Þetta er þekkt þverstæða um Guð sem við höfum að vísu ekki heyrt áður svona. Við eigum hins vegar svar við spurningunni Ef Guð er almáttugur getur hann þá búið til svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum? og það ætti að vera nokkuð ljóst að spurningin um Guð og súkkulaðið er af sama tagi. Flestir sjá líklega í hendi sér að hægt er að mynda nærri óendanlega margar sams konar þverstæður, sem allar eru í raun þær sömu. Til dæmis:- Gæti Guð eldað svo mikla kjötkássu að hann gæti ekki borðað hana?
- Gæti Guð búið til svo stóran sælgætisbangsa að hann gæti ekki kyngt honum?
- Gæti Guð skrifað svo leiðinlega bók að hann gæti ómögulega lesið hana?
Fyrir þá sem hafa áhuga á hitastigi súkkulaðsins hjá Guði, höfum við það að segja að það eru engin efri mörk til fyrir hitastig. Þegar Guð setur á sig svuntuna og fer að hita súkkulaðið munu efnin í því hins vegar taka hamskiptum. Vatnið sem súkkulaðið er að mestu úr, mun til dæmis breytast fyrst í gufu og síðan í rafgas. Um þetta má lesa til dæmis í svari Viðars Guðmundssonar við spurningunni Er hægt að hita efni endalaust eða eru einhver efri mörk hitastigs, eins og gildir um kulda?
Mynd:
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.