Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er ekki augljóst að hegðun fólks ræðst af sálarlífi þess? Að fólk aðhefst vegna þess sem það hugsar, veit, vill og finnur til? Í daglegum samskiptum taka flestir þessu sem gefnum hlut og lesa tilfinningu, hugsun og löngun – meðvitaða og ómeðvitaða – í hugskot samferðamanna. Er ekki jafnaugljóst að ef sálfræði á að útskýra hegðun þá hljóti hún að fást við sálarlíf? Burrhus Frederic Skinner (1904–1990) fannst hvorugt augljóst, hvorki að sálarlíf ráði hegðun né að það skuli vera viðfangsefni sálfræðinnar. Hann var upphafsmaður róttækrar atferlishyggju og atferlisgreiningar.
Skinner var sammála öðrum atferlissinnum um að efniviður og viðfangsefni sálfræðinnar skyldi vera hlutlæg hegðun, ekki innsýn fólks í eigið hugskot. Hann gekk svo lengra en að vantreysta hugarrýni og hélt því fram að engar kenningar um sálarlíf, hugskot eða hugarferli, gætu gegnt hlutverki í sálfræði. Þannig væru almennar hugmyndir um samband hugar og hegðunar, um vit, vilja og tilfinningar, fræðilega gagnslausar jafnvel þó að þær væru mældar hlutlægt og kallaðar millibreytur eða hugsmíðar eins og aðrir atferlissinnar iðkuðu. Að viti Skinners fæst sálfræði við greiningu á verklegu sambandi milli umhverfis og hlutlægrar hegðunar eftir réttum reglum. Þannig áttu að fást vísindaleg svör við öllum mikilvægum spurningum sálfræðinnar.
Skinner var athafnamaður sem lét ekki sitja við orðin tóm. Hann mótaði ekki bara kenningu um samband hegðunar og umhverfis og samdi um hana greinar og bækur heldur hélt hann ótrauður fram hagnýtingarmöguleikum þessara hugmynda og sýndi fram á samsvörun rannsókna sinna á tilraunastofum við lífið sjálft.
Burrhus Frederic Skinner (1904-1990) notaði meðal annars dúfur í tilraunum sínum.
Kenning Skinners er í grundvallaratriðum sú að hegðun mótast af hlutlægum undanförum og afleiðingum, sem sagt af umhverfi og breytingum á því. Aðalhugtökin eru frekar fá: Styrkir (umhverfisbreyting vegna hegðunar sem viðheldur henni) og greinireiti (áreiti sem gefur til kynna að hegðun sé möguleg) eru aðalfulltrúar umhverfis. Virk hegðun (atferli sem leiðir til styrkis og er viðhaldið af honum) er fulltrúi atferlis í samspilinu. Styrkingaskilmálar og styrkingasaga (e. schedules & history of reinforcement) formgera sambandið í tíma.
Kenningin er markviss og afmörkuð og hugtökin í skilgreindu sambandi hvert við annað. Þau hafa hlutlæga, ótvíræða merkingu og einhlítt, jafnvel algilt hlutverk líkast því sem var í fyrirmyndarvísindum framhyggjumanna, eðlisfræði, en ólíkt því sem gerðist og gekk í samtímasálfræði annarra atferlissinna. Þetta kerfi gat fljótt af sér kraftmiklar rannsóknir og hagnýtingu og það með tækjum og skráningaraðferðum, sem svipaði til raunvísinda. Á tilraunastofum var sýnt fram á gildandi lögmál í einföldum aðstæðum, sem síðan voru hagnýtt á vettvangi dagsins, meðal annars í uppeldi, kennslu og meðferðarvinnu.
Þetta var í örstuttu máli helsta framlag B. F. Skinners til vísindanna: Að binda í kenningu róttæka, frjóa hugmynd um samspil umhverfis við einstakling í mótun hegðunar; og að móta frjótt rannsóknaumhverfi fyrir kenninguna með áhrifamiklum rannsóknum sem urðu grundvöllur hagnýtingar. Hagnýting atferlisgreiningar var hugsjón Skinners ekki síður en grundvallarkenningin. Hann smíðaði hagnýtan tækjabúnað, frá kennsluvélum til umönnunarrýmis fyrir smábörn, og nýtti kenninguna á marga vegu. Hann skrifaði líka staðleysuskáldsögu, Walden Two, um draumasamfélag sem byggðist á atferlisgreiningu og var skeleggur talsmaður hugmynda sinna í ræðu og riti.
Nú, aldarfjórðungi eftir andlát hans, er hann gjarnan – í könnunum, viðtölum og blaðagreinum – nefndur áhrifamesti sálfræðingur 20. aldar. Sálfræði hans er að sönnu áhrifamikil í hagnýtingu af ýmsum toga og grundvöllur sívirkra rannsókna í atferlisgreiningu. En hún var aldrei allsráðandi í vestrænni eða bandarískri sálfræði. Hefðbundin atferlisstefna í fjölbreyttum tilbrigðum – sem mega sum teljast undanfari hugrænnar nútímasálfræði – var meginstraumur vestrænnar sálfræði fram yfir miðja 20. öld þar til kenningar um hugarstarf tóku við því sæmdarheiti. Fylgjendur Skinners voru að sönnu fræknir, snjallir og áberandi, en ekki í meirihluta, hvorki í akademískri né faglegri sálfræði.
Kennsluvél sem Skinner smíðaði.
