Sólin Sólin Rís 08:27 • sest 17:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 04:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:05 • Síðdegis: 17:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:13 • Síðdegis: 23:33 í Reykjavík

Hver er munur á mjólkurfernu og mjólkurhyrnu?

Ásta Svavarsdóttir

Orðið hyrna er skylt orðinu horn og hefur verið notað í margs konar merkingu, meðal annars um hvassa fjallstinda eins og ýmis örnefni bera vitni um (Skarðshyrna og Lýsuhyrna) og um klúta eða sjöl, einkum þau sem eru þríhyrnd (samanber samsetta orðið þríhyrna) eða brotin í horn.

Þegar fyrst var farið að selja mjólk í pappaumbúðum upp úr miðri 20. öld þurfti að gefa þessum umbúðum nafn. Í upphafi höfðu umbúðirnar aðra lögun en nú er: hornin voru fjögur og hliðarnar þríhyrndar. Var stungið upp á að kalla þær hyrnur. Þannig fékk orðið hyrna nýja merkingu sem bættist við þær sem fyrir voru og um tíma hefur það líklega verið meðal algengustu orða í daglegu tali.

Hyrnur.

Seinna breyttist lögun mjólkurumbúðanna og þær urðu kassalaga. Þá fæddi hin nýja merking orðsins hyrna af sér nýyrðið ferna, sem er skylt ýmsum orðum með forliðinn fer- 'fjór-' (ferhyrndur, ferfaldur).

Orðið ferna er ekki í elstu útgáfu Íslenskrar orðabókar (1963) en í nýrri útgáfu (2002) er gefin merkingin 'kassalaga ílát (úr vatnsheldum pappa)'. Nokkur dæmi eru um orðið í söfnum Orðabókar Háskólans, bæði ritmálssafni og textasafni, öll tiltölulega ung. Þetta nýja orð hefur ekki orðið síður algengt en hið fyrra því ýmsar aðrar drykkjarvörur en mjólk eru nú framleiddar í fernum.

Fernur.

Þótt hvort orð um sig feli í sér skírskotun til lögunar umbúðanna, hyrnan með þrístrendar hliðar og fernan með ferstrendar, má finna dæmi þess að bæði orðin séu notuð um drykkjarumbúðir úr pappa án tillits til lögunar þeirra:
  • stúlka frá okkar plássi hlaut 3. verðlaun í keppni um myndir sem fara á mjólkurhyrnur og eru í tengslum við málshætti. (Tíðis - fréttavefur, 10.5.2004)
  • Fyrst var farið og mjólkurhyrnur settar í gám [og] síðan lá leiðin upp á Valhúsahæð (Vefsíða Leikskólans Sólbrekku, 15.10.2004).
  • Í fyrstu var fernan þríhyrningslaga. (Vísindavefurinn, 20.12.2002)

Þarna er orðið mjólkurhyrna notað þótt það hljóti að vísa til ferstrends íláts miðað við aldur dæmanna og í síðasta dæminu sést vel að orðið ferna er notað þrátt fyrir að umræðan beinist að „þríhyrningslaga“ umbúðum. Ekki er ólíklegt að aldur málnotenda hafi áhrif á orðavalið. Ungt fólk hefur ekki vanist öðru heiti á pappaumbúðum fyrir ýmiss konar drykki en orðinu ferna og þekkir jafnvel ekki orðið hyrna í þessari merkingu. Þeir sem eldri eru og þekktu mjólkurhyrnur af eigin raun vöndust því að kalla umbúðirnar hyrnur og hafa tilhneigingu til nota það orð áfram þótt lögun umbúðanna hafi breyst. Vel má því vera að sumir noti orðin sitt á hvað sem samheiti.

Heimildir og myndir:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Ásta Svavarsdóttir

rannsóknardósent á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

2.8.2017

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ásta Svavarsdóttir. „Hver er munur á mjólkurfernu og mjólkurhyrnu?“ Vísindavefurinn, 2. ágúst 2017. Sótt 18. október 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=73090.

