orð úr viðskiptamáli eftir Orðanefnd Verkfræðingafjelagsins. Það var sjerprentun úr Lesbók Morgunblaðsins frá 3. október árinu áður. Orðanefndinni þótti ekki vanþörf á að íslenska allan þann fjölda orða úr dönsku sem voru á sveimi í þjóðfélaginu, þar á meðal ýmis af þeim sem Guðmundur nefndi. Ekki fæ ég séð að margar af þeim tillögum hafi náð að festa rætur en ég kem að nokkrum þeirra á eftir.

Annað kver var gefið út í sama tilgangi 1914. Það heitir Leiðréttingar nokkurra mállýta og er eftir Jón Jónasson skólastjóra í Hafnarfirði. Langflest orðanna, sem leiðrétt eru, teljast dönsk og allmörg þeirra eru í upptalningu Guðmundar.

Fyrst leiðir Guðmundur okkur inn í stássstofuna á heimilinu. Hann skáletrar aðeins fyrri hluta orðsins stássstofa og virðist því ekki líta á samsetta orðið sem lán í heild. Það er þó örugglega rangt þar sem Danir eiga sína stadsstue. Orðabókin á dæmi um stássstofu frá 18. öld en þá notar Jón Ólafsson úr Grunnavík orðið í þýðingu sinni á Nikulási Klím eftir Holberg. Stáss er enn eldra í málinu eða a.m.k. frá 17. öld.

Gardínurnar, fíleraðar og bróderaðar, hanga fyrir gluggum. Sögnin að fílera er dönsk að uppruna sem og aðferðin sem kölluð er á íslensku og dönsku fílerí. Fílerað er með sérstakri nál sem klofin er í báða enda. Margar konur kunna enn að fílera þótt ekki sé sú handavinna jafn mikið í tísku og á síðustu öld. Lengi hafa konur bróderað, að minnsta kosti bróderaði húsfreyjan á Bessastöðum 1810 og bróderaður kaleiks klutur af hvitu kartune, slitenn, var skráður í biskupsskjalasafni 1779. Gardínur hafa hangið uppi a.m.k. frá því um miðja 18. öld. Orðið er vel lifandi og nú fyrir síðustu jól heyrði ég auglýstar bróderaðar jólagardínur.

Mubla er þekkt um allt land, og eru elstu dæmi í ritmálssafni frá því um aldamótin 1900. Flest eru þau skrifuð með einu -b-i, aðeins Halldór Laxness notaði stundum mubblur í eldri bókum sínum. Í Kristnihaldinu skrifar hann þó mufla með -f-i. Í auglýsingum í blöðum rétt fyrir aldamótin 1900 ber á orðmyndum með -ö-i: Í blaðinu Ísafold var t.d. þessi auglýsing 1893: ,,Herbergi, með og án möbla, fæst til leigu.“, og í Fjallkonunni sama ár er þessi auglýsing: ,,Stofuherbergi í miðjum bænum, möblerað, fæst til leigu.“ Orðanefnd verkfræðingafélagsins hefur þekkt myndir með -ö-i því að lagt er til að möblubankari verði nefndur lemill og möblutau kallað sesstau. Engin tillaga var um að íslenska möblu. Myndin mubla er nær danska framburðinum á møbel og hefur því orðið ofan á. Møbel í dönsku er tökuorð úr frönsku meuble ‘húsgagn’, en að baki liggur hvorugkyn latneska lýsingarorðsins môbilis, þ.e. môbile ‘hreyfanlegt’.

Um sófann með einu -f-i á Orðabókin dæmi frá því í lok 17. aldar en með tveimur -ff-um frá lokum þeirrar 19. Plussið er enn eldra en sófinn eða frá því á 17. öld, tekið að láni úr dönsku plys og plussklæddur samsvarar dönsku plysbeklædt.

Lenustóll er vel þekkt húsgagn, en allir viðmælendur mínir notuðu lenistóll með -i-i, og virðist orðið notað talsvert um allt land. Það kemst þó ekki á lista hjá Höskuldi, aðeins hægindastóll og djúpur stóll. Tveir heimildarmenn úr Reykjavík á miðjum aldri höfðu vanist því í bernsku að betri stofan, þar sem lenistólarnir stóðu, væri kölluð lenistofa. Orðið lenistóll er sótt til dönsku lænestol.

Skammel á Orðabókin dæmi um a.m.k. frá miðri 18. öld. Það er talið tökuorð úr dönsku skammel og er notað um lágt sæti eða skemil. Skemill er aftur á móti tökuorð úr miðlágþýsku schemel en ekki íslenskun á hinu danskættaða skammeli eins og sumir halda.

Etasjer þekkja margir, en flestir í myndunum ediser, edisjer eða ediseri. Þetta er hornhilla, oft með mörgum hillum í, og stundum með renndum stautum undir þær að framanverðu. Orðið er fengið að láni úr dönsku etagere sem aftur fékk það að láni úr frönsku étagère. Að baki liggur orðið etage, sem oftast er notað um hæð í húsi, þ.e. margar hæðir voru í húsgagninu. Nokkrir viðmælendur mínir nefndu að oft hefði áður fyrr verið talað um tasíur í húsum en það heyrðist ekki lengur. Þetta orð minnti mig á annað orð, sem ég heyrði oft í bernsku, en það var tasíuþvottur. Það var lagað eftir danska orðinu etagevask og var notað um að þvo líkamann við vask eða vaskafat hluta og hluta í senn. Þegar ég nefndi það í útvarpsþættinum reyndust margir þekkja það og er orðið ekki svæðisbundið. Talað er t.d. um að þvo þurfi efri eða neðri tasíuna á barni.

Tasíudisk þekkja einnig margir, en þar er átt við smákökudiska, tvo til þrjá, sem festir eru saman með staut, þannig að þeir mynda tvær til þrjár hæðir.

Sjiffoniera kannast ýmsir við en flestir þó í myndinni siffoner eða siffoneri. Viðmælendur mínir sögðu að siffonerinn væri há kommóða með mörgum skúffum. Danska orðið chiffonniere er fengið að láni úr frönsku chiffonnière, en það er aftur leitt af chiffon sem margir kannast við um efni t.d. í kjóla eða blússur. Halldór Laxness notar frönsku myndina í Brekkukotsannál og sagði: ,,mubblurnar hétu á frönsku chiffonnier, buffet, canapé” og er það eina dæmið í söfnum Orðabókar Háskólans.

Portiera þekkja allmargir en myndin porterar er mun algengari. Þeir héngu og hanga sums staðar enn í dyragætt milli stofu og borðstofu eða stofu og svefnherbergis. Flestum ber saman um að þeir hafi verið úr þykku efni, oft með breiðum bekk að neðan. Ef notað var annars konar þynnra efni var aðeins talað um tjöld. Danska orðið portiere er fengið að láni úr frönsku en franska orðið er aftur leitt af orðinu porte sem merkir ‘dyr’.

Nú erum við leidd í næsta verelsi en um verelsi eru elst dæmi hjá Orðabókinni frá því á síðari hluta 18. aldar og til loka hinnar 20. Yngstu dæmin eru öll úr skálsögum sem gerast eiga fyrr á öldinni þannig að þau eru ekki marktæk um nútíma notkun. Ég hygg þó að orðið sé horfið úr mæltu máli, a.m.k. könnuðust viðmælendur mínir ekki við að það væri notað.

Borðstofan er klædd með panel að neðan en betrekki að ofan. Um panel á Orðabókin dæmi allt frá miðri 17. öld og eru elstu myndir með -i-, þ.e. panil. Betrekkið er talsvert yngra eða frá miðri 19. öld. Bæði orðin lifa góðu lífi enn í dag.

Buffet er eitt þeirra orða, sem komið er inn í málið úr frönsku í gegnum dönsku sem millimál. Það er mjög vel þekkt um allt land sem borðstofuhúsgagn með skápum og skúffum. Margir viðmælenda minna notuðu þó frekar myndina buff. Buffet er hvorugkyns í íslensku, þ.e. buffetið, en í dönsku er það samkyns, buffeten. Það er fengið að láni í dönsku úr frönsku buffet. Orðanefnd verkfræðingafélagsins vildi nota orðið hlaðborð í stað buffet, en það orð á engan veginn við húsgagnið sem hér um ræðir.

Plattmanasía er lítill hlutur sem fáir þekkja nú til dags. Við fyrirspurn minni bárust þó nokkrar heimildir og er hluturinn ýmist nefndur plattmanasía, plettmanasía, plettasía, plattesía eða upp á dönsku platmenage. Einn bréfritari lýsti honum svona: ,,platmanage var stativ eða smábakki með stauti í miðju (til að halda í) en á bakkanum var sinnep, edik og olía.“ Þetta orð tóku Danir að láni úr þýsku. Fyrri liðurinn platt- merkir þar ‘flatur’, en síðari liðurinn -menage er notað um ýmiss konar bakka. Aðlögun orðsins í íslensku felst í því að breyta endingunni -age [-sje] í -sía. Hliðstæð breyting hefur átt sér stað í orðunum passíuhár úr page hår, og í orðunum bolsía úr dönsku bolche, galossía úr dönsku galoche, gammosía úr gamache og tasía úr etage.

Anretterborð segir Guðmundur Finnbogason að hafi verið í borðstofunni á myndarheimilinu. Það reyndist eina heimildin í ritmálssafni en í auglýsingu í Ísafold 1904 er auglýst anretningsborð. Viðmælendur mínir þekktu margir húsgagnið vel en nafnið á því einungis sem anrettuborð. Þetta húsgagn fylgdi mjög oft borðstofuhúsgögnum og var notað m.a. til að leggja matarfötin á áður en sest var að borðum. Í því voru oft skúffur undir borðbúnað og skápar fyrir föt, skálar og þess háttar. Í sumum húsum í Reykjavík og á Akureyri voru sérstök anrettuherbergi milli eldhúss og borðstofu. Þangað var maturinn borinn úr eldhúsinu áður en máltíð hófst. Danska myndin er anretterbord og þar þekkist líka anretterværelse. Að baki liggur sögnin anrette í merkingunni ‘leggja mat snyrtilega á fat’ sem fengin er að láni úr þýsku anrichten í sömu merkingu.

Næst förum við inn í eldhúsið eða kokkhúsið. Þar nefnir Guðmundur Finnbogason allmörg orð yfir hluti sem hann telur dönsk, þar á meðal kastarholu, dörslag og eggjapískara, sigti, propptrekkjara, viskustykki, karklút, uppvöskunarbursta, skrúbb, kúst og fægiskúffu. Hann nefnir einnig ýmsar matartegundir og aðferðir við matargerð.

