Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:59 • Sest 13:45 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:22 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:31 í Reykjavík

Hvers konar flugur eru bananaflugur og gætu þær lifað í náttúru Íslands?

Jón Már Halldórsson

Í heild hljóðaði spurningin svona:
Mér leikur forvitni á að vita hvaðan koma hinar svokölluðu "bananaflugur". Eru egg þessara flugu í hýðinu sem klekjast svo út þegar búið er að afhýða banana? Hvað getið þið sagt mér um þessa er virðist saklausu en hvimleiðu flugu, þ.e.a.s. heiti og fl.?

Hin svokallaða bananafluga (Drosophila melanogaster) hefur gengið undir fleiri heitum á íslensku, til dæmis ávaxtafluga eða ediksgerla eins og hún er nefnd á vef Náttúrufræðistofnunar. Ávaxtaflugan er í reynd mest rannsakaða lífvera í heimi þökk sé þrotlausri vinnu erfðafræðinga í áratugi. Ástæðan er meðal annars sú að hún hentar mjög vel til rannsókna, kynslóðabilið er stutt og flugan eignast mjög mörg afkvæmi. Flugurnar eru smáar, um 2,5 mm að lengd, þannig að þær taka ekki mikið pláss og það er auðvelt að stjórna umhverfi þeirra. Þetta draumadýr erfðafræðinga er líka þeim kostum gætt að hafa stórvaxna litninga í munnvatnskirtlum á lirfustigi.

Ávaxtafluga Drosophila melanogaster að gæða sér á banana.

Hér á landi finnast ávaxtaflugur einungis innandyra þar sem þær þrífast ekki úti við íslenskar aðstæður. Þær eru á ferli allt árið um kring. Ávaxtaflugur lifa á vel þroskuðum ávöxtum, gjarnan þeim sem farnir eru að skemmast, en einnig á gerjuðum drykkjum, bjór- og vínafgöngum og sætum drykkjum eða vökvum sem gerjast við það að standa í hita.

Flugurnar verpa í ávextina og getur viðkoman verið mikil því kvendýrið getur framleitt allt að 400 egg á líftíma sínum. Við kjöraðstæður, um það bil 25 gráðu lofthita, er tíminn frá eggi að fullorðinni flugu um það bil átta og hálfur dagur en allur lífsferillinn er um þrjár vikur. Eggin eru smávaxin eða um hálfur mm að lengd og er klaktíminn 12–15 klukkustundir. Lirfan vex og dafnar í um fjóra daga og púpar sig þegar ákveðinni stærð er náð. Púpustigið varir í um fjóra daga. Hversu hratt flugan þroskast fer mjög eftir hitastigi umhverfisins en einnig eftir öðrum ytri aðstæðum svo sem hversu þröngt er um hana.

Ávaxtaflugur finnast um allan heim nema á köldustu svæðum. Þær lifa á heimilum, í mötuneytum, veitingastöðum og verksmiðjum og finnast helst nærri matvælum.

Á vef Náttúrufræðistofnunar er fín samantekt um ávaxtaflugur og svo má einnig benda á aðgengilega umfjöllun á Wikipedia.com.

Mynd:


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Eru einhvers konar bananaflugur sem koma úr bönunum við ákveðið hitastig?
  • Gæti ávaxtafluga (Drosophila melanogaster) lifað villt í náttúru Íslands?

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

20.12.2018

Spyrjandi

Eiríkur Hilmarsson, Heiða Vigdís Sigfúsdóttir, Olga Björk

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar flugur eru bananaflugur og gætu þær lifað í náttúru Íslands?“ Vísindavefurinn, 20. desember 2018. Sótt 11. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=76367.

Jón Már Halldórsson. (2018, 20. desember). Hvers konar flugur eru bananaflugur og gætu þær lifað í náttúru Íslands? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76367

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar flugur eru bananaflugur og gætu þær lifað í náttúru Íslands?“ Vísindavefurinn. 20. des. 2018. Vefsíða. 11. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76367>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar flugur eru bananaflugur og gætu þær lifað í náttúru Íslands?
Í heild hljóðaði spurningin svona:

Mér leikur forvitni á að vita hvaðan koma hinar svokölluðu "bananaflugur". Eru egg þessara flugu í hýðinu sem klekjast svo út þegar búið er að afhýða banana? Hvað getið þið sagt mér um þessa er virðist saklausu en hvimleiðu flugu, þ.e.a.s. heiti og fl.?

Hin svokallaða bananafluga (Drosophila melanogaster) hefur gengið undir fleiri heitum á íslensku, til dæmis ávaxtafluga eða ediksgerla eins og hún er nefnd á vef Náttúrufræðistofnunar. Ávaxtaflugan er í reynd mest rannsakaða lífvera í heimi þökk sé þrotlausri vinnu erfðafræðinga í áratugi. Ástæðan er meðal annars sú að hún hentar mjög vel til rannsókna, kynslóðabilið er stutt og flugan eignast mjög mörg afkvæmi. Flugurnar eru smáar, um 2,5 mm að lengd, þannig að þær taka ekki mikið pláss og það er auðvelt að stjórna umhverfi þeirra. Þetta draumadýr erfðafræðinga er líka þeim kostum gætt að hafa stórvaxna litninga í munnvatnskirtlum á lirfustigi.

Ávaxtafluga Drosophila melanogaster að gæða sér á banana.

Hér á landi finnast ávaxtaflugur einungis innandyra þar sem þær þrífast ekki úti við íslenskar aðstæður. Þær eru á ferli allt árið um kring. Ávaxtaflugur lifa á vel þroskuðum ávöxtum, gjarnan þeim sem farnir eru að skemmast, en einnig á gerjuðum drykkjum, bjór- og vínafgöngum og sætum drykkjum eða vökvum sem gerjast við það að standa í hita.

Flugurnar verpa í ávextina og getur viðkoman verið mikil því kvendýrið getur framleitt allt að 400 egg á líftíma sínum. Við kjöraðstæður, um það bil 25 gráðu lofthita, er tíminn frá eggi að fullorðinni flugu um það bil átta og hálfur dagur en allur lífsferillinn er um þrjár vikur. Eggin eru smávaxin eða um hálfur mm að lengd og er klaktíminn 12–15 klukkustundir. Lirfan vex og dafnar í um fjóra daga og púpar sig þegar ákveðinni stærð er náð. Púpustigið varir í um fjóra daga. Hversu hratt flugan þroskast fer mjög eftir hitastigi umhverfisins en einnig eftir öðrum ytri aðstæðum svo sem hversu þröngt er um hana.

Ávaxtaflugur finnast um allan heim nema á köldustu svæðum. Þær lifa á heimilum, í mötuneytum, veitingastöðum og verksmiðjum og finnast helst nærri matvælum.

Á vef Náttúrufræðistofnunar er fín samantekt um ávaxtaflugur og svo má einnig benda á aðgengilega umfjöllun á Wikipedia.com.

Mynd:


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Eru einhvers konar bananaflugur sem koma úr bönunum við ákveðið hitastig?
  • Gæti ávaxtafluga (Drosophila melanogaster) lifað villt í náttúru Íslands?

...