Sólin Sólin Rís 07:03 • sest 19:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:28 • Sest 09:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:55 • Síðdegis: 19:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:52 • Síðdegis: 13:06 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:03 • sest 19:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:28 • Sest 09:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:55 • Síðdegis: 19:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:52 • Síðdegis: 13:06 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað gekk þessum mönnum til? Ellefti september og framtíð Vesturlanda

Björn Þorsteinsson

[ Viðbrögð lesenda við greininni]

Við vitum öll að á fáeinum mínútum, skömmu eftir hádegi að íslenskum tíma þann 11. september síðastliðinn, tók heimurinn algjörum stakkaskiptum. Þessi vitneskja er ekki aðeins orðin okkur að viðteknum sannindum vegna þess að okkur hefur verið sagt þúsund sinnum að heimurinn verði aldrei samur. Sú sameiginlega reynsla að sjá (fyrir meðalgöngu upptöku- og sjónvarpstækninnar) tvær farþegaþotur sigla á fullri ferð, en þó eins og alltof hægt, inn í tvíburaturnana frægu hefur breytt einhverju djúpt innra með okkur og fært okkur á orðlausan hátt heim sanninn um að ekkert er, eða getur framar orðið, eins og það var. Myndskeiðin af hryðjuverkinu mikla eru runnin okkur í merg og bein og afstaða okkar til veraldarinnar almennt talað og tilveru okkar sérstaklega hlýtur héðan í frá að bera merki þessarar reynslu. Vitundin um það hyldýpi illskunnar sem hryðjuverkið staðfesti hefur ef til vill alltaf fylgt okkur, hún hefur ýmist marað í hálfu kafi eða legið grafin eins og skata í botnleðju undirmeðvitundarinnar - en héðan í frá mun það vafalaust krefjast nær ómennskrar hugvitssemi að bæla þessa vitund niður, snúa við henni baki og láta eins og ekkert hafi gerst, eins og heimurinn sé samur og áður.

Skýringa krafist

Því að þrátt fyrir allt er auðvitað öllum ljóst, nema ef vera skyldi öfgamönnunum sjálfum, að þau öfl sem réðu þessum atburði standa ekki handan við þennan heim. Voðaverkið var af manna völdum, og þeir sem stóðu að því, bæði þeir sem drýgðu það og þeir sem lögðu á ráðin um það, voru einmitt eða eru „tilteknir dauðlegir einstaklingar úti í heimi“. Um leið og þetta er orðið ljóst - þeir sem sáu, í beinni útsendingu, síðari flugvélina fljúga inn í norðurturninn gerðu þessa uppgötvun á því sama augnabliki - opnast sá möguleiki að spyrja um orsakir og ástæður. Hvað gekk (eða gengur) þessum mönnum til? Hvað voru (eða eru) þeir að hugsa? Jafnframt kviknar hinn óumflýjanlegi hefndarþorsti sem gengur í lið með þránni fyrir skýringar og tekur þannig á sig mynd hugmyndarinnar um að „réttlætinu verði að fullnægja“ fyrir dómstólum - eða jafnvel án dóms og laga. Við þekkjum framhaldið. Bandaríkjaforseti setur heimsbyggðinni úrslitakosti: annað hvort ertu með eða á móti. Andspænis hinu illa dugar engin hálfvelgja: skipaðu þér í sveit, ertu góður eða illur, svaraðu því! Góður er sá sem er með okkur, illur sá sem er á móti. Svo einfalt er það. En hvernig á að svara hinu illa? Með góðu eða illu? Og hvar er það? Er hægt að draga það fyrir rétt? Eða verðum við að drepa það? Hvernig á að drepa það? Eru aðgerðir hins góða gegn hinu illa nauðsynlega að fullu og öllu góðar? Eru talsmenn hins illa nauðsynlega illir inn að beini? Leyfist að spyrja spurninga af þessum toga? Eða er sá sem það gerir þar með orðinn „á móti“ - orðinn illur? (Eða er hann kannski „nytsamur sakleysingi“ svo gripið sé til gamalkunnrar beinagrindar í skápnum?)

Skýringa leitað

Ekki hefur skort á viðbrögð fjölmiðla- og fræðimanna um heim allan við þessum harkalegu þáttaskilum í veraldarsögunni, og þrátt fyrir úrslitakosti Bandaríkjaforseta hafa margir látið frá sér fara vangaveltur sem rúmast illa innan tvíundarkerfisins gott/illt. Helsta einkenni umræðunnar hefur þó ef til vill verið skortur á samhljómi; raddirnar tala hver upp í aðra og fjaðrirnar þyrlast upp, en niðurstaðna er ekki að vænta í bráð. Vert er að minnast orðskviðar þýska heimspekingsins Hegels: „Uglan hennar Mínervu hefur sig til flugs þegar rökkva tekur“. Viskan þarf tíma til að greina þræðina í sundur og finna hinn rétta tón; hún þarf að bíða þess að ró færist yfir og þá fyrst getur hún öðlast yfirsýn (sér hún ekki í myrkri?). En á meðan hún situr þolinmóð (eða óþolinmóð, en það er fullt eins líklegt) á sinni grein og bíður - eða lætur undan þrýstingi þvert gegn vilja sínum og vappar út á ritvöllinn blinduð af sólarljósinu og hinum (alltof) sýnilegu „staðreyndum málsins“ - taka ráðamenn þessa heims ákvarðanir sínar: lögmál uglunnar hentar ekki þegar þrýst er á um aðgerðir.

