Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Forsenda frelsis í hverju landi er víðtæk og samfelld gagnrýni á grundvöll valdsins (Harold J. Laski).
„Hættan á því að mannhatur og illska hafi betur í baráttunni við kærleika og manngæsku er ... stöðug og eilíf“ (Árni Páll Árnason 2005). Þessi orð Árna Páls Árnasonar lögfræðings komu upp í huga mér er ég hafði horft á hina mögnuðu kvikmynd Minningartónleikar í Auschwitz sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu á skírdag. Ástæða þess að orð Árna eru mér svo minnistæð er sú að hann er einn fárra Íslendinga sem hefur fjallað opinberlega um voðaverk nasista gegn gyðingum, sem í tilefni þess að sextíu ár eru frá því að Rauði herinn frelsaði búðirnar var lýst í leiðara Morgunblaðsins sem svo ótrúlegum „að jafnvel fórnarlömbin sjálf hafa stundum efast um tilvist þeirra“ (NN 2005). Af hverju höfum við Íslendingar að mestu leitt þessa óþægilegu umræðu hjá okkur meðan fjölmiðlar og tímarit í flestum Evrópulöndum hafa verið full af hugleiðingum um helförina? Er ástæðan kannski sú að við Íslendingar teljum okkur ekki geta lært neitt af þessum voðalega atburði enda má telja litlar líkur á að hann gæti nokkurn tíma átt sér stað í nútíma lýðræðisríki? Vel má vera að einhver fótur sé fyrir þessari skoðun en nýleg umræða á síðum Nature Genetics um það hvernig hægt sé að endurvekja kynþáttahugtakið í læknis- og erfðafræðilegum tilgangi fékk mig til þess að staldra við.
I.
„Hún liggur stynjandi við vegginn. Sonderkommando-fangarnir ... finna hana; sextán ára gamla stúlku undir hrúgu af líkum. Þeir bera hana inn í aðliggjandi herbergi ... Enginn hefur áður komið lifandi út úr gasklefanum. SS-foringi, sem er á varðgöngu, tekur eftir hópnum. Einn fanganna biður stúlkunni griða ... en vörðurinn hristir höfuðið. Hún gæti sagt frá. Hann kallar á félaga sinn. Hann er einnig viss í sinni sök. Kúlu er skotið í hnakkann á henni” (Steinbacher 2005: 1). Þessi lýsing sjónarvotts gefur góða innsýn inn í hinn hryllilega heim Auschwitz-útrýmingarbúða, en það sem gerir sögu búðanna enn hryllilegri er að þær voru eftirsóttur vinnustaður fyrir meðlimi SS-sveitanna. Starfsmenn búðanna og fjölskyldur þeirra höfðu aðgang að kaffihúsum, sundlaug, bókasafni, leikskólum, grunnskólum og góðri heilbrigðisþjónustu. Vegna ásóknarinnar þurfti yfirstjórn búðanna að endingu að takmarka fjölda þeir sem bjuggu þar og heimsóttu staðinn. Þessi fjölskylduvæna stefna virðist, ef eitthvað er, hafa hvatt til aukinna drápa því hún veitti fangavörðunum þann sálfræðilega stöðugleika sem þeir þörfnuðust. Samkvæmt þessari túlkun Sybille Steinbacher fólst engin þversögn í því að vera á sama tíma elskulegur faðir og fjöldamorðingi. Ástæða þessa er að hennar mati sú að útrýming „óæðri“ einstaklinga var réttlætt siðferðislega með vísun í að hún væri nauðsynleg til þess að tryggja tilvist „aríska kynstofnsins“, sem var skilgreindur út frá ákveðnum líffræðilegum og erfðafræðilegum gildum. „Fjöldamorð og virðuleiki voru ekki andstæður heldur samtvinnuð. Að skýra fjöldaafbrot sem afleiðingu sjúklegs hugarfars er jafn ósennilegt og að gera ráð fyrir að sökudólgarnir hafi orðið fórnarlömb allsherjar persónuleikaklofnunar“ (Steinbacher 2005: 43).