Kastar(h)ola er til í ýmsum myndum í söfnum Orðabókar Háskólans. Elsta heimild sýnir myndina kastaróla. Það er úr hinni ágætu matreiðslubók Mörtu Maríu Stephensen, Einfaldt Matreidslu Vasa-Qver fyrir heldri manna Húss-freyjur, sem gefin var út í Leirárgörðum árið 1800. Næst skýtur orðinu upp í matreiðslubók Þóru A.N. Jónsdóttur frá 1858 og þá í myndinni kastarola sem ég hygg að mér sé óhætt að fullyrða að verið hafi býsna algeng í Reykjavík allt fram undir þennan dag þótt önnur dæmi finnist ekki í söfnum Orðabókar Háskólans. Litlu yngri í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er myndin kastarhola sem elst dæmi er um í auglýsingu í Fjallkonunni frá 1897. Sú mynd virðist hafa lifað best á prenti en einnig í munni fólks. Fyrir hálfum öðrum áratug var spurt í útvarpsþættinum hvort menn þekktu styttinguna rola eða rolla fyrir kastarola, sem fáeinir gerðu, þótt kastarhola væri í bréfunum skrifuð með h-i. Einn heimildarmanna tók reyndar fram að í framburði hyrfi oft h-hljóðið þannig að kastarhola hefði orðið kastarola eða kastarolla. Einnig þekktust styttingarnar hola og kassa.

Kastarhola er merkt í orðabók Blöndals með ? og sömuleiðis hvorugkynsmyndin kastarhol sem engin dæmi eru til um í söfnum Orðabókar Háskólans. Þar er framburður sýndur bæði með h og án þannig að þeir sem að bókinni unnu hafa þekkt báðar framburðarmyndirnar. Ekki er sýndur framburður með [-dl-] en hann þekki ég vel þótt algengara hafi verið að heyra [-ll-]. Orðin kastar(h)ola og kastar(h)ol eru einnig merkt með ? í orðabók Árna Böðvarssonar frá 1983 til merkis um að þau séu ,,vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku“ (xiv). Tvö dæmi voru um kasterollu í talmálssafni Orðabókar Háskólans, annað frá Ólafsfirði, hitt úr Fellahreppi.

En t-lausar myndir er einnig að finna. Kasserolla fer að birtast í auglýsingum seint á 19. öld bæði í Þjóðólfi og Ísafold og orðið kemur einnig fyrir í Mönnum og listum eftir Indriða Einarsson sem bendir til að það hafi verið sú mynd sem hann notaði. Indriði segir: ,,Þeir lærisveinar Sveinbjarnar Egilssonar mega eiga það, að þeir gerðu sitt til að íslenzka bæinn, og skírðu með íslenzkum nöfnum kasserollur og komfýrur, sem þjónustukonur í bænum voru seinar að læra“. Myndin kassarolla kemur fyrir í Fjallkonunni í auglýsingu 1895 og síðan í matreiðslubók Matthíasar Ólafssonar frá 1916. Yngri dæmi hafa ekki fundist.

Tvær samsetningar hafa orðið nokkuð lífseigar í íslensku. Önnur er kastarholuklipping en hin kastarholubúskapur. Hin fyrri er notuð um að klippa hár þvert fyrir að neðan allt í kring, bæði í hnakka og vöngum en hin síðari er notuð um einfalda og fátæklega matreiðslu og lélegan búskap.

Í upphafi þessarar samantektar var þess getið að kastarola væri tökuorð úr dönsku. Í Nudansk ordbog er flettumyndin kasserolle sem sögð er fengin úr frönsku casserole. Franska orðið er talið afleiðsla af casse ‘málmpottur, málmskál’. Þessi danska mynd skýrir t-lausu myndirnar íslensku kasserolla og kassarolla. En hún skýrir ekki þær með t-i. Sú skýring hefur oft heyrst að þær séu orðnar til í munni fólks sem einhvers konar skýringartilgátur. Rétt er að huga betur að því. Ef litið er í Ordbog over det danske sprog er þar einnig að finna flettumyndina kasserolle og þar undir kasserol og kastrol(le), en aftar flettumyndina kasterolle með tilvísun til kasserolle. Fram kemur að í þýsku eru til bæði Kasserolle og Kastroll og í frönskum mállýskum castrole. Orðabók Feilbergs (II:102) gefur upp flettumyndina kasserolle í orðabók sinni um jóskt alþýðumál og virðist eingöngu hafa dæmi um framburðarmyndir með t-i.

Í orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar eru gefnar þrjár myndir kastar(h)ol, kastarhola og kastarola sem taldar eru tökuorð úr dönsku kasserolle. Af þeim dæmum sem dregin hafa verið fram sýnist mér að tvær danskar myndir liggi að baki íslensku orðmyndunum. Annars vegar kasserolle og hins vegar kasterolle, en báðar voru lifandi í dönsku máli um það leyti sem orðin voru fengin að láni í íslensku. Dæmin með h-i, -hol, -hola, eru síðan tilraun til að skýra síðari liðinn.

Dörslag er vel þekkt orð og allmargar heimildir fengust við fyrirspurnum mínum, mismunandi þó. Sumir nefndu hlutinn dörslag, aðrir dorslag, enn aðrir doslag, duslag eða döslag án -r og einn skrifaði um dusslag með tveimur -s-um. Dörslag er eins konar sigti, en öllum bar saman um að átt væri við emalerað sigti, en ekki vírsigtin sem nú eru helst notuð. Dörslag er þekkt um allt land, m.a. í Mývatnssveit, að minnsta kosti meðal þess fólks sem telst miðaldra eða eldra. Höskuldur Þráinsson virðist ekki þekkja það en nefnir sigti sem ,,venjulega íslensku 1998“. Í ritmálssafni Orðabókarinnar fundust aðeins þrjú dæmi um dörslag og var hið elsta þeirra úr matreiðslubók Mörtu Maríu Stephensen. Athyglisvert við það dæmi er að auk danska tökuorðsins er notað íslenska orðið sáld sem Orðabókin á elst dæmi um úr Guðbrandsbiblíu frá 1584, en það þekkist einnig vel í fornu máli. Í matreiðslubókinni stendur: ,,er þetta mauk síad ígégnum dørslag edur sáld.“ Danska orðið er fengið að láni úr lágþýsku dorchslach. Það orð er sett saman úr forsetningunni dorch sem merkir ‘í gegnum’, í háþýsku durch, og nafnorðinu slach, í háþýsku Schlag, sem leitt er af sögninni slagen s.s. ‘slá’. Það sem sett er í dörslag er þá slegið í gegn.

Í seðlasöfnum Orðabókar Háskólans eru tvö dæmi til um eggjapískara, bæði frá Guðmundi Finnbogasyni, en ekkert um pískara. Pískarinn er þó vel þekktur í eldhúsum sem og sögnin að píska í merkingunni ‘þeyta’. Um sögnina í þessari merkingu á Orðabók Háskólans dæmi frá því snemma á 20. öld þar sem talað var um að píska stangasápu út í volgt vatn. Sögnin er merkt með ? í ÁB og er merkingin sögð vera: 1. ‘spýtast, buna’, 2. ‘lemja með svipu’, 3. ‘þeyta’. Hún er sömuleiðis merkt með ? í Bl en þar er aðeins nefnd fyrsta merkingin. Þetta kemur svolítið á óvart þar sem merkingin ‘lemja með svipu’ er vel þekkt í söfnum Orðabókar Háskólans frá því um miðja 18. öld sem og nafnorðið pískur. Í ritmálssafni er ekkert dæmi um merkinguna ‘spýtast, buna’, t.d. um rigningu, en í talmálssafni eru nokkur dæmi um hana og virðist hún ekki staðbundin.

Bæði sögnin píska og nafnorðið pískari eru fengin að láni úr dönsku. Í Ordbog over det danske sprog eru nefnd orðin pisker, flødepisker og sølvpisker, en sá síðastnefndi var notaður til þess að hræra í viskýblöndu til þess að sótavatnið blandaðist betur. Dæmi um piske í merkingunni að ‘þeyta’ eru kunn a.m.k. frá því í lok 18. aldar. Samkvæmt Nudansk ordbog virðist pisker ekki lengur notað, en þess í stað er talað um piskeris. Höskuldur þekkir (ægge)pisker úr dönsku og er eins líklegt að það lifi í munni manna þótt orðabókin hafi talið það úrelt eða lítt notað.

Sigti er gamalt í málinu og eru dæmi um það í ritmálssafni frá síðari hluta 19. aldar. Sögnin sigta í merkingunni ‘sía, sálda’ er enn eldri. Um hana á Orðabók Háskólans dæmi frá 16. öld. ,,Þegar menn sigta / so blijfa Oklaarendin epter i Saalldenu“ segir í Síraksbók (27.5) í þýðingu Gissurar Einarssonar sem birt er í Guðbrandsbiblíu 1584. Aðeins eldra, eða frá 1555, er dæmið: ,,Suo er og Guds ord sigtad hreint” í þýðingu Marteins Einarssonar á nokkrum sálmum. Dæmi er um myndina sikta í Postulasögum, en annars er hana ekki að finna í fornmálsorðabókum. Ekki er gott að segja hvort sögnin er fengin úr dönsku eða beint lágþýsku. Danska sögnin er tökuorð úr miðlágþýsku sichten ‘sálda’ og nafnorðið sigte úr lágþýsku sichte ‘sáld’. Nafnorðið sigti er að öllum líkindum komið í málið úr dönsku.

Propptrekkjari er eitt þeirra orða sem Guðmundur Finnbogason nefndi. Ég hygg að það hafi lítið verið notað enda kannaðist enginn viðmælanda minna við það. Allir nefndu hins vegar korktrekkjara og sögðust þekkja hann mætavel. Það orð er merkt með ? í lista Höskulds. Einu dæmi Orðabókar Háskólans um propptrekkjara eru reyndar frá Guðmundi, og ekki vil ég rengja að það hafi verið notað í upphafi 20. aldar. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um korktrekkjara er einnig frá því snemma á 20. öld. Það orð virðist eitthvað hafa verið notað í dönsku en þó ekki mikið, og í Ordbog over det danske sprog er það merkt úrelt og tökuorð úr þýsku Korkzieher. Proptrækker er orðið sem notað er í dönsku um það sem kallað er á íslensku tappatogari. Tappatogari er bein þýðing á danska orðinu og var orðið algengt hér, a.m.k. í auglýsingum í Fjallkonunni og Ísafold, í lok 19. aldar.

Viskustykki þekkja menn mætavel um land allt, en einnig viskastykki sem reyndar er feitletrað á lista Höskulds og eftir því það orð sem hann telur venjulega íslensku 1998. Við fyrirspurnum fengust allnokkur svör og skiptust þau nokkuð jafnt í tvo flokka, -a- og -u- flokkinn. Ef litið er á dæmi Orðabókar Háskólans í ritmálssafni eru þar engin viskastykki, aðeins viskustykki. Halldór Laxness talar um hinn alltuppþurrkandi hollustusvip viskustykkisins í Fuglinum í fjörunni 1932 og í Gerska æfintýrinu virðist hann nota viskustykki sem þýðingu á uppþvottatusku, sbr.: ,,meðal þess sem hún lét eftir sig voru tólf tylftir af uppþvottatuskum (,,viskustykkjum“), og önnur búsgögn eftir því“. Í mínu máli er uppþvottatuska allt annað en viskustykki. Með tuskunni er þvegið en með viskustykkinu þurrkað.

