Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nauðsynlegt er að byrja umræðu um þetta með því að gera sér ljóst að spurning er texti og svar við spurningu er líka texti. Eins og fram kemur í svari Erlendar Jónssonar við spurningunni Er þetta spurning? þá er spurning í rauninni beiðni um upplýsingar og svarið felst í að veita umbeðnar upplýsingar. Spurning er í eðli sínu ekki beiðni um verk og verknaður eða staðreynd er í sjálfu sér ekki eiginlegt svar við spurningu. Staðreynd eins og tilvist okkar gæti hins vegar verið til komin sem viðbragð við spurningu rétt eins og hverju öðru áreiti.
Ef einhver spyr: „Hvað er til?" má svara með textanum "Við erum til". Ef einhver spyr: „Hvað er dæmi um staðreynd?" má segja: „Við erum til," eða „Tilvist okkar". Þannig er textinn „Við erum til" mögulegt svar við mörgum spurningum. Athugið gæsalappirnar.
Ef okkur er sýndur einhver texti og sagt að hann sé svar við einhverri spurningu, þá getum við ekkert endilega tiltekið nákvæmlega hver spurningin var. Ef ég heyri mann segja „já" veit ég ekkert endilega hvers hann var spurður. Jafnvel þótt ég sjái manneskju benda á rauðan bíl og segja „þarna" veit ég ekki hverju hún var að svara. Hún gæti verið að svara spurningunni: „Hvar er bíllinn þinn?", „Hvar lagði Jón bílnum?", „Hvar er rauður bíll?" eða „Hvar er rottan?" eða einhverri enn annarri.
Tilvist okkar (án gæsalappa), sú staðreynd að við erum til, er samkvæmt framansögðu ekki svar við spurningu á tungumáli okkar, jafnvel þótt við skiljum orðið "texti" víðum skilningi eins og nú er stundum gert. Við höfum raunar ekki heldur ástæðu til að ætla að einhver hafi verið spurður spurningar og brugðist við henni eða öðru áreiti með því að láta okkur verða til.
Ef við gefum ímyndunaraflinu alveg lausan tauminn getum við líkast til hugsað okkur einhvers konar guð eða anda sem notaði svo háþróað tungumál eða texta að tilvist okkar væri eins og einhvers konar orð eða fullyrðing í texta hans. Margir mundu telja að það lægi þá líka í hlutarins eðli að við hefðum alls ekkert vald á því tungumáli og gætum ekkert sagt um spurninguna sem hefði átt að leiða til þess að við erum til. Ef það er rétt mundi svarið enda á svipaðan hátt og nokkur önnur hér á Vísindavefnum, með tilvitnun í þau frægu ummæli Wittgensteins að "Það sem ekki er hægt að tala um hljótum við að þegja um."
En kannski gætum við þrátt fyrir allt lært eitthvað í þessu tungumáli?
Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er spurningin sem tilvist okkar er svar við?“ Vísindavefurinn, 11. ágúst 2000, sótt 6. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=776.
Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 11. ágúst). Hver er spurningin sem tilvist okkar er svar við? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=776
Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er spurningin sem tilvist okkar er svar við?“ Vísindavefurinn. 11. ágú. 2000. Vefsíða. 6. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=776>.