Ásta Svavarsdóttir. (2017, 2. ágúst). Hver er munur á mjólkurfernu og mjólkurhyrnu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73090

Ásta Svavarsdóttir. „Hver er munur á mjólkurfernu og mjólkurhyrnu?“ Vísindavefurinn. 2. ágú. 2017. Vefsíða. 18. okt. 2021. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73090>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munur á mjólkurfernu og mjólkurhyrnu?
Orðið hyrna er skylt orðinu horn og hefur verið notað í margs konar merkingu, meðal annars um hvassa fjallstinda eins og ýmis örnefni bera vitni um (Skarðshyrna og Lýsuhyrna) og um klúta eða sjöl, einkum þau sem eru þríhyrnd (samanber samsetta orðið þríhyrna) eða brotin í horn.

Þegar fyrst var farið að selja mjólk í pappaumbúðum upp úr miðri 20. öld þurfti að gefa þessum umbúðum nafn. Í upphafi höfðu umbúðirnar aðra lögun en nú er: hornin voru fjögur og hliðarnar þríhyrndar. Var stungið upp á að kalla þær hyrnur. Þannig fékk orðið hyrna nýja merkingu sem bættist við þær sem fyrir voru og um tíma hefur það líklega verið meðal algengustu orða í daglegu tali.

Hyrnur.

Seinna breyttist lögun mjólkurumbúðanna og þær urðu kassalaga. Þá fæddi hin nýja merking orðsins hyrna af sér nýyrðið ferna, sem er skylt ýmsum orðum með forliðinn fer- 'fjór-' (ferhyrndur, ferfaldur).

Orðið ferna er ekki í elstu útgáfu Íslenskrar orðabókar (1963) en í nýrri útgáfu (2002) er gefin merkingin 'kassalaga ílát (úr vatnsheldum pappa)'. Nokkur dæmi eru um orðið í söfnum Orðabókar Háskólans, bæði ritmálssafni og textasafni, öll tiltölulega ung. Þetta nýja orð hefur ekki orðið síður algengt en hið fyrra því ýmsar aðrar drykkjarvörur en mjólk eru nú framleiddar í fernum.

Fernur.

Þótt hvort orð um sig feli í sér skírskotun til lögunar umbúðanna, hyrnan með þrístrendar hliðar og fernan með ferstrendar, má finna dæmi þess að bæði orðin séu notuð um drykkjarumbúðir úr pappa án tillits til lögunar þeirra:
  • stúlka frá okkar plássi hlaut 3. verðlaun í keppni um myndir sem fara á mjólkurhyrnur og eru í tengslum við málshætti. (Tíðis - fréttavefur, 10.5.2004)
  • Fyrst var farið og mjólkurhyrnur settar í gám [og] síðan lá leiðin upp á Valhúsahæð (Vefsíða Leikskólans Sólbrekku, 15.10.2004).
  • Í fyrstu var fernan þríhyrningslaga. (Vísindavefurinn, 20.12.2002)

Þarna er orðið mjólkurhyrna notað þótt það hljóti að vísa til ferstrends íláts miðað við aldur dæmanna og í síðasta dæminu sést vel að orðið ferna er notað þrátt fyrir að umræðan beinist að „þríhyrningslaga“ umbúðum. Ekki er ólíklegt að aldur málnotenda hafi áhrif á orðavalið. Ungt fólk hefur ekki vanist öðru heiti á pappaumbúðum fyrir ýmiss konar drykki en orðinu ferna og þekkir jafnvel ekki orðið hyrna í þessari merkingu. Þeir sem eldri eru og þekktu mjólkurhyrnur af eigin raun vöndust því að kalla umbúðirnar hyrnur og hafa tilhneigingu til nota það orð áfram þótt lögun umbúðanna hafi breyst. Vel má því vera að sumir noti orðin sitt á hvað sem samheiti.

Heimildir og myndir:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi....