Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Um hvað er Íslendingabók Ara fróða?

Margrét Eggertsdóttir

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Íslendingabók er yfirlit yfir sögu íslensku þjóðarinnar frá landnámi til ársins 1118. Hún var samin á árunum 1122–32 af prestinum Ara Þorgilssyni (1068–1148) sem hlaut síðar viðurnefnið hinn fróði. Sagt er frá helstu landnámsmönnum, fyrstu lagaskipan, setningu Alþingis, skiptingu landsins í fjórðunga og fundi Grænlands en lang nákvæmust er frásögnin af kristnitökunni og sögu íslensku kirkjunnar. Sagt er frá erlendu biskupunum sem komu til landsins að boða kristni og fyrstu íslensku biskupunum, einkum Gissuri Ísleifssyni sem var biskup í Skálholti 1082–1118 og hvernig hann vann markvisst að eflingu kirkjunnar.

Á síðunni hér fyrir neðan má lesa frásögn Ara fróða um upphaf byggðar á Íslandi. Ari miðar tímatal sitt við lögsögumenn sem hann telur upp með nafni og greinir frá því hvenær þeir gegndu embætti sínu. Helstu viðburði tengir hann einnig almennu tímatali frá fæðingu Krists og tekur einkum mið af þremur atburðum: dauða Játmundar Englandskonungs 870, falli Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs árið 1000 og upphafi nýrrar tunglaldar 1120. Þannig lagði hann grundvöllinn að tímatali elstu sögu Íslands.

Á síðunni má lesa frásögn Ara fróða um upphaf byggðar á Íslandi.

Það er enginn vafi á því að Ari þekkti erlend sagnfræðirit samin á latínu. Hann notaði þau ekki sem beina heimild en örugglega sem fyrirmynd að riti sínu. Mestar líkur eru á (og næstum fullvíst) að hann hafi þekkt Kirkjusögu Englendinga sem samin var af enska prestinum Beda (672–735) sem kallaður hefur verið faðir enskrar söguritunar. Í sagnaritum miðalda var venjan að vitna til frægra höfunda sem óbrigðulla heimilda. Ari var brautryðjandi á sínu sviði og hafði engin rit sem hann gat vísað í um efnið. Hann vitnar þess í stað í trausta heimildamenn og fylgir þar fordæmi Beda sem einnig vísaði til samtímamanna í formála sínum að kirkjusögunni.

Á dögum Ara var latína alþjóðamál lærðra manna. Fyrir íslenska sagnaritun skipti mestu máli að Ari fylgdi ekki erlendu fordæmi og skrifaði á latínu heldur kaus að rita á tungu þjóðar sinnar og markaði með því stefnu í upphafi íslenskrar bókmenningar. Þannig skapaðist sú hefð að skrifa íslensk sögurit á íslensku.

Ari vísar til ýmissa innlendra heimildarmanna og leggur áherslu á þekkingu þeirra og trúverðugleika. Sá elsti var fæddur 995 og aðrir mundu vel atburði sem áttu sér stað á 11. öld og höfðu þekkt fólk sem var fætt á síðari hluta 10. aldar. Einn þeirra, Hallur í Haukadal, mundi vel þegar hann var skírður þriggja ára gamall af Þangbrandi presti en hann var sendur til Íslands af Ólafi konungi Tryggvasyni skömmu fyrir árið 1000 að kristna landsmenn.

Íslendingabók er nú hvergi varðveitt nema í tveimur pappírshandritum — og afritum þeirra — sem Jón Erlendsson (d. 1672), prestur í Villingaholti í Flóa gerði um miðja sautjándu öld fyrir Brynjólf Sveinsson Skálholtsbiskup. Jón skrifaði bókina upp eftir gömlu handriti sem fræðimenn ætla að hafi verið frá því um 1200. Þetta forna handrit mun hafa týnst ekki löngu eftir að Jón skrifaði það upp og þegar Árni Magnússon hóf söfnun sína tókst honum ekki að finna það.


Þetta svar og myndin sem því fylgir er fengið af vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Margrét Eggertsdóttir

rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

16.11.2015

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Margrét Eggertsdóttir. „Um hvað er Íslendingabók Ara fróða?“ Vísindavefurinn, 16. nóvember 2015, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70995.

