Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hryðjuverk verða ekki til af engu. Það eru til ákveðnar stjórnmálalegar, félagslegar og umhverfislegar skýringar hryðjuverka sem vert er að huga betur að. Hér er ekki bara um að ræða trúarlegar eða þjóðernislegar skýringar, heldur geta umhverfismál í víðum skilningi átt þátt í því að skapa deilur og átök. Umhverfisbreytingar eru í vaxandi mæli álitnar ein af aðalorsökum átaka og hryðjuverka.
Stundum gerast atburðir sem breyta daglegu lífi okkar og vekja okkur til umhugsunar um þann heim sem við lifum í. Einn slíkur atburður varð í Bandaríkjunum 11. september 2001.
Mikið hefur verið rætt um orsakir hryðjuverkanna 11. september. Sú spurning vaknar hvaða orsakir liggja að baki þvílíkum verkum, hvers konar menn eru þarna á ferðinni og úr hvaða jarðvegi eru þeir sprottnir.
Með því að reyna að skilja þær aðstæður sem reka menn til hryðjuverka er ekki verið að mæla slíkum hryðjuverkum bót. Hins vegar gæti aukinn skilningur orðið til þess að fyrirbyggja hryðjuverk í framtíðinni. Einnig skiptir miklu að haldið sé uppi orðræðu milli ólíkra menningarheima þannig að samskipti manna og skilningur á fjölbreytni menningarinnar aukist.
Hryðjuverk verða ekki til af engu. Það eru til ákveðnar stjórnmálalegar, félagslegar og umhverfislegar skýringar á þeim sem vert er að huga betur að. Hér er ekki bara um að ræða trúarlegar eða þjóðernislegar skýringar, heldur geta umhverfismál í víðum skilningi átt þátt í því að skapa deilur og átök.
Umhverfisbreytingar eru í vaxandi mæli taldar ein af aðalorsökum átaka og hryðjuverka. Með umhverfisbreytingum er yfirleitt átt við neikvæðar breytingar eins og aukna mengun á drykkjarvatni, eyðimerkurmyndun og skort á vatni til landbúnaðar svo að eitthvað sé nefnt. Aðrar ástæður eru fólksfjölgun og misjafnt aðgengi að auðlindum. Hugtakið umhverfisfátækt (e. environmental scarcity) nær til allra þessara þriggja þátta.
Umhverfisbreytingar valda átökum því að auðlindirnar sem eru til skiptanna verða minni og minni. Magn ýmissa efna í jarðskorpunni eins og til dæmis fosfórs er takmarkað og fer minnkandi. Stærð þess lands sem hægt er að rækta með hjálp áburðar, þ.e. fosfórs, er einnig takmörkuð og líta má á vatnsauðlindir landa sem takmarkaðar sem aftur getur haft áhrif á stærð þess lands sem hægt er að rækta.
Átök skapast einnig vegna þess að fólksfjölgun gerir það að verkum að minna og minna verður til handa hverjum manni. Átökin í Rúanda eru dæmi um þetta, en þar hafði lengi verið mikil fólksfjölgun, samfara vatnsskorti og skorti á ræktanlegu landi, áður en átökin brutust út.
Ójöfn félagsleg staða þýðir síðan að sumir njóta auðlindanna betur en aðrir sem aftur getur leitt til ósættanlegra andstæðna innan sama samfélags.
Nú hefur oft verið sýnt fram á að ríkustu lönd heims eru ekki endilega þau sem eiga mestar náttúruauðlindir. Tækniþekking, nýsköpun, reynsla í alþjóðamálum, verslun og samskiptum skiptir miklu máli. Sem dæmi má taka Holland sem ræður yfir litlum náttúruauðlindum, - en Hollendingar hafa samt mikla tækniþekkingu og taka virkan þátt í alþjóðamálum.
