Sólin Sólin Rís 05:33 • sest 21:22 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:14 • Sest 05:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:26 • Síðdegis: 23:41 í Reykjavík

Á hvaða hugmyndafræði byggir Bræðralag múslíma?

María S. Jóhönnudóttir

Bræðralag múslíma (ar. al-Ikhwan al-Muslimun) er íslömsk hreyfing sem stofnuð var í Egyptalandi árið 1928. Fjallað er nánar um tilurð hennar í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er Bræðralag múslíma og hvenær var það stofnað?

Hugmyndafræði Bræðralags múslíma byggist á íslömskum gildum. Kjarninn í íslam er að Allah hafi búið til fyrirmyndarkerfi í öllum málum, fyrir allt mannkyn. Þessu kerfi er lýst í Kóraninum og í túlkunum á honum. Áhrifamesti hugmyndafræðingur bræðralagsins á 20. öld var rithöfundurinn, guðfræðingurinn og skáldið Sayyid Qutb (1906–1966), en hann samdi meðal annars Ma‘alim fi-l-Tariq (e. Milestones) og Fi Zilal al-Quran (e. In the Shade of the Qur‘an). Síðara verkið er þrjátíu binda lýsing á íslömskum lögum og guðfræði. Sayyid Qutb og Hassan al-Banna (1906–1949), stofnandi bræðralagsins, skilgreindu bræðralagið sem íslamska hreyfingu.[1]

Sayyid Qutb (1906–1966) var einn áhrifamesti hugmyndafræðingur Bræðralags múslíma. Hann var sakfelldur fyrir að hafa lagt á ráðin um morðtilræði við Nasser forseta Egyptaland og tekinn af lífi.

Hugmyndafræði al-Banna og bræðralagsins byggðist á hugmyndum þriggja íslamskra fræðimanna: Jamal al-Din al-Afghani (1838-1897), Muhammad Abduh (1849-1905) og Muhammad Rashid Rida (1865-1935). Tveir fyrrnefndu mennirnir færðu íslamska hugmyndafræði í nútímabúning á 19. öld. Þeir vildu nútímavæða samfélög múslíma þannig að þau líktust þeim vestrænu en byggðu þó á íslömskum hefðum. Muhammad Abduh vildi til að mynda veita konum meiri réttindi, það átti sérstaklega við um tækifæri þeirra til að mennta sig. Hugmyndir þessara tveggja manna náðu ekki vinsældum. Nemandi þeirra og eftirmaður, Muhammad Rashid Rida, endurskoðaði hugmyndirnar og færði í nýjan búning. Hann taldi rétt eins og hinir tveir að hinn íslamski heimur væri veikburða í samanburði við hinn vestræna heim. Hann vildi hins vegar fara aðra leið til að styrkja múslímsk samfélög. Í staðinn fyrir að nútímavæða þau vildi hann snúa þeim aftur til íslam með því að koma á íslömskum sharía-lögum og stofna íslömsk ríki.[2]

Forvígismenn bræðralagsins kölluðu eftir stofnun íslamsks ríkis og töldu að sönn íslömsk gildi væru nauðsynleg fyrir lýðræðið, með þeim væri hægt að leysa vandamál nútímans. Bræðralagið krafðist þess að herinn yrði styrktur, að tengsl við önnur arabísk ríki yrðu efld og bann lagt við okurlánum. Þá vildi bræðralagið að vinnuaðstaða við landbúnað og akuryrkju yrði bætt, að komið yrði á lágmarkslaunum, að spítalar og heilsugæslustöðvar yrðu byggðar og að ríkisstjórnin tæki á atvinnuleysi.