Eins og bent var á í leiðara Morgunblaðsins voru þessir atburðir svo ótrúlegir að eina skýringin virðist vera sú að Þjóðverjar hafi einir verið færir um þennan verknað, eins og Daniel J. Goldhagen benti á í bókinni Hitler’s Willing Executioners (1996) þar sem hann heldur því m.a. fram að þjóðin hafi verið „viljugt þjóðarmorðasamfélag“ (Moses 1998: 195). Almenningur virtist taka skýringum Goldhagens opnum örmum því bókin náði metsölu víða um heim, meðan sérfræðingar í sögu gyðingahaturs, helfararinnar og þýskrar menningar gagnrýndu bókina og niðurstöður hennar harkalega, án þess þó að draga í efa mikilvægi gyðingahaturs í stefnumörkun þýskra nasista (Moses 1998). Skýringarnar eru miklu flóknari en svo að hægt sé að kenna einhverju sérstöku þýsku þjóðareinkenni um hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar (Wistrich 2001; Bessel: 2004). Er í þessu sambandi fróðlegt að lesa um aðdraganda hörmunganna sem Japanar leiddu yfir íbúa kínversku borgarinnar Nanking árið 1937, og lýst hefur verið sem hinni gleymdu helför síðari heimsstyrjaldarinnar (Chang 1997. Ekki má gleyma fjöldamorðunum sem framin voru í nafni marxismans [Steindór J. Erlingsson 2005], sem lýst hefur verið sem sjálfs-þjóðarmorðum [Wistrich 2001: 1]). Hjá báðum þessum þjóðum var hamrað á því með gegndarlausum áróðri að gyðingar og Kínverjar væru óæðri einstaklingar sem fara mátti með hvernig sem er. Þetta svarar hins vegar ekki spurningunni um það hvernig þýskir og japanskir einstaklingar gátu tekið þátt í þessum hroðaverkum án þess að það hafi haft sýnileg áhrif á daglegt líf þeirra. Hluta skýringarinnar má finna í bók félagssálfræðingsins Stanleys Milgrams (1933-1984) Obedience to Autority (1974), sem „fékk mikið á okkur öll er hún kom út fyrir þrjátíu árum“ (Bruner [1974] 2004).
II.
Í bókinni lýsir Milgram því þegar hann fékk venjulega borgara til þess að taka þátt í tilraunum sem vörpuðu nýju ljósi á mannlegt eðli. Tilraunirnar voru af ýmsum toga en þær má draga saman í eftirfarandi lýsingu. Sá sem stjórnaði þeim boðaði tvo sjálfboðaliða á rannsóknarstofuna og fékk annar hlutverk kennarans en hinn hlutverk nemandans. Tilraunin fólst í því að kanna minni nemandans og átti kennarinn að gefa honum rafstuð í hvert sinn sem hann gerði mistök, spennan var aukin um 15 volt við hver mistök. Nemandinn var bundinn niður í stól og kennarinn festi rafskaut á hann með aðstoð stjórnanda tilraunarinnar. Þegar spennan jókst smám saman tók nemandinn að mótmæla meðferðinni og það leiddi til frekari rafstuða, þangað til nemandinn hætti að svara spurningum kennarans. Ef kennarinn hætti að veita nemandanum rafstuð var hann hvattur af stjórnandanum til þess að halda því áfram, alveg upp að banvænum straumi; 450 volt. Þegar tilrauninni lauk fékk kennarinn að vita að hann hafi verið hið eiginlega viðfangsefni í tilraun sem miðaði að því að kanna hlýðni gagnvart valdi. Nemandinn var í raun þaulæfður leikari sem lék viðbrögðin þegar kennarinn veitti honum ímyndað rafstuð. Kennarinn var sá eini sem fékk rafstuð, þegar honum var gefið 45 volta stuð til þess að sýna honum fram á að tilraunin væri raunveruleg (Milgram [1974] 2004. Fjölbreytta umræðu um tilraunir Milgrams er að finna í hausthefti Journal of Social Issues árið 1995).
