Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvenær varð vefnaður til og hvað er vitað um hann?

Ragnheiður Björk Þórsdóttir

Vefnaður er eitt elsta listhandverkið sem ennþá er stundað á jörðinni. Hann varð ekki til á einum stað heldur þróaðist sjálfstætt í ýmsum heimshornum og er samofinn fastri búsetu mannkynsins á jörðinni. Fundist hafa leifar af allt að 7000 ára gömlum teppum eða efnum í Egyptalandi og við fornleifauppgröft í Tékklandi[1], í Dolni Vestonice, telja fornleifafræðingar sig hafa fundið allt að 27.000 ára gamlar vefnaðarleifar. Þannig er sagan stöðugt að breytast og sí og æ koma fram nýjar rannsóknir og tilgátur um aldur vefnaðarins.

Sennilega hafa íbúar jarðarinnar smám saman sótt innblásturinn til náttúrunnar með því að fylgjast með hreiðurgerð fugla, kóngulóm að spinna vefi sína og hinum ýmsu dýrum að búa sér til bæli. Frumstæðustu þjóðir gerðu sér vefstað milli trjágreina og höfðu ýmislegt úr ríki náttúrunnar til vefnaðarins, notuðu svo efnið til skjóls eða skarts eftir aðstæðum. Á fornum menningarsvæðum gerðu menn sér skjól með því að flétta, hnýta og vefa úr grasi, greinum og trefjum veggi, þök, rúmdýnur, hurðir, körfur og ílát. Körfugerð eða þrívíður vefur er eldri en tvívíður og fundist hafa allt að 30.000 ára gamlar fléttaðar eða ofnar körfur. Vefnaður barst til Evrópu, meðal annars Norðurlanda, frá Austurlöndum og hingað til lands kom hann með landnámskonum og -körlum.

Á þessu gríska leirkeri frá því um 500 f.Kr. má meðal annars sjá tvær konur að vefa í kljásteinavefstað.

Það fór eftir löndum, landsvæðum og tímabilum hvort konur eða karlar ófu, en spuninn var yfirleitt í höndum kvenna og erfðist snældan frá móður til dóttur í mörgum löndum, þar á meðal á Norðurlöndunum. Í Asíu var vefnaður álitinn dularfullur, jafnvel göldróttur og var ætíð í verkahring kvenna. Í Egyptalandi hinu forna og Grikklandi ófu karlmenn oft en það var þó bundið tímabilum. Myndskreytingar á forngrískum leirvösum sýna tvær manneskjur við vefstaðinn og standa hvor sínum megin enda hefur það örugglega verið mun fljótlegra og þægilegra en að standa einn við vefstaðinn. Hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum er talið að konur hafi nær einar ofið í kljásteinavefstað en þegar vefstóllinn kom til sögunnar fóru karlmenn að vefa, þó ekki eingöngu.

Forfeður okkar ófu í svokallaðan kljásteinavefstað fram á nítjándu öld, eða í tæp 1000 ár. Í honum voru ofnir röggvarfeldir eða vararfeldir, vaðmál, einskefta, salún, íslenskt glit, krossvefnaður og fleira. Það þótti bæði seinlegt og erfitt að vefa í þessum gamla vefstað og á átjándu öld komu til landsins vefstólar sem höfðu marga kosti fram yfir gamla kljásteinavefstaðinn. Við þá mátti sitja meðan ofið var og afköst jukust til muna.

Munurinn á vefstað og vefstól felst í því að í vefstól er uppistaðan lárétt en ekki lóðrétt og skilin stigin með fótunum og því er mjög fljótlegt að vefa. Í gamla vefstaðnum er uppistaðan aftur á móti strengd lóðrétt og skilin dregin fram með höndunum, ekki ósvipað og gert er í lóðréttum myndvefnaðarstól. Vefstólarnir hafa haldist nokkuð óbreyttir um aldir en fyrsti vélknúni vefstólinn kom fram um 1785 og Jacquard-vefstóllinn, sem var mikil tækninýjung, var fundinn upp 1801. Nú eru til margar gerðir af vefstólum, borðvefstólar, fótstignir, vélknúnir og tölvustýrðir vefstólar. Sennilega eru skandinavískir vefstólar algengastir hér á landi, bæði trissustólar, gagnbindingarstólar og myndvefnaðarstólar. Hér á landi voru einnig notaðir litlir vefstólar sem báru nafni floslár.[2] Þeir voru eingöngu notaðir við mjög fínan krossvefnað og flosvefnað sem var seinleg vinna og krafðist mikillar vandvirkni.

Vefnaður verður til á þann hátt að ein þráðarheild binst eða fléttast í aðra. Þráðarheildirnar koma hornréttar hver á aðra og nefnast uppistaða og ívaf.