Viskustykki náði ekki inn í orðabók Blöndals en í orðabók Árna Böðvarssonar er orðið merkt með ? og viskastykki haft í sviga fyrir aftan. Skýringarorðin eru ‘diskaþurrka, bollaþurrka’. Að baki liggur danska orðið viskestykke, sett saman af viske ‘þurrka’ og stykke ‘stykki’.

Sögnin viska í merkingunni ‘þurrka út’ er þekkt í málinu frá 18. öld. Hún er fengin að láni úr dönsku og kemur m.a. fram í orðunum viskaleður og viskuleður ‘strokleður’ auk þeirra tveggja sem þegar eru nefnd. Tvímyndirnar með -a- og -u- má rekja til áherslulítillar stöðu sérhljóðs í öðru atkvæði samsettu orðanna.

Karklútur er vel þekkt orð um allt land, en notkunin er ekki alltaf hin sama. Flestir segja að karklútur sé grófur og yfirleitt notaður á gólf, enda fást slíkir klútar í flestum verslunum í plastpokum sem á er prentað ,,karklud“. Aðrir hafa vanist því að skarklútur sé meðalfínn og notaður til að þurrka af borðum. Dæmi um hann finnast í ritmálssafni frá upphafi 20. aldar. Í matreiðslubók Jóninnu Sigurðardóttur er t.d. sagt frá karklút á eftirfarandi hátt: ,,Í hverju eldhúsi eru vanalega léreftstuskur mjög ískyggilegar útlits, sem kallaðar eru á danskri íslenzku ,,karklútar“. Fyrri liður orðsins er danska orðið kar ‘ker, ílát’ enda voru karklútar einkum ætlaðir til að þvo með stærri potta og kirnur.

Uppvöskunarbursti er eitt af orðum Guðmundar og er það eina dæmi Orðabókar Háskólans. Um orðið uppvöskun á Orðabókar Háskólans hins vegar engin dæmi og aðeins eitt um uppvask. Aftur á móti eru til 18. aldar dæmi um hvorugkynsorðið vask og kvenkynsorðið vöskun. Allnokkrar samsetningar eru til með vask- eða vöskun- að fyrri lið og fjögur með vösku- (vöskubali, vöskugalli, vöskuhús, vöskukar).

Uppvask er mjög vel þekkt um allt land, en enginn viðmælenda minna kannaðist við að nota uppvöskunarbursta. Snemma á 20. öld fara að koma fram dæmi um orðið uppþvottur og samsetningar með því sem er íslensk aðlögun að danska orðinu opvask. Um uppþvottabursta á Orðabókar Háskólans ekki dæmi fyrr en um miðja öldina.

Opvaskning í dönsku er líklega fyrirmynd orðsins uppvöskun. Það er líklega lítið notað þar sem þess er ekki getið í Nudansk ordbog, en dæmi eru um það í Ordbog over det danske sprog.

Sögnin að þvo upp t.d. matarílát er þekkt a.m.k. frá síðari hluta 18. aldar en vaska upp er töluvert eldri eða frá miðri 17. öld samkvæmt Orðabók Háskólans. Ekki er ástæða hér að fara nánar út í orðin sem hefjast á vask-/vösk- þar sem þau voru ekki til umræðu hjá Guðmundi.

Skrúbbur er enn eitt orðið sem fengið er að láni úr dönsku, en Orðabók Háskólans á aðeins eitt dæmi um það frá Guðmundi. Höskuldur Þráinsson telur þó skrúbb og gólfskrúbb til venjulegrar íslensku 1998. Nokkur dæmi eru til í ritmálssafni um myndina skrubbur með u-i og var hið elsta þeirra frá 1811. Kvenkynsorðið skrúbba er betur þekkt um allt land og ýmsar samsetningar með því, eins og gólfskrúbba, skaftskrúbba, skrúbbuskaft.

Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir sögnina að skrubba og nafnorðin skrubbur og skrubba en einnig sömu myndir með ú-i í Íslenskri orðsifjabók og telur þær með ú-i líklegast yngri. Ekki er hægt að ganga úr skugga um það með því að skoða söfn Orðabókar Háskólans. Til þess skortir frekari heimildir. Í Ordbog over det danske sprog er íslensk samsvörun nafnorðsins sögð vera skrubba en samsvörun við sögnina er ekki nefnd. Danska fyrirmynd nafnorðsins er skrubbe sem leidd er af sögninni at skrubbe.

Kústur er velþekkt í málinu frá því fyrir miðja 19. öld. Orðið er algengt um allt land, bæði ósamsett og sem hluti ýmissa samsetninga. Höskuldur Þráinsson telur að sópur sé hið venjulega íslenska orð 1998, en ekki samræmist það ummælum heimildarmanna minna. Þeir notuðu flestir kústur eða veiku myndina kústi. Fjölmargar samsetningar eru til með -kústur sem síðari lið, þar af nokkrar frá 19. öld: farfakústur, feiekústur, fiskkústur, glasakústur, hárkústur og rykkústur. Í talmálssafni eru til dæmi um fægikúst, en með honum er átt við lítinn kúst sem notaður er til að sópa með rusli í fægiskúffu. Þar eru einnig dæmi um rykkúst og var orðið talið þýðing úr dönsku støvkost.

Eldri heimild er um kóstur frá síðari hluta 18. aldar en hún hefur ekki náð verulegri útbreiðslu að því er séð verður. Þó virðist hún algeng í máli manna á Vestfjörðum, og dæmi voru einnig til í talmálssafni úr Eyjafirði. Að baki liggur danska orðið kost.

Fægiskúffa á sér fyrirmynd í danska orðinu fejeskuffe. Sama er að segja um fægiskófla sem á dönsku heitir fejeskovl. Reyndar er nú algengara að tala um fejeblad í dönsku. Farið var að auglýsa fægiskúffur í blöðum í lok 19. aldar, en engin dæmi voru um fægiskóflu í ritmálssafni. Þegar ég spurðist fyrir um orðið kom í ljós að báðar myndirnar eru vel lifandi um allt land, og er ekki að sjá að notkun fari eftir landshlutum. Sumir sögðust nota orðin jöfnum höndum. Einnig bárust dæmi um fægiskúflu af Vestur- og Austurlandi, og einn Austfirðingur hafði vanist að tala um fægiblað.

Skúffa virðist ekki notað ósamsett um þennan hlut, en það þekkist að tala um skóflu. Ýmislegt hefur verið reynt til að komast hjá að nota dönsku orðin og nota menn í staðinn t.d. orðin ruslaskúffa, rykskúffa, saurskúffa, sorpskúffa, sorpskófla, sópskör, sorpreka og ruskbretti.

Guðmundur Finnbogason nefnir ýmsar tegundir af mat sem finna megi í ,,spísskamersinu“ þar á meðal orðin polegg, medisterpylsu, karbonaði og plokkfisk en einnig ýmsar sagnir sem notaðar voru, og eru nær allar enn, við matargerð, svo sem sigta, píska, plokka, hakka, kokka, speða, skræla, pússa og skrúbba. Um nokkrar sagnanna hefur þegar verið rætt en drepið verður á hinar hér á eftir. Eins og við er að búast beygjast þær allar eftir veikri beygingu og fá endinguna -aði í þátíð með einni undantekningu, skræla - skrældi.

Varla er hægt lengur að telja sögnina að plokka aðskotaorð. Næg dæmi eru um hana í söfnum Orðabókar Háskólans allt frá miðri 16. öld. Svipað er að segja um hakka sem dæmi eru um frá því um 1750.
Hakkaðu í þinn hola skrokk,

hringnefjuð kerling, feitar krásir
sagði Páll lögmaður Vídalín í Vísnakveri sínu í upphafi 18. aldar.

Sögnin kokka er enn ein af þessum gömlu sögnum.
Manga hrærer veffina vid

og vellter steinum

elldinn nærer kockar kid,

med kjote og beinum
orti Bjarni Gissurarson í lok 17. aldar eða í upphafi hinnar 18.

Pússa er sömuleiðis 18. aldar sögn í málinu. Jón Árnason biskup notaði hana t.d. sem þýðingu í orðabók sinni frá 1738: ,,Mangonizo [ [...]] eg nya upp, pussa upp hlutena til ad setia þa ut aptur med meira verde.“ Allar sagnirnar fjórar finnast í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 18. öld.

Sögnin speða er hins vegar ung og lítið notuð. Hún er fengin að láni úr dönsku spæde ‘þynna út (t.d. súpu með vatni)’. Við fyrirspurn minni fengust aðeins þrjú dæmi frá Akureyri og Ísafirði.

Sögnin skræla í þeirri merkingu sem Guðmundur Finnbogason á við, þ.e. ‘flysja, afhýða’, er tiltölulega ung. Elstu dæmi um að skræla egg eða kartöflur eru frá lokum 19. aldar. Sögnin er afar vel þekkt um allt land og sömuleiðis hliðarmyndin skrælla með [-ll-] framburði og nafnorðin skræl og skrælingur. Að baki liggur danska sögnin skrælle og nafnorðið skræling.

Polegg er lítið notað nú til dags en var vel þekkt í Reykjavík um miðja 20. öld. Það er þó eldra þar sem Orðanefnd verkfræðingafélagsins valdi að taka það upp í kver sitt en skrifar orðið reyndar paalæg með tveimur a-um eins og í dönsku og leggja til í staðinn orðið viðmeti. Guðmundur Finnbogason kaus að skrifa nær íslensku.

Medisterpylsan var komin á borð bæjarbúa í lok 19. aldar ef marka má auglýsingar í Fjallkonunni og Kvennablaðinu. Hún virðist hafa verið reykt og því ólík þeirri sem ég þekki og er seld löng og mjó, stundum vafin upp í hring, og soðin. Þannig er medisterpølse einnig lýst í Nudansk ordbog. Að vísu er hægt að fá reykta, soðna medisterpylsu og lítur hún alltöðruvísi út. Orðið í dönsku er ummyndað tökuorð úr lágþýsku, þ.e. med+ister í lágþýsku metworst (háþýska Mettwurst). Met merkir ‘svínakjöt’ og worst ‘pylsa’. Ister í danska orðinu er mállýskuorð, notað er um innyflafitu svína.

Karbonaði hefur þótt svo danskt orð að engin dæmi eru um það í söfnum Orðabókar Háskólans. Það er hins vegar vel þekkt víða um land um bollur úr hakki sem velt er upp úr raspi og þær steiktar. Orðið er hvorugkyns í íslensku en samkyns í dönsku. Í dönsku er það tökuorð úr frönsku carbonnade.

Plokkfiskur er gamalt orð í málinu og vel þekkt frá því snemma á 18. öld. Jón Ólafsson úr Grunnavík þekkti það, sama er að segja um Jón Árnason biskup og. Marta María Stephensen kenndi heldri húsfreyjum að búa til plokkfisk í matreiðslubók sinni. Danir búa til plukfisk eins og við úr afgöngum af soðnum fiski.