Því virðast menntuð og tæknivædd samfélög geta brugðist við umhverfisfátækt og yfirunnið hana með tæknilegum lausnum og hugkvæmni. Malasía getur til dæmis notað peninga úr timburiðnaði til þess að þjálfa sérfræðinga í upplýsingatækni. Hins vegar getur verið að lönd séu svo fátæk og stofnanir samfélagsins svo veikburða að ekki reynist unnt að yfirvinna vaxandi umhverfisfátækt. Í slíkum tilvikum getur umhverfisfátæktin veikt ríkisskipan og valdið upplausn og ofbeldi. Dæmi um slíka þróun eru lönd eins og Afganistan og Sómalía. Í Sómalíu hefur lengi verið mikil fólksfjölgun samfara eyðimerkurmyndun. Þar hafa lengi verið mikil átök og segja má að staða ríkisins sé mjög veik þrátt fyrir að búið sé að stofna starfhæfa ríkisstjórn. Úr slíkum jarðvegi upplausnar vaxa hryðjuverkin fram.
Á tímum hnattvæðingar og örra samskipta er heimurinn sífellt að verða minni og minni. Tölvur, farsímar og internet tengja veröldina saman í eina heild og hraðfleygar flugvélar flytja fólk auðveldlega milli heimshluta. Fólk frá þriðja heiminum flytur einnig í vaxandi mæli til Bandaríkjanna og Evrópu. Um 27% af öllum innflytjendum í heiminum flytja til Bandaríkjanna og 21% til Vestur-Evrópu. Innflytjendurnir koma með menningu sína með sér og opna nýja sýn inn í veruleika þriðja heimsins. Þetta þýðir að ástandið í þriðja heiminum er að verða okkur nákomnara og við þurfum ekki að fara nema yfir götuna til þess að kynnast framandi menningu.
Oft er sagt um Vesturlandabúa að þeir bíði eftir því að einhvers konar neyðarástand í umhverfismálum skapist einhvern tímann í framtíðinni. En víða í þriðja heiminum er neyðarástandið nú þegar staðreynd sem fólk býr við frá degi til dags. Fyrst ber að nefna að um 1,2 milljarður manna á jörðinni býr við algera fátækt sem er svo skelfileg að hún veldur tjóni bæði á sál og líkama (e. absolute poverty). Bilið milli ríkra og fátækra í heiminum verður sífellt breiðara, sem aftur leiðir til þess að reiði hinna fátæku blossar upp og kröfur þeirra um réttlæti verða háværari.
Ef til vill má segja að við hér á Vesturlöndum getum ekki verið örugg um okkur svo lengi sem fátækt í heiminum er jafn útbreidd og raun ber vitni. Baráttan gegn fátækt hlýtur að vera eitt af aðalverkefnum þessarar aldar. Sú barátta er einnig mikilvæg til þess að stemma stigu við umhverfisröskun og mikilli fólksfjölgun.
Önnur ástæða hryðjuverka er einmitt fólksfjölgun. Þrátt fyrir alvarlega sjúkdóma eins og eyðni er fólksfjölgun í þriðja heiminum ennþá mjög mikil. Mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir því að mannfjöldi á jörðinni fari upp í 9,3 milljarða árið 2050 (www.unfpa.org). Fólksfjölgunin, ásamt skorti á jarðnæði, myndar hópa af umhverfisflóttamönnum sem ráfa stefnulaust yfir landamæri og geta haft áhrif á stöðugleika þjóðríkja og heimsálfa.
Í Miðausturlöndum og Suður-Asíu hefur orðið mikil fólksfjölgun á undanförnum árum. Fólksfjölgunin hefur skapað stóra hópa af atvinnulausum ungum mönnum sem ráfa iðjulausir um götur stórborga. Þessir ungu menn hafa engu að tapa og hneigjast til öfgafullra skoðana. Í hópi þeirra er auðvelt fyrir leiðtoga hryðjuverkasamtaka, eins og Osama bin Laden, að ná sér í ákafa stuðningsmenn. Eina menntunin sem stendur þessum mönnum til boða er nám í islamskri trúfræði, ef þeir geta lesið og skrifað á annað borð sem er alls óvíst. Í löndum eins og Pakistan er ólæsi meðal fullorðinna til dæmis allt að 65%.
