Sólin Sólin Rís 06:40 • sest 20:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:55 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:45 • Síðdegis: 17:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:40 • sest 20:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:55 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:45 • Síðdegis: 17:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er til af efni um og eftir heimspekinginn Senecu sem var kennari og ráðgjafi Nerós Rómakeisara?

Geir Þ. Þórarinsson

Rómverski heimspekingurinn Lucius Annaeus Seneca, stundum nefndur Seneca yngri til aðgreiningar frá föður sínum Senecu eldri, fæddist árið 4 f.Kr. í Corduba á Spáni. Hann var af auðugum ættum, gekk í skóla í Róm og hlaut menntun í mælskufræði, heimspeki og lögfræði. Hann hóf feril í stjórnmálum, kleif metorðastigann og varð öldungaráðsmaður. Hann varð auðugur maður og gat sér góðan orðstír sem mælskumaður og rithöfundur. Fyrir vikið uppskar hann öfund Caligulu keisara og rétt slapp við að verða líflátinn árið 39. Tveimur árum síðar var hann sendur í útlegð til Korsíku að undirlagi Messalínu, eiginkonu Claudiusar sem þá var keisari. Hann var kallaður aftur árið 49 og gerður einkakennari Nerós sem varð keisari eftir andlát Claudiusar árið 54. Þá varð Seneca helsti stjórnmálaráðgjafi Nerós.

Fyrstu ár valdatíðar Nerós var góðæri í Rómaveldi. Í raun deildi Agrippína yngri móðir Nerós völdunum með syni sínum fyrstu árin en árið 59 hafði Neró fengið nóg af því að deila völdunum með móður sinni og lét taka hana af lífi. Þegar stjórn Nerós breyttist og fór versnandi átti Seneca æ erfiðara með að veita honum ráðgjöf og árið 62 lét hann af störfum, yfirgaf Róm og helgaði sig heimspekinni og ritstörfum. Árið 65 var Seneca bendlaður við samsæri gegn Neró og í kjölfarið var hann neyddur til þess að svipta sjálfan sig lífi. Andláti hans lýsir sagnaritarinn Cornelius Tacitus í 15. bók Annálanna.


Málverk af dauða Senecu frá árinu 1684 eftir ítalska málarann Luca Giordano (1634-1705).

Seneca var mikilvirkur rithöfundur en auk varðveittra verka hans, sem eru á annað þúsund blaðsíður, eru varðveittir titlar glataðra rita um landafræði, eðlisfræði og náttúruvísindi og siðfræði auk þess sem hann samdi fjölmargar ræður. Varðveitt rit Senecu skiptast í tvennt, annars vegar leikrit og hins vegar rit í óbundnu máli sem fjalla meira og minna öll um heimspeki en Seneca aðhylltist stóuspeki, sem var gríðarlega vinsæl heimspekistefna í fornöld.

Senecu eru eignaðir tíu harmleikir en þeir eru Herkúles, Medea. Trójukonur, Þýestes, Fædra, Agamemnon, Ödípús, Fönikíukonur, Herkúles á Ötafjalli og Octavia. Talið er að síðastnefnda leikritið sé örugglega ranglega eignað Senecu og Herkúles á Ötafjalli gæti einnig verið ranglega eignað honum. Harmleikirnir virðast hafa verið samdir fyrst og fremst fyrir lesendur en ekki til að vera settir á svið.

Af heimspekiritunum ber fyrst að nefna safn tíu ritgerða sem samdar voru á árunum 37-43. Þær eru Um forsjón, Um staðfestu vitringsins, Um reiðina (í þremur bindum), Um hið góða líf, Um næði, Um sálarró, Um stuttleika lífsins, Huggun handa Marciu, Huggun handa Polybiusi og Huggun handa Helvíu móður minni. Auk þessara tíu ritgerða eru tvær aðrar, Um miskunnsemi sem beint var til Nerós og Um góðverk í sjö bókum sem fjalla um það að gefa og þiggja gjafir. Í ritinu Náttúrurannsóknir fjallaði Seneca í sjö bókum um ýmis náttúrufyrirbæri á borð við eldingar og flóð frá sjónarhóli stóuspekinnar fremur en vísinda. Markmiðið var að finna stóískri siðfræði undirstöðu í náttúrunni. Verkið naut mikilla vinsælda á miðöldum og var þá notað sem kennslubók í náttúruvísindum.

Bréf um siðfræði til Luciliusar er safn 124 mislangra bréfa sem samin voru eftir að Seneca dró sig í hlé frá stjórnmálum. Þau fjalla aðallega um siðfræði og alls kyns hversdaglegar uppákomur. Bréfin eru að öllum líkindum ekki raunveruleg sendibréf heldur dulbúnar ritgerðir í formi bréfa. Þau eru rituð í léttum og heillandi stíl og eru meðal vinsælustu rita Senecu fyrr og síðar.

Að lokum ber að nefna satíruna Apocolocyntosis sem er háðsádeila á Claudius keisara samin að honum látnum. Þar segir frá því er Claudius er tekinn í graskeratölu í dauðanum.

Seneca hafði mikil áhrif á þróun latnesks stíls. Mælskufræðikennarinn Quintilianus gagnrýndi stíl Senecu og taldi hann ekki góða fyrirmynd fyrir unga nemendur en eigi að síður naut hann mikilla vinsælda í fornöld og ekki síst meðal kristinna höfunda sem urðu fyrir ómældum áhrifum af ritum hans. Harmleikirnir hlutu ekki eins mikla eftirtekt og heimspekiritin en þeir nutu hins vegar gríðarlega mikilla vinsælda á tíma endurreisnarinnar.

Efni um Senecu og eftir hann er til dæmis hægt að finna í Gegni með því að slá inn leitarorðið Seneca

Tengt efni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

17.3.2008

Spyrjandi

Ebba Pálsdóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er til af efni um og eftir heimspekinginn Senecu sem var kennari og ráðgjafi Nerós Rómakeisara?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2008, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7242.

Geir Þ. Þórarinsson. (2008, 17. mars). Hvað er til af efni um og eftir heimspekinginn Senecu sem var kennari og ráðgjafi Nerós Rómakeisara? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7242

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er til af efni um og eftir heimspekinginn Senecu sem var kennari og ráðgjafi Nerós Rómakeisara?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2008. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7242>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er til af efni um og eftir heimspekinginn Senecu sem var kennari og ráðgjafi Nerós Rómakeisara?
Rómverski heimspekingurinn Lucius Annaeus Seneca, stundum nefndur Seneca yngri til aðgreiningar frá föður sínum Senecu eldri, fæddist árið 4 f.Kr. í Corduba á Spáni. Hann var af auðugum ættum, gekk í skóla í Róm og hlaut menntun í mælskufræði, heimspeki og lögfræði. Hann hóf feril í stjórnmálum, kleif metorðastigann og varð öldungaráðsmaður. Hann varð auðugur maður og gat sér góðan orðstír sem mælskumaður og rithöfundur. Fyrir vikið uppskar hann öfund Caligulu keisara og rétt slapp við að verða líflátinn árið 39. Tveimur árum síðar var hann sendur í útlegð til Korsíku að undirlagi Messalínu, eiginkonu Claudiusar sem þá var keisari. Hann var kallaður aftur árið 49 og gerður einkakennari Nerós sem varð keisari eftir andlát Claudiusar árið 54. Þá varð Seneca helsti stjórnmálaráðgjafi Nerós.

Fyrstu ár valdatíðar Nerós var góðæri í Rómaveldi. Í raun deildi Agrippína yngri móðir Nerós völdunum með syni sínum fyrstu árin en árið 59 hafði Neró fengið nóg af því að deila völdunum með móður sinni og lét taka hana af lífi. Þegar stjórn Nerós breyttist og fór versnandi átti Seneca æ erfiðara með að veita honum ráðgjöf og árið 62 lét hann af störfum, yfirgaf Róm og helgaði sig heimspekinni og ritstörfum. Árið 65 var Seneca bendlaður við samsæri gegn Neró og í kjölfarið var hann neyddur til þess að svipta sjálfan sig lífi. Andláti hans lýsir sagnaritarinn Cornelius Tacitus í 15. bók Annálanna.


