Er rétt að stærsti hluti CO2 losunar á Íslandi sé frá framræstu landi? Hefur slík losun verið mæld hér?Losun koltvíildis (koltvísýrings) CO2 úr framræstum óræktuðum votlendum hefur verið mæld hér á landi. Mælingar hafa að mestu farið fram á Vesturlandi, en einnig hafa verið gerðar mælingar á jarðvegskjörnum víðar af landinu. Þessar mælinga sýna að losun CO2 hér er áþekk því sem mælt hefur verið annars staðar á norðlægum slóðum. Mat á losun CO2 úr framræstu landi hér byggist á losunarstuðli (5,7 t CO2-C ha-1 ár-1), sem gefinn er upp af hálfu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og er hann metinn út frá þekktum rannsóknum. Innlendar mælingar eru í ágætu samræmi við þennan stuðul (Jansen 2008, Þorsteinsson 2011, Guðmundsson and Óskarsson 2014, IPCC 2014, Ólafsdóttir 2015).

Mælingar sýna að losun CO2 úr framræstum óræktuðum votlendum hér á landi er áþekk því sem mælt hefur verið annars staðar á norðlægum slóðum.
Losun koltvíildis árið 2015 var metin í skilum til loftslagssamningsins samtals 11,3 Mt (milljónir tonna) að frádreginni bindingu. Þar af voru 7,9 Mt vegna landnýtingar. Losun vegna landnýtingar samanstendur af mörgum þáttum og eru sumir þeirra neikvæðir, það er um er að ræða bindingu. Binding koltvíildis á sér einkum stað í þremur landgerðum það er nýjum og vaxandi skógi, uppgræðslum og í óframræstum votlendum. Binding koltvíildis vegna landnýtingar er í skilum til samningsins metin alls 1,6 Mt. Raunlosunin er því meiri sem nemur bindingunni eða um 9,5 Mt CO2. Þar af er losun CO2 vegna framræslu metin um 9,3 Mt. Heildarlosun koltvíildis frá Íslandi er að sama skapi 1,6 Mt meiri en raunlosunin eða 12,9 Mt, og er losun vegna framræslu því 72%.
Heimildir:- Guðmundsson, J. and H. Óskarsson (2014). Carbon dioxide emission from drained organic soils in West-Iceland. Soil carbon sequestration for climate food security and ecosystem services, Reykjavík Iceland, JRC science and policy report.
- Hellsing, V. Ú. L., A. S. Ragnarsdóttir, K. Jónsson, N. Keller, Þ. Jóhannsson, J. Guðmundsson, A. Snorrason and J. Þórsson (2017). National Inventory Report 2017, Emissions of greenhouse gases in Iceland from 1990 to 2015; Submitted under the United Nations Framework Convention on Climate Change and the Kyoto Protocol, UST: 299.
- IPCC (2014). 2013 Supplement to the 2006 IPCC Guidelines for National Greenhouse Gas Inventories: Wetlands. T. Hiraishi, Krug, T., Tanabe, K., Srivastava, N., Baasansuren, J., Fukuda, M. and Troxler, T.G., IPCC, Switzerland.
- Jansen, E. (2008). The effects of land use, temperature and water level fluctuations on the emission of nitrous oxide (N2O), carbon dioxide (CO2) and methane (CH4) from organic soil cores in Iceland. Faculty of Life and Environmental Sciences. Reykjavík, University of Iceland. M.Sc.: 73.
- Ólafsdóttir, R. (2015). Carbon budget of a drained peatland in Western Iceland and initial effects of rewetting. Faculty of Environmental Sciences. Borgarnes, Agricultural University of Iceland. MS: 70.
- Þorsteinsson, S. (2011). Tengsl jarðvegsöndunar við magn kolefnis og niturs í jarðvegi. Umhverfisdeild. Hvanneyri, Landbúnaðarháskóli Íslands. BS: 27.
- Jón Guðmundsson.