Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig var heimsmynd Fornegypta?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Heimsmynd Fornegypta gerði ráð fyrir þrískiptingu heimsins: jörð, himinn og undirheimur. Í miðju veraldarinnar var flöt jörð sem Nílarfljót skipti í tvennt og umhverfis jörðina var mikið haf. Fyrir ofan jörðina var himinn sem var borinn uppi af fjórum súlum eða fjórum fjöllum. Undirheimur sem Fornegyptar nefndu Duat var fyrir neðan jörðina.

Í Duat var allt það sem ekki var sýnilegt. Þangað fóru hinir látnu eftir dauðann og þar voru stjörnur sem ekki sáust þegar bjart var. Í Duat var einnig sólin þegar rökkvaði í hinum sýnilega heimi. Fornegyptar töldu þess vegna að sól og stjörnur ferðuðust á milli hins sýnilega og ósýnilega heims.

Frumvatnið er persónugert í gyðjunni Nut sem myndar stjörnum prýddan boga yfir Geb, guði jarðarinnar, sem hvílist. Shu, guð loftsins, aðskilur himinn og jörð. Sólin siglir á báti á Nut.

Samkvæmt heimsmynd Fornegypta var heimurinn kyrrstæður og í eðli sínu tímalaus. Engu að síður töldu Fornegyptar að einhvern tíma í fyrndinni hefði heimurinn eins og þeir þekktu hann ekki verið til. Þekktar eru að minnsta kosti þrjár ólíkar útgáfur af sköpun heimsins úr fornegypskum heimildum. Samkvæmt þeim öllum hafði takmarkalaust frumvatn verið til frá upphafi vega og það yrði til um alla eilífð. Hinir egypsku guðir, jörðin og allt sem henni tilheyrði, hafði orðið til úr frumvatninu. Þetta vatn þakti einnig heiminn á alla vegu, það var bæði fyrir ofan himinninn og undir Duat.

Ein útskýring á mikilvægi þessa frumvatns í egypskri hugmyndafræði er mikilvægi Nílarfljótsins fyrir lífið í Nílardalnum. Áin Níl flæðir yfirleitt yfir bakka sína einu sinni á ári og alltaf á sama tíma. Þá dreifast áburðarefni um Nílardalinn sem eru nauðsynleg til ræktunar. Þegar vatnið sjatnar eftir flóðin, sprettur fljótt upp frjósamur gróður og fjölskrúðugt fugla- og skordýralíf fylgir í kjölfarið. Sköpun heimsins fyrir tilstuðlan vatnsins er þess vegna eins konar árviss endurtekinn viðburður.

Þessar náttúrulegu aðstæður í Nílardalnum gerðu það að verkum að þar var hentugt fyrir menn að setjast að og stunda akuryrkju í stað þess að stunda eingöngu veiðar og fæðusöfnun eins og tíðkaðist á fornsteinöld. Þessi breyting er talin vera upphaf siðmenningarinnar. Mennirnir náðu smám saman betri tökum á tilverunni með samvinnu og verkaskiptingu.

Hluti af mynd úr papýrushandriti frá því um 950 f.Kr. Myndin er sambærileg við þá fyrri og á henni sést Nut mynda boga yfir Geb. Shu er þar á milli, ásamt tveimur goðmögnum með dýrshöfuð.

Í Egyptalandi til forna var algengt að náttúrufyrirbæri væru persónugerð. Frumvatnið var til að mynda persónugert sem kvenguðinn Nut (einnig skrifað Nun eða Nu ásamt öðrum afbrigðum). Í egypsku myndletri var Nut táknuð með leirkeri undir vatn.

Annar forn guð var Atum. Sumar frásagnir segja að Nut hafi skapað hann. Atum var hinn eiginlegi guð sköpunarinnar. Hann skapaði guðina Shu, sem var guð loftsins og Tefent sem var gyðja regns og raka. Samkvæmt einni sögn skapaði Atum þau með sjálfsfróun. Nafn Atums er hugsanlega dregið af orðinu tem sem merkir 'að ljúka' eða 'klára'. Á þriðja árþúsundi f.Kr. töldu Egyptar að Atum hefði það hlutverk að færa sálir látinna konunga frá píramídunum upp á stjörnuhiminninn.

Margt í heimsmynd Fornegypta á sér samsvörum í öðrum heimsmyndum til forna.

Heimildir:

Myndir:

Móna spurði einnig um Nílarfljótið og tengsl þess við upphaf menningarinnar.

