París er ein af þekktustu borgum heims. Hún er miðstöð viðskipta og menningar en þaðan hefur einnig gætt mikilla áhrifa á listir, menntun, vísindi, stjórnmál og tísku svo fátt eitt sé nefnt. Margar alþjóðlegar stofnanir hafa aðsetur í París, svo sem Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna UNESCO, Efnahags- og framfarastofnunin OECD og Alþjóða viðskiptaráðið ICC. Borgin er einn vinsælasti ferðamannastaður í heimi og er talið að meira en 30 milljónir erlendra ferðamanna komi þangað ár hvert.
Önnur fjölmennasta borg Frakklands er Marseille. Í borginni búa um það bil 826.700 manns en á Stór-Marseillesvæðinu öllu eru hins vegar um 1,6 milljónir íbúa og er það þriðja fjölmennasta stórborgarsvæði í Frakklandi. Marseille er í suð-austurhluta Frakklands við Miðjarðarhafið og er helsta hafnarborg landsins. Borgin er líka vel þekkt fyrir fótboltalið sitt sem varð Evrópumeistari árið 1993.

Lyon í austurhluta Frakklands er þriðja fjölmennasta borg landsins með um 467.400 íbúa. Borgin og nærliggjandi sveitarfélög mynda hins vegar annað fjölmennasta borgarsvæði í Frakklandi með rúmlega 1,7 milljónir íbúa. Lyon er þekkt fyrir silki og textíl og stundum kölluð höfuðborg silkisins. Meðal íþróttaáhugafólks er borgin þekkt fyrir fótbolta. Toulouse í suð-vesturhluta Frakklands er í fjórða sæti yfir fjölmennustu borgir landsins en íbúar þar eru um 437.100. Ef nágrannabyggðir eru teknar með eru íbúar Toulouse-svæðisins rúmlega 1,1 milljón. Borgin er ein af miðstöðvun geim- og loftferðaiðnaðar (e. aerospace industry) í Evrópu og þar er líka einn af elstu háskólum álfunnar stofnaður árið 1229. Fyrir íþróttaáhugafólk má líka nefna að Toulouse er þekkt fyrir að hafa eitt besta rugbylið í Evrópu. Fimmta fjölmennasta borg Frakklands er svo Nice sem stendur við Miðjarðarhafið nálægt landamærunum við Ítalíu. Það búa um 346.900 en um 1,2 milljónir á Stór-Nicesvæðinu öllu. Nice er hluti frönsku rivíerunnar og einna þekktust sem slík. Hún er mjög vinsæll ferðamannastaður og þekkt fyrir að vera sótt af ríka og fræga fólkinu. Rétt er að taka fram að heimildum ber ekki alltaf nákvæmlega saman um fjölda íbúa í þessum borgum. Þær tölur sem hér eru um fjölda í borgunum sjálfum eru áætlun fyrir árið 2005 frá frönsku Hagstofunni (INSEE). Tölur um fjölda íbúa á stórborgarsvæðum eru hins vegar frá Wikipedia. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að í heimildum er stundum átt við það sem á ensku kallast 'urban area' og stundum 'metropolitan area'. Að öllu jöfnu nær það síðarnefnda yfir stærra og fjölmennara svæði og er það notað í þessu svari. Heimildir:
- INSEE
- Wikipedia:
- Kort: France jms.png á Wikipedia. Merkingar settar inn af ritstjórn Vísindavefsins.
- Mynd af Marseille: Vieux port de Marseille. Ljósmyndari: Thomas Rosenau. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.
Þetta svar er að hluta eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, röð námskeiða á vegum Háskóla Íslands fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2007 og að hluta eftir starfsmann Vísindavefsins.