Vefnaður verður til á þann hátt að ein þráðarheild binst eða fléttast í aðra. Þráðarheildirnar koma hornréttar hver á aðra og nefnast uppistaða og ívaf. Munstrin eða bindingarnar sem verða til þegar ofið er kallast vefnaðarmunstur eða bindimunstur. Grunnbindingarnar eða frumbindingarnar eru þrjár: einskefta, vaðmál og ormeldúkur.[3] Síðan eru ýmis afbrigði leidd af frumbindingunum, svo sem samsettar bindingar og tvöfaldar bindingar. Þær eru flokkaðar eftir aðferðinni sem notuð er við vefnaðinn og við að teikna bindimunstrið. Til er mikill fjöldi bindimunstra og alltaf er verið að finna upp ný og ný með aukinni tækni og hugmyndavinnu og endalaust er hægt að gera ný bindimunstur í vefnaði, ekki síst með tilkomu vefnaðarforrita eins og WeavePoint, WeaveMaker, ProWeave og fleiri.

Þó að frumbindingarnar séu einungis þrjár þá eru til óteljandi munstur og afbrigði af bindingum og þjóðir og þjóðabrot hafa tileinkað sér mismunandi tækni, samsetningar og litanotkun. Þannig er íkatvefnaður[4] til í silkivefnaði á Indlandi og líka í bómullarofnum treflum og dúkum frá Suður-Ameríku. Tvíd-ullarefni eru þjóðareinkenni Skota og Englendinga og munstrin hafa oft og tíðum haldist innan fjölskyldna frá því á tímum iðnbyltingarinnar eða fyrr. Á Norðurlöndunum hefur verið stundaður damaskvefnaður[5] úr hör og bómull og vefnaðarhefðin hefur blómstrað þar. Í sænsku Dölunum hafa einnig orðið til dúkamunstur eins og daladregill og Smálandavefnaður, einnig þráðarbrekán eða ribs. Frá Finnlandi kemur Austurbotnsdregill og svokallaður tvöfaldur finnskur vefnaður þótt uppruni hans sé ekki þar. Jacquard-vefnaðurinn varð til í Frakklandi á 19. öld og leiddi í kjölfarið til stóriðju. Á sama hátt þróuðust einnig vefnaðaraðferðir hér á landi og talið er nánast öruggt að í kljásteinavefstaðnum hafi verið ofið salún, íslenskt glit og krossvefnaður ásamt vaðmáli og einskeftur, þótt ekkert sé lengur til af slíkum vefnaði hér.

Það hefur iðulega farið eftir löndum, landsvæðum og tímabilum hvort vefnaður var kvenmanns- eða karlmannsverk.

Fræg veggteppi frá miðöldum, sem víða eru til á söfnum erlendis, voru ofin með góbelíntækni eða Aubusson-tækni en vagga þeirrar aðferðar var í Frakklandi og í flæmsku löndunum Hollandi og Belgíu. Góbelínteppin voru yfirleitt mjög stór, oftast ofin á röngunni og notuð bæði sem einangrun og skraut í húsakynnum evrópska aðalsins fyrr á öldum.

Tilvísanir:
  1. ^ BBC News, 2001.
  2. ^ Í Íslenskri orðabók er floslár einnig kallaður „flosstóll“ (2002: 356).
  3. ^ Halldóra Bjarnadóttir (1966) kallar ormeldúk, „vormeldúk“. Hann hefur einnig verið kallaður „formeldúkur“. Í bókinni Dúkur og garn eftir Elsu E. Guðjónsson (1953) er ormeldúkur kallaður „satín“ eða „atlas“. Ormeldúkur heitir „satin“ á flestum öðrum tungumálum).
  4. ^ Í íkatvefnaði er uppistaðan handlituð áður en ofið er í hana. Í mjög flóknu afbrigði af ítaki er ívafið einnig litað áður en það er ofið inn í uppistöðuna.
  5. ^ Damaskvefnaður mun hafa borist til Norðurlanda frá Damaskus í Sýrlandi.

Heimildir og myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Listin að vefa sem kom út hjá Vöku Helgafell 2019. Höfundur bókarinnar er Ragnheiður Björk Þórsdóttur og er svarið birt með góðfúslegu leyfi hennar.

Upprunalega spurningin var:

Hvað getið þið sagt mér um vefnað? Hver er uppruni vefnaðar?

Höfundur

Ragnheiður Björk Þórsdóttir

veflistamaður, kennari og sérfræðingur hjá Textílmiðstöð Íslands

Útgáfudagur

25.10.2021

Spyrjandi

Ágúst Már Þórðarson, Katla Torfadóttir

Tilvísun

Ragnheiður Björk Þórsdóttir. „Hvenær varð vefnaður til og hvað er vitað um hann?“ Vísindavefurinn, 25. október 2021. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76337.