Hugmyndafræði bræðralagsins tók ekki aðeins til félagslegra og pólitískra þátta heldur einnig til siðferðislegra mála. Bræðralagið taldi að margir Egyptar hefðu fallið í freistni og að siðferði þeirra væri í hættu vegna veraldlegra lifnaðarhátta. Það hefði leitt af sér fátækt og yfirráð erlendra afla. Þessu vildi forvígismenn bræðralagsins breyta með því að ritskoða sjónvarp, útvarp og prentuð efni. Þeir vildu að trúarleg menntun færi fram innan skólakerfisins og hvöttu til menntunar á íslamskri sögu, notkunar á arabísku tungumáli, að einstaklingar lærðu Kóraninn utanbókar og lögðu fast að fólki að giftast. Þeir vildu banna áfengi, fjárhættuspil, dans, leikhús, kvikmyndir, erlendan klæðnað, vændi og framhjáhald.[3]

Það sem aðgreindi Bræðralag múslíma frá öðrum trúarlegum hreyfingum var trúarleg túlkun á því sem orsakaði „lasleika“ eða siðferðislega hnignun Egyptalands. Að mati al-Banna og annarra íhaldssamra var vandamálið yfirráð erlendra afla, það er að segja Breta, og útbreiðsla á vestrænum veraldlegum gildum. Veraldlegt lagakerfi og menntun sem Egyptar höfðu fengið „að láni“ frá Bretum var ekki í takt við trúarleg gildi egypsks samfélags. Kvikmyndir og tónlist grófu undan hefðbundnum íslömskum gildum og sköpuðu siðferðisleg og kynferðisleg vandamál fyrir ungt fólk.[4]

Bræðralagið var því ákveðið í að útrýma yfirráðum Breta og vildi búa til nýtt samfélag í kjölfarið sem væri byggt á Kóraninum og sharía-lögum. Þeir vildu stranga hugmyndafræði sem hafnaði vestrænum gildum og áhrifum. Enda leit bræðralagið svo á að heimsvaldastefna Breta hefði eyðilagt Egyptaland og bresk lífsviðhorf hefðu vanhelgað kenningar Kóransins.[5]

Fáni Bræðralags múslíma.

Sýn bræðralagsins á íslam átti eftir að hafa áhrif á hugmyndir annarra endurskoðunarsinnaðra hópa súnníta (e. revivalist). Þær hugmyndir sem bræðralagið breiddi út var það sem kallast din wa dawla (trú og ríki). Það er að íslam væri ekki aðeins leiðarvísir fyrir fólk í einkalífinu og í helgisiðum, heldur einnig yfirgripsmikið kerfi sem tæki til allra þátta í lífi fólks, þar með talið stjórnmálasviðsins. Forvígismenn bræðralagsins töldu að íslamskt stjórnkerfi væri öðru vísi og æðra en veraldleg stjórnkerfi Vesturlanda. Hugmyndafræði bræðralagsins fólst í því að að snúa til hins sanna íslams sem Múhameð spámaður hafði boðað.[6]

Á stjórnmálasviðinu voru markmið bræðralagsins fyrst að frelsa Egyptaland og önnur íslömsk ríki frá heimsvaldastefnunni, síðan að koma á eða endurinnleiða íslömsk sharía-lög og vinna að endurlífgun íslams. Endalegt markmið samtakanna var að koma á alheimsbræðralagi og yfirráðum íslamskra þjóða.[7]

Bræðralagið barðist einnig fyrir endurreisn kalífadæmisins sem hafði verið afnumið árið 1922 af Mustafa Kemal Atatürk (1881–1938), stofnanda nútíma Tyrklands. Þeir hrósuðu gömlum stjórnarháttunum kalífadæmisins, þar sem stjórnendur voru valdir út frá þekkingu þeirra á íslam og reynslu. Bræðralagið trúði því að hnignun íslams hefði hafist eftir lok tímabils fyrstu fjögurra kalífanna. Til að búa til sanna íslamska ríkisstjórn yrði að snúa til þeirrar himnesku fyrirmyndar sem Múhameð spámaður setti fram. Þetta var hluti af íslamskri heimsbyltingu (e. global Islamic revolution).[8]

Hugmyndafræði Bræðralags múslíma byggðist því fyrst og fremst á íslamskri hugmyndafræði. Slagorð bræðralagsins gefa þetta ágætlega til kynna en þau hljóða svo í lauslegri þýðingu: „Guð er okkar tilgangur, spámaðurinn leiðtogi okkar, Kóraninn er okkar stjórnarskrá, heilagt stríð okkar leið og æðsta takmark okkar er að deyja fyrir málstað Guðs.“[9]

