Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík
Vísindafélag Íslendinga - 100 ára

Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur S. Andrésson rannsakað?

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands

Ólafur S. Andrésson er prófessor í erfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hann fæst einkum við rannsóknir á sambýli sveppa og blágrænbaktería í fléttum, hvernig slík sambýli verða til í náttúrunni og hvaða sameindir og eðlisþættir einkenna þau.

Fléttur (skófir, hreindýramosi, fjallagrös og fleira) eru þekktustu dæmin um sambýli tveggja eða fleiri tegunda í náttúrunni. Myndun þeirra og þróun er drifin áfram af þeirri gagnsemi sem báðir aðilar hafa af sambýlinu, og gengur svo langt að oft er annar aðilinn (venjulega sveppurinn) algjörlega háður hinum og getur ekki dafnað án hans. Ein algengasta flétta landsins er himnuskóf (Peltigera membranacea), en hún er sambýli asksvepps, sem ekki hefur tekist að rækta útaf fyrir sig, og algengrar blágrænbakteríu, nostoc, sem meðal annars er þekkt er fyrir að mynda brúnleitar kúlur í grunnu ferskvatni, svonefnda slorpunga.

Ólafur S. Andrésson (t.h.) og nýdoktorinn Alejandro Salazar velta vöngum yfir hlýnunarbúri.

Nostoc-bakteríuna er hægt að einangra og rækta í rannsóknastofunni, og hefur komið í ljós að af þessari blágrænbakteríu eru fjölmargir stofnar, en aðeins sumir þeirra geta myndað sambýli. Sumir nostoc-stofnar mynda sambýli með einni tiltekinni tegund, en aðrir geta búið með mörgum tegundum. Athygli okkar beinist að því hvað ræður þessari sérhæfni og hvernig nostoc-bakteríur fara að því að finna spírandi sveppgró sem vænlegt er til sambýlis. Þar koma til skynjarar, boðmiðlun og hreyfigeta, en allt fléttast þetta saman í flókið kerfi sameinda og byggingarhluta sem hægt er að skilgreina og skilja með sameindagreiningu og tilraunum.

Blágrænbakteríur svo sem nostoc geta umbreytt nitri (köfnunarefni) úr andrúmslofti þannig að það verði nýtilegt til viðhalds og vaxtar lífverum. Athyglin beinist því einnig að þætti niturnáms blágrænbaktería, einkum í norðlægum vistkerfum þar sem belgjurtir og þeirra niturnámsbakteríur eru ekki fyrir hendi. Eitt af þessum vistkerfum sem er útbreitt á hálendi Íslands en fágætt annars staðar er hélumosavist. Þar eru heiðahéla og aðrir smágerðir soppmosar áberandi og mynda dökka lífskurn með hvítri vaxslikju, en lífmassinn er að stórum hluta flókið samfélag örvera, meðal annars niturbindandi baktería. Verið er að leggja mat á niturnámsvirkni hélumosavistar og jafnframt verða gerðar tilraunir með svonefnd hlýnunarbúr til að kanna áhrif þess að hækka hitastigið um 2 gráður eða svo.

Ólafur fæddist í Reykjavík árið 1951. Hann lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1974 og doktorsprófi í lífefnafræði og erfðafræði frá Wisconsin-háskóla í Madison 1979. Hann var EMBO-styrkþegi við Edinborgarháskóla 1979-1981 og starfaði við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til 2003 þegar hann varð prófessor í líffræði.

Mynd:

  • ©Denis Warshan

Útgáfudagur

15.5.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur S. Andrésson rannsakað? “ Vísindavefurinn, 15. maí 2018. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75834.

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 15. maí). Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur S. Andrésson rannsakað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75834

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur S. Andrésson rannsakað? “ Vísindavefurinn. 15. maí. 2018. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75834>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur S. Andrésson rannsakað?
Ólafur S. Andrésson er prófessor í erfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hann fæst einkum við rannsóknir á sambýli sveppa og blágrænbaktería í fléttum, hvernig slík sambýli verða til í náttúrunni og hvaða sameindir og eðlisþættir einkenna þau.

Fléttur (skófir, hreindýramosi, fjallagrös og fleira) eru þekktustu dæmin um sambýli tveggja eða fleiri tegunda í náttúrunni. Myndun þeirra og þróun er drifin áfram af þeirri gagnsemi sem báðir aðilar hafa af sambýlinu, og gengur svo langt að oft er annar aðilinn (venjulega sveppurinn) algjörlega háður hinum og getur ekki dafnað án hans. Ein algengasta flétta landsins er himnuskóf (Peltigera membranacea), en hún er sambýli asksvepps, sem ekki hefur tekist að rækta útaf fyrir sig, og algengrar blágrænbakteríu, nostoc, sem meðal annars er þekkt er fyrir að mynda brúnleitar kúlur í grunnu ferskvatni, svonefnda slorpunga.

Ólafur S. Andrésson (t.h.) og nýdoktorinn Alejandro Salazar velta vöngum yfir hlýnunarbúri.

Nostoc-bakteríuna er hægt að einangra og rækta í rannsóknastofunni, og hefur komið í ljós að af þessari blágrænbakteríu eru fjölmargir stofnar, en aðeins sumir þeirra geta myndað sambýli. Sumir nostoc-stofnar mynda sambýli með einni tiltekinni tegund, en aðrir geta búið með mörgum tegundum. Athygli okkar beinist að því hvað ræður þessari sérhæfni og hvernig nostoc-bakteríur fara að því að finna spírandi sveppgró sem vænlegt er til sambýlis. Þar koma til skynjarar, boðmiðlun og hreyfigeta, en allt fléttast þetta saman í flókið kerfi sameinda og byggingarhluta sem hægt er að skilgreina og skilja með sameindagreiningu og tilraunum.

Blágrænbakteríur svo sem nostoc geta umbreytt nitri (köfnunarefni) úr andrúmslofti þannig að það verði nýtilegt til viðhalds og vaxtar lífverum. Athyglin beinist því einnig að þætti niturnáms blágrænbaktería, einkum í norðlægum vistkerfum þar sem belgjurtir og þeirra niturnámsbakteríur eru ekki fyrir hendi. Eitt af þessum vistkerfum sem er útbreitt á hálendi Íslands en fágætt annars staðar er hélumosavist. Þar eru heiðahéla og aðrir smágerðir soppmosar áberandi og mynda dökka lífskurn með hvítri vaxslikju, en lífmassinn er að stórum hluta flókið samfélag örvera, meðal annars niturbindandi baktería. Verið er að leggja mat á niturnámsvirkni hélumosavistar og jafnframt verða gerðar tilraunir með svonefnd hlýnunarbúr til að kanna áhrif þess að hækka hitastigið um 2 gráður eða svo.

Ólafur fæddist í Reykjavík árið 1951. Hann lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1974 og doktorsprófi í lífefnafræði og erfðafræði frá Wisconsin-háskóla í Madison 1979. Hann var EMBO-styrkþegi við Edinborgarháskóla 1979-1981 og starfaði við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til 2003 þegar hann varð prófessor í líffræði.

Mynd:

  • ©Denis Warshan
...