Enginn ágreiningur er um notagildi atferlisgreiningar við margvíslegar aðstæður. Hún blómstar enn í fræðum og fagi og umtalsverðar grunnrannsóknir fara fram í hennar nafni. Margt í aðferðum og kenningum Skinners hefur þannig elst vel. Sumt hefur elst miður vel, til dæmis hugmyndin um að atferlisgreining væri vænleg heildarkenning fyrir alla sálfræði og mundi með tíð og tíma svara öllum spurningum í sálfræði sem eru svara verðar. Kenningar Skinners eru þannig ekki aflagðar eða gleymdar – en mótast í rannsóknum og verkefnum fyrir nýja tíma.
Skinner var beinskeyttur og gagnrýninn í skrifum og taldi flestri sálfræði, annarri en sinni, ábótavant við að skýra hegðun og hafa áhrif á hana. Gagnrýni hans var alla jafna máluð breiðum ögrandi strokum, stundum í vinsælum bókum fyrir almenning. Í faglegri umræðu svaraði hann sjaldan gagnrýni í afmörkuðum svörum, heldur haslaði sér ritvöll samkvæmt eigin reglum dálítið eins og keisari sem þarf lítið að vitna í minni spámenn. Þessi stíll á vafalaust sinn þátt í því hve umdeildur hann varð, eins konar uppáhaldsandstæðingur lærðra sem leikra. Stórkarlalegar yfirlýsingar um sálfræði hans eru því algengar og ekki allar jafnréttar.
Oft er því til dæmis haldið fram að uppeldisheimspeki Skinners, ef svo má að orði komast, geri nemanda að óvirku, stöðu dýri sem skuli pískað áfram með refsivendi eða mútum. Þetta er vanþekking á grundvallaratriðum. Í kenningu Skinners um hegðun eru lífverur ekki staðar, heldur einmitt virkar; þær eru ekki eins og vélar sem er slökkt á. Eðli þeirra er iðandi líf, sumar gera of lítið, aðrar of mikið – allt í samræmi við hæfileika og sögu hvers einstaklings eða tegundar. Góð hegðunarmótun felst í því að virkja þessa hegðun með hagstæðum afleiðingum. Efling, ekki refsing, er aðalaðferðin. Sköpun, ekki stöðlun, er markmiðið. Einstaka klunnalegar kennsluaðferðir eða vitnisburður þeirra sem litla kunnáttu hafa í fræðum Skinners, eru ótæk viðmið um hugmyndirnar sem búa að baki.
Þessu skyld er tuggan um það að í kerfi Skinners sé hegðun ekki annað en vélrænar keðjur áreitis og ósjálfráðra viðbragða. Þetta er líka grunnfærnisleg túlkun. Virk hegðun, sem er helsta greiningareining Skinners, er ekki ósjálfrátt viðbragð heldur nokkuð sem lífvera gerir af eigin rammleik. Greining og aðferð Skinners býður því upp á meiri frum- og sveigjanleika en ókunnugum sýnist.
Loks er ekki heldur rétt að sálfræði Skinners sé um verur án meðvitundar, sem hugsi ekki, langi ekki og viti ekki. Það er ekki svo. Með því að efast um að meðvitund sé sjálfstætt viðfangsefni og greiningargrundvöllur fyrir sálfræði er ekki þar með sagt að fólk viti ekki af sér, viti ekkert eða langi ekkert.
Hneykslan vegna afstöðu Skinners til hins frjálsa vilja er af svipuðum meiði. Viljahugtakið er ekki gagnlegt í hegðunargreiningu að hans viti, það leiðir til ótraustra skýringa og beinir sjónum frá því sem máli skiptir. Þessi afstaða – hvort sem fólk fellst á hana eða ekki – er ekki óskyld því þegar jarðvísindamaður efast um að náð guðs sé heppilegt fræðihugtak til að skýra giftusamlega stöðvun hraunrennslis.
Afstaða Skinners fellir einstaklinga þannig ekki undir einhvers konar þrælbindingu umhverfis. Umhverfi sem hannað er eftir lögmálum atferlisgreiningar á að stuðla að frelsisvitund, ef það er leyfilegt orðalag, ekki bælingu eða heftingu. Það er fráleitt að ætla Skinner illskeytta alræðishyggju, harðneskjulegt stjórnlyndi eða skeytingarleysi um fólk. Hann var einn af þeim sem fyrst undirrituðu Aðra húmanistayfirlýsinguna 1973.
B. F. Skinner fæddist í Susquehanna í Pennslylvaniu árið 1904. Hann ætlaði sér ungur að verða rithöfundur og tók fyrsta háskólapróf í enskum bókmenntum frá Hamiltonháskóla í New York. Hann vaknaði af rithöfundadraumnum eftir nokkrar þrengingar, valdi sér sálfræði í framhaldsnámi og útskrifaðist með doktorspróf í greininni frá Harvardháskóla 1931. Þar starfaði hann til æviloka að frátöldum áratug þegar hann vann í háskólum í miðvestrinu, Minnesota og Indiana. Hann lést í Cambridge, Massachusettes 1990.
Myndir:
Sigurður J. Grétarsson. „Hver var Burrhus Frederic Skinner og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 9. mars 2016, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71826.
Sigurður J. Grétarsson. (2016, 9. mars). Hver var Burrhus Frederic Skinner og hvert var framlag hans til vísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71826
Sigurður J. Grétarsson. „Hver var Burrhus Frederic Skinner og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 9. mar. 2016. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71826>.