Málverk af dauða Senecu frá árinu 1684 eftir ítalska málarann Luca Giordano (1634-1705).

Seneca var mikilvirkur rithöfundur en auk varðveittra verka hans, sem eru á annað þúsund blaðsíður, eru varðveittir titlar glataðra rita um landafræði, eðlisfræði og náttúruvísindi og siðfræði auk þess sem hann samdi fjölmargar ræður. Varðveitt rit Senecu skiptast í tvennt, annars vegar leikrit og hins vegar rit í óbundnu máli sem fjalla meira og minna öll um heimspeki en Seneca aðhylltist stóuspeki, sem var gríðarlega vinsæl heimspekistefna í fornöld.

Senecu eru eignaðir tíu harmleikir en þeir eru Herkúles, Medea. Trójukonur, Þýestes, Fædra, Agamemnon, Ödípús, Fönikíukonur, Herkúles á Ötafjalli og Octavia. Talið er að síðastnefnda leikritið sé örugglega ranglega eignað Senecu og Herkúles á Ötafjalli gæti einnig verið ranglega eignað honum. Harmleikirnir virðast hafa verið samdir fyrst og fremst fyrir lesendur en ekki til að vera settir á svið.

Af heimspekiritunum ber fyrst að nefna safn tíu ritgerða sem samdar voru á árunum 37-43. Þær eru Um forsjón, Um staðfestu vitringsins, Um reiðina (í þremur bindum), Um hið góða líf, Um næði, Um sálarró, Um stuttleika lífsins, Huggun handa Marciu, Huggun handa Polybiusi og Huggun handa Helvíu móður minni. Auk þessara tíu ritgerða eru tvær aðrar, Um miskunnsemi sem beint var til Nerós og Um góðverk í sjö bókum sem fjalla um það að gefa og þiggja gjafir. Í ritinu Náttúrurannsóknir fjallaði Seneca í sjö bókum um ýmis náttúrufyrirbæri á borð við eldingar og flóð frá sjónarhóli stóuspekinnar fremur en vísinda. Markmiðið var að finna stóískri siðfræði undirstöðu í náttúrunni. Verkið naut mikilla vinsælda á miðöldum og var þá notað sem kennslubók í náttúruvísindum.

Bréf um siðfræði til Luciliusar er safn 124 mislangra bréfa sem samin voru eftir að Seneca dró sig í hlé frá stjórnmálum. Þau fjalla aðallega um siðfræði og alls kyns hversdaglegar uppákomur. Bréfin eru að öllum líkindum ekki raunveruleg sendibréf heldur dulbúnar ritgerðir í formi bréfa. Þau eru rituð í léttum og heillandi stíl og eru meðal vinsælustu rita Senecu fyrr og síðar.

Að lokum ber að nefna satíruna Apocolocyntosis sem er háðsádeila á Claudius keisara samin að honum látnum. Þar segir frá því er Claudius er tekinn í graskeratölu í dauðanum.

Seneca hafði mikil áhrif á þróun latnesks stíls. Mælskufræðikennarinn Quintilianus gagnrýndi stíl Senecu og taldi hann ekki góða fyrirmynd fyrir unga nemendur en eigi að síður naut hann mikilla vinsælda í fornöld og ekki síst meðal kristinna höfunda sem urðu fyrir ómældum áhrifum af ritum hans. Harmleikirnir hlutu ekki eins mikla eftirtekt og heimspekiritin en þeir nutu hins vegar gríðarlega mikilla vinsælda á tíma endurreisnarinnar.

Efni um Senecu og eftir hann er til dæmis hægt að finna í Gegni með því að slá inn leitarorðið Seneca

Tengt efni á Vísindavefnum:

Mynd:...