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

16.1.2017

Síðast uppfært

19.11.2018

Spyrjandi

Móna Becker

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvernig var heimsmynd Fornegypta?“ Vísindavefurinn, 16. janúar 2017, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=11351.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2017, 16. janúar). Hvernig var heimsmynd Fornegypta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=11351

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvernig var heimsmynd Fornegypta?“ Vísindavefurinn. 16. jan. 2017. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=11351>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig var heimsmynd Fornegypta?
Heimsmynd Fornegypta gerði ráð fyrir þrískiptingu heimsins: jörð, himinn og undirheimur. Í miðju veraldarinnar var flöt jörð sem Nílarfljót skipti í tvennt og umhverfis jörðina var mikið haf. Fyrir ofan jörðina var himinn sem var borinn uppi af fjórum súlum eða fjórum fjöllum. Undirheimur sem Fornegyptar nefndu Duat var fyrir neðan jörðina.

Í Duat var allt það sem ekki var sýnilegt. Þangað fóru hinir látnu eftir dauðann og þar voru stjörnur sem ekki sáust þegar bjart var. Í Duat var einnig sólin þegar rökkvaði í hinum sýnilega heimi. Fornegyptar töldu þess vegna að sól og stjörnur ferðuðust á milli hins sýnilega og ósýnilega heims.

Frumvatnið er persónugert í gyðjunni Nut sem myndar stjörnum prýddan boga yfir Geb, guði jarðarinnar, sem hvílist. Shu, guð loftsins, aðskilur himinn og jörð. Sólin siglir á báti á Nut.

Samkvæmt heimsmynd Fornegypta var heimurinn kyrrstæður og í eðli sínu tímalaus. Engu að síður töldu Fornegyptar að einhvern tíma í fyrndinni hefði heimurinn eins og þeir þekktu hann ekki verið til. Þekktar eru að minnsta kosti þrjár ólíkar útgáfur af sköpun heimsins úr fornegypskum heimildum. Samkvæmt þeim öllum hafði takmarkalaust frumvatn verið til frá upphafi vega og það yrði til um alla eilífð. Hinir egypsku guðir, jörðin og allt sem henni tilheyrði, hafði orðið til úr frumvatninu. Þetta vatn þakti einnig heiminn á alla vegu, það var bæði fyrir ofan himinninn og undir Duat.

Ein útskýring á mikilvægi þessa frumvatns í egypskri hugmyndafræði er mikilvægi Nílarfljótsins fyrir lífið í Nílardalnum. Áin Níl flæðir yfirleitt yfir bakka sína einu sinni á ári og alltaf á sama tíma. Þá dreifast áburðarefni um Nílardalinn sem eru nauðsynleg til ræktunar. Þegar vatnið sjatnar eftir flóðin, sprettur fljótt upp frjósamur gróður og fjölskrúðugt fugla- og skordýralíf fylgir í kjölfarið. Sköpun heimsins fyrir tilstuðlan vatnsins er þess vegna eins konar árviss endurtekinn viðburður.

Þessar náttúrulegu aðstæður í Nílardalnum gerðu það að verkum að þar var hentugt fyrir menn að setjast að og stunda akuryrkju í stað þess að stunda eingöngu veiðar og fæðusöfnun eins og tíðkaðist á fornsteinöld. Þessi breyting er talin vera upphaf siðmenningarinnar. Mennirnir náðu smám saman betri tökum á tilverunni með samvinnu og verkaskiptingu.

Hluti af mynd úr papýrushandriti frá því um 950 f.Kr. Myndin er sambærileg við þá fyrri og á henni sést Nut mynda boga yfir Geb. Shu er þar á milli, ásamt tveimur goðmögnum með dýrshöfuð.

Í Egyptalandi til forna var algengt að náttúrufyrirbæri væru persónugerð. Frumvatnið var til að mynda persónugert sem kvenguðinn Nut (einnig skrifað Nun eða Nu ásamt öðrum afbrigðum). Í egypsku myndletri var Nut táknuð með leirkeri undir vatn.

Annar forn guð var Atum. Sumar frásagnir segja að Nut hafi skapað hann. Atum var hinn eiginlegi guð sköpunarinnar. Hann skapaði guðina Shu, sem var guð loftsins og Tefent sem var gyðja regns og raka. Samkvæmt einni sögn skapaði Atum þau með sjálfsfróun. Nafn Atums er hugsanlega dregið af orðinu tem sem merkir 'að ljúka' eða 'klára'. Á þriðja árþúsundi f.Kr. töldu Egyptar að Atum hefði það hlutverk að færa sálir látinna konunga frá píramídunum upp á stjörnuhiminninn.

Margt í heimsmynd Fornegypta á sér samsvörum í öðrum heimsmyndum til forna.

Heimildir:

Myndir:

Móna spurði einnig um Nílarfljótið og tengsl þess við upphaf menningarinnar.

...