Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða áhrif hafði Pýþagóras og kenningar hans á heimsmyndina?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Stærðfræðingurinn Pýþagóras (um 572-497 f.Kr.) fæddist á grísku eyjunni Samos. Þegar hann var fertugur fluttist hann til grísku nýlenduborgarinnar Krótón, sunnarlega á Ítalíu. Þar kom hann sér upp hópi lærisveina sem mynduðu einhvers konar sértrúarsöfnuð og skóla. Þeir voru seinna nefndir Pýþagóringar.

Margt er á huldu um ævi og störf Pýþagórasar og fylgismanna hans og kemur þar aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi var regla Pýþagóringa leynileg og þagmælska fylgismanna í hávegum höfð. Í öðru lagi hafa engin verk Pýþagórasar eða annarra Pýþagóringa varðveist. Allar sögur af ævi Pýþagórasar eru samdar löngu eftir að hann dó.

Þrátt fyrir þetta er ýmislegt vitað um kenningar Pýþagóringa og þær höfðu ýmis áhrif á hugsun manna fyrr og síðar. Í svari við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um Pýþagóras og framlag hans til fræðanna? segir Kristín Bjarnadóttir þetta um grunnkenningu Pýþagóringa:

Grunnkenning Pýþagóringa var að „allt væri gert úr tölum“, það er að segja að heilar jákvæðar tölur væru undirstaða alheimsins, hvort sem um var að ræða himinhvolfið, hreyfingar himintungla eða tónlist.

Pýþagóringar voru fyrstir til að tengja náttúruna og hinn ytri veruleika kerfisbundið við tölur. Segja má að þeir hafi staðið að fyrstu tilrauninni til að töluvæða náttúruna. Þeir sem gengu hvað lengst í þessum efnum héldu því beinlínis fram að hlutir væru tölur. Aðrir létu nægja að beita tölum til að útskýra hinn ytri veruleika. Með tengingu talna og veruleikans höfðu Pýþagóringar töluverð áhrif á mótun stærðfræðiiðkunar til forna og þar með almennt í vísindum.

Pýþagóringar þekktu til hinna svonefndu fimm reglulegu margflötunga sem heimspekingurinn Platón fjallaði síðar um í samræðunni Tímajos. Þeir eru: fjórflötungur (e. tetrahedron), teningur (e. cube), áttflötungur (e. octahedron), tólfflötungur (e. dodecahedron) og tvítugflötungur (e. icosahedron). Pýþagóringar tengdu margflötungana við hinar fjóru fornu höfuðskepnur: Jörðin tengdist teningi, eldur fjórflötungi, loft áttflötungi og vatn tvítugflötungi. Alheiminn í heild sinni tengdu Pýþagóringar við tólflötung og töldu að hann væri endanlegur og kúlulaga.

Mynd frá endurreisnartímanum sem sýnir fimm reglulega margflötunga og tengsl þeirra við höfuðskepnurnar fjórar og alheiminn. Í efri röð frá vinstri: áttflötungur (loft), fjórflötungur (eldur), tólfflötungur (alheimurinn). Í neðri röð: teningur (Jörð) og tvítugflötungur (vatn). Í tölfflötungnum sjást fastastjörnur, sól og máni.

Sú hugmynd að jörðin sé kúlulaga á sér líklega rætur hjá Pýþagóringum. Hún kemur fram um 430 f.Kr. Sumir Pýþagóringar héldu því einnig fram að jörðin væri ekki í miðju alheimsins. Gríski heimspekingurinn Aristóteles lýsir hugmyndum Pýþagóringa um sólkerfið á þennan hátt:

Flestir telja jörðina vera í miðju alheimsins, ... en hinir ítölsku heimspekingar sem kallaðir eru Pýþagóringar, eru á öndverðri skoðun. Í miðjunni, segja þeir, er eldur og jörðin er ein af stjörnunum. Dagur og nótt skiptast á vegna hringhreyfingar hennar um miðjuna. (Tilvitnun fengin úr Heimsmynd á hverfanda hveli.)

Þessar róttæku hugmyndir um stöðu jarðarinnar í alheiminum eru eignaðar heimspekingnum Fílólaosi frá Króton (um 470 til um 385 f.Kr.) sem tilheyrði Pýþagóringum. Fílólaos setti enn fremur fram þá hugmynd að til væri andjörð sem væri næst eldinum sem hann staðsetti í miðju heimsins.

