Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er algengur misskilningur að sannanir séu mikið notaðar í vísindum. Hins vegar er það svo í raun, að sannanir eru eingöngu notaðar í stærðfræði. Við getum sannað að hornasumma í venjulegum þríhyrningi sé 180° og að frumtölurnar séu óendanlega margar en við getum ekki sannað að orka varðveitist alltaf né heldur að allir svanir séu hvítir (enda eru þeir það ekki samkvæmt nútíma þekkingu, en í gamla daga héldu Evrópumenn að svo væri). Þegar við skoðum slík atriði sem við teljum háð reynslu getum við í hæsta lagi vænst þess að færa sönnur á þau, sannreyna þau eða eitthvað slíkt.
Samkvæmt því sem við vitum best nú á dögum er ekkert því til fyrirstöðu að líf geti verið í öðrum sólkerfum. Þegar við leitum að lífi úti í geimnum miðum við leitina við líf sem er eitthvað svipað því sem við þekkjum hérna á jörðinni. Það er auðvitað sjálfsögð og væntanlega skilvirk aðferð því að allir vita hve erfitt er að leita að einhverju ef maður veit mjög lítið um það. Fyrsta skrefið í leit að slíku lífi er að finna reikistjörnur í öðrum sólkerfum. Þær hafa verið að finnast síðan um 1990 í athugunum sem gerðar eru með fullkomnustu tækjum stjarnvísindanna. Þegar þetta er skrifað í apríl árið 2008 eru þær að nálgast 300 (nota má til dæmis leitarorðin "extrasolar planets" eða "exoplanets" í Google til að finna vefsetur þar sem fylgst er með þessu).
Upplýsingarnar sem menn hafa aflað um þessar fjarlægu reikistjörnur eru yfirleitt rýrar og ófullkomnar. Þó getum við sagt um flestar þeirra að ekki sé líklegt að finna þar líf, til dæmis af því að þær séu þungar eða of langt frá sólstjörnunni þannig að þar verði of kalt til að líf geti þrifist. Hins vegar hafa nú þegar fundist nokkrar þar sem slík einföld skilyrði útiloka ekki líf og menn halda stöðugt áfram að leita.
Eins og margir vita er varkárni eitt einkenni vísindanna. Gætnir vísindamenn mundu því segja að spurningunni um líf utan sólkerfisins verði á þessari stundum hvorki svara með já-i eða nei-i. Svarið "nei" verður trúlega aldrei sannfærandi af því að það eru gríðarlega margar sólstjörnur í alheiminum og menn munu alltaf geta haldið áfram að leita að lífi kringum þær. Svarið "já" getur hins vegar orðið trúverðugt ef menn finna einhvern tímann óyggjandi sönnur á því að líf sé að finna á tilteknum stað.
ÞV. „Er líf á plánetum í öðrum sólkerfum? Og, sama hvert svarið er, er hægt að sanna það?“ Vísindavefurinn, 1. apríl 2008, sótt 11. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7284.
ÞV. (2008, 1. apríl). Er líf á plánetum í öðrum sólkerfum? Og, sama hvert svarið er, er hægt að sanna það? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7284
ÞV. „Er líf á plánetum í öðrum sólkerfum? Og, sama hvert svarið er, er hægt að sanna það?“ Vísindavefurinn. 1. apr. 2008. Vefsíða. 11. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7284>.