Viðbrögðin spanna allt litrófið: allt frá hugmyndinni um að Bandaríkin hafi sjálf kallað þessi ósköp yfir sig, fengið það sem þau áttu skilið, yfir í stjörnustríðsguðfræði í anda Bandaríkjaforseta um heimsveldi hins illa sem ráðist hafi á hina góðu og saklausu með þessum hætti. Ýmsir talsmenn úr röðum múslima sem fjölmiðlar hafa gefið orðið hafa notað tækifærið til að varpa fram fyrir Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra - það er að segja, ef mér skjátlast ekki, „okkur Vesturlandabúa“: „okkur öll“ - eftirfarandi stingandi spurningu: „why are you hated so much?“ Hvaðan kemur þetta botnlausa hatur á hinum vel meinandi boðberum siðmenningar, frelsis og lýðræðis? Staðreyndin er sú að hægt er að skýra þennan óskiljanlega atburð á nær óteljandi vegu - og engin skýring hrekkur til. Hverju eigum við að trúa? Ef til vill er réttlætanlegt að halda því fram að hinar mögulegu skýringar megi flokka í tvennt: efnislegar eða efnahagslegar skýringar annars vegar og andlegar eða trúar(bragða)legar skýringar hins vegar.

Efnahagslega skýringin

Í sinni einföldustu og skýrustu mynd væri efnahagslega skýringin á þessa leið: orsök hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september er engin önnur en hin almenna staðreynd um misskiptingu auðs heimshluta á milli. Hryðjuverkið var hernaðaraðgerð hins fátæka manns - örvæntingin meðal þeirra sem svelta er orðin svo mikil, og vonbrigði þeirra hvað snertir hinar hefðbundnu og „siðmenntuðu“ leiðir til að ná fram rétti sínum orðin svo megn, að ákveðnum þröngum hópi, sjálfskipuðum en að hluta til ómeðvituðum málsvörum hins fátækari hluta heimsins, leist svo á að ekki væri annað fært en grípa til örþrifaráða. Samkvæmt þessu viðhorfi er það í raun tilviljun að þeir sem tóku það að sér að beita hryðjuverkum í baráttu sinni fyrir málstað hinna fátæku þjóða telja sig fylgismenn tiltekinna trúarbragða - viðkvæði hins eitilharða málsvara efnislega viðhorfsins er á þá leið að í raun séu trúarbrögð ekkert annað en (meðvitað eða ómeðvitað) yfirvarp þeirra sem berjast fyrir því að hnekkja ríkjandi dreifingu efnislegra gæða. Þetta yfirvarp getur til dæmis, og ekki síst, reynst baráttumönnum þessum ákaflega öflugt tæki til að skapa breiðfylkingu um málstaðinn - almúgamaðurinn á ef til vill erfitt með að gera hið stærra samhengi í heimsmálunum sér að hjartans máli, honum nægja einfaldar trúarsetningar um paradís sem taki óhjákvæmilega við af táradal þessum að því tilskildu að umsækjandinn láti lífið fyrir málstaðinn. Hér eru trúarbrögðin ópíum fólksins eins og Marx benti á - að vísu á þann sérkennilega hátt að trúarbrögðin eru orðin öreigunum vopn í stéttabaráttunni (sem í þessu tilviki er orðin alþjóðleg fyrir fullt og allt).

Sé efnislega skýringin algjörlega og fullkomlega rétt - og allar aðrar skýringar einfaldlega rangar - þá verður ekki annað séð en að tiltölulega einfaldar aðgerðir nægi til að stemma stigu við illskunni. Í fyrsta lagi þurfa Vesturlönd að hætta stuðningi við einræðisstjórnir í löndum múslima, til dæmis hina gjörspilltu valdaklíku í Sádi-Arabíu, og sýna þannig í verki vilja sinn til þess að útbreiða og styrkja lýðræðið í heiminum. Í öðru lagi þurfa Vesturlönd að auka svokallaða „þróunaraðstoð“ sína verulega og sýna hinum fátækari löndum heims víðsýni sína og velvilja í verki á ýmsan annan hátt, til dæmis með því að fella niður það sem jafnan er kallað „skuldir þriðja heimsins“. Í þriðja lagi þurfa íbúar á Vesturlöndum að búa sig undir að taka á móti stórauknum straumi flóttamanna hvaðanæva að úr fátæku löndunum, og flóttamönnum þessum á að veita skilyrðislaust, en ekki „tímabundið“, hæli - þeim á að vera í sjálfsvald sett hvenær þeir snúa aftur til heimkynna sinna, eða hvort þeir gera það yfirhöfuð.