Ragnheiður Björk Þórsdóttir. (2021, 25. október). Hvenær varð vefnaður til og hvað er vitað um hann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76337

Ragnheiður Björk Þórsdóttir. „Hvenær varð vefnaður til og hvað er vitað um hann?“ Vísindavefurinn. 25. okt. 2021. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76337>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær varð vefnaður til og hvað er vitað um hann?
Vefnaður er eitt elsta listhandverkið sem ennþá er stundað á jörðinni. Hann varð ekki til á einum stað heldur þróaðist sjálfstætt í ýmsum heimshornum og er samofinn fastri búsetu mannkynsins á jörðinni. Fundist hafa leifar af allt að 7000 ára gömlum teppum eða efnum í Egyptalandi og við fornleifauppgröft í Tékklandi[1], í Dolni Vestonice, telja fornleifafræðingar sig hafa fundið allt að 27.000 ára gamlar vefnaðarleifar. Þannig er sagan stöðugt að breytast og sí og æ koma fram nýjar rannsóknir og tilgátur um aldur vefnaðarins.

Sennilega hafa íbúar jarðarinnar smám saman sótt innblásturinn til náttúrunnar með því að fylgjast með hreiðurgerð fugla, kóngulóm að spinna vefi sína og hinum ýmsu dýrum að búa sér til bæli. Frumstæðustu þjóðir gerðu sér vefstað milli trjágreina og höfðu ýmislegt úr ríki náttúrunnar til vefnaðarins, notuðu svo efnið til skjóls eða skarts eftir aðstæðum. Á fornum menningarsvæðum gerðu menn sér skjól með því að flétta, hnýta og vefa úr grasi, greinum og trefjum veggi, þök, rúmdýnur, hurðir, körfur og ílát. Körfugerð eða þrívíður vefur er eldri en tvívíður og fundist hafa allt að 30.000 ára gamlar fléttaðar eða ofnar körfur. Vefnaður barst til Evrópu, meðal annars Norðurlanda, frá Austurlöndum og hingað til lands kom hann með landnámskonum og -körlum.

Á þessu gríska leirkeri frá því um 500 f.Kr. má meðal annars sjá tvær konur að vefa í kljásteinavefstað.

Það fór eftir löndum, landsvæðum og tímabilum hvort konur eða karlar ófu, en spuninn var yfirleitt í höndum kvenna og erfðist snældan frá móður til dóttur í mörgum löndum, þar á meðal á Norðurlöndunum. Í Asíu var vefnaður álitinn dularfullur, jafnvel göldróttur og var ætíð í verkahring kvenna. Í Egyptalandi hinu forna og Grikklandi ófu karlmenn oft en það var þó bundið tímabilum. Myndskreytingar á forngrískum leirvösum sýna tvær manneskjur við vefstaðinn og standa hvor sínum megin enda hefur það örugglega verið mun fljótlegra og þægilegra en að standa einn við vefstaðinn. Hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum er talið að konur hafi nær einar ofið í kljásteinavefstað en þegar vefstóllinn kom til sögunnar fóru karlmenn að vefa, þó ekki eingöngu.

Forfeður okkar ófu í svokallaðan kljásteinavefstað fram á nítjándu öld, eða í tæp 1000 ár. Í honum voru ofnir röggvarfeldir eða vararfeldir, vaðmál, einskefta, salún, íslenskt glit, krossvefnaður og fleira. Það þótti bæði seinlegt og erfitt að vefa í þessum gamla vefstað og á átjándu öld komu til landsins vefstólar sem höfðu marga kosti fram yfir gamla kljásteinavefstaðinn. Við þá mátti sitja meðan ofið var og afköst jukust til muna.

Munurinn á vefstað og vefstól felst í því að í vefstól er uppistaðan lárétt en ekki lóðrétt og skilin stigin með fótunum og því er mjög fljótlegt að vefa. Í gamla vefstaðnum er uppistaðan aftur á móti strengd lóðrétt og skilin dregin fram með höndunum, ekki ósvipað og gert er í lóðréttum myndvefnaðarstól. Vefstólarnir hafa haldist nokkuð óbreyttir um aldir en fyrsti vélknúni vefstólinn kom fram um 1785 og Jacquard-vefstóllinn, sem var mikil tækninýjung, var fundinn upp 1801. Nú eru til margar gerðir af vefstólum, borðvefstólar, fótstignir, vélknúnir og tölvustýrðir vefstólar. Sennilega eru skandinavískir vefstólar algengastir hér á landi, bæði trissustólar, gagnbindingarstólar og myndvefnaðarstólar. Hér á landi voru einnig notaðir litlir vefstólar sem báru nafni floslár.[2] Þeir voru eingöngu notaðir við mjög fínan krossvefnað og flosvefnað sem var seinleg vinna og krafðist mikillar vandvirkni.