Ekki má gleyma þvottahúsinu. Það kom mér á óvart að Guðmundur skyldi ekki kalla það vaskhús eða vaskahús því að það er það orð sem ég ólst upp við og var mjög algengt á þeim árum. Þar var tauið þvegið, glattað, rullað, stífað og straujað. Orðið tau, úr dönsku tøj, hefur verið notað um klæði eða vefnaðarvöru allt frá 17. öld en um merkinguna ‘þvottur’ fann ég ekki örugg dæmi fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Viðmælendur mínir þekktu vel og nota margir báðar merkingarnar. Þó voru fleiri sem töluðu um gott tau í karlmannsfötum, gott tau á húsgögnum og þess háttar heldur en um þvottinn. Sagnirnar allar eru sprelllifandi.

Einu dæmin um glatta hjá Orðabókinni voru frá Guðmundi en margar konur höfðu samband við mig og sögðust tala um að glatta yfir eitthvað þegar rétt er strokið þvott yfir með hendi eða straubolta. Danska sögnin glatte er notuð alveg í sömu merkingu.

Lengi hefur verið rullað. Í Lærdómslistafélagsritunum stendur t.d. ,,Þegar léreptin eru nú þurr vordin, rullast þau eda keblast, svo slettara fari á þeim.“ Og þeir sem eiga rullur rulla enn og það gera Danir líka, þeir nota rulle og nota gjarnan til þess håndrulle. Sögnin að stífa um þvott þekkist a.m.k. frá því upp úr miðri 19. öld eftir dæmum Orðabókarinnar en sjálfsagt er hún eldri. Þeir Lærdómslistafélagsmenn kynntu a.m.k. stífelsið í riti sínu í lok 18. aldar. Straujað hefur verið hér á landi a.m.k. frá því um 1900 en sögnin er að sjálfsögðu fengin að láni úr dönsku strøje.

Þar sem heimasætur vilja yfirleitt ekki láta líta inn í herbergi sín sleppi ég heimasætunni á fyrirmyndarheimilinu við að fá forvitna gesti í heimsókn en orðin hans Guðmundar finnið þið á úthendunni. Ég saknaði ýmissa orða úr mínu æskumáli en auðvitað var aldrei ætlun Guðmundar að hafa allt með. Þegar ég var ung klifraði ég yfir stakketin í hverfinu, lék mér á fortófinu framan við húsið eða á altaninu í góðu veðri, og þegar ég var forkeluð eða fonnemuð við foreldra mína sat ég oft í karnapnum hjá afa og ömmu á neðri hæðinni og fékk útlenskar karamellur. En nú er mál að linni.

Af því sem nú hefur verið dregið fram sést að orðunum hjá Guðmundi Finnbogasyni má skipta í tvo flokka: orð, sem vegna aldurs höfðu unnið sér þegnrétt í málinu 1928, og orð, sem ný voru á hans dögum og ástæða var ef til vill þá til að amast við. Nú eru liðin rúm sjötíu ár frá því Guðmundur skrifaði grein sína og hafa sum dönsku orðin horfið, önnur lifa góðu lífi víða um land. Mörg þeirra hverfa líklega með tveimur til þremur elstu kynslóðunum en þau sem lifa hafa sömuleiðis unnið sér þegnrétt, hafi þau á annað borð lagað sig að hljóð- og beygingakerfi málsins. Ég tel mikilvægt fyrir málsöguna að þessum orðum sé haldið til haga og þeim safnað áður en þau gleymast alveg. Ég hef tímans vegna haldið mig við einstök orð en auðvitað þarf að huga að orðasamböndum, eins og þeim sem komu fram í lista Halldórs, og alls kyns orðatiltækjum sem og verkháttum ýmiss konar. Margt hefur að sjálfsögðu tínst til í talmálssafn Orðabókarinnar en betur má ef duga skal.

Helstu heimildir
  • Guðmundur Finnbogason (1928) “Hreint mál”, Skírnir, 102: 145-155.
  • Halldór Kiljan Laxness (1939) “Ill danska”, Tímarit máls og menningar, 33-35.
  • Halldór Kiljan Laxness (1941) “Málið”, Tímarit máls og menningar, 109-130. (Greinin er endurprentuð í Vettvángi dagsins).
  • [Hallgrímur Pétursson.] Nokkur ljóðmæli eptir Hallgrím Pjetursson, Reykjavík 1885.
  • Höskuldur Þráinsson (2000) “Um áhrif dönsku á íslensku og færeysku”, Frændafundur, 3:115-130. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
  • [Jón Rúgmann.] Jonas Rugmans samling av isländska talesätt ... utgiven av Gottfrid Kallstenius, Uppsölum 1927-28.
  • Kristján Albertsson (1939) “Þróun íslenzkunnar”, Skírnir 113: 35-45. Ordbog over det danske sprog.
  • Orð úr viðskiptamáli eftir Orðanefnd Verkfræðingafjelagsins (Sjerprentun úr Lesbók Morgunblaðsins 3. október 1926), Reykjavík 1927.
  • Orðasöfn Orðabókar Háskólans.

Kaflinn um kastarholu birtist að mestu í afmælisriti til Þorbjargar Helgadóttur orðabókarritstjóra í Kaupmannahöfn sem gefið var út í einu eintaki 2001.

Flestar heimildir sem vitnað er til eru fengnar úr gagnasafni Orðabókar Háskólans.

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

22.3.2002

Spyrjandi

Ritstjórn

Efnisorð

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Auðnæm er ill danska.“ Vísindavefurinn, 22. mars 2002, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70762.

Guðrún Kvaran. (2002, 22. mars). Auðnæm er ill danska. Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70762

Guðrún Kvaran. „Auðnæm er ill danska.“ Vísindavefurinn. 22. mar. 2002. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70762>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Auðnæm er ill danska
Inngangur

Lengi hefur tíðkast að amast við dönskum áhrifum á íslensku og lengur en marga grunar. Ýmsir muna líklega eftir ummælum Arngríms lærða í Crymogæu frá 1609 þar sem hann segir (í þýðingu Jakobs Benediktssonar):
Til þess að varðveita hreinleik hennar [þ.e. tungunnar] getum vér einkum stuðst við tvö atriði: annarsvegar handritin sem varðveita fornan hreinleika tungunnar og glæsilegan stíl, hins vegar lítil samskipti við útlendinga. En ég vildi að landar mínir nú á dögum bættu við hinu þriðja, það er að þeir öpuðu ekki eftir Dönum eða Þjóðverjum í ræðu og riti, heldur leituðu sér fyrirmynda í auðlegð og snilld móðurmáls síns, sem á nóg af henni, og beittu til þess vitsmunum og lærdómi; þá yrði minni hætta á breytingum tungunnar framvegis; en að öðrum kosti mundi ekki þurfa samskipti við útlendinga til þess að spilla tungunni.
Um miðja 17. öld safnaði Jón Rúgmann saman íslenskum málsháttum og meðal þeirra er ,,öd næm er ill danska“. Litlu eldri er heimild úr ljóðum eignuðum Hallgrími Péturssyni þar sem ort er: ,,Illa danskan auðnæm er.“ Síðar verður algengara að nota málsháttinn í myndinni ,,auðlærð er ill danska.“ Það er einmitt danskan, eða réttara sagt dönsku tökuorðin, sem verður umræðuefni mitt í dag. Ég fór að velta því fyrir mér síðla sumars er leið hvort ekki ætti að líta á dönsku tökuorðin, sem voru á hvers manns vörum þegar ég var að alast upp hér í Reykjavík en eru nú óðum að týna tölunni, sem eins konar málminjar sem þyrfti að skrá eins og fornminjar. Margt er auðvitað að finna í söfnum Orðabókar Háskólans, en það kom mér samt á óvart hversu margt vantaði og virtist ekki hafa komist á bækur.

Guðmundur Finnbogason

Í leit minni að dæmum fór ég að taka eftir því að tvö dæmi voru til um sum þeirra orða sem ég leitaði að og voru bæði úr sömu grein Guðmundar Finnbogasonar. Eldra dæmið var skráð úr Skírni frá 1928, hið yngra úr bókinni Huganir með safni áður birtra greina eftir Guðmund. Þar er talinn upp fjölda orða, sem notuð voru á myndarlegu reykvísku heimili í byrjun aldarinnar. Eftir að hafa birt orðalistann skrifar Guðmundur:
Hver óspilltur Íslendingur, sem þetta les, finnur undir eins, að það er ekki hrein íslenzka, heldur argvítugasta hrognamál, og hann finnur það einmitt þess vegna, að málið í heild sinni er ennþá hreint, svo að þessar og aðrar slíkar útlendar slettur stinga í stúf og særa jafnt auga sem eyra. Sannleikurinn er sá, að lifnaðarhættir þjóðarinnar hafa breytzt stórkostlega í öllum greinum síðustu áratugi. Fjöldi nýrra efna og áhalda til fæðis, klæða, húsa og iðnaðar hefir steymt inn til þjóðarinnar, fjöldi hluta, sem hún átti engin nöfn yfir. Menn hafa ekki verið viðbúnir að finna öllu þessu góð og gild íslenzk heiti jafnóðum og það kom, og þessvegna hafa hálfútlendu orðskrípin læðzt inn í daglegt mál og auglýsingar. En nú er þetta mjög að breytast. Menn eru að vakna til skilnings á því, að útlendu sletturnar eru ekki samboðnar íslenzkunni, og alþýða manna tekur fúslega við hverju góðu orði, sem myndað er í stað orðskrípanna. Má því vel svo fara, að sletturnar verði horfnar eftir fáein ár.
Og aðeins síðar heldur hann áfram:
Útlendu orðin eru hægindi hugsunarletinnar. Þau standa boðin og búin til að fylla í eyðurnar, þegar andinn dottar. Sé leyft að sletta útlendum orðum, þá þarf enginn að ætla, að það verði ekki gjört nema þar sem íslenzk orð eru ekki til. Það verður gjört hvenær sem rithöfundurinn þarf eitthvað að hafa fyrir því að rifja upp íslenzk orð, þó nóg sé af þeim.
Þetta var maður sem þorði að segja hvað honum fannst.

Einhvern veginn þóttist ég viss um að Guðmundur hefði ekki reynst sannspár þegar hann lét sig dreyma um að orðskrípin yrðu horfin eftir nokkur ár en vegna þess hve dæmi okkar á Orðabókinni voru fá ákvað ég að leita til heimildarmanna okkar um frekari vitneskju. Þar kom ég ekki að tómum kofanum fremur en fyrri daginn. Ég ætla þó ekki að tala um þessi orð alveg strax heldur fjalla lítillega fyrst um viðhorf fleiri manna til dönsku og annarrar útlensku um það leyti sem Guðmundur skrifaði grein sína sem hann nefndi reyndar ,,Hreint mál“.