Trúarlega skýringin

Í sinni einföldustu og öfgafyllstu mynd felst trúarlega skýringin á hryðjuverkunum 11. september í þeirri hugmynd að ódæðismennirnir, og þeir sem skipulögðu ódæðið með þeim, hafi verið eða séu reknir áfram af blindu trúarofstæki og engu öðru. Hatur þeirra á hinum vestræna heimi, og Bandaríkjunum sérstaklega, sé fyrst og fremst sprottið af þeirri skoðun að íbúar Vesturlanda séu trúleysingjar - þeir séu satt að segja ekki einu sinni kristnir heldur tómhyggjumenn af verstu sort sem stundi hið versta stóðlífi, útbreiði klám og iðki guðlast eins og þeir eigi lífið að leysa. (Þess má geta í framhjáhlaupi að í ferðahandbókum um Íran er vestrænum ferðamönnum sem hyggja á ferðir til landsins og telja sig trúleysingja ráðlagt að flíka ekki þeirri afstöðu sinni sökum þess að það gæti kallað yfir þá reiði innfæddra - frekar skuli þeir þykjast vera kristnir.) Raunar sé heldur ekki nóg með að Vesturlandabúar séu guðlastarar, heldur ofsæki þeir einnig múslima og stefni markvisst að því að brjóta þá á bak aftur, að minnsta kosti í Miðausturlöndum. Þessi skýring skírskotar til hinnar áðurnefndu viðteknu hugmyndar um islam, sem á sér óneitanlega stoð í kennisetningum trúarbragðanna og einnig, að því er næst verður komist, í hugarheimi flugræningjanna 11. september, að fylgismönnum trúarinnar sé eftirsóknarvert að fórna lífi sínu í stríði hinna trúuðu gegn trúleysingjum vegna þess að þar með sé inngangan í paradís tryggð. Þessi trúarskoðun múslima er fyrst og fremst ábyrg fyrir því að okkur reynist erfitt að gera okkur í hugarlund að fylgismenn einhverra annarra trúarbragða hefðu getað drýgt verkið (þá eru sértrúarsöfnuðir undanskildir). Og eins og umræðan hefur leitt í ljóst er sú niðurstaða skammt undan, þegar hér er komið sögu, að eina ráðið við hatrinu sé að halda islam niðri með öllum tiltækum ráðum og vísa því á bug: varpa þeim múslimum sem hafa tekið sér búsetu á Vesturlöndum á dyr og reka þá til „síns heima“, og stofna að því búnu til meira eða minna opinbers trúarbragðastríðs sem miðist að minnsta kosti við að „halda múslimunum heima hjá sér“ (og þar með líkast til að svelta þá til hlýðni), eða sjá jafnvel til þess að jarðvist þeirra, allra með tölu, ljúki.

Ekki þarf mikinn snilling, raunsæismann eða stjórnspeking - að ekki sé minnst á venjulegt foreldri sem annt er um framtíð barna sinna - til að sjá að þessi „lausn“ er einfaldlega ekki tæk. Þess í stað þarf að stemma stigu við hinum öfgafulla meiði islams með því að fjarlægja þau horn í síðu múslima sem helst verða öfgunum að eldsneyti - og þetta verður ekki gert nema með því að setja sig inn í hugarheim múslima og fallast á að trúarleg rök geti haft vægi (og sýna þannig fram á að við erum ekki algjörir trúleysingjar). Að þessu sögðu, er þá ekki nokkuð ljóst hvað gera þarf? Í fyrsta lagi þarf að leysa Palestínudeiluna - eins og ráðamenn í heiminum aðrir en hinir ísraelsku útþenslusinnar virðast raunar þegar hafa skilið - og sanna þannig í eitt skipti fyrir öll máltækið „allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi“. Í öðru lagi þurfa bandarískir hermenn að hverfa á brott úr Sádi-Arabíu, sem er hin heilaga jörð islams: nærvera þeirra þar er trúuðum múslimum hrein og bein móðgun, og ráðamönnum á Vesturlöndum ber að sýna þeirri afstöðu fulla virðingu. Í þriðja lagi þurfa Vesturlandabúar, hvort sem þeir telja sig kristna eða trúleysingja eða eitthvað annað, að takast að nýju á við spurningar um rætur og eðli trúarbragða með það fyrir augum að auka skilning á því hlutverki sem trúarbrögð hljóta ætíð að leika í samfélaginu, hvort sem okkur líkar betur eða verr og hvort sem við teljum okkur trúleysingja eða ekki. Slíkur skilningur er forsenda þess að koma megi í veg fyrir að trúarbrögðin verði uppspretta flokkadrátta í samfélaginu og gróðrarstía ofbeldis og öfga.