Margrét Eggertsdóttir. (2015, 16. nóvember). Um hvað er Íslendingabók Ara fróða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70995

Margrét Eggertsdóttir. „Um hvað er Íslendingabók Ara fróða?“ Vísindavefurinn. 16. nóv. 2015. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70995>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Um hvað er Íslendingabók Ara fróða?
Íslendingabók er yfirlit yfir sögu íslensku þjóðarinnar frá landnámi til ársins 1118. Hún var samin á árunum 1122–32 af prestinum Ara Þorgilssyni (1068–1148) sem hlaut síðar viðurnefnið hinn fróði. Sagt er frá helstu landnámsmönnum, fyrstu lagaskipan, setningu Alþingis, skiptingu landsins í fjórðunga og fundi Grænlands en lang nákvæmust er frásögnin af kristnitökunni og sögu íslensku kirkjunnar. Sagt er frá erlendu biskupunum sem komu til landsins að boða kristni og fyrstu íslensku biskupunum, einkum Gissuri Ísleifssyni sem var biskup í Skálholti 1082–1118 og hvernig hann vann markvisst að eflingu kirkjunnar.

Á síðunni hér fyrir neðan má lesa frásögn Ara fróða um upphaf byggðar á Íslandi. Ari miðar tímatal sitt við lögsögumenn sem hann telur upp með nafni og greinir frá því hvenær þeir gegndu embætti sínu. Helstu viðburði tengir hann einnig almennu tímatali frá fæðingu Krists og tekur einkum mið af þremur atburðum: dauða Játmundar Englandskonungs 870, falli Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs árið 1000 og upphafi nýrrar tunglaldar 1120. Þannig lagði hann grundvöllinn að tímatali elstu sögu Íslands.

Á síðunni má lesa frásögn Ara fróða um upphaf byggðar á Íslandi.

Það er enginn vafi á því að Ari þekkti erlend sagnfræðirit samin á latínu. Hann notaði þau ekki sem beina heimild en örugglega sem fyrirmynd að riti sínu. Mestar líkur eru á (og næstum fullvíst) að hann hafi þekkt Kirkjusögu Englendinga sem samin var af enska prestinum Beda (672–735) sem kallaður hefur verið faðir enskrar söguritunar. Í sagnaritum miðalda var venjan að vitna til frægra höfunda sem óbrigðulla heimilda. Ari var brautryðjandi á sínu sviði og hafði engin rit sem hann gat vísað í um efnið. Hann vitnar þess í stað í trausta heimildamenn og fylgir þar fordæmi Beda sem einnig vísaði til samtímamanna í formála sínum að kirkjusögunni.

Á dögum Ara var latína alþjóðamál lærðra manna. Fyrir íslenska sagnaritun skipti mestu máli að Ari fylgdi ekki erlendu fordæmi og skrifaði á latínu heldur kaus að rita á tungu þjóðar sinnar og markaði með því stefnu í upphafi íslenskrar bókmenningar. Þannig skapaðist sú hefð að skrifa íslensk sögurit á íslensku.

Ari vísar til ýmissa innlendra heimildarmanna og leggur áherslu á þekkingu þeirra og trúverðugleika. Sá elsti var fæddur 995 og aðrir mundu vel atburði sem áttu sér stað á 11. öld og höfðu þekkt fólk sem var fætt á síðari hluta 10. aldar. Einn þeirra, Hallur í Haukadal, mundi vel þegar hann var skírður þriggja ára gamall af Þangbrandi presti en hann var sendur til Íslands af Ólafi konungi Tryggvasyni skömmu fyrir árið 1000 að kristna landsmenn.

Íslendingabók er nú hvergi varðveitt nema í tveimur pappírshandritum — og afritum þeirra — sem Jón Erlendsson (d. 1672), prestur í Villingaholti í Flóa gerði um miðja sautjándu öld fyrir Brynjólf Sveinsson Skálholtsbiskup. Jón skrifaði bókina upp eftir gömlu handriti sem fræðimenn ætla að hafi verið frá því um 1200. Þetta forna handrit mun hafa týnst ekki löngu eftir að Jón skrifaði það upp og þegar Árni Magnússon hóf söfnun sína tókst honum ekki að finna það.


Þetta svar og myndin sem því fylgir er fengið af vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

...