Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Getið þið leyst úr deilu góðra félaga um sveitarnafnið Kaldakinn?

Hallgrímur J. Ámundason

Í heild hljóðar spurningin svona:
Er ekki hægt að leysa deilu góðra félaga um sveitarnafnið Kaldakinn? Er nafnið Kaldakinn, samanber norðankaldi t.d. og væri þá Kaldakinn um Kaldakinn o.s.frv. Eða Kaldakinn, um Köldukinn, frá Köldukinn o.s.frv. Gott væri að nokkur rökstuðningur væri með lausn þessarar deilu.

Fjölmörg íslensk örnefni hafa lýsingarorð sem fyrri lið. Dimmugljúfur og Ljósavatn, Fornhagi og Nýhöfn, Háikambur og Lágafell, Hvítanes og Rauðá, Mjóifjörður og Breiðdalur. Stundum er jafnvel prjónað við forskeyttu lýsingarorði framan við annað lýsingarorð, samanber Ytri-Djúpidalur eða Syðra-Háafell.

Stundum er ekki alveg ljóst hvort forliður örnefna er lýsingarorð eða nafnorð og sumt getur verið alveg tvírætt, eins og til dæmis Brúnavík. Örnefnið gæti verið dregið af lit og haft lýsingarorð sem fyrri lið (þótt þessi tiltekni litur sé einhverra hluta vegna ekki algengur í örnefnum) eða dregið af öðru einkenni í landslagi, nefnilega brún eða brúnum og þannig verið með nafnorð í fyrri lið. Í þessu tiltekna dæmi telja menn líklegar að nafnið sé dregið af fjallsbrúnum sem umkringja víkina.

Íslensk örnefni eru mörg hver ævaforn og eiga sér rætur allt aftur á landnámsöld. Sum þeirra hafa tekið breytingum frá því að þau urðu fyrst til og þær breytingar geta stundum ruglað okkur í ríminu við túlkun þeirra. Erfitt getur þá í sumum tilfellum að sjá hvort forliður örnefnis er nafnorð eða lýsingarorð. Stundum er það hreinlega ómögulegt því við getum ekki vitað hvað nafngjafi var að hugsa þegar hann benti í fyrndinni á fjall og sagði: „Þú skalt Kaldakinn heita.“ Er „kalda“ í Kaldakinn lýsingarorð eða nafnorð? Nefnifallsmyndin Kaldakinn gefur engar upplýsingar um það.

Kaldakinn í Þingeyjarsveit. Horft til suðausturs eftir Út-Kinn en svo nefnist norðurhluti þess svæðis sem Kaldakinn nær yfir.

Ef við gefum okkur að þarna sé um nafnorð að ræða ætti beygingin að vera þessi: Hér er Kaldakinn, um Kaldakinn, frá Kaldakinn, til Kaldakinnar. Fyrri hlutinn er þá eignarfall eintölu af nafnorðinu kaldi. Ef á hinn bóginn þarna er um lýsingarorð að ræða þá ætti beygingin að vera: Hér er Kaldakinn, um Köldukinn, frá Köldukinn, til Köldukinnar. Fyrri hlutinn er þá lýsingarorðið kaldur sem beygist með seinni hluta orðsins, kinn.

Ef við lítum svo til raunverulegra dæma um nafnið er oft best að byrja á þeim elstu. Örnefnið Kaldakinn kemur fyrir þegar í Landnámabók. Þar segir meðal annars: „inn frá Kaldakinn“ og „Þórir nam Kaldakinn“ en ekki eru dæmi um Köldukinn. Þessi dæmi benda því til þess að menn hafi litið á fyrri lið þessa orðs sem nafnorð.

Í nútímanum virðast menn hins vegar vera farnir að líta á fyrri lið nafnsins sem lýsingarorð, samanber meðfylgjandi frétt úr Morgunblaðinu frá 2013 Skriður í Köldukinn eða Kaldakinn? Þar kemur fram í máli heimamanns að „nær allir“ tali um Köldukinn. Þó má heyra á máli annars heimamanns að hann telji fyrri liðinn vera nafnorð og færir hann rök fyrir þeirri skoðun. Menn eru sem sé ekki á eitt sáttir um túlkun nafnsins á heimaslóð.

Það gæti því hafa gerst í tilfelli Kaldakinnar/Köldukinnar að nafnið hafi tekið breytingum einhvers staðar á leiðinni frá fornöld til nútíma, að minnsta kosti í máli sumra. Því hafa orðið til tvímyndir af örnefninu. Sumir tala um Kaldakinn og aðrir um Köldukinn. Við því er ekkert að segja. Það er raunar býsna algengt að örnefni eigi sér fleiri en eina birtingarmynd. Nærtækt dæmi úr nágrannasveit Kinnarinnar er Hverfell eða Hverfjall í Mývatnssveit.

Mynd:

Höfundur

Hallgrímur J.  Ámundason

fyrrverandi verkefnisstjóri nafnfræðisviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

13.12.2019

Spyrjandi

Ólafur Larsen

Tilvísun

Hallgrímur J. Ámundason. „Getið þið leyst úr deilu góðra félaga um sveitarnafnið Kaldakinn?“ Vísindavefurinn, 13. desember 2019. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=77915.