Og hvað svo?

Að þessu sögðu er rétt að nema staðar og spyrja: hvor skýringin er rétt - sú efnislega eða sú andlega? Eða, að því gefnu að hvorug þeirra sé fyllilega fullnægjandi: hvor þeirra hefur meira til síns máls? Ekki er hlaupið að því að veita endanlegt svar við slíkum spurningum, og raunar er vandséð á hverju slíkt svar gæti byggst - nema ef vera skyldi djúpviðtölum við Osama bin Laden og mörg þúsund fylgismenn hans nær og fjær, fjölskyldur þeirra og vini. Hvað gengur þessum mönnum til? Hvernig getum við gert hvort tveggja í senn, tekið fram fyrir hendurnar á þeim og reynt að skilja hvaðan hatur þeirra er komið, svo að okkur megi verða fært að koma í veg fyrir að þeir nái markmiði sínu, að steypa heiminum út í öngþveiti og trúarbragðastríð? Augljóst virðist að báðar skýringartillögurnar verður að hafa í huga þegar reynt er að móta stefnu í þessum „nýja“ heimi. Það er ekkert sem heitir: ef áfram á að vera lífvænlegt í heiminum verður að binda enda á efnahagslega einsýni ráðamanna á Vesturlöndum og auka jafnframt virðingu hins almenna Vesturlandabúa fyrir trúarbrögðum og, almennt talað, hlutverki hugmynda í veruleikanum: jafna dreifingu auðs heimshluta á milli og leggja nýja og aukna rækt við menninguna í víðasta skilningi þess orðs. Því að það gildir satt að segja einu hvort við höllumst heldur að því að orsök hinnar nýju stöðu mála í heiminum eigi sér efnislegar eða trúarlegar orsakir: við, íbúar Vesturlanda, eigum aðeins um tvo kosti að velja. Sá fyrri er að láta eins og ekkert hafi í skorist og halda áfram að hugsa um eigin hag í þeirri lærðu fullvissu að „lögmál markaðarins“ haldi yfir okkur verndarhendi og stýri skútunni óhjákvæmilega í höfn. Síðari kosturinn er að kúvenda fleyinu í samræmi við þá óþægilegu staðreynd að illvirkið 11. september á sér rætur í því sem aflaga hefur farið í sögu og siðmenningu okkar Vesturlandabúa sjálfra. Þegar málið er athugað nánar sést að aðeins er um eitt að velja: fyrri kosturinn strikar sjálfan sig út.

Viðbrögð lesenda við grein Björns

Í framhaldi af grein Björns bendir Ingibjörg E. Björnsdóttir á að ef til vill ættum við að spyrja af hverju atburðir líkir þeim sem gerðust 11. september 2001 hafi ekki gerst fyrr þar sem um 1,2 milljarður manna býr við algjöra fátækt í heiminum. „Það er merkilegt hve lítið þessi minnihluti lætur heyra í sér og hve mikla örbirgð hann sættir sig við.”

Auk þess segir Ingibjörg að átökin verði ekki skýrð með einum saman efnahagslegum eða trúarlegum forsendum heldur verði einnig að taka inn í dæmið umhverfislegar forsendur en í þriðja heiminum eru auðlindir eins og jarðnæði og vatn víða af skornum skammti.

„Vegna mikillar fólksfjölgunar, vaxandi umhverfismengunar, eyðimerkurmyndunar og aukinnar fátæktar má búast við enn meiri ólgu í þriðja heiminum á 21.öld. Átök gætu brotist út á afmörkuðum svæðum. Deilur Palestínumanna og Ísraelsmanna eru meðal annars deilur um vatn. Ísraelsmenn stjórna vatnsbirgðum Palestínumanna og skammta þeim vatnið. Þannig má búast við staðbundnum átökum, ólgu og óróa þegar álagið á umhverfið verður meira vegna vaxandi fólksfjölgunar. Það eru einfaldlega takmörk fyrir því hvað mikið af fólki getur lifað á jörðinni.”

Sjá nánari umfjöllun um átök venga auðlindakreppu (e. global environmental scarcity induced conflicts) á heimasíðu Peace and Conflict Studies, University of Toronto.

Annað lesefni á Vísindavefnum

Höfundur

Björn Þorsteinsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

1.12.2001

Spyrjandi

Ritstjórn

Efnisorð

Tilvísun

Björn Þorsteinsson. „Hvað gekk þessum mönnum til? Ellefti september og framtíð Vesturlanda.“ Vísindavefurinn, 1. desember 2001, sótt 19. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70778.