Tilvísanir:
 1. ^ Rachel Ehrenfeld, The Muslim Brotherhood Evolution: An Overview, American Foreign Policy Interests 33:2 (2011), bls. 71.
 2. ^ The ideology of the Muslim Brotherhood á vefnum CRETHIPLETHI, 19. júní 2011, sótt 8. mars 2016.
 3. ^ Ziad Munson, Islamic Mobilization: Social Movement Theory and the Egyptian Muslim Brotherhood, The Sociological Quarterly, 4:42 (2001), bls. 490.
 4. ^ Carrie Rosefsky Wickham, The Muslim Brotherhood. Evolution of an Islamist Movement (New Jersey 2013), bls. 22.
 5. ^ Rupe Simms, "Islam Is Our Politics": A Gramscian Analysis of the Muslim Brotherhood (1928-1953), Social Compass 49:4 (2002), bls. 570.
 6. ^ Carrie Rosefsky Wickham, The Muslim Brotherhood. Evolution of an Islamist Movement (New Jersey 2013), bls. 22-23.
 7. ^ Leila Ahmed, A Quiet Revolution. The Veil´s Resurgence, from the Middle East to America, New Haven and London 2011, bls. 52.
 8. ^ Rupe Simms, "Islam Is Our Politics": A Gramscian Analysis of the Muslim Brotherhood (1928-1953), Social Compass 49:4 (2002), bls. 575
 9. ^ Müge Aknur, The Muslim Brotherhood in Politics in Egypt: From Moderation to Authoritarianism? Uluslararasi Hukuk ve Politika, 9:33 (2013), bls. 4. Þýðing svarshöfundar.

Myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu TRÚ203G Mið-Austurlönd: Trúarbrögð, stjórnmál, og saga vorið 2016 í umsjón Magnúsar Þorkels Bernharðssonar.

Höfundur

María S. Jóhönnudóttir

M.A.-nemi í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

19.4.2016

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

María S. Jóhönnudóttir. „Á hvaða hugmyndafræði byggir Bræðralag múslíma?“ Vísindavefurinn, 19. apríl 2016. Sótt 21. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71987.

María S. Jóhönnudóttir. (2016, 19. apríl). Á hvaða hugmyndafræði byggir Bræðralag múslíma? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71987

María S. Jóhönnudóttir. „Á hvaða hugmyndafræði byggir Bræðralag múslíma?“ Vísindavefurinn. 19. apr. 2016. Vefsíða. 21. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71987>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Á hvaða hugmyndafræði byggir Bræðralag múslíma?
Bræðralag múslíma (ar. al-Ikhwan al-Muslimun) er íslömsk hreyfing sem stofnuð var í Egyptalandi árið 1928. Fjallað er nánar um tilurð hennar í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er Bræðralag múslíma og hvenær var það stofnað?

Hugmyndafræði Bræðralags múslíma byggist á íslömskum gildum. Kjarninn í íslam er að Allah hafi búið til fyrirmyndarkerfi í öllum málum, fyrir allt mannkyn. Þessu kerfi er lýst í Kóraninum og í túlkunum á honum. Áhrifamesti hugmyndafræðingur bræðralagsins á 20. öld var rithöfundurinn, guðfræðingurinn og skáldið Sayyid Qutb (1906–1966), en hann samdi meðal annars Ma‘alim fi-l-Tariq (e. Milestones) og Fi Zilal al-Quran (e. In the Shade of the Qur‘an). Síðara verkið er þrjátíu binda lýsing á íslömskum lögum og guðfræði. Sayyid Qutb og Hassan al-Banna (1906–1949), stofnandi bræðralagsins, skilgreindu bræðralagið sem íslamska hreyfingu.[1]

Sayyid Qutb (1906–1966) var einn áhrifamesti hugmyndafræðingur Bræðralags múslíma. Hann var sakfelldur fyrir að hafa lagt á ráðin um morðtilræði við Nasser forseta Egyptaland og tekinn af lífi.