Hvernig gat venjulegur Bandaríkjamaður tekið þátt í að veita saklausum samborgara banvænan straum? Í niðurlagi bókarinnar svarar Milgram því svo að tilraunirnar endurspegli „venjulegt mannlegt atferli“ enda byggðist atferli kennarans ekki á árásargirni, sem grundvölluð var á reiði, hatri eða hefndargirni. Í stað þessara hefðbundnu skýringa á ofbeldisfullu atferli birtist nokkuð „enn hættulegra“ í tilraununum, sem er „hæfileiki mannsins til þess að skilja manngæsku sína eftir, en það er raunar óhjákvæmilegt þegar einstaklingsbundin persónugerð verður hluti af stærra stofnanamynstri“. Af þessum sökum telur Milgram okkur ekki geta litið fram hjá grimmdarverkum nasista á þeirri forsendu að við búum við lýðræði en ekki alræði. Ástæðu þessa telur hann þá að vandmálið felist ekki í alræði sem stjórnskipulagi eða samsafni af sálrænum viðhorfum, heldur liggi það í valdinu sjálfu, sem liggur til grundvallar jafnt lýðræði sem alræði. Til þess að árétta þetta bar hann vitnisburði bandarískra hermanna af hroðaverkum sem þeir framkvæmdu í Víetnamstríðinu saman við vitnisburði Adolfs Eichmanns og Henry Wirz, sem var eini Suðurríkjahermaðurinn er tekinn var af lífi fyrir stríðsglæpi að loknu þrælastríðinu í Bandaríkjunum. Milgram fann níu sameiginlega þætti í viðhorfum þessara einstaklinga. Hann komst meðal annars að því að í huga undirmannsins er ábyrgðin alltaf hjá yfirmanninum og þegar undirmaðurinn fer að fá á tilfinninguna að athafnir hans brjóti í bága við ríkjandi siðferði leitar hann endurtekið eftir leyfisveitingu, eins og þegar nasistaforinginn Wilhelm Kube dró í efa að rétt væri að drepa þýska gyðinga sem fluttir höfðu verið til Hvíta-Rússlands. Kube benti á að þeir „voru ‚einstaklingar sem komu frá okkar eigin menningarsvæði‘, allsendis ólíkir ‚dýrslegu hjörðunum sem eru hér fyrir‘“ (Wistrich 2001: 107). „Slíkar athafnir eru nánast alltaf réttlættar með vísun í uppbyggilegan tilgang og fá þannig á sig göfuglynt yfirbragð því athafnirnar eru hluti af æðri hugmyndafræðilegum markmiðum. Í tilraununum var vísindunum þjónað með því að gefa fórnarlambinu straum gegn vilja þess; í Þýskalandi var eyðing gyðinga kynnt sem ‚hreinsunarferli‘ gegn ‚gyðingaóværunni‘“ (Milgram [1974] 2004: 188, 187).
III.
Í umfjöllun sinni um undirbúning bandarískra hermanna fyrir Víetnamstríðið benti Milgram á að „tiltekinn viðbótarþáttur gerði grimmdarverk auðveldari; óvinurinn tilheyrði öðrum kynþætti. Talað var um Víetnama sem ‚gooks‘ eins og þeir væru ómannlegir og ættu því enga samúð skilda“ (Milgram [1974] 2004: 181). Sama hugsun lá til grundvallar þjóðarmorðunum í Rúanda og á Balkansskaga, þannig að viðhorf þýskra nasista til gyðinga var síður en svo einangrað fyrirbæri. Það er einnig eftirtektarvert að framferði þýska hersins gagnvart almennum borgurum og stríðsföngum var margfalt verra á austurvígstöðvunum en á þeim vestanverðu, enda töldu þeir slavneska íbúa Austur-Evrópu litlu betri en gyðinga (Bessel 2004). Það er engu líkara en þátttakendur í þjóðarmorðum líti á fórnalömb sín sem aðra tegund, sem virðist gera morðingjunum kleift að líta á sig sem slátrara í sláturhúsi eða öllu heldur sem meindýraeyða, er að loknu dagsverki hvílir sig í faðmi fjölskyldunnar án þess að hafa dráp dagsins á samviskunni. Bandaríski mannfræðingurinn Francisco J. Gil-White velti þessari tegunda-nálgun nýlega fyrir sér þegar hann spurði hvort mannsheilinn liti á ólíka kynþætti sem líffræðilegar „tegundir“, og færði hann ítarleg rök fyrir því að sú sé einmitt raunin. Hann bendir á að þó þessi túlkun hans á viðhorfum Jóns Jónssonar og Jónu Jónsdóttur gangi gegn hugmyndum „góðra“ mannfræðinga sé hinn almenni borgari ekki „góður mannfræðingur“ heldur sé hann „einfeldningslegur eðlishyggjusinni“ (Gil-White 2001. Í kjölfar greinarinnar fylgir gagnrýni ýmissa fræðimanna á efni hennar).