Vefnaður verður til á þann hátt að ein þráðarheild binst eða fléttast í aðra. Þráðarheildirnar koma hornréttar hver á aðra og nefnast uppistaða og ívaf.

Vefnaður verður til á þann hátt að ein þráðarheild binst eða fléttast í aðra. Þráðarheildirnar koma hornréttar hver á aðra og nefnast uppistaða og ívaf. Munstrin eða bindingarnar sem verða til þegar ofið er kallast vefnaðarmunstur eða bindimunstur. Grunnbindingarnar eða frumbindingarnar eru þrjár: einskefta, vaðmál og ormeldúkur.[3] Síðan eru ýmis afbrigði leidd af frumbindingunum, svo sem samsettar bindingar og tvöfaldar bindingar. Þær eru flokkaðar eftir aðferðinni sem notuð er við vefnaðinn og við að teikna bindimunstrið. Til er mikill fjöldi bindimunstra og alltaf er verið að finna upp ný og ný með aukinni tækni og hugmyndavinnu og endalaust er hægt að gera ný bindimunstur í vefnaði, ekki síst með tilkomu vefnaðarforrita eins og WeavePoint, WeaveMaker, ProWeave og fleiri.

Þó að frumbindingarnar séu einungis þrjár þá eru til óteljandi munstur og afbrigði af bindingum og þjóðir og þjóðabrot hafa tileinkað sér mismunandi tækni, samsetningar og litanotkun. Þannig er íkatvefnaður[4] til í silkivefnaði á Indlandi og líka í bómullarofnum treflum og dúkum frá Suður-Ameríku. Tvíd-ullarefni eru þjóðareinkenni Skota og Englendinga og munstrin hafa oft og tíðum haldist innan fjölskyldna frá því á tímum iðnbyltingarinnar eða fyrr. Á Norðurlöndunum hefur verið stundaður damaskvefnaður[5] úr hör og bómull og vefnaðarhefðin hefur blómstrað þar. Í sænsku Dölunum hafa einnig orðið til dúkamunstur eins og daladregill og Smálandavefnaður, einnig þráðarbrekán eða ribs. Frá Finnlandi kemur Austurbotnsdregill og svokallaður tvöfaldur finnskur vefnaður þótt uppruni hans sé ekki þar. Jacquard-vefnaðurinn varð til í Frakklandi á 19. öld og leiddi í kjölfarið til stóriðju. Á sama hátt þróuðust einnig vefnaðaraðferðir hér á landi og talið er nánast öruggt að í kljásteinavefstaðnum hafi verið ofið salún, íslenskt glit og krossvefnaður ásamt vaðmáli og einskeftur, þótt ekkert sé lengur til af slíkum vefnaði hér.

Það hefur iðulega farið eftir löndum, landsvæðum og tímabilum hvort vefnaður var kvenmanns- eða karlmannsverk.

Fræg veggteppi frá miðöldum, sem víða eru til á söfnum erlendis, voru ofin með góbelíntækni eða Aubusson-tækni en vagga þeirrar aðferðar var í Frakklandi og í flæmsku löndunum Hollandi og Belgíu. Góbelínteppin voru yfirleitt mjög stór, oftast ofin á röngunni og notuð bæði sem einangrun og skraut í húsakynnum evrópska aðalsins fyrr á öldum.

Tilvísanir:
  1. ^ BBC News, 2001.
  2. ^ Í Íslenskri orðabók er floslár einnig kallaður „flosstóll“ (2002: 356).
  3. ^ Halldóra Bjarnadóttir (1966) kallar ormeldúk, „vormeldúk“. Hann hefur einnig verið kallaður „formeldúkur“. Í bókinni Dúkur og garn eftir Elsu E. Guðjónsson (1953) er ormeldúkur kallaður „satín“ eða „atlas“. Ormeldúkur heitir „satin“ á flestum öðrum tungumálum).
  4. ^ Í íkatvefnaði er uppistaðan handlituð áður en ofið er í hana. Í mjög flóknu afbrigði af ítaki er ívafið einnig litað áður en það er ofið inn í uppistöðuna.
  5. ^ Damaskvefnaður mun hafa borist til Norðurlanda frá Damaskus í Sýrlandi.

Heimildir og myndir:


Þetta svar er fengið úr bókinni Listin að vefa sem kom út hjá Vöku Helgafell 2019. Höfundur bókarinnar er Ragnheiður Björk Þórsdóttur og er svarið birt með góðfúslegu leyfi hennar.

Upprunalega spurningin var:

Hvað getið þið sagt mér um vefnað? Hver er uppruni vefnaðar?
...