Björn Þorsteinsson. (2001, 1. desember). Hvað gekk þessum mönnum til? Ellefti september og framtíð Vesturlanda. Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70778

Björn Þorsteinsson. „Hvað gekk þessum mönnum til? Ellefti september og framtíð Vesturlanda.“ Vísindavefurinn. 1. des. 2001. Vefsíða. 19. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70778>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað gekk þessum mönnum til? Ellefti september og framtíð Vesturlanda
[ Viðbrögð lesenda við greininni]

Við vitum öll að á fáeinum mínútum, skömmu eftir hádegi að íslenskum tíma þann 11. september síðastliðinn, tók heimurinn algjörum stakkaskiptum. Þessi vitneskja er ekki aðeins orðin okkur að viðteknum sannindum vegna þess að okkur hefur verið sagt þúsund sinnum að heimurinn verði aldrei samur. Sú sameiginlega reynsla að sjá (fyrir meðalgöngu upptöku- og sjónvarpstækninnar) tvær farþegaþotur sigla á fullri ferð, en þó eins og alltof hægt, inn í tvíburaturnana frægu hefur breytt einhverju djúpt innra með okkur og fært okkur á orðlausan hátt heim sanninn um að ekkert er, eða getur framar orðið, eins og það var. Myndskeiðin af hryðjuverkinu mikla eru runnin okkur í merg og bein og afstaða okkar til veraldarinnar almennt talað og tilveru okkar sérstaklega hlýtur héðan í frá að bera merki þessarar reynslu. Vitundin um það hyldýpi illskunnar sem hryðjuverkið staðfesti hefur ef til vill alltaf fylgt okkur, hún hefur ýmist marað í hálfu kafi eða legið grafin eins og skata í botnleðju undirmeðvitundarinnar - en héðan í frá mun það vafalaust krefjast nær ómennskrar hugvitssemi að bæla þessa vitund niður, snúa við henni baki og láta eins og ekkert hafi gerst, eins og heimurinn sé samur og áður.

Skýringa krafist

Því að þrátt fyrir allt er auðvitað öllum ljóst, nema ef vera skyldi öfgamönnunum sjálfum, að þau öfl sem réðu þessum atburði standa ekki handan við þennan heim. Voðaverkið var af manna völdum, og þeir sem stóðu að því, bæði þeir sem drýgðu það og þeir sem lögðu á ráðin um það, voru einmitt eða eru „tilteknir dauðlegir einstaklingar úti í heimi“. Um leið og þetta er orðið ljóst - þeir sem sáu, í beinni útsendingu, síðari flugvélina fljúga inn í norðurturninn gerðu þessa uppgötvun á því sama augnabliki - opnast sá möguleiki að spyrja um orsakir og ástæður. Hvað gekk (eða gengur) þessum mönnum til? Hvað voru (eða eru) þeir að hugsa? Jafnframt kviknar hinn óumflýjanlegi hefndarþorsti sem gengur í lið með þránni fyrir skýringar og tekur þannig á sig mynd hugmyndarinnar um að „réttlætinu verði að fullnægja“ fyrir dómstólum - eða jafnvel án dóms og laga. Við þekkjum framhaldið. Bandaríkjaforseti setur heimsbyggðinni úrslitakosti: annað hvort ertu með eða á móti. Andspænis hinu illa dugar engin hálfvelgja: skipaðu þér í sveit, ertu góður eða illur, svaraðu því! Góður er sá sem er með okkur, illur sá sem er á móti. Svo einfalt er það. En hvernig á að svara hinu illa? Með góðu eða illu? Og hvar er það? Er hægt að draga það fyrir rétt? Eða verðum við að drepa það? Hvernig á að drepa það? Eru aðgerðir hins góða gegn hinu illa nauðsynlega að fullu og öllu góðar? Eru talsmenn hins illa nauðsynlega illir inn að beini? Leyfist að spyrja spurninga af þessum toga? Eða er sá sem það gerir þar með orðinn „á móti“ - orðinn illur? (Eða er hann kannski „nytsamur sakleysingi“ svo gripið sé til gamalkunnrar beinagrindar í skápnum?)