Eins og mannkynssagan ber glöggt vitni um hefur kynþáttahugmyndin valdið gríðarlegum hörmungum víðsvegar um heiminn. Á síðari hluta tuttugustu aldar hafa rannsóknir erfðafræðinga hins vegar leitt í ljós að enginn vísindalegur grundvöllur er fyrir því að horfa á kynþætti mannsins með augum eðlis- eða tegundahyggjunnar. Einn af frumkvöðlum þessara rannsókna var þróunarfræðingurinn Richard Lewontin sem í bókinni The Genetic Basis of Evolutionary Change (1974) réðst harkalega á þá hugmynd, sem þá var ráðandi, að „hinn augljósi erfðafræðilegi munur milli landfræðilegra kynþátta innihaldi miklu stærri hluta af heildarbreytileika mannsins en er til staðar innan kynþátta“. Rannsóknir Lewontins og annarra sýndu þvert á móti að allt að 95% erfðabreytileikans var til staðar innan þjóða eða kynþátta, sem felur í sér að „flokkunarfræðileg skipting á manninum í kynþætti liggur í algjörlega ósamsvarandi áherslu á mjög lítið brot af heildar breytileika mannsins“ (Lewontin 1974: 25, 156). Í þessu felst að erfðabreytileikinn sem er á milli svertingja í Afríku og hvítra Evrópubúa er miklu minni er munurinn sem er á tveimur einstaklingum sem valdir eru af handahófi úr stofni Afríkubúa eða hvítra íbúa Evrópu.
Þessar rannsóknir hafa síðan orðið að viðmiði í vísindaheiminum eins og sjá mátti nýlega í leiðara í Nature Genetics þar sem notkun á kynþáttahugtakinu í bandaríska manntalinu árið 2000 var harðlega gagnrýnd, „skilaboð sem ekki er hægt að endurtaka nógu oft“ (NN 2000). Rúmu ári síðar voru þessi skilaboð endurtekin í leiðara tímaritsins sem nú fjallaði um rannsóknir sem bentu til þess að ákveðið hjartalyf verkaði betur á hvíta Bandaríkjamenn en svarta. Þessi niðurstaða leiddi til mikilla deilna og sökuðu gagnrýnendur rannsóknarinnar höfunda hennar um að skjóta stoðum undir hugmyndina um að líffræðilegur munur liggi til grundvallar kynþáttahugtakinu, meðan stuðningsmenn rannsóknarinnar bentu á mikilvægi þeirra læknisfræðilegu upplýsinga sem felast í henni. Leiðarahöfundur taldi þessar deilur sýna í hnotskurn „mögulega skaðsemi þess að nota ‚kynþátt‘ sem breytu í læknisfræðilegum rannsóknum“ (NN 2001). En skjótt skipast veður í lofti!
IV.
