
Fallegir íslenskir prjónavettlingar.
Eftir því sem best er vitað hefur prjón borist til Íslands með kaupmönnum, þýskum, enskum eða hollenskum, á fyrri hluta 16. aldar. Líklegast þykir að þýskir kaupmenn hafi átt mestan hlut að máli. Elsta varðveitta prjónles eða prjónaði fatnaður sem til er á Íslandi og af íslenskum uppruna, mun vera sléttprjónaður belgvettlingur. Hann fannst við uppgröft að Stóruborg í Austur-Eyjafjallahreppi árið 1981 og þykir sennilegt að hann sé frá fyrri hluta 16. aldar, eftir fundarstaðnum að dæma. Á sama stað fannst sléttprjónaður smábarnasokkur og háleistur sem að öllum líkindum eru frá 1650-1750 og leifar af prjónlesi hafa fundist við uppgröft við Bergþórshvol (1927) en þær eru taldar vera frá því um 1600. Þetta prjónles á það allt sameiginlegt að vera sléttprjónað, prjónað í hring með fimm prjónum og sléttri (réttri) lykkju.

Belgvettlingur frá Stóruborg.
Ritaðar heimildir um prjón á Íslandi eru einna elstar úr bréfabók Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups, frá síðasta fjórðungi 16. aldar, en þá voru landskuldir að hluta til greiddar í prjónasaumi. Stundum hefur verið vísað í aðrar heimildir enn eldri, fornbréf frá árinu 1560, en þar er getið um prjónapeysur sem greiða mátti með landskuldir á bæ einum norðanlands.


- Hvenær, hvar og hvers vegna byrjaði fólk að ganga í sokkum? eftir Ulriku Andersson
- Hver er uppruni íslensku skotthúfunnar? eftir Símon Jón Jóhannsson
- Hvers vegna ber síður nærfatnaður heitið föðurland? eftir Guðrúnu Kvaran
- Elsa E. Guðjónsson, „Um prjón á Íslandi“, Hugur og hönd, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, Reykjavík 1985
- Fríður Ólafsdóttir, Íslensk karlmannaföt 1740-1850, Óðinn, Reykjavík 1999
- Íslensk orðabók, 3. útg., ritstj. Mörður Árnason, Edda, Reykjavík 2002
- Magnús Guðmundsson, Ull verður gull: Ullariðnaður Íslendinga á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld (Safn til iðnsögu Íslendinga), Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1988
- Þjóðminjasafn Íslands
- Starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands fá sérstakar þakkir fyrir að útvega myndir og aðra aðstoð við þetta svar.
Hvenær komu fyrstu prjónarnir til Íslands?