Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Alþjóðlega geimstöðin eða International Space Station (ISS) er samvinnuverkefni Bandaríkjamanna, Rússa, Japana, Kanadamanna, ellefu Evrópuþjóða auk Brasilíumanna. Hún er stærsta geimstöð í heimi, rúmlega fjórum sinnum stærri en rússneska Mir-stöðin. Fullbúin mun hún vega rúmlega 471,7 tonn og mælast 108 x 88 metrar. Stöðin er í um 350 km hæð yfir jörðu og er sýnileg með berum augum, að minnsta kosti frá ákveðnum stöðum á jörðinni. Meðalhraði hennar er 27.700 km/klst og fer hún 15,77 sinnum umhverfis jörðina á sólahring.
Alþjóðlega geimstöðin séð frá geimskutlunni Endeavour 24. mars 2008. Blái og hvíti bakgrunnurinn er jörðin.
Alþjóðlegu geimstöðinni var ekki skotið upp í heilu lagi heldur er hún send á loft í hlutum og sett saman úti í geimnum. Fyrsta hluta hennar, Zarya, var skotið á loft í nóvember árið 1998 og var þessum hluta ætlað að sjá um hæðarstjórnun og nýta sólarorku. Í desember sama ár var næsti hluti, Unity sendur upp en hann var einskonar tengistöð fyrir síðari einingar. Vegna þróunarerfiðleika tafðist uppsetning þriðja hluta til ársins 2000. Sá hluti, sem nefndur var Zvezda, hafði það hlutverk að hýsa stjórnstöð stöðvarinnar og vera híbýli geimfaranna. Enn hafa ekki allir hlutar stöðvarinnar verið sendir út í geiminn en vorið 2008 er lokið við um 70% hennar. Áætlað er að stöðin verði fullbúin árið 2010.
Fyrstu geimfararnir komu um borð í geimstöðina árið 2000 og voru það tveir Rússar og einn Bandaríkjamaður sem dvöldu þar í 140 daga. Geimstöðin hefur verið mönnuð allar götur síðan og er dvöl hvers og eins yfirleitt 5-6 mánuðir. Nú er pláss fyrir þriggja manna áhöfn en í framtíðinni er gert ráð fyrir að stöðin verði mönnuð 6 manns í einu.
Hlutverk geimstöðvarinnar er aðallega að rannsaka hvernig efni og lífverur haga sér í þyngdarleysi en þær rannsóknir fara fram í sex fullbúnum rannsóknarstöðvum sem eru um borð í stöðinni. Áætlað er að alþjóðlega geimstöðin hafi lokið hlutverki sínu árið 2016.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Arnþór Axelsson og Hafliði Marteinn Hlöðversson. „Hvað getið þið sagt mér um alþjóðlegu geimstöðina?“ Vísindavefurinn, 15. apríl 2008, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7349.
Arnþór Axelsson og Hafliði Marteinn Hlöðversson. (2008, 15. apríl). Hvað getið þið sagt mér um alþjóðlegu geimstöðina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7349
Arnþór Axelsson og Hafliði Marteinn Hlöðversson. „Hvað getið þið sagt mér um alþjóðlegu geimstöðina?“ Vísindavefurinn. 15. apr. 2008. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7349>.