Í nóvember á síðasta ári birtist viðbótarhefti Nature Genetics sem nefndist „Genetics for the Human Race“ þar sem birtar voru greinar unnar út frá erindum sem flutt voru á ráðstefnunni Human Genome and ‚Race‘ sem haldin var í Bandaríkjunum árið 2003. Í formálsorðum kostanda heftisins, bandaríska orkumálaráðuneytisins, kemur fram að í því sé lögð áhersla á að spyrja: „Hvað segir núverandi vísindaþekking okkur um tengslin á milli kynþáttar, erfðafræði og heilsu? Hvað er óþekkt? Hvers konar viðbótarrannsóknir eru nauðsynlegar? Hvernig er hægt að nota þessar upplýsingar til þess að bæta heilsu mannkyns? Hvernig er hægt að nota þessar upplýsingar í ólæknisfræðilegum tilgangi? Hvernig er hægt að marka stefnumótun sem stuðlar að jákvæðri félagslegri niðurstöðu?“ (Patrinos 2004). Það sætir auðvitað tíðindum að erfðafræðingar reyni að endurvekja kynþáttahugtakið, en enn eftirtektarverðara er að þessi umræða fer fram á síðum Nature Genetics sem fyrir nokkrum árum varaði við hættunni sem felst í því að nota kynþátt sem læknisfræðilega breytu. Í leiðara ritstjórnar Nature Genetics í sérheftinu segir nú að „ónákvæm notkun á kynþáttum hindri vísindamenn í starfi þeirra að finna og aðgreina umhverfis- og erfðafræðilegar orsakir sjúkdóma“. Enn fremur er bent á að það gagnist ekki „samfélaginu að eyða tíma í deilur um það hvort upplýsingar um erfðabreytileika mannsins geti stutt eða hrakið for-erfðafræðilega hugtakið ‚kynþáttur‘ ... ef við ræðum ekki erfðabreytileika mannsins munum við missa af sögunni, sem nú er að koma fram, um það hver við erum og hvaðan við komum“ (NN 2004).
Stuðningur við þessa nýju læknisfræðilegu notkun á kynþáttahugtakinu er ekki bundinn við erfðafræðinga ef marka má nýja grein hins kunna kanadíska heimspekings Ians Hackings er birtist í nýjasta hefti hins viðlesna tímariti Dædalus sem helgað er umræðu ýmissa fræðimanna um kynþætti. Í greininni færir Hacking rök fyrir því að með því að horfa á „kynþætti sem tölfræðilega marktæka, sem og tölfræðilega gagnlega flokka“, megi stuðla að bættri heilbrigðisþjónustu (Hacking 2005: 116). Stuðningur Hackings skýrir hins vegar ekki sinnaskipti Nature Genetics, en í ljósi þeirra gríðarlegu fjárhagslegu hagsmuna sem felast í líftækniiðnaðinum og lyfjaþróunarverkefnum tengdum honum læðist að mér sá grunur að þetta hafi eitthvað með vísindapólitík að gera. Þetta endurspeglast til dæmis í því að vaxtabroddur lyfjaiðnaðarins, eins og markaðarins alls, er hjá öðrum kynþáttum en hinum hvíta. Þessu til stuðnings má nefna að í áðurnefndri bók Lewontins benti hann á að áframhaldandi áhersla einstaklinga, jafnt innan sem utan vísindasamfélagsins, á þann litla erfðafræðilega mun sem aðgreinir kynþætti, og leiðir til þess að finna nýjar „vísindalegar“ réttlætingar á þessari aðgreiningu, „sé vísbending um valdið sem félags- og efnahagslega grundvölluð hugmyndafræði hefur yfir ímyndaðri hlutlægni þekkingar“ (Lewontin 1974: 156).
V.