Hugmyndafræði al-Banna og bræðralagsins byggðist á hugmyndum þriggja íslamskra fræðimanna: Jamal al-Din al-Afghani (1838-1897), Muhammad Abduh (1849-1905) og Muhammad Rashid Rida (1865-1935). Tveir fyrrnefndu mennirnir færðu íslamska hugmyndafræði í nútímabúning á 19. öld. Þeir vildu nútímavæða samfélög múslíma þannig að þau líktust þeim vestrænu en byggðu þó á íslömskum hefðum. Muhammad Abduh vildi til að mynda veita konum meiri réttindi, það átti sérstaklega við um tækifæri þeirra til að mennta sig. Hugmyndir þessara tveggja manna náðu ekki vinsældum. Nemandi þeirra og eftirmaður, Muhammad Rashid Rida, endurskoðaði hugmyndirnar og færði í nýjan búning. Hann taldi rétt eins og hinir tveir að hinn íslamski heimur væri veikburða í samanburði við hinn vestræna heim. Hann vildi hins vegar fara aðra leið til að styrkja múslímsk samfélög. Í staðinn fyrir að nútímavæða þau vildi hann snúa þeim aftur til íslam með því að koma á íslömskum sharía-lögum og stofna íslömsk ríki.[2]

Forvígismenn bræðralagsins kölluðu eftir stofnun íslamsks ríkis og töldu að sönn íslömsk gildi væru nauðsynleg fyrir lýðræðið, með þeim væri hægt að leysa vandamál nútímans. Bræðralagið krafðist þess að herinn yrði styrktur, að tengsl við önnur arabísk ríki yrðu efld og bann lagt við okurlánum. Þá vildi bræðralagið að vinnuaðstaða við landbúnað og akuryrkju yrði bætt, að komið yrði á lágmarkslaunum, að spítalar og heilsugæslustöðvar yrðu byggðar og að ríkisstjórnin tæki á atvinnuleysi.

Hugmyndafræði bræðralagsins tók ekki aðeins til félagslegra og pólitískra þátta heldur einnig til siðferðislegra mála. Bræðralagið taldi að margir Egyptar hefðu fallið í freistni og að siðferði þeirra væri í hættu vegna veraldlegra lifnaðarhátta. Það hefði leitt af sér fátækt og yfirráð erlendra afla. Þessu vildi forvígismenn bræðralagsins breyta með því að ritskoða sjónvarp, útvarp og prentuð efni. Þeir vildu að trúarleg menntun færi fram innan skólakerfisins og hvöttu til menntunar á íslamskri sögu, notkunar á arabísku tungumáli, að einstaklingar lærðu Kóraninn utanbókar og lögðu fast að fólki að giftast. Þeir vildu banna áfengi, fjárhættuspil, dans, leikhús, kvikmyndir, erlendan klæðnað, vændi og framhjáhald.[3]

Það sem aðgreindi Bræðralag múslíma frá öðrum trúarlegum hreyfingum var trúarleg túlkun á því sem orsakaði „lasleika“ eða siðferðislega hnignun Egyptalands. Að mati al-Banna og annarra íhaldssamra var vandamálið yfirráð erlendra afla, það er að segja Breta, og útbreiðsla á vestrænum veraldlegum gildum. Veraldlegt lagakerfi og menntun sem Egyptar höfðu fengið „að láni“ frá Bretum var ekki í takt við trúarleg gildi egypsks samfélags. Kvikmyndir og tónlist grófu undan hefðbundnum íslömskum gildum og sköpuðu siðferðisleg og kynferðisleg vandamál fyrir ungt fólk.[4]

Bræðralagið var því ákveðið í að útrýma yfirráðum Breta og vildi búa til nýtt samfélag í kjölfarið sem væri byggt á Kóraninum og sharía-lögum. Þeir vildu stranga hugmyndafræði sem hafnaði vestrænum gildum og áhrifum. Enda leit bræðralagið svo á að heimsvaldastefna Breta hefði eyðilagt Egyptaland og bresk lífsviðhorf hefðu vanhelgað kenningar Kóransins.[5]

Fáni Bræðralags múslíma.