Skýringa leitað

Ekki hefur skort á viðbrögð fjölmiðla- og fræðimanna um heim allan við þessum harkalegu þáttaskilum í veraldarsögunni, og þrátt fyrir úrslitakosti Bandaríkjaforseta hafa margir látið frá sér fara vangaveltur sem rúmast illa innan tvíundarkerfisins gott/illt. Helsta einkenni umræðunnar hefur þó ef til vill verið skortur á samhljómi; raddirnar tala hver upp í aðra og fjaðrirnar þyrlast upp, en niðurstaðna er ekki að vænta í bráð. Vert er að minnast orðskviðar þýska heimspekingsins Hegels: „Uglan hennar Mínervu hefur sig til flugs þegar rökkva tekur“. Viskan þarf tíma til að greina þræðina í sundur og finna hinn rétta tón; hún þarf að bíða þess að ró færist yfir og þá fyrst getur hún öðlast yfirsýn (sér hún ekki í myrkri?). En á meðan hún situr þolinmóð (eða óþolinmóð, en það er fullt eins líklegt) á sinni grein og bíður - eða lætur undan þrýstingi þvert gegn vilja sínum og vappar út á ritvöllinn blinduð af sólarljósinu og hinum (alltof) sýnilegu „staðreyndum málsins“ - taka ráðamenn þessa heims ákvarðanir sínar: lögmál uglunnar hentar ekki þegar þrýst er á um aðgerðir.

Viðbrögðin spanna allt litrófið: allt frá hugmyndinni um að Bandaríkin hafi sjálf kallað þessi ósköp yfir sig, fengið það sem þau áttu skilið, yfir í stjörnustríðsguðfræði í anda Bandaríkjaforseta um heimsveldi hins illa sem ráðist hafi á hina góðu og saklausu með þessum hætti. Ýmsir talsmenn úr röðum múslima sem fjölmiðlar hafa gefið orðið hafa notað tækifærið til að varpa fram fyrir Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra - það er að segja, ef mér skjátlast ekki, „okkur Vesturlandabúa“: „okkur öll“ - eftirfarandi stingandi spurningu: „why are you hated so much?“ Hvaðan kemur þetta botnlausa hatur á hinum vel meinandi boðberum siðmenningar, frelsis og lýðræðis? Staðreyndin er sú að hægt er að skýra þennan óskiljanlega atburð á nær óteljandi vegu - og engin skýring hrekkur til. Hverju eigum við að trúa? Ef til vill er réttlætanlegt að halda því fram að hinar mögulegu skýringar megi flokka í tvennt: efnislegar eða efnahagslegar skýringar annars vegar og andlegar eða trúar(bragða)legar skýringar hins vegar.

Efnahagslega skýringin

Í sinni einföldustu og skýrustu mynd væri efnahagslega skýringin á þessa leið: orsök hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september er engin önnur en hin almenna staðreynd um misskiptingu auðs heimshluta á milli. Hryðjuverkið var hernaðaraðgerð hins fátæka manns - örvæntingin meðal þeirra sem svelta er orðin svo mikil, og vonbrigði þeirra hvað snertir hinar hefðbundnu og „siðmenntuðu“ leiðir til að ná fram rétti sínum orðin svo megn, að ákveðnum þröngum hópi, sjálfskipuðum en að hluta til ómeðvituðum málsvörum hins fátækari hluta heimsins, leist svo á að ekki væri annað fært en grípa til örþrifaráða. Samkvæmt þessu viðhorfi er það í raun tilviljun að þeir sem tóku það að sér að beita hryðjuverkum í baráttu sinni fyrir málstað hinna fátæku þjóða telja sig fylgismenn tiltekinna trúarbragða - viðkvæði hins eitilharða málsvara efnislega viðhorfsins er á þá leið að í raun séu trúarbrögð ekkert annað en (meðvitað eða ómeðvitað) yfirvarp þeirra sem berjast fyrir því að hnekkja ríkjandi dreifingu efnislegra gæða. Þetta yfirvarp getur til dæmis, og ekki síst, reynst baráttumönnum þessum ákaflega öflugt tæki til að skapa breiðfylkingu um málstaðinn - almúgamaðurinn á ef til vill erfitt með að gera hið stærra samhengi í heimsmálunum sér að hjartans máli, honum nægja einfaldar trúarsetningar um paradís sem taki óhjákvæmilega við af táradal þessum að því tilskildu að umsækjandinn láti lífið fyrir málstaðinn. Hér eru trúarbrögðin ópíum fólksins eins og Marx benti á - að vísu á þann sérkennilega hátt að trúarbrögðin eru orðin öreigunum vopn í stéttabaráttunni (sem í þessu tilviki er orðin alþjóðleg fyrir fullt og allt).