Kristján Albertsson og Halldór Laxness

Tvær greinar um þetta efni birtust árið 1939, önnur eftir Kristján Albertsson en hin eftir Halldór Laxness. Grein Kristjáns nefndist ,,Þróun íslenzkunnar“ og birtist í Skírni. Kristján vildi vera maður nýrra tíma og opinn fyrir breytingum, þar á meðal nýjum tökuorðum. Hann segir m.a.
Höfundar hins nýja tíma krefjast þess, að mega láta hugsun sína alla í ljós, með þeirri nákvæmni og þeim styrkleik, sem ritmenning tímans heimtar, og án þess að hún verði fyrir það fátæklegri og svipminni, að þeim sé meinað að rita þau orð, sem ein fá skilað henni óskertri, eðlilegri og lifandi yfir í huga annarra manna.
Hann var þó ekki opnari en svo að hann hafði áhyggjur af málinu í Reykjavík, rétt eins og Guðmundur.
Málið, sem talað er í Reykjavík er sérstakt viðfangsefni, sem ekki skal frekar rætt að þessu sinni. En öllum má vera ljóst, hvað af því myndi leiða ef fremstu rithöfundar veittu allt í einu flóði af útlendum orðum inn í ritmálið. ... Sá höfundur, sem lengst fer í notkun erlendra orða, er Þórbergur Þórðarson. Í bók hans um för sína til Rússlands er m.a. þessi orð að finna:: konfirmraður, dúmmheðer, keisarabílæti, skilerí, nervös (því ekki nervus, eins og sagt er á Íslandi?), diplómatískur, kaffiselskap, hysterískur, blaseraður, tatóveraður, sálararistokrat, stúdíó, slurkur, gullgallóneraður, að útþrykkja, mórall, móralskur, huggulegur, óhuggulegur, bomba, marséra, að fýra af skoti, slúður, trannsportéra, lifibrauð, agitatórískur, júblandi, þvers og kruss, seremóníur, skopfígúra, að dumpa inn í eitthvað, bugta sig og beygja, húmorlaus, teoríur, kapítal, balkon, músikantar.
Ég er nokkuð viss um að flest þessara orða heyrast í máli manna enn í dag. Kristján vildi þó reyna að bera blak af Þórbergi og segir:
Nú ber þess að gæta, að Þórbergur skrifar mjög sérkennilegan og persónulegan stíl. Það má ekki taka öllum þessum slettum sem fúlustu alvöru, því að dönskunni ætlar hann oft það sérstaka hlutverk, að bregða skoplegum blæ yfir það, sem hann segir. Engu að síður dylst manni ekki, að hér er hurðinni lokið upp á gátt fyrir aðstreymi útlendra orða inn í íslenzkuna. Og höfðingjarnir hvað hafast að, hinir ætla sér leyfist það.
Grein Halldórs, sem nefndist “Ill danska”, var á allt öðrum nótum. Hann fann að því hvernig dönskukunnáttu þjóðarinnar væri komið og hversu miklu meira bæri á dönskuslettum í rituðu máli en áður, ,,síðan menn slettu dönsku af fordild á 18. öld.“ Hann skrifaði:
Fáum er hættara við dönskuskotnu máli en þeim Íslendingum, sem litla eða enga dönsku kunna. ... Fáir virðast eins grunlausir um þau víti, sem ber að varast og hinir einkennilega ómenntuðu ritarar dagblaðanna nú á tímum, í ritsmíðum þeirra úir og grúir af danskkynjuðum málleysum ...
Síðan birti hann ,,nokkur sýnishorn af dönskuþrugli” sem hann hafði veitt athygli í Reykjavíkurblöðunum. Í þessum lista er margt að finna sem lifir góðu lífi enn í dag. Ég ætla ekki að lesa upp öll dæmin, aðeins fáein þau fyrstu:
  • finna út úr einhverju (finde ud af noget)
  • ekki nóg med það (ikke nok med det)
  • slá e-u föstu (fastslaa; illskárra væri að segja á íslenzku: slá e-ð fast)
  • ganga út frá einhverju (gaa ud fra)
  • ganga inn á eitthvað (gaa ind paa)
  • það gengur út á (det gaar ud paa)
  • reikna með einhverju (regne med)
  • vera mættur, voru mættir (var mödt)
  • bera sig að (bære sig ad)
Tveimur árum síðar skrifaði Halldór grein í Tímarit Máls og menningar undir heitinu “Málið”. Tilefni greinarinnar eru aðfinnslur sem hann hafði orðið fyrir í Morgunblaðinu um orðaval, stafsetningu og fleira og lesendabréf til Tímaritsins. Í bréfinu er fundið að því að Halldór noti t.d. orðin Amrika, spásséra og sosum og ýmis önnur “orðskrípi” eins og þau eru nefnd í bréfinu. Í svarinu finnur hann ekki lengur að dönskuslettum eins og í fyrri greininni heldur skrifar:
Sé byrjað að skifta málinu í orð og orðskrípi, leggja á orð einhverskonar siðferðislega dóma, lenda menn fljótt í ófærum. Annaðhvort er orðið rétt eða rángt valið þar sem það stendur og um það er ekki annað úrskurðarvald en háttvísi hins góða rithöfundar.

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað. Það eru aðeins til rithöfundar misjafnlega háttvísir í orðavali. Beri orð í sér hinn rétta lit, sem til þarf að fullkomna geðblæ setningar í skáldriti - ef það er eina orðið sem fær léð greininni þennan blæ að hundrað hundruðustu, þá er það hið eina rétta orð - jafnvel þótt það heiti tildragelsi, pípí eða bumbulpe sem Þórbergur notar á sérstökum stöðum.
Nokkur dönsk tökuorð

Ég hef nú rakið skoðanir þriggja andans manna frá því fyrir miðja 20. öld. En nú er tími til kominn til að huga aftur að Guðmundi Finnbogasyni og fyrirmyndarheimilinu. Ekki er viðlit að fjalla um öll orðin en þið getið sjálf dundað ykkur við að skoða þau sem ég hef ekki tíma til að ræða um. Höskuldur Þráinsson notaði sum orðin úr grein Guðmundar í umfjöllun sinni um áhrif dönsku á færeysku og íslensku og vík ég að henni þar sem ástæða er til. Rétt er að nefna að árið 1927 kom út lítið kver, Orð úr viðskiptamáli eftir Orðanefnd Verkfræðingafjelagsins. Það var sjerprentun úr Lesbók Morgunblaðsins frá 3. október árinu áður. Orðanefndinni þótti ekki vanþörf á að íslenska allan þann fjölda orða úr dönsku sem voru á sveimi í þjóðfélaginu, þar á meðal ýmis af þeim sem Guðmundur nefndi. Ekki fæ ég séð að margar af þeim tillögum hafi náð að festa rætur en ég kem að nokkrum þeirra á eftir.

Annað kver var gefið út í sama tilgangi 1914. Það heitir Leiðréttingar nokkurra mállýta og er eftir Jón Jónasson skólastjóra í Hafnarfirði. Langflest orðanna, sem leiðrétt eru, teljast dönsk og allmörg þeirra eru í upptalningu Guðmundar.

Fyrst leiðir Guðmundur okkur inn í stássstofuna á heimilinu. Hann skáletrar aðeins fyrri hluta orðsins stássstofa og virðist því ekki líta á samsetta orðið sem lán í heild. Það er þó örugglega rangt þar sem Danir eiga sína stadsstue. Orðabókin á dæmi um stássstofu frá 18. öld en þá notar Jón Ólafsson úr Grunnavík orðið í þýðingu sinni á Nikulási Klím eftir Holberg. Stáss er enn eldra í málinu eða a.m.k. frá 17. öld.

Gardínurnar, fíleraðar og bróderaðar, hanga fyrir gluggum. Sögnin að fílera er dönsk að uppruna sem og aðferðin sem kölluð er á íslensku og dönsku fílerí. Fílerað er með sérstakri nál sem klofin er í báða enda. Margar konur kunna enn að fílera þótt ekki sé sú handavinna jafn mikið í tísku og á síðustu öld. Lengi hafa konur bróderað, að minnsta kosti bróderaði húsfreyjan á Bessastöðum 1810 og bróderaður kaleiks klutur af hvitu kartune, slitenn, var skráður í biskupsskjalasafni 1779. Gardínur hafa hangið uppi a.m.k. frá því um miðja 18. öld. Orðið er vel lifandi og nú fyrir síðustu jól heyrði ég auglýstar bróderaðar jólagardínur.

Mubla er þekkt um allt land, og eru elstu dæmi í ritmálssafni frá því um aldamótin 1900. Flest eru þau skrifuð með einu -b-i, aðeins Halldór Laxness notaði stundum mubblur í eldri bókum sínum. Í Kristnihaldinu skrifar hann þó mufla með -f-i. Í auglýsingum í blöðum rétt fyrir aldamótin 1900 ber á orðmyndum með -ö-i: Í blaðinu Ísafold var t.d. þessi auglýsing 1893: ,,Herbergi, með og án möbla, fæst til leigu.“, og í Fjallkonunni sama ár er þessi auglýsing: ,,Stofuherbergi í miðjum bænum, möblerað, fæst til leigu.“ Orðanefnd verkfræðingafélagsins hefur þekkt myndir með -ö-i því að lagt er til að möblubankari verði nefndur lemill og möblutau kallað sesstau. Engin tillaga var um að íslenska möblu. Myndin mubla er nær danska framburðinum á møbel og hefur því orðið ofan á. Møbel í dönsku er tökuorð úr frönsku meuble ‘húsgagn’, en að baki liggur hvorugkyn latneska lýsingarorðsins môbilis, þ.e. môbile ‘hreyfanlegt’.

Um sófann með einu -f-i á Orðabókin dæmi frá því í lok 17. aldar en með tveimur -ff-um frá lokum þeirrar 19. Plussið er enn eldra en sófinn eða frá því á 17. öld, tekið að láni úr dönsku plys og plussklæddur samsvarar dönsku plysbeklædt.

Lenustóll er vel þekkt húsgagn, en allir viðmælendur mínir notuðu lenistóll með -i-i, og virðist orðið notað talsvert um allt land. Það kemst þó ekki á lista hjá Höskuldi, aðeins hægindastóll og djúpur stóll. Tveir heimildarmenn úr Reykjavík á miðjum aldri höfðu vanist því í bernsku að betri stofan, þar sem lenistólarnir stóðu, væri kölluð lenistofa. Orðið lenistóll er sótt til dönsku lænestol.

Skammel á Orðabókin dæmi um a.m.k. frá miðri 18. öld. Það er talið tökuorð úr dönsku skammel og er notað um lágt sæti eða skemil. Skemill er aftur á móti tökuorð úr miðlágþýsku schemel en ekki íslenskun á hinu danskættaða skammeli eins og sumir halda.

Etasjer þekkja margir, en flestir í myndunum ediser, edisjer eða ediseri. Þetta er hornhilla, oft með mörgum hillum í, og stundum með renndum stautum undir þær að framanverðu. Orðið er fengið að láni úr dönsku etagere sem aftur fékk það að láni úr frönsku étagère. Að baki liggur orðið etage, sem oftast er notað um hæð í húsi, þ.e. margar hæðir voru í húsgagninu. Nokkrir viðmælendur mínir nefndu að oft hefði áður fyrr verið talað um tasíur í húsum en það heyrðist ekki lengur. Þetta orð minnti mig á annað orð, sem ég heyrði oft í bernsku, en það var tasíuþvottur. Það var lagað eftir danska orðinu etagevask og var notað um að þvo líkamann við vask eða vaskafat hluta og hluta í senn. Þegar ég nefndi það í útvarpsþættinum reyndust margir þekkja það og er orðið ekki svæðisbundið. Talað er t.d. um að þvo þurfi efri eða neðri tasíuna á barni.