Sýn bræðralagsins á íslam átti eftir að hafa áhrif á hugmyndir annarra endurskoðunarsinnaðra hópa súnníta (e. revivalist). Þær hugmyndir sem bræðralagið breiddi út var það sem kallast din wa dawla (trú og ríki). Það er að íslam væri ekki aðeins leiðarvísir fyrir fólk í einkalífinu og í helgisiðum, heldur einnig yfirgripsmikið kerfi sem tæki til allra þátta í lífi fólks, þar með talið stjórnmálasviðsins. Forvígismenn bræðralagsins töldu að íslamskt stjórnkerfi væri öðru vísi og æðra en veraldleg stjórnkerfi Vesturlanda. Hugmyndafræði bræðralagsins fólst í því að að snúa til hins sanna íslams sem Múhameð spámaður hafði boðað.[6]

Á stjórnmálasviðinu voru markmið bræðralagsins fyrst að frelsa Egyptaland og önnur íslömsk ríki frá heimsvaldastefnunni, síðan að koma á eða endurinnleiða íslömsk sharía-lög og vinna að endurlífgun íslams. Endalegt markmið samtakanna var að koma á alheimsbræðralagi og yfirráðum íslamskra þjóða.[7]

Bræðralagið barðist einnig fyrir endurreisn kalífadæmisins sem hafði verið afnumið árið 1922 af Mustafa Kemal Atatürk (1881–1938), stofnanda nútíma Tyrklands. Þeir hrósuðu gömlum stjórnarháttunum kalífadæmisins, þar sem stjórnendur voru valdir út frá þekkingu þeirra á íslam og reynslu. Bræðralagið trúði því að hnignun íslams hefði hafist eftir lok tímabils fyrstu fjögurra kalífanna. Til að búa til sanna íslamska ríkisstjórn yrði að snúa til þeirrar himnesku fyrirmyndar sem Múhameð spámaður setti fram. Þetta var hluti af íslamskri heimsbyltingu (e. global Islamic revolution).[8]

Hugmyndafræði Bræðralags múslíma byggðist því fyrst og fremst á íslamskri hugmyndafræði. Slagorð bræðralagsins gefa þetta ágætlega til kynna en þau hljóða svo í lauslegri þýðingu: „Guð er okkar tilgangur, spámaðurinn leiðtogi okkar, Kóraninn er okkar stjórnarskrá, heilagt stríð okkar leið og æðsta takmark okkar er að deyja fyrir málstað Guðs.“[9]

Tilvísanir:
 1. ^ Rachel Ehrenfeld, The Muslim Brotherhood Evolution: An Overview, American Foreign Policy Interests 33:2 (2011), bls. 71.
 2. ^ The ideology of the Muslim Brotherhood á vefnum CRETHIPLETHI, 19. júní 2011, sótt 8. mars 2016.
 3. ^ Ziad Munson, Islamic Mobilization: Social Movement Theory and the Egyptian Muslim Brotherhood, The Sociological Quarterly, 4:42 (2001), bls. 490.
 4. ^ Carrie Rosefsky Wickham, The Muslim Brotherhood. Evolution of an Islamist Movement (New Jersey 2013), bls. 22.
 5. ^ Rupe Simms, "Islam Is Our Politics": A Gramscian Analysis of the Muslim Brotherhood (1928-1953), Social Compass 49:4 (2002), bls. 570.
 6. ^ Carrie Rosefsky Wickham, The Muslim Brotherhood. Evolution of an Islamist Movement (New Jersey 2013), bls. 22-23.
 7. ^ Leila Ahmed, A Quiet Revolution. The Veil´s Resurgence, from the Middle East to America, New Haven and London 2011, bls. 52.
 8. ^ Rupe Simms, "Islam Is Our Politics": A Gramscian Analysis of the Muslim Brotherhood (1928-1953), Social Compass 49:4 (2002), bls. 575
 9. ^ Müge Aknur, The Muslim Brotherhood in Politics in Egypt: From Moderation to Authoritarianism? Uluslararasi Hukuk ve Politika, 9:33 (2013), bls. 4. Þýðing svarshöfundar.

Myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu TRÚ203G Mið-Austurlönd: Trúarbrögð, stjórnmál, og saga vorið 2016 í umsjón Magnúsar Þorkels Bernharðssonar.

...