Sé efnislega skýringin algjörlega og fullkomlega rétt - og allar aðrar skýringar einfaldlega rangar - þá verður ekki annað séð en að tiltölulega einfaldar aðgerðir nægi til að stemma stigu við illskunni. Í fyrsta lagi þurfa Vesturlönd að hætta stuðningi við einræðisstjórnir í löndum múslima, til dæmis hina gjörspilltu valdaklíku í Sádi-Arabíu, og sýna þannig í verki vilja sinn til þess að útbreiða og styrkja lýðræðið í heiminum. Í öðru lagi þurfa Vesturlönd að auka svokallaða „þróunaraðstoð“ sína verulega og sýna hinum fátækari löndum heims víðsýni sína og velvilja í verki á ýmsan annan hátt, til dæmis með því að fella niður það sem jafnan er kallað „skuldir þriðja heimsins“. Í þriðja lagi þurfa íbúar á Vesturlöndum að búa sig undir að taka á móti stórauknum straumi flóttamanna hvaðanæva að úr fátæku löndunum, og flóttamönnum þessum á að veita skilyrðislaust, en ekki „tímabundið“, hæli - þeim á að vera í sjálfsvald sett hvenær þeir snúa aftur til heimkynna sinna, eða hvort þeir gera það yfirhöfuð.

Trúarlega skýringin

Í sinni einföldustu og öfgafyllstu mynd felst trúarlega skýringin á hryðjuverkunum 11. september í þeirri hugmynd að ódæðismennirnir, og þeir sem skipulögðu ódæðið með þeim, hafi verið eða séu reknir áfram af blindu trúarofstæki og engu öðru. Hatur þeirra á hinum vestræna heimi, og Bandaríkjunum sérstaklega, sé fyrst og fremst sprottið af þeirri skoðun að íbúar Vesturlanda séu trúleysingjar - þeir séu satt að segja ekki einu sinni kristnir heldur tómhyggjumenn af verstu sort sem stundi hið versta stóðlífi, útbreiði klám og iðki guðlast eins og þeir eigi lífið að leysa. (Þess má geta í framhjáhlaupi að í ferðahandbókum um Íran er vestrænum ferðamönnum sem hyggja á ferðir til landsins og telja sig trúleysingja ráðlagt að flíka ekki þeirri afstöðu sinni sökum þess að það gæti kallað yfir þá reiði innfæddra - frekar skuli þeir þykjast vera kristnir.) Raunar sé heldur ekki nóg með að Vesturlandabúar séu guðlastarar, heldur ofsæki þeir einnig múslima og stefni markvisst að því að brjóta þá á bak aftur, að minnsta kosti í Miðausturlöndum. Þessi skýring skírskotar til hinnar áðurnefndu viðteknu hugmyndar um islam, sem á sér óneitanlega stoð í kennisetningum trúarbragðanna og einnig, að því er næst verður komist, í hugarheimi flugræningjanna 11. september, að fylgismönnum trúarinnar sé eftirsóknarvert að fórna lífi sínu í stríði hinna trúuðu gegn trúleysingjum vegna þess að þar með sé inngangan í paradís tryggð. Þessi trúarskoðun múslima er fyrst og fremst ábyrg fyrir því að okkur reynist erfitt að gera okkur í hugarlund að fylgismenn einhverra annarra trúarbragða hefðu getað drýgt verkið (þá eru sértrúarsöfnuðir undanskildir). Og eins og umræðan hefur leitt í ljóst er sú niðurstaða skammt undan, þegar hér er komið sögu, að eina ráðið við hatrinu sé að halda islam niðri með öllum tiltækum ráðum og vísa því á bug: varpa þeim múslimum sem hafa tekið sér búsetu á Vesturlöndum á dyr og reka þá til „síns heima“, og stofna að því búnu til meira eða minna opinbers trúarbragðastríðs sem miðist að minnsta kosti við að „halda múslimunum heima hjá sér“ (og þar með líkast til að svelta þá til hlýðni), eða sjá jafnvel til þess að jarðvist þeirra, allra með tölu, ljúki.

Ekki þarf mikinn snilling, raunsæismann eða stjórnspeking - að ekki sé minnst á venjulegt foreldri sem annt er um framtíð barna sinna - til að sjá að þessi „lausn“ er einfaldlega ekki tæk. Þess í stað þarf að stemma stigu við hinum öfgafulla meiði islams með því að fjarlægja þau horn í síðu múslima sem helst verða öfgunum að eldsneyti - og þetta verður ekki gert nema með því að setja sig inn í hugarheim múslima og fallast á að trúarleg rök geti haft vægi (og sýna þannig fram á að við erum ekki algjörir trúleysingjar). Að þessu sögðu, er þá ekki nokkuð ljóst hvað gera þarf? Í fyrsta lagi þarf að leysa Palestínudeiluna - eins og ráðamenn í heiminum aðrir en hinir ísraelsku útþenslusinnar virðast raunar þegar hafa skilið - og sanna þannig í eitt skipti fyrir öll máltækið „allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi“. Í öðru lagi þurfa bandarískir hermenn að hverfa á brott úr Sádi-Arabíu, sem er hin heilaga jörð islams: nærvera þeirra þar er trúuðum múslimum hrein og bein móðgun, og ráðamönnum á Vesturlöndum ber að sýna þeirri afstöðu fulla virðingu. Í þriðja lagi þurfa Vesturlandabúar, hvort sem þeir telja sig kristna eða trúleysingja eða eitthvað annað, að takast að nýju á við spurningar um rætur og eðli trúarbragða með það fyrir augum að auka skilning á því hlutverki sem trúarbrögð hljóta ætíð að leika í samfélaginu, hvort sem okkur líkar betur eða verr og hvort sem við teljum okkur trúleysingja eða ekki. Slíkur skilningur er forsenda þess að koma megi í veg fyrir að trúarbrögðin verði uppspretta flokkadrátta í samfélaginu og gróðrarstía ofbeldis og öfga.