Tasíudisk þekkja einnig margir, en þar er átt við smákökudiska, tvo til þrjá, sem festir eru saman með staut, þannig að þeir mynda tvær til þrjár hæðir.

Sjiffoniera kannast ýmsir við en flestir þó í myndinni siffoner eða siffoneri. Viðmælendur mínir sögðu að siffonerinn væri há kommóða með mörgum skúffum. Danska orðið chiffonniere er fengið að láni úr frönsku chiffonnière, en það er aftur leitt af chiffon sem margir kannast við um efni t.d. í kjóla eða blússur. Halldór Laxness notar frönsku myndina í Brekkukotsannál og sagði: ,,mubblurnar hétu á frönsku chiffonnier, buffet, canapé” og er það eina dæmið í söfnum Orðabókar Háskólans.

Portiera þekkja allmargir en myndin porterar er mun algengari. Þeir héngu og hanga sums staðar enn í dyragætt milli stofu og borðstofu eða stofu og svefnherbergis. Flestum ber saman um að þeir hafi verið úr þykku efni, oft með breiðum bekk að neðan. Ef notað var annars konar þynnra efni var aðeins talað um tjöld. Danska orðið portiere er fengið að láni úr frönsku en franska orðið er aftur leitt af orðinu porte sem merkir ‘dyr’.

Nú erum við leidd í næsta verelsi en um verelsi eru elst dæmi hjá Orðabókinni frá því á síðari hluta 18. aldar og til loka hinnar 20. Yngstu dæmin eru öll úr skálsögum sem gerast eiga fyrr á öldinni þannig að þau eru ekki marktæk um nútíma notkun. Ég hygg þó að orðið sé horfið úr mæltu máli, a.m.k. könnuðust viðmælendur mínir ekki við að það væri notað.

Borðstofan er klædd með panel að neðan en betrekki að ofan. Um panel á Orðabókin dæmi allt frá miðri 17. öld og eru elstu myndir með -i-, þ.e. panil. Betrekkið er talsvert yngra eða frá miðri 19. öld. Bæði orðin lifa góðu lífi enn í dag.

Buffet er eitt þeirra orða, sem komið er inn í málið úr frönsku í gegnum dönsku sem millimál. Það er mjög vel þekkt um allt land sem borðstofuhúsgagn með skápum og skúffum. Margir viðmælenda minna notuðu þó frekar myndina buff. Buffet er hvorugkyns í íslensku, þ.e. buffetið, en í dönsku er það samkyns, buffeten. Það er fengið að láni í dönsku úr frönsku buffet. Orðanefnd verkfræðingafélagsins vildi nota orðið hlaðborð í stað buffet, en það orð á engan veginn við húsgagnið sem hér um ræðir.

Plattmanasía er lítill hlutur sem fáir þekkja nú til dags. Við fyrirspurn minni bárust þó nokkrar heimildir og er hluturinn ýmist nefndur plattmanasía, plettmanasía, plettasía, plattesía eða upp á dönsku platmenage. Einn bréfritari lýsti honum svona: ,,platmanage var stativ eða smábakki með stauti í miðju (til að halda í) en á bakkanum var sinnep, edik og olía.“ Þetta orð tóku Danir að láni úr þýsku. Fyrri liðurinn platt- merkir þar ‘flatur’, en síðari liðurinn -menage er notað um ýmiss konar bakka. Aðlögun orðsins í íslensku felst í því að breyta endingunni -age [-sje] í -sía. Hliðstæð breyting hefur átt sér stað í orðunum passíuhár úr page hår, og í orðunum bolsía úr dönsku bolche, galossía úr dönsku galoche, gammosía úr gamache og tasía úr etage.

Anretterborð segir Guðmundur Finnbogason að hafi verið í borðstofunni á myndarheimilinu. Það reyndist eina heimildin í ritmálssafni en í auglýsingu í Ísafold 1904 er auglýst anretningsborð. Viðmælendur mínir þekktu margir húsgagnið vel en nafnið á því einungis sem anrettuborð. Þetta húsgagn fylgdi mjög oft borðstofuhúsgögnum og var notað m.a. til að leggja matarfötin á áður en sest var að borðum. Í því voru oft skúffur undir borðbúnað og skápar fyrir föt, skálar og þess háttar. Í sumum húsum í Reykjavík og á Akureyri voru sérstök anrettuherbergi milli eldhúss og borðstofu. Þangað var maturinn borinn úr eldhúsinu áður en máltíð hófst. Danska myndin er anretterbord og þar þekkist líka anretterværelse. Að baki liggur sögnin anrette í merkingunni ‘leggja mat snyrtilega á fat’ sem fengin er að láni úr þýsku anrichten í sömu merkingu.

Næst förum við inn í eldhúsið eða kokkhúsið. Þar nefnir Guðmundur Finnbogason allmörg orð yfir hluti sem hann telur dönsk, þar á meðal kastarholu, dörslag og eggjapískara, sigti, propptrekkjara, viskustykki, karklút, uppvöskunarbursta, skrúbb, kúst og fægiskúffu. Hann nefnir einnig ýmsar matartegundir og aðferðir við matargerð.

Kastar(h)ola er til í ýmsum myndum í söfnum Orðabókar Háskólans. Elsta heimild sýnir myndina kastaróla. Það er úr hinni ágætu matreiðslubók Mörtu Maríu Stephensen, Einfaldt Matreidslu Vasa-Qver fyrir heldri manna Húss-freyjur, sem gefin var út í Leirárgörðum árið 1800. Næst skýtur orðinu upp í matreiðslubók Þóru A.N. Jónsdóttur frá 1858 og þá í myndinni kastarola sem ég hygg að mér sé óhætt að fullyrða að verið hafi býsna algeng í Reykjavík allt fram undir þennan dag þótt önnur dæmi finnist ekki í söfnum Orðabókar Háskólans. Litlu yngri í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er myndin kastarhola sem elst dæmi er um í auglýsingu í Fjallkonunni frá 1897. Sú mynd virðist hafa lifað best á prenti en einnig í munni fólks. Fyrir hálfum öðrum áratug var spurt í útvarpsþættinum hvort menn þekktu styttinguna rola eða rolla fyrir kastarola, sem fáeinir gerðu, þótt kastarhola væri í bréfunum skrifuð með h-i. Einn heimildarmanna tók reyndar fram að í framburði hyrfi oft h-hljóðið þannig að kastarhola hefði orðið kastarola eða kastarolla. Einnig þekktust styttingarnar hola og kassa.

Kastarhola er merkt í orðabók Blöndals með ? og sömuleiðis hvorugkynsmyndin kastarhol sem engin dæmi eru til um í söfnum Orðabókar Háskólans. Þar er framburður sýndur bæði með h og án þannig að þeir sem að bókinni unnu hafa þekkt báðar framburðarmyndirnar. Ekki er sýndur framburður með [-dl-] en hann þekki ég vel þótt algengara hafi verið að heyra [-ll-]. Orðin kastar(h)ola og kastar(h)ol eru einnig merkt með ? í orðabók Árna Böðvarssonar frá 1983 til merkis um að þau séu ,,vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku“ (xiv). Tvö dæmi voru um kasterollu í talmálssafni Orðabókar Háskólans, annað frá Ólafsfirði, hitt úr Fellahreppi.

En t-lausar myndir er einnig að finna. Kasserolla fer að birtast í auglýsingum seint á 19. öld bæði í Þjóðólfi og Ísafold og orðið kemur einnig fyrir í Mönnum og listum eftir Indriða Einarsson sem bendir til að það hafi verið sú mynd sem hann notaði. Indriði segir: ,,Þeir lærisveinar Sveinbjarnar Egilssonar mega eiga það, að þeir gerðu sitt til að íslenzka bæinn, og skírðu með íslenzkum nöfnum kasserollur og komfýrur, sem þjónustukonur í bænum voru seinar að læra“. Myndin kassarolla kemur fyrir í Fjallkonunni í auglýsingu 1895 og síðan í matreiðslubók Matthíasar Ólafssonar frá 1916. Yngri dæmi hafa ekki fundist.

Tvær samsetningar hafa orðið nokkuð lífseigar í íslensku. Önnur er kastarholuklipping en hin kastarholubúskapur. Hin fyrri er notuð um að klippa hár þvert fyrir að neðan allt í kring, bæði í hnakka og vöngum en hin síðari er notuð um einfalda og fátæklega matreiðslu og lélegan búskap.

Í upphafi þessarar samantektar var þess getið að kastarola væri tökuorð úr dönsku. Í Nudansk ordbog er flettumyndin kasserolle sem sögð er fengin úr frönsku casserole. Franska orðið er talið afleiðsla af casse ‘málmpottur, málmskál’. Þessi danska mynd skýrir t-lausu myndirnar íslensku kasserolla og kassarolla. En hún skýrir ekki þær með t-i. Sú skýring hefur oft heyrst að þær séu orðnar til í munni fólks sem einhvers konar skýringartilgátur. Rétt er að huga betur að því. Ef litið er í Ordbog over det danske sprog er þar einnig að finna flettumyndina kasserolle og þar undir kasserol og kastrol(le), en aftar flettumyndina kasterolle með tilvísun til kasserolle. Fram kemur að í þýsku eru til bæði Kasserolle og Kastroll og í frönskum mállýskum castrole. Orðabók Feilbergs (II:102) gefur upp flettumyndina kasserolle í orðabók sinni um jóskt alþýðumál og virðist eingöngu hafa dæmi um framburðarmyndir með t-i.

Í orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar eru gefnar þrjár myndir kastar(h)ol, kastarhola og kastarola sem taldar eru tökuorð úr dönsku kasserolle. Af þeim dæmum sem dregin hafa verið fram sýnist mér að tvær danskar myndir liggi að baki íslensku orðmyndunum. Annars vegar kasserolle og hins vegar kasterolle, en báðar voru lifandi í dönsku máli um það leyti sem orðin voru fengin að láni í íslensku. Dæmin með h-i, -hol, -hola, eru síðan tilraun til að skýra síðari liðinn.