Þessi tilraun til þess að endurvekja vísindalega umræðu um kynþáttahugtakið er hluti af hugmyndafræði lyfjaerfðafræðinnar, sem miðar að því að þróa og framleiða lyf sem henta ólíkum kynþáttum og þjóðum og verða að endingu sérsniðin fyrir einstaklinginn. Þetta er falleg hugsjón en hún felur í sér ýmsar pólitískar og félagslegar hættur sem ég hef áður fjallað ítarlega um (Steindór J. Erlingsson 2002: 120-132). Vandmálið sem nú þarf að leggja áherslu á, er að áratugabarátta vísindamanna fyrir því að eyða úreltum, en viðteknum, hugmyndum um líffræðilegan grundvöll kynþátta, hefur ekki borið mikinn árangur því eins og Hacking bendir á er hugmyndin um að grundvallarmunur sé á kynþáttunum enn mjög útbreidd (Hacking 2005: 116). Kynþáttafordómar eru staðreynd, hvort sem menn aðhyllast líffræðilegar skýringar á fyrirbærinu eins og Gil-White eða horfa á það frá sjónarhóli félagsfræðinnar eins og Hacking og Lewontin (Hacking 2005; Lewontin 1974: 152). Ein skelfilegasta birtingarmynd þessa hugsunarháttar í seinni tíð var afskiptaleysi vestrænna ríkja af fjöldamorðunum í Rúanda á síðasta áratug og því sem nú er að gerast í Súdan. Talsmenn þess að færa kynþáttahugtakið aftur upp á vísindalegan stall virðast hafa leitt þetta hjá sér eða eru blindaðir á þessar staðreyndir í þeirri einfeldningslegu trú að starf vísindamannsins hafi ekkert með pólitík að gera. Þessu til áréttingar er rétt að nefna að mannkynbótastefna síðustu aldar byrjaði hjá vel þenkjandi vísindamönnum (Unnur Birna Karlsdóttir 1998).
Það skiptir engu máli þó vísindamennirnir horfi einungis á þann litla erfðafræðilega mun sem er á milli kynþáttanna í tölfræðilegu eða læknisfræðilegu ljósi, því þegar almenningur fer að fá fréttir af vísindalegri umræðu um „einhvern“ erfðafræðilegan mun á kynþáttunum er hættan sú að ranghugmyndir almennings um kynþættina aukist enn frekar. Rannsóknir Milgrams sýndu að vald vísindamannsins er gríðarlegt eins og glögglega má sjá hér á landi þar sem rúmlega 1/3 þjóðarinnar hefur gefið Íslenskri erfðagreiningu blóðsýni til rannsókna. „Vísindaleg“ umræða um kynþættina getur því haft miklar pólitískar afleiðingar, sem vert er að hafa í huga, því eins og Milgram benti á er hryllileg misbeiting valdsins ekki aðeins bundin við alræðisríki. Þetta þurfa vísindamenn innan líftækninnar og stjórnmálamenn að vera vel meðvitaðir um, því það sem í dag virðist vera saklaus tilraun til þess að nota kynþáttahugtakið í læknisfræðilegum tilgangi getur endað með óendanlegum hörmungum í framtíðinni. Ætli alþingismennirnir sem í desember 1937 heimiluðu „aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir að það auki kyn sitt“ (Unnur Birna Karlsdóttir 1998: 119. Þetta er upphaf 1. greinar laga númer 16/1938) hafi getað ímyndað sér að sama hugmyndafræði yrði notuð nokkrum árum síðar til þess að útrýma gyðingum? „Tækin“ (sjá t.d. Black 2001) sem nasistar notuðu í helförinni, kynþættir, hugmyndafræðin og valdið, eru enn til staðar í nútímanum. Eina leiðin til þess að forðast ógöngur fortíðarinnar er að hvetja vísindamenn og stjórnmálamenn til þess að fara varlega með þessi öflugu tæki og láta ekki hið þrönga sjónarhorn vísindamannsins hlaupa með sig í gönur.
Heimildaskrá
Steindór J. Erlingsson. „Kynþættir, hugmyndafræði og vald.“ Vísindavefurinn, 14. júní 2005, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70768.
Steindór J. Erlingsson. (2005, 14. júní). Kynþættir, hugmyndafræði og vald. Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70768
Steindór J. Erlingsson. „Kynþættir, hugmyndafræði og vald.“ Vísindavefurinn. 14. jún. 2005. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70768>.