Heimsmynd Fílólaos var því sú að í miðju alheimsins var eldur. Tíu hvel röðuðu sér utan um þennan miðeld. Yst var hvel fastastjarna, síðan komu fimm hvel þeirra föruhnatta sem þekktir voru til forna, þá sólin, svo tunglið, síðan jörðin og loks andjörðin næst miðeldinum.

Skýringarmynd sem sýnir heimsmynd Fílólaos. Í miðjunni er miðeldur, svo kemur andjörð, þá jörð, tungl, sól og svo þeir fimm föruhnettir sem þekktir voru í fornöld. Yst er svo fastastjörnuhvelið.

Skýringuna fyrir andjörðinni er væntanlega að leita í talnadýrkun Pýþagóringa. Þeir töldu töluna 10 vera fullkomna. Til þess að fjöldi hvela yrði tíu var andjörðinni bætt við kerfið.

Áhrif Pýþagóringa á framvindu hugmyndasögunnar eru nokkur. Þegar pólski stjörnufræðingurinn Nikulás Kópernikus (1473-1543) setti fram sólmiðjukenningu sína snemma á 16. öld vísaði hann til heimsmyndar Fílólaosar til stuðnings sinni kenningu. Enn fremur má geta þess að þýski stjörnufræðingurinn Jóhannes Kepler (1571-1630) tengdi fjölda og brautir reikistjarnanna við hina reglulegu margflötunga undir lok 16. aldar.

Heimildir:
  • Kragh, Helge S. Conceptions of Cosmos: From Myths to the Accelerating Universe, a History of Cosmology. Oxford: Oxford University Press, 2007.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfanda hveli: Sagt frá heimssýn vísindanna frá öndverðu fram yfir daga Newtons. Reykjavík: Mál og menning, 1986.
  • Philolaus (Stanford Encyclopedia of Philosophy). (Sótt 24.01.2017).

Myndir:

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

31.1.2017

Spyrjandi

Leifur Benedikt Baldursson

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvaða áhrif hafði Pýþagóras og kenningar hans á heimsmyndina?“ Vísindavefurinn, 31. janúar 2017, sótt 16. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71810.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2017, 31. janúar). Hvaða áhrif hafði Pýþagóras og kenningar hans á heimsmyndina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71810

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvaða áhrif hafði Pýþagóras og kenningar hans á heimsmyndina?“ Vísindavefurinn. 31. jan. 2017. Vefsíða. 16. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71810>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða áhrif hafði Pýþagóras og kenningar hans á heimsmyndina?
Stærðfræðingurinn Pýþagóras (um 572-497 f.Kr.) fæddist á grísku eyjunni Samos. Þegar hann var fertugur fluttist hann til grísku nýlenduborgarinnar Krótón, sunnarlega á Ítalíu. Þar kom hann sér upp hópi lærisveina sem mynduðu einhvers konar sértrúarsöfnuð og skóla. Þeir voru seinna nefndir Pýþagóringar.

Margt er á huldu um ævi og störf Pýþagórasar og fylgismanna hans og kemur þar aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi var regla Pýþagóringa leynileg og þagmælska fylgismanna í hávegum höfð. Í öðru lagi hafa engin verk Pýþagórasar eða annarra Pýþagóringa varðveist. Allar sögur af ævi Pýþagórasar eru samdar löngu eftir að hann dó.

Þrátt fyrir þetta er ýmislegt vitað um kenningar Pýþagóringa og þær höfðu ýmis áhrif á hugsun manna fyrr og síðar. Í svari við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um Pýþagóras og framlag hans til fræðanna? segir Kristín Bjarnadóttir þetta um grunnkenningu Pýþagóringa:

Grunnkenning Pýþagóringa var að „allt væri gert úr tölum“, það er að segja að heilar jákvæðar tölur væru undirstaða alheimsins, hvort sem um var að ræða himinhvolfið, hreyfingar himintungla eða tónlist.

Pýþagóringar voru fyrstir til að tengja náttúruna og hinn ytri veruleika kerfisbundið við tölur. Segja má að þeir hafi staðið að fyrstu tilrauninni til að töluvæða náttúruna. Þeir sem gengu hvað lengst í þessum efnum héldu því beinlínis fram að hlutir væru tölur. Aðrir létu nægja að beita tölum til að útskýra hinn ytri veruleika. Með tengingu talna og veruleikans höfðu Pýþagóringar töluverð áhrif á mótun stærðfræðiiðkunar til forna og þar með almennt í vísindum.