Dörslag er vel þekkt orð og allmargar heimildir fengust við fyrirspurnum mínum, mismunandi þó. Sumir nefndu hlutinn dörslag, aðrir dorslag, enn aðrir doslag, duslag eða döslag án -r og einn skrifaði um dusslag með tveimur -s-um. Dörslag er eins konar sigti, en öllum bar saman um að átt væri við emalerað sigti, en ekki vírsigtin sem nú eru helst notuð. Dörslag er þekkt um allt land, m.a. í Mývatnssveit, að minnsta kosti meðal þess fólks sem telst miðaldra eða eldra. Höskuldur Þráinsson virðist ekki þekkja það en nefnir sigti sem ,,venjulega íslensku 1998“. Í ritmálssafni Orðabókarinnar fundust aðeins þrjú dæmi um dörslag og var hið elsta þeirra úr matreiðslubók Mörtu Maríu Stephensen. Athyglisvert við það dæmi er að auk danska tökuorðsins er notað íslenska orðið sáld sem Orðabókin á elst dæmi um úr Guðbrandsbiblíu frá 1584, en það þekkist einnig vel í fornu máli. Í matreiðslubókinni stendur: ,,er þetta mauk síad ígégnum dørslag edur sáld.“ Danska orðið er fengið að láni úr lágþýsku dorchslach. Það orð er sett saman úr forsetningunni dorch sem merkir ‘í gegnum’, í háþýsku durch, og nafnorðinu slach, í háþýsku Schlag, sem leitt er af sögninni slagen s.s. ‘slá’. Það sem sett er í dörslag er þá slegið í gegn.

Í seðlasöfnum Orðabókar Háskólans eru tvö dæmi til um eggjapískara, bæði frá Guðmundi Finnbogasyni, en ekkert um pískara. Pískarinn er þó vel þekktur í eldhúsum sem og sögnin að píska í merkingunni ‘þeyta’. Um sögnina í þessari merkingu á Orðabók Háskólans dæmi frá því snemma á 20. öld þar sem talað var um að píska stangasápu út í volgt vatn. Sögnin er merkt með ? í ÁB og er merkingin sögð vera: 1. ‘spýtast, buna’, 2. ‘lemja með svipu’, 3. ‘þeyta’. Hún er sömuleiðis merkt með ? í Bl en þar er aðeins nefnd fyrsta merkingin. Þetta kemur svolítið á óvart þar sem merkingin ‘lemja með svipu’ er vel þekkt í söfnum Orðabókar Háskólans frá því um miðja 18. öld sem og nafnorðið pískur. Í ritmálssafni er ekkert dæmi um merkinguna ‘spýtast, buna’, t.d. um rigningu, en í talmálssafni eru nokkur dæmi um hana og virðist hún ekki staðbundin.

Bæði sögnin píska og nafnorðið pískari eru fengin að láni úr dönsku. Í Ordbog over det danske sprog eru nefnd orðin pisker, flødepisker og sølvpisker, en sá síðastnefndi var notaður til þess að hræra í viskýblöndu til þess að sótavatnið blandaðist betur. Dæmi um piske í merkingunni að ‘þeyta’ eru kunn a.m.k. frá því í lok 18. aldar. Samkvæmt Nudansk ordbog virðist pisker ekki lengur notað, en þess í stað er talað um piskeris. Höskuldur þekkir (ægge)pisker úr dönsku og er eins líklegt að það lifi í munni manna þótt orðabókin hafi talið það úrelt eða lítt notað.

Sigti er gamalt í málinu og eru dæmi um það í ritmálssafni frá síðari hluta 19. aldar. Sögnin sigta í merkingunni ‘sía, sálda’ er enn eldri. Um hana á Orðabók Háskólans dæmi frá 16. öld. ,,Þegar menn sigta / so blijfa Oklaarendin epter i Saalldenu“ segir í Síraksbók (27.5) í þýðingu Gissurar Einarssonar sem birt er í Guðbrandsbiblíu 1584. Aðeins eldra, eða frá 1555, er dæmið: ,,Suo er og Guds ord sigtad hreint” í þýðingu Marteins Einarssonar á nokkrum sálmum. Dæmi er um myndina sikta í Postulasögum, en annars er hana ekki að finna í fornmálsorðabókum. Ekki er gott að segja hvort sögnin er fengin úr dönsku eða beint lágþýsku. Danska sögnin er tökuorð úr miðlágþýsku sichten ‘sálda’ og nafnorðið sigte úr lágþýsku sichte ‘sáld’. Nafnorðið sigti er að öllum líkindum komið í málið úr dönsku.

Propptrekkjari er eitt þeirra orða sem Guðmundur Finnbogason nefndi. Ég hygg að það hafi lítið verið notað enda kannaðist enginn viðmælanda minna við það. Allir nefndu hins vegar korktrekkjara og sögðust þekkja hann mætavel. Það orð er merkt með ? í lista Höskulds. Einu dæmi Orðabókar Háskólans um propptrekkjara eru reyndar frá Guðmundi, og ekki vil ég rengja að það hafi verið notað í upphafi 20. aldar. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um korktrekkjara er einnig frá því snemma á 20. öld. Það orð virðist eitthvað hafa verið notað í dönsku en þó ekki mikið, og í Ordbog over det danske sprog er það merkt úrelt og tökuorð úr þýsku Korkzieher. Proptrækker er orðið sem notað er í dönsku um það sem kallað er á íslensku tappatogari. Tappatogari er bein þýðing á danska orðinu og var orðið algengt hér, a.m.k. í auglýsingum í Fjallkonunni og Ísafold, í lok 19. aldar.

Viskustykki þekkja menn mætavel um land allt, en einnig viskastykki sem reyndar er feitletrað á lista Höskulds og eftir því það orð sem hann telur venjulega íslensku 1998. Við fyrirspurnum fengust allnokkur svör og skiptust þau nokkuð jafnt í tvo flokka, -a- og -u- flokkinn. Ef litið er á dæmi Orðabókar Háskólans í ritmálssafni eru þar engin viskastykki, aðeins viskustykki. Halldór Laxness talar um hinn alltuppþurrkandi hollustusvip viskustykkisins í Fuglinum í fjörunni 1932 og í Gerska æfintýrinu virðist hann nota viskustykki sem þýðingu á uppþvottatusku, sbr.: ,,meðal þess sem hún lét eftir sig voru tólf tylftir af uppþvottatuskum (,,viskustykkjum“), og önnur búsgögn eftir því“. Í mínu máli er uppþvottatuska allt annað en viskustykki. Með tuskunni er þvegið en með viskustykkinu þurrkað.

Viskustykki náði ekki inn í orðabók Blöndals en í orðabók Árna Böðvarssonar er orðið merkt með ? og viskastykki haft í sviga fyrir aftan. Skýringarorðin eru ‘diskaþurrka, bollaþurrka’. Að baki liggur danska orðið viskestykke, sett saman af viske ‘þurrka’ og stykke ‘stykki’.

Sögnin viska í merkingunni ‘þurrka út’ er þekkt í málinu frá 18. öld. Hún er fengin að láni úr dönsku og kemur m.a. fram í orðunum viskaleður og viskuleður ‘strokleður’ auk þeirra tveggja sem þegar eru nefnd. Tvímyndirnar með -a- og -u- má rekja til áherslulítillar stöðu sérhljóðs í öðru atkvæði samsettu orðanna.

Karklútur er vel þekkt orð um allt land, en notkunin er ekki alltaf hin sama. Flestir segja að karklútur sé grófur og yfirleitt notaður á gólf, enda fást slíkir klútar í flestum verslunum í plastpokum sem á er prentað ,,karklud“. Aðrir hafa vanist því að skarklútur sé meðalfínn og notaður til að þurrka af borðum. Dæmi um hann finnast í ritmálssafni frá upphafi 20. aldar. Í matreiðslubók Jóninnu Sigurðardóttur er t.d. sagt frá karklút á eftirfarandi hátt: ,,Í hverju eldhúsi eru vanalega léreftstuskur mjög ískyggilegar útlits, sem kallaðar eru á danskri íslenzku ,,karklútar“. Fyrri liður orðsins er danska orðið kar ‘ker, ílát’ enda voru karklútar einkum ætlaðir til að þvo með stærri potta og kirnur.

Uppvöskunarbursti er eitt af orðum Guðmundar og er það eina dæmi Orðabókar Háskólans. Um orðið uppvöskun á Orðabókar Háskólans hins vegar engin dæmi og aðeins eitt um uppvask. Aftur á móti eru til 18. aldar dæmi um hvorugkynsorðið vask og kvenkynsorðið vöskun. Allnokkrar samsetningar eru til með vask- eða vöskun- að fyrri lið og fjögur með vösku- (vöskubali, vöskugalli, vöskuhús, vöskukar).

Uppvask er mjög vel þekkt um allt land, en enginn viðmælenda minna kannaðist við að nota uppvöskunarbursta. Snemma á 20. öld fara að koma fram dæmi um orðið uppþvottur og samsetningar með því sem er íslensk aðlögun að danska orðinu opvask. Um uppþvottabursta á Orðabókar Háskólans ekki dæmi fyrr en um miðja öldina.

Opvaskning í dönsku er líklega fyrirmynd orðsins uppvöskun. Það er líklega lítið notað þar sem þess er ekki getið í Nudansk ordbog, en dæmi eru um það í Ordbog over det danske sprog.

Sögnin að þvo upp t.d. matarílát er þekkt a.m.k. frá síðari hluta 18. aldar en vaska upp er töluvert eldri eða frá miðri 17. öld samkvæmt Orðabók Háskólans. Ekki er ástæða hér að fara nánar út í orðin sem hefjast á vask-/vösk- þar sem þau voru ekki til umræðu hjá Guðmundi.

Skrúbbur er enn eitt orðið sem fengið er að láni úr dönsku, en Orðabók Háskólans á aðeins eitt dæmi um það frá Guðmundi. Höskuldur Þráinsson telur þó skrúbb og gólfskrúbb til venjulegrar íslensku 1998. Nokkur dæmi eru til í ritmálssafni um myndina skrubbur með u-i og var hið elsta þeirra frá 1811. Kvenkynsorðið skrúbba er betur þekkt um allt land og ýmsar samsetningar með því, eins og gólfskrúbba, skaftskrúbba, skrúbbuskaft.

Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir sögnina að skrubba og nafnorðin skrubbur og skrubba en einnig sömu myndir með ú-i í Íslenskri orðsifjabók og telur þær með ú-i líklegast yngri. Ekki er hægt að ganga úr skugga um það með því að skoða söfn Orðabókar Háskólans. Til þess skortir frekari heimildir. Í Ordbog over det danske sprog er íslensk samsvörun nafnorðsins sögð vera skrubba en samsvörun við sögnina er ekki nefnd. Danska fyrirmynd nafnorðsins er skrubbe sem leidd er af sögninni at skrubbe.

Kústur er velþekkt í málinu frá því fyrir miðja 19. öld. Orðið er algengt um allt land, bæði ósamsett og sem hluti ýmissa samsetninga. Höskuldur Þráinsson telur að sópur sé hið venjulega íslenska orð 1998, en ekki samræmist það ummælum heimildarmanna minna. Þeir notuðu flestir kústur eða veiku myndina kústi. Fjölmargar samsetningar eru til með -kústur sem síðari lið, þar af nokkrar frá 19. öld: farfakústur, feiekústur, fiskkústur, glasakústur, hárkústur og rykkústur. Í talmálssafni eru til dæmi um fægikúst, en með honum er átt við lítinn kúst sem notaður er til að sópa með rusli í fægiskúffu. Þar eru einnig dæmi um rykkúst og var orðið talið þýðing úr dönsku støvkost.