Þriðja ástæðan fyrir hryðjuverkum er sú, að tækninni fleygir ört fram. Það verður sífellt auðveldara fyrir hryðjuverkamenn að skipuleggja starfsemi sína á netinu auk þess sem sprengiefni verða sífellt fullkomnari og þægilegri í notkun. Þessi tækniþekking eyðileggingarinnar breiðist auðveldlega út, sem þýðir að það verður æ auðveldara fyrir lítinn hóp af hryðjuverkamönnum að valda miklum skaða. Þekkt er umræðan um það hvort fámennur hópur geti komist yfir kjarnavopn (e. nuclear proliferation). Að lokum má nefna, að hryðjuverkamenn geta oft verið vel menntaðir í tækni. Tækniþekkingin er eins og svo oft áður tvíeggjað verð sem hægt er að nýta bæði til góðs eða ills.
Eyðilegging umhverfisins hefur sín áhrif. Í mörgum löndum þriðja heimsins er hreint vatn og jarðnæði nú þegar af skornum skammti og landbúnaður á í erfiðleikum þannig að fólk flykkist til borganna sem hafa ekki upp á annað að bjóða en ömurlega vist í fátækrahverfum. Þannig verður fátæktin aftur ein orsök hryðjuverka því að jafnvel þótt hryðjuverkamennirnir sjálfir séu ekki fátækir, telja þeir oft sjálfa sig vera fulltrúa þeirra sem búa við fátækt og misrétti.
En hvað er framundan?
Á næstu áratugum mun mikil fólksfjölgun, aukin eftirspurn eftir auðlindum og stöðugt misrétti í aðgengi að þeim líklega valda því að umhverfisfátækt verður tilfinnanleg á mörgum viðkvæmum svæðum jarðar. Rík lönd munu geta brugðist við vaxandi auðlindaskorti með tæknilegum lausnum og nýsköpun sem gerir þau síður háð auðlindum. Fátæk ríki, þar sem innviðir samfélagsins eru veikburða, ólæsi útbreitt, markaðurinn vanþróaður og vísinda- og tæknirannsóknir vart fyrir hendi, munu hins vegar ráða illa við eyðimerkurmyndun og auðlindaskort. Þar geta komið upp átök og erfiðleikar sem rekja má til mikillar fólksfjölgunar og skorts á auðlindum, svo sem hreinu vatni.
Eftir því sem fólki fjölgar meira og fátæktin breiðist út má búast við meiri ólgu í þriðja heiminum. Einnig má búast við því að sú ólga skili sér að einhverju leyti í fleiri hryðjuverkum á Vesturlöndum. Því er þess að vænta að við séum ekki að sigla inn í öld friðarins heldur inn í órólega tíma þar sem staðbundin átök geta auðveldlega brotist út. Því verður væntanlega áfram þörf fyrir friðargæslusveitir, og enginn vafi er á því að starf Sameinuðu þjóðanna verður æ mikilvægara og mun jafnvel skipta sköpum í framtíðinni.
Baráttan gegn fátækt og lausn umhverfismála heimsins eru meðal mikilvægustu verkefna sem við stöndum frammi fyrir á 21. öldinni. Enginn maður á jörðinni mun geta lifað óhultur fyrr en hörmungum fátæktarinnar linnir og umhverfismálum veraldarinnar hefur verið komið í lag.
Helstu heimildir
Dixon, Thomas Homer, The Ingenuity Gap, New York, 2001.
Doyle, Roger, „Assembling the Future”, Scientific American, Volume 286, Number 2, 2002.
McKinney, Michael L. og Schoch, Robert M., Environmental Science: Systems and Solutions, Boston, 1998.
Peter H. Gleick, The World´s Water 2000 - 2001: The Biennial Report on Freshwater Resources, Washington D.C., 2000.
Ingibjörg E. Björnsdóttir. „Umhverfisorsakir hryðjuverka.“ Vísindavefurinn, 15. febrúar 2002, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70776.
Ingibjörg E. Björnsdóttir. (2002, 15. febrúar). Umhverfisorsakir hryðjuverka. Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70776