Og hvað svo?

Að þessu sögðu er rétt að nema staðar og spyrja: hvor skýringin er rétt - sú efnislega eða sú andlega? Eða, að því gefnu að hvorug þeirra sé fyllilega fullnægjandi: hvor þeirra hefur meira til síns máls? Ekki er hlaupið að því að veita endanlegt svar við slíkum spurningum, og raunar er vandséð á hverju slíkt svar gæti byggst - nema ef vera skyldi djúpviðtölum við Osama bin Laden og mörg þúsund fylgismenn hans nær og fjær, fjölskyldur þeirra og vini. Hvað gengur þessum mönnum til? Hvernig getum við gert hvort tveggja í senn, tekið fram fyrir hendurnar á þeim og reynt að skilja hvaðan hatur þeirra er komið, svo að okkur megi verða fært að koma í veg fyrir að þeir nái markmiði sínu, að steypa heiminum út í öngþveiti og trúarbragðastríð? Augljóst virðist að báðar skýringartillögurnar verður að hafa í huga þegar reynt er að móta stefnu í þessum „nýja“ heimi. Það er ekkert sem heitir: ef áfram á að vera lífvænlegt í heiminum verður að binda enda á efnahagslega einsýni ráðamanna á Vesturlöndum og auka jafnframt virðingu hins almenna Vesturlandabúa fyrir trúarbrögðum og, almennt talað, hlutverki hugmynda í veruleikanum: jafna dreifingu auðs heimshluta á milli og leggja nýja og aukna rækt við menninguna í víðasta skilningi þess orðs. Því að það gildir satt að segja einu hvort við höllumst heldur að því að orsök hinnar nýju stöðu mála í heiminum eigi sér efnislegar eða trúarlegar orsakir: við, íbúar Vesturlanda, eigum aðeins um tvo kosti að velja. Sá fyrri er að láta eins og ekkert hafi í skorist og halda áfram að hugsa um eigin hag í þeirri lærðu fullvissu að „lögmál markaðarins“ haldi yfir okkur verndarhendi og stýri skútunni óhjákvæmilega í höfn. Síðari kosturinn er að kúvenda fleyinu í samræmi við þá óþægilegu staðreynd að illvirkið 11. september á sér rætur í því sem aflaga hefur farið í sögu og siðmenningu okkar Vesturlandabúa sjálfra. Þegar málið er athugað nánar sést að aðeins er um eitt að velja: fyrri kosturinn strikar sjálfan sig út.

Viðbrögð lesenda við grein Björns

Í framhaldi af grein Björns bendir Ingibjörg E. Björnsdóttir á að ef til vill ættum við að spyrja af hverju atburðir líkir þeim sem gerðust 11. september 2001 hafi ekki gerst fyrr þar sem um 1,2 milljarður manna býr við algjöra fátækt í heiminum. „Það er merkilegt hve lítið þessi minnihluti lætur heyra í sér og hve mikla örbirgð hann sættir sig við.”

Auk þess segir Ingibjörg að átökin verði ekki skýrð með einum saman efnahagslegum eða trúarlegum forsendum heldur verði einnig að taka inn í dæmið umhverfislegar forsendur en í þriðja heiminum eru auðlindir eins og jarðnæði og vatn víða af skornum skammti.

„Vegna mikillar fólksfjölgunar, vaxandi umhverfismengunar, eyðimerkurmyndunar og aukinnar fátæktar má búast við enn meiri ólgu í þriðja heiminum á 21.öld. Átök gætu brotist út á afmörkuðum svæðum. Deilur Palestínumanna og Ísraelsmanna eru meðal annars deilur um vatn. Ísraelsmenn stjórna vatnsbirgðum Palestínumanna og skammta þeim vatnið. Þannig má búast við staðbundnum átökum, ólgu og óróa þegar álagið á umhverfið verður meira vegna vaxandi fólksfjölgunar. Það eru einfaldlega takmörk fyrir því hvað mikið af fólki getur lifað á jörðinni.”

Sjá nánari umfjöllun um átök venga auðlindakreppu (e. global environmental scarcity induced conflicts) á heimasíðu Peace and Conflict Studies, University of Toronto.

Annað lesefni á Vísindavefnum
...