Eldri heimild er um kóstur frá síðari hluta 18. aldar en hún hefur ekki náð verulegri útbreiðslu að því er séð verður. Þó virðist hún algeng í máli manna á Vestfjörðum, og dæmi voru einnig til í talmálssafni úr Eyjafirði. Að baki liggur danska orðið kost.

Fægiskúffa á sér fyrirmynd í danska orðinu fejeskuffe. Sama er að segja um fægiskófla sem á dönsku heitir fejeskovl. Reyndar er nú algengara að tala um fejeblad í dönsku. Farið var að auglýsa fægiskúffur í blöðum í lok 19. aldar, en engin dæmi voru um fægiskóflu í ritmálssafni. Þegar ég spurðist fyrir um orðið kom í ljós að báðar myndirnar eru vel lifandi um allt land, og er ekki að sjá að notkun fari eftir landshlutum. Sumir sögðust nota orðin jöfnum höndum. Einnig bárust dæmi um fægiskúflu af Vestur- og Austurlandi, og einn Austfirðingur hafði vanist að tala um fægiblað.

Skúffa virðist ekki notað ósamsett um þennan hlut, en það þekkist að tala um skóflu. Ýmislegt hefur verið reynt til að komast hjá að nota dönsku orðin og nota menn í staðinn t.d. orðin ruslaskúffa, rykskúffa, saurskúffa, sorpskúffa, sorpskófla, sópskör, sorpreka og ruskbretti.

Guðmundur Finnbogason nefnir ýmsar tegundir af mat sem finna megi í ,,spísskamersinu“ þar á meðal orðin polegg, medisterpylsu, karbonaði og plokkfisk en einnig ýmsar sagnir sem notaðar voru, og eru nær allar enn, við matargerð, svo sem sigta, píska, plokka, hakka, kokka, speða, skræla, pússa og skrúbba. Um nokkrar sagnanna hefur þegar verið rætt en drepið verður á hinar hér á eftir. Eins og við er að búast beygjast þær allar eftir veikri beygingu og fá endinguna -aði í þátíð með einni undantekningu, skræla - skrældi.

Varla er hægt lengur að telja sögnina að plokka aðskotaorð. Næg dæmi eru um hana í söfnum Orðabókar Háskólans allt frá miðri 16. öld. Svipað er að segja um hakka sem dæmi eru um frá því um 1750.
Hakkaðu í þinn hola skrokk,

hringnefjuð kerling, feitar krásir
sagði Páll lögmaður Vídalín í Vísnakveri sínu í upphafi 18. aldar.

Sögnin kokka er enn ein af þessum gömlu sögnum.
Manga hrærer veffina vid

og vellter steinum

elldinn nærer kockar kid,

med kjote og beinum
orti Bjarni Gissurarson í lok 17. aldar eða í upphafi hinnar 18.

Pússa er sömuleiðis 18. aldar sögn í málinu. Jón Árnason biskup notaði hana t.d. sem þýðingu í orðabók sinni frá 1738: ,,Mangonizo [ [...]] eg nya upp, pussa upp hlutena til ad setia þa ut aptur med meira verde.“ Allar sagnirnar fjórar finnast í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 18. öld.

Sögnin speða er hins vegar ung og lítið notuð. Hún er fengin að láni úr dönsku spæde ‘þynna út (t.d. súpu með vatni)’. Við fyrirspurn minni fengust aðeins þrjú dæmi frá Akureyri og Ísafirði.

Sögnin skræla í þeirri merkingu sem Guðmundur Finnbogason á við, þ.e. ‘flysja, afhýða’, er tiltölulega ung. Elstu dæmi um að skræla egg eða kartöflur eru frá lokum 19. aldar. Sögnin er afar vel þekkt um allt land og sömuleiðis hliðarmyndin skrælla með [-ll-] framburði og nafnorðin skræl og skrælingur. Að baki liggur danska sögnin skrælle og nafnorðið skræling.

Polegg er lítið notað nú til dags en var vel þekkt í Reykjavík um miðja 20. öld. Það er þó eldra þar sem Orðanefnd verkfræðingafélagsins valdi að taka það upp í kver sitt en skrifar orðið reyndar paalæg með tveimur a-um eins og í dönsku og leggja til í staðinn orðið viðmeti. Guðmundur Finnbogason kaus að skrifa nær íslensku.

Medisterpylsan var komin á borð bæjarbúa í lok 19. aldar ef marka má auglýsingar í Fjallkonunni og Kvennablaðinu. Hún virðist hafa verið reykt og því ólík þeirri sem ég þekki og er seld löng og mjó, stundum vafin upp í hring, og soðin. Þannig er medisterpølse einnig lýst í Nudansk ordbog. Að vísu er hægt að fá reykta, soðna medisterpylsu og lítur hún alltöðruvísi út. Orðið í dönsku er ummyndað tökuorð úr lágþýsku, þ.e. med+ister í lágþýsku metworst (háþýska Mettwurst). Met merkir ‘svínakjöt’ og worst ‘pylsa’. Ister í danska orðinu er mállýskuorð, notað er um innyflafitu svína.

Karbonaði hefur þótt svo danskt orð að engin dæmi eru um það í söfnum Orðabókar Háskólans. Það er hins vegar vel þekkt víða um land um bollur úr hakki sem velt er upp úr raspi og þær steiktar. Orðið er hvorugkyns í íslensku en samkyns í dönsku. Í dönsku er það tökuorð úr frönsku carbonnade.

Plokkfiskur er gamalt orð í málinu og vel þekkt frá því snemma á 18. öld. Jón Ólafsson úr Grunnavík þekkti það, sama er að segja um Jón Árnason biskup og. Marta María Stephensen kenndi heldri húsfreyjum að búa til plokkfisk í matreiðslubók sinni. Danir búa til plukfisk eins og við úr afgöngum af soðnum fiski.

Ekki má gleyma þvottahúsinu. Það kom mér á óvart að Guðmundur skyldi ekki kalla það vaskhús eða vaskahús því að það er það orð sem ég ólst upp við og var mjög algengt á þeim árum. Þar var tauið þvegið, glattað, rullað, stífað og straujað. Orðið tau, úr dönsku tøj, hefur verið notað um klæði eða vefnaðarvöru allt frá 17. öld en um merkinguna ‘þvottur’ fann ég ekki örugg dæmi fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Viðmælendur mínir þekktu vel og nota margir báðar merkingarnar. Þó voru fleiri sem töluðu um gott tau í karlmannsfötum, gott tau á húsgögnum og þess háttar heldur en um þvottinn. Sagnirnar allar eru sprelllifandi.

Einu dæmin um glatta hjá Orðabókinni voru frá Guðmundi en margar konur höfðu samband við mig og sögðust tala um að glatta yfir eitthvað þegar rétt er strokið þvott yfir með hendi eða straubolta. Danska sögnin glatte er notuð alveg í sömu merkingu.

Lengi hefur verið rullað. Í Lærdómslistafélagsritunum stendur t.d. ,,Þegar léreptin eru nú þurr vordin, rullast þau eda keblast, svo slettara fari á þeim.“ Og þeir sem eiga rullur rulla enn og það gera Danir líka, þeir nota rulle og nota gjarnan til þess håndrulle. Sögnin að stífa um þvott þekkist a.m.k. frá því upp úr miðri 19. öld eftir dæmum Orðabókarinnar en sjálfsagt er hún eldri. Þeir Lærdómslistafélagsmenn kynntu a.m.k. stífelsið í riti sínu í lok 18. aldar. Straujað hefur verið hér á landi a.m.k. frá því um 1900 en sögnin er að sjálfsögðu fengin að láni úr dönsku strøje.

Þar sem heimasætur vilja yfirleitt ekki láta líta inn í herbergi sín sleppi ég heimasætunni á fyrirmyndarheimilinu við að fá forvitna gesti í heimsókn en orðin hans Guðmundar finnið þið á úthendunni. Ég saknaði ýmissa orða úr mínu æskumáli en auðvitað var aldrei ætlun Guðmundar að hafa allt með. Þegar ég var ung klifraði ég yfir stakketin í hverfinu, lék mér á fortófinu framan við húsið eða á altaninu í góðu veðri, og þegar ég var forkeluð eða fonnemuð við foreldra mína sat ég oft í karnapnum hjá afa og ömmu á neðri hæðinni og fékk útlenskar karamellur. En nú er mál að linni.

Af því sem nú hefur verið dregið fram sést að orðunum hjá Guðmundi Finnbogasyni má skipta í tvo flokka: orð, sem vegna aldurs höfðu unnið sér þegnrétt í málinu 1928, og orð, sem ný voru á hans dögum og ástæða var ef til vill þá til að amast við. Nú eru liðin rúm sjötíu ár frá því Guðmundur skrifaði grein sína og hafa sum dönsku orðin horfið, önnur lifa góðu lífi víða um land. Mörg þeirra hverfa líklega með tveimur til þremur elstu kynslóðunum en þau sem lifa hafa sömuleiðis unnið sér þegnrétt, hafi þau á annað borð lagað sig að hljóð- og beygingakerfi málsins. Ég tel mikilvægt fyrir málsöguna að þessum orðum sé haldið til haga og þeim safnað áður en þau gleymast alveg. Ég hef tímans vegna haldið mig við einstök orð en auðvitað þarf að huga að orðasamböndum, eins og þeim sem komu fram í lista Halldórs, og alls kyns orðatiltækjum sem og verkháttum ýmiss konar. Margt hefur að sjálfsögðu tínst til í talmálssafn Orðabókarinnar en betur má ef duga skal.

Helstu heimildir
  • Guðmundur Finnbogason (1928) “Hreint mál”, Skírnir, 102: 145-155.
  • Halldór Kiljan Laxness (1939) “Ill danska”, Tímarit máls og menningar, 33-35.
  • Halldór Kiljan Laxness (1941) “Málið”, Tímarit máls og menningar, 109-130. (Greinin er endurprentuð í Vettvángi dagsins).
  • [Hallgrímur Pétursson.] Nokkur ljóðmæli eptir Hallgrím Pjetursson, Reykjavík 1885.
  • Höskuldur Þráinsson (2000) “Um áhrif dönsku á íslensku og færeysku”, Frændafundur, 3:115-130. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
  • [Jón Rúgmann.] Jonas Rugmans samling av isländska talesätt ... utgiven av Gottfrid Kallstenius, Uppsölum 1927-28.
  • Kristján Albertsson (1939) “Þróun íslenzkunnar”, Skírnir 113: 35-45. Ordbog over det danske sprog.
  • Orð úr viðskiptamáli eftir Orðanefnd Verkfræðingafjelagsins (Sjerprentun úr Lesbók Morgunblaðsins 3. október 1926), Reykjavík 1927.
  • Orðasöfn Orðabókar Háskólans.

Kaflinn um kastarholu birtist að mestu í afmælisriti til Þorbjargar Helgadóttur orðabókarritstjóra í Kaupmannahöfn sem gefið var út í einu eintaki 2001.

Flestar heimildir sem vitnað er til eru fengnar úr gagnasafni Orðabókar Háskólans....