Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Spyrjandi á líklega við það hver hafi fyrstur tekið upp á því að nota kryddjurtir með mat, væntanlega kjöti eða fiski. Mörgum spurningum af þessu tagi er ekki hægt að svara með því að tilgreina ákveðinn mann, einfaldlega vegna þess að þetta gerðist "áður en sögur hófust" sem kallað er, það er að segja fyrir þann tíma sem við höfum skráðar heimildir um. Líklega er ekki einu sinni hægt að nefna tiltekinn hóp eða þjóðfélag þar sem þetta gerðist fyrst, vegna þess að margir hafa sjálfsagt fundið upp á þessu án þess að þeir tengdust hver öðrum. Við vitum líka að jafnvel nú á dögum er kryddnotkun mjög mismunandi eftir svæðum.
Tilgangur manna með því að nota krydd í mat er eða hefur verið aðallega tvíþættur. Sú kryddnotkun sem við þekkjum best nú á dögum beinist að því að breyta bragði matarins eða gera hann bragðsterkari. Þannig verður maturinn oft lystugri; sitthvað af því sem við borðum mundum við varla geta lagt okkur til munns ef það væri ekki kryddað eða meðhöndlað með öðrum sérstökum hætti.
En kryddun getur einnig orðið til að auka geymsluþol matar, bæði á þann hátt að hrámetið geymist lengur og einnig með því að kryddbragðið deyfir óbragð sem kynni ella að vera komið af matnum. Þetta hlutverk kryddsins er kannski ekki eins mikilvægt hér á Vesturlöndum nú á dögum og það var í gamla daga, áður en ísskápar og frystikistur komu til sögunnar. Auk þess er meiri þörf á kryddnotkun í þessum tilgangi í heitum löndum en hér í grennd við heimskautið.
Þanngi er það kannski ekki tilviljun að sterkustu og þekktustu kryddtegundirnar sem við notum, fyrir utan saltið, eru flestar upprunnar utan Evrópu. Það sést til dæmis af þeirri miklu ásókn sem varð í austurlensk krydd eftir landafundina á 14.-17. öld. Þá voru meðal annars stór skip í förum sem fluttu eingöngu pipar og aðrar kryddtegundir til Evrópu.