Hallgrímur J. Ámundason. (2019, 13. desember). Getið þið leyst úr deilu góðra félaga um sveitarnafnið Kaldakinn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77915

Hallgrímur J. Ámundason. „Getið þið leyst úr deilu góðra félaga um sveitarnafnið Kaldakinn?“ Vísindavefurinn. 13. des. 2019. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77915>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getið þið leyst úr deilu góðra félaga um sveitarnafnið Kaldakinn?
Í heild hljóðar spurningin svona:

Er ekki hægt að leysa deilu góðra félaga um sveitarnafnið Kaldakinn? Er nafnið Kaldakinn, samanber norðankaldi t.d. og væri þá Kaldakinn um Kaldakinn o.s.frv. Eða Kaldakinn, um Köldukinn, frá Köldukinn o.s.frv. Gott væri að nokkur rökstuðningur væri með lausn þessarar deilu.

Fjölmörg íslensk örnefni hafa lýsingarorð sem fyrri lið. Dimmugljúfur og Ljósavatn, Fornhagi og Nýhöfn, Háikambur og Lágafell, Hvítanes og Rauðá, Mjóifjörður og Breiðdalur. Stundum er jafnvel prjónað við forskeyttu lýsingarorði framan við annað lýsingarorð, samanber Ytri-Djúpidalur eða Syðra-Háafell.

Stundum er ekki alveg ljóst hvort forliður örnefna er lýsingarorð eða nafnorð og sumt getur verið alveg tvírætt, eins og til dæmis Brúnavík. Örnefnið gæti verið dregið af lit og haft lýsingarorð sem fyrri lið (þótt þessi tiltekni litur sé einhverra hluta vegna ekki algengur í örnefnum) eða dregið af öðru einkenni í landslagi, nefnilega brún eða brúnum og þannig verið með nafnorð í fyrri lið. Í þessu tiltekna dæmi telja menn líklegar að nafnið sé dregið af fjallsbrúnum sem umkringja víkina.

Íslensk örnefni eru mörg hver ævaforn og eiga sér rætur allt aftur á landnámsöld. Sum þeirra hafa tekið breytingum frá því að þau urðu fyrst til og þær breytingar geta stundum ruglað okkur í ríminu við túlkun þeirra. Erfitt getur þá í sumum tilfellum að sjá hvort forliður örnefnis er nafnorð eða lýsingarorð. Stundum er það hreinlega ómögulegt því við getum ekki vitað hvað nafngjafi var að hugsa þegar hann benti í fyrndinni á fjall og sagði: „Þú skalt Kaldakinn heita.“ Er „kalda“ í Kaldakinn lýsingarorð eða nafnorð? Nefnifallsmyndin Kaldakinn gefur engar upplýsingar um það.

Kaldakinn í Þingeyjarsveit. Horft til suðausturs eftir Út-Kinn en svo nefnist norðurhluti þess svæðis sem Kaldakinn nær yfir.

Ef við gefum okkur að þarna sé um nafnorð að ræða ætti beygingin að vera þessi: Hér er Kaldakinn, um Kaldakinn, frá Kaldakinn, til Kaldakinnar. Fyrri hlutinn er þá eignarfall eintölu af nafnorðinu kaldi. Ef á hinn bóginn þarna er um lýsingarorð að ræða þá ætti beygingin að vera: Hér er Kaldakinn, um Köldukinn, frá Köldukinn, til Köldukinnar. Fyrri hlutinn er þá lýsingarorðið kaldur sem beygist með seinni hluta orðsins, kinn.

Ef við lítum svo til raunverulegra dæma um nafnið er oft best að byrja á þeim elstu. Örnefnið Kaldakinn kemur fyrir þegar í Landnámabók. Þar segir meðal annars: „inn frá Kaldakinn“ og „Þórir nam Kaldakinn“ en ekki eru dæmi um Köldukinn. Þessi dæmi benda því til þess að menn hafi litið á fyrri lið þessa orðs sem nafnorð.

Í nútímanum virðast menn hins vegar vera farnir að líta á fyrri lið nafnsins sem lýsingarorð, samanber meðfylgjandi frétt úr Morgunblaðinu frá 2013 Skriður í Köldukinn eða Kaldakinn? Þar kemur fram í máli heimamanns að „nær allir“ tali um Köldukinn. Þó má heyra á máli annars heimamanns að hann telji fyrri liðinn vera nafnorð og færir hann rök fyrir þeirri skoðun. Menn eru sem sé ekki á eitt sáttir um túlkun nafnsins á heimaslóð.

Það gæti því hafa gerst í tilfelli Kaldakinnar/Köldukinnar að nafnið hafi tekið breytingum einhvers staðar á leiðinni frá fornöld til nútíma, að minnsta kosti í máli sumra. Því hafa orðið til tvímyndir af örnefninu. Sumir tala um Kaldakinn og aðrir um Köldukinn. Við því er ekkert að segja. Það er raunar býsna algengt að örnefni eigi sér fleiri en eina birtingarmynd. Nærtækt dæmi úr nágