Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er ljósmyndaminni?

Ómar Ingi Jóhannesson

Aðrar spurningar:
  • Af hverju gleymum við sumu, en annað munum við?
  • Er hægt að þjálfa heilann upp í svokallað ljósmyndaminni?
  • Hvað veldur ljósmyndaminni og er það eitthvað sem hægt er að þjálfa?
  • Hversu nákvæmt er ljósmyndaminni?

Svonefnt leifturminni (e. flashbulb memory) er minni sem geymir mjög skýrar minningar, svo skýrar að þeim er stundum líkt við ljósmynd. Líklegast er að spyrjendur eigi við það með orðinu ljósmyndaminni.

Minninu er oftast skipt í skynminni, vinnsluminni og langtímaminni. Skynminnið geymir skynjum í örstutta stund og ef henni er veitt athygli tekur vinnsluminnið við henni. Í vinnsluminninu er skynjuninni haldið lifandi á meðan hún hefur þýðingu fyrir þann sem skynjar. Það fer eftir ýmsu hvor skynjunin er síðan geymd í langtímaminninu eða ekki. Meðal þátta sem hafa áhrif á afdrif skynjunarinnar er hve mikilvæg og áhugaverð hún er og því meira sem við vinnum með hana þeim mun líklegra er að hún vistist í langtímaminninu (Baddeley, Eysenck og Anderson, 2015).

En það er ekki nóg að vista minninguna, það þarf einnig að vera hægt að endurheimta hana, það er að rifja hana upp. Öllum minningum tengjast einhverskonar vísbendi og þessi vísbendi notum við þegar við rifjum minningar upp. Minningar sem við rifjum oft upp eru aðgengilegri en þær sem sjaldan eru rifjaðar upp. Það er rétt að benda á að minningar, sem eru rifjaðar upp, virðast stundum vera vistaðar aftur og við það geta þær brenglast. Það er líklegt að þegar áhrifamiklir atburðir gerast í lífi einstaklings hugsi hann meira um þá – vinni meira með þá – en áhrifalitla atburði og það festir þá betur í minni. Það er einnig líklegt að minningar um áhrifamikla atburði séu oftar rifjaðar upp en aðrar og það gerir þær aðgengilegri (Baddeley, Eysenck og Anderson, 2015). Áhrifamiklar minningar geta verið persónulegar eða almennar. Persónulegar áhrifamiklar minningar tengjast oft áföllum en geta líka verið ánægjulegar og góðar. Það sama á við um almennar áhrifamiklar minningar. Sem dæmi um áhrifamiklar almennar minningar má nefna snjóflóðin á Flateyri og í Súðavík og árásirnar á Tvíburaturnana í New York.

Árásirnar á Tvíburaturnana í New York 2001 eru dæmi um atburð sem hefur skapað áhrifamiklar minningar hjá mörgum.

Talarico og Rubin (2003) fengu hóp stúdenta til að rifja upp minningar um árásirnar á Tvíburaturnana og hversdaglegar minningar frá svipuðum tíma strax daginn eftir að árásirna áttu sér stað. Hluti af stúdentunum rifjuðu minningarnar aftur upp 7 dögum seinna og annar hluti 224 dögum seinna. Meginniðurstöður Talarico og Rubin (2003) voru að nákvæmni minninga um árásirnar og hversdaglegu minninganna minnkaði jafnmikið en sannfæring stúdentanna um rétta upprifjun var meiri varðandi minningar um árásirnar en hinar. Einnig komust þeir að því að minningar um árásirnar voru oftar rifjaðar upp en hinar.

Nákvæmni í upprifjun á slæmum minningum virðist meiri en nákvæmni í upprifjun á góðum minningum. Talarico og Rubin (2007) könnuðu nákvæmni í upprifjun staðreynda varðandi fall Berlínarmúrsins og báru saman nákvæmni hjá þeim sem töldu fallið af hinum góða (sameining þýsku ríkjanna) og þeirra sem töldu fallið af hinu slæma (stjórnarfar myndi breytast til hins verra). Niðurstöður Talarico og Rubin (2007) sýndu að nákvæmni upprifjana hjá þeim sem töldu fallið slæmt var meiri en hjá hinum.

Hirst og félagar (2009) báru saman nákvæmni – auk ýmissa annarra þátta – minningar 3000 Bandaríkjamanna um árásirnar á Tvíburaturnana og hversdagslegra minninga frá sama tíma. Samanburðurinn var gerður í þremur lotum, viku efir árásirnar, 11 mánuðum síðar og einnig 35 mánuðum síðar. Í meginatriðum voru niðurstöður Hirst og félaga (2009) í samræmi við niðurstöður Talarico og Rubin (2003). Að auki sýndu þær að nákvæmni rýrnaði mest á fyrsta árinu og virtist nokkuð stöðug eftir það. Hirst og félagar (2009) telja sig hafa sýnt fram á að munur sé á varðveisluferli hversdags- og leifturminninga. Ef þátttakendur þeirra rifjuðu rangt upp eftir 11 mánuði leiðréttu þeir frekar hversdaglegu minningarnar eftir 35 mánuði en leifturminningarnar. En sannfæring þátttakenda þeirra um að leifturminningarnar væru rétt rifjaðar upp var meiri en sannfæring um rétta upprifjun hversdagslegu minninganna. Þessi munur á sannfæringu getur skýrt af hverju hversdagsminningar voru frekar leiðréttar en leifturminningarnar. Rannsókn Hirst og félaga (2009) bendir til að fólk gleymi hraðar tilfinningum sem leifturminningar vöktu en tilfinningum sem hversdagslegar minningar vöktu.

Margt tónlistaráhugafólk sem komið er um eða yfir miðjan aldur getur örugglega rifjað upp nokkuð nákvæmlega við hvaða aðstæður það var þegar frétt barst um morðið á John Lennon 8. desember 1980.

Meginmunur á leiftur- og hversdaglegum minningum virðist vera að sannfæring um að leifturminningarnar séu réttar er meiri en sannfæring um réttar hversdagslegar minningar. Minningar tengjast ekki bara atburðunum sjálfum heldur einnig hvar maður var og með hverjum, svo dæmi séu tekin. Minningar um hvar maður var og með hverjum skiptir eðlilega meira máli þegar um hversdagslegar minningar er að ræða en vegna leifturminninga, að minnsta kosti ef maður er ekki beinn þátttakandi í atburðum leifturminninganna. Þetta getur skýrt af hverju minningar tengdar hversdagslegum minningum eru frekar leiðréttar en þær sem tengjast leifturminningum. Að taka vel eftir atburðum þegar þeir gerast, hugsa mikið um þá og rifja þá oft upp eru vænlegar aðferðir til að þjálfa minni og auka líkur á að þær rifjist auðveldlega upp. Líklegast er að þessar aðferðir virki jafnvel fyrir leiftur- og hversdagsminningar.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að fræðast um áreiðanleika minnis bendi ég á greinina Að skapa minningar: minni, athygli og áreiðanleiki vitnisburðar eftir Dr. Árna Kristjánsson, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Þessi grein birtist í Sálfræðiritinu árið 2014.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Ómar Ingi Jóhannesson

doktor í sálfræði

Útgáfudagur

4.1.2019

Spyrjandi

Telma Rut Gunnarsdóttir, Davíð Ingi Magnússon, Halldór Þormar, Daníel Eggertsson, Jóhann Orri Briem, Georg Ólafsson, Hafþór Reynisson, Georg Ólafsson

Tilvísun

Ómar Ingi Jóhannesson. „Hvað er ljósmyndaminni?“ Vísindavefurinn, 4. janúar 2019. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76721.

Ómar Ingi Jóhannesson. (2019, 4. janúar). Hvað er ljósmyndaminni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76721

Ómar Ingi Jóhannesson. „Hvað er ljósmyndaminni?“ Vísindavefurinn. 4. jan. 2019. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76721>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er ljósmyndaminni?
Aðrar spurningar:

  • Af hverju gleymum við sumu, en annað munum við?
  • Er hægt að þjálfa heilann upp í svokallað ljósmyndaminni?
  • Hvað veldur ljósmyndaminni og er það eitthvað sem hægt er að þjálfa?
  • Hversu nákvæmt er ljósmyndaminni?

Svonefnt leifturminni (e. flashbulb memory) er minni sem geymir mjög skýrar minningar, svo skýrar að þeim er stundum líkt við ljósmynd. Líklegast er að spyrjendur eigi við það með orðinu ljósmyndaminni.

Minninu er oftast skipt í skynminni, vinnsluminni og langtímaminni. Skynminnið geymir skynjum í örstutta stund og ef henni er veitt athygli tekur vinnsluminnið við henni. Í vinnsluminninu er skynjuninni haldið lifandi á meðan hún hefur þýðingu fyrir þann sem skynjar. Það fer eftir ýmsu hvor skynjunin er síðan geymd í langtímaminninu eða ekki. Meðal þátta sem hafa áhrif á afdrif skynjunarinnar er hve mikilvæg og áhugaverð hún er og því meira sem við vinnum með hana þeim mun líklegra er að hún vistist í langtímaminninu (Baddeley, Eysenck og Anderson, 2015).

En það er ekki nóg að vista minninguna, það þarf einnig að vera hægt að endurheimta hana, það er að rifja hana upp. Öllum minningum tengjast einhverskonar vísbendi og þessi vísbendi notum við þegar við rifjum minningar upp. Minningar sem við rifjum oft upp eru aðgengilegri en þær sem sjaldan eru rifjaðar upp. Það er rétt að benda á að minningar, sem eru rifjaðar upp, virðast stundum vera vistaðar aftur og við það geta þær brenglast. Það er líklegt að þegar áhrifamiklir atburðir gerast í lífi einstaklings hugsi hann meira um þá – vinni meira með þá – en áhrifalitla atburði og það festir þá betur í minni. Það er einnig líklegt að minningar um áhrifamikla atburði séu oftar rifjaðar upp en aðrar og það gerir þær aðgengilegri (Baddeley, Eysenck og Anderson, 2015). Áhrifamiklar minningar geta verið persónulegar eða almennar. Persónulegar áhrifamiklar minningar tengjast oft áföllum en geta líka verið ánægjulegar og góðar. Það sama á við um almennar áhrifamiklar minningar. Sem dæmi um áhrifamiklar almennar minningar má nefna snjóflóðin á Flateyri og í Súðavík og árásirnar á Tvíburaturnana í New York.

Árásirnar á Tvíburaturnana í New York 2001 eru dæmi um atburð sem hefur skapað áhrifamiklar minningar hjá mörgum.

Talarico og Rubin (2003) fengu hóp stúdenta til að rifja upp minningar um árásirnar á Tvíburaturnana og hversdaglegar minningar frá svipuðum tíma strax daginn eftir að árásirna áttu sér stað. Hluti af stúdentunum rifjuðu minningarnar aftur upp 7 dögum seinna og annar hluti 224 dögum seinna. Meginniðurstöður Talarico og Rubin (2003) voru að nákvæmni minninga um árásirnar og hversdaglegu minninganna minnkaði jafnmikið en sannfæring stúdentanna um rétta upprifjun var meiri varðandi minningar um árásirnar en hinar. Einnig komust þeir að því að minningar um árásirnar voru oftar rifjaðar upp en hinar.

Nákvæmni í upprifjun á slæmum minningum virðist meiri en nákvæmni í upprifjun á góðum minningum. Talarico og Rubin (2007) könnuðu nákvæmni í upprifjun staðreynda varðandi fall Berlínarmúrsins og báru saman nákvæmni hjá þeim sem töldu fallið af hinum góða (sameining þýsku ríkjanna) og þeirra sem töldu fallið af hinu slæma (stjórnarfar myndi breytast til hins verra). Niðurstöður Talarico og Rubin (2007) sýndu að nákvæmni upprifjana hjá þeim sem töldu fallið slæmt var meiri en hjá hinum.

Hirst og félagar (2009) báru saman nákvæmni – auk ýmissa annarra þátta – minningar 3000 Bandaríkjamanna um árásirnar á Tvíburaturnana og hversdagslegra minninga frá sama tíma. Samanburðurinn var gerður í þremur lotum, viku efir árásirnar, 11 mánuðum síðar og einnig 35 mánuðum síðar. Í meginatriðum voru niðurstöður Hirst og félaga (2009) í samræmi við niðurstöður Talarico og Rubin (2003). Að auki sýndu þær að nákvæmni rýrnaði mest á fyrsta árinu og virtist nokkuð stöðug eftir það. Hirst og félagar (2009) telja sig hafa sýnt fram á að munur sé á varðveisluferli hversdags- og leifturminninga. Ef þátttakendur þeirra rifjuðu rangt upp eftir 11 mánuði leiðréttu þeir frekar hversdaglegu minningarnar eftir 35 mánuði en leifturminningarnar. En sannfæring þátttakenda þeirra um að leifturminningarnar væru rétt rifjaðar upp var meiri en sannfæring um rétta upprifjun hversdagslegu minninganna. Þessi munur á sannfæringu getur skýrt af hverju hversdagsminningar voru frekar leiðréttar en leifturminningarnar. Rannsókn Hirst og félaga (2009) bendir til að fólk gleymi hraðar tilfinningum sem leifturminningar vöktu en tilfinningum sem hversdagslegar minningar vöktu.

Margt tónlistaráhugafólk sem komið er um eða yfir miðjan aldur getur örugglega rifjað upp nokkuð nákvæmlega við hvaða aðstæður það var þegar frétt barst um morðið á John Lennon 8. desember 1980.

Meginmunur á leiftur- og hversdaglegum minningum virðist vera að sannfæring um að leifturminningarnar séu réttar er meiri en sannfæring um réttar hversdagslegar minningar. Minningar tengjast ekki bara atburðunum sjálfum heldur einnig hvar maður var og með hverjum, svo dæmi séu tekin. Minningar um hvar maður var og með hverjum skiptir eðlilega meira máli þegar um hversdagslegar minningar er að ræða en vegna leifturminninga, að minnsta kosti ef maður er ekki beinn þátttakandi í atburðum leifturminninganna. Þetta getur skýrt af hverju minningar tengdar hversdagslegum minningum eru frekar leiðréttar en þær sem tengjast leifturminningum. Að taka vel eftir atburðum þegar þeir gerast, hugsa mikið um þá og rifja þá oft upp eru vænlegar aðferðir til að þjálfa minni og auka líkur á að þær rifjist auðveldlega upp. Líklegast er að þessar aðferðir virki jafnvel fyrir leiftur- og hversdagsminningar.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að fræðast um áreiðanleika minnis bendi ég á greinina Að skapa minningar: minni, athygli og áreiðanleiki vitnisburðar eftir Dr. Árna Kristjánsson, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Þessi grein birtist í Sálfræðiritinu árið 2014.

Heimildir og myndir:

...