Pýþagóringar þekktu til hinna svonefndu fimm reglulegu margflötunga sem heimspekingurinn Platón fjallaði síðar um í samræðunni Tímajos. Þeir eru: fjórflötungur (e. tetrahedron), teningur (e. cube), áttflötungur (e. octahedron), tólfflötungur (e. dodecahedron) og tvítugflötungur (e. icosahedron). Pýþagóringar tengdu margflötungana við hinar fjóru fornu höfuðskepnur: Jörðin tengdist teningi, eldur fjórflötungi, loft áttflötungi og vatn tvítugflötungi. Alheiminn í heild sinni tengdu Pýþagóringar við tólflötung og töldu að hann væri endanlegur og kúlulaga.

Mynd frá endurreisnartímanum sem sýnir fimm reglulega margflötunga og tengsl þeirra við höfuðskepnurnar fjórar og alheiminn. Í efri röð frá vinstri: áttflötungur (loft), fjórflötungur (eldur), tólfflötungur (alheimurinn). Í neðri röð: teningur (Jörð) og tvítugflötungur (vatn). Í tölfflötungnum sjást fastastjörnur, sól og máni.

Sú hugmynd að jörðin sé kúlulaga á sér líklega rætur hjá Pýþagóringum. Hún kemur fram um 430 f.Kr. Sumir Pýþagóringar héldu því einnig fram að jörðin væri ekki í miðju alheimsins. Gríski heimspekingurinn Aristóteles lýsir hugmyndum Pýþagóringa um sólkerfið á þennan hátt:

Flestir telja jörðina vera í miðju alheimsins, ... en hinir ítölsku heimspekingar sem kallaðir eru Pýþagóringar, eru á öndverðri skoðun. Í miðjunni, segja þeir, er eldur og jörðin er ein af stjörnunum. Dagur og nótt skiptast á vegna hringhreyfingar hennar um miðjuna. (Tilvitnun fengin úr Heimsmynd á hverfanda hveli.)

Þessar róttæku hugmyndir um stöðu jarðarinnar í alheiminum eru eignaðar heimspekingnum Fílólaosi frá Króton (um 470 til um 385 f.Kr.) sem tilheyrði Pýþagóringum. Fílólaos setti enn fremur fram þá hugmynd að til væri andjörð sem væri næst eldinum sem hann staðsetti í miðju heimsins.

Heimsmynd Fílólaos var því sú að í miðju alheimsins var eldur. Tíu hvel röðuðu sér utan um þennan miðeld. Yst var hvel fastastjarna, síðan komu fimm hvel þeirra föruhnatta sem þekktir voru til forna, þá sólin, svo tunglið, síðan jörðin og loks andjörðin næst miðeldinum.

Skýringarmynd sem sýnir heimsmynd Fílólaos. Í miðjunni er miðeldur, svo kemur andjörð, þá jörð, tungl, sól og svo þeir fimm föruhnettir sem þekktir voru í fornöld. Yst er svo fastastjörnuhvelið.

Skýringuna fyrir andjörðinni er væntanlega að leita í talnadýrkun Pýþagóringa. Þeir töldu töluna 10 vera fullkomna. Til þess að fjöldi hvela yrði tíu var andjörðinni bætt við kerfið.

Áhrif Pýþagóringa á framvindu hugmyndasögunnar eru nokkur. Þegar pólski stjörnufræðingurinn Nikulás Kópernikus (1473-1543) setti fram sólmiðjukenningu sína snemma á 16. öld vísaði hann til heimsmyndar Fílólaosar til stuðnings sinni kenningu. Enn fremur má geta þess að þýski stjörnufræðingurinn Jóhannes Kepler (1571-1630) tengdi fjölda og brautir reikistjarnanna við hina reglulegu margflötunga undir lok 16. aldar.

Heimildir:
  • Kragh, Helge S. Conceptions of Cosmos: From Myths to the Accelerating Universe, a History of Cosmology. Oxford: Oxford University Press, 2007.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfanda hveli: Sagt frá heimssýn vísindanna frá öndverðu fram yfir daga Newtons. Reykjavík: Mál og menning, 1986.
  • Philolaus (Stanford Encyclopedia of Philosophy). (Sótt 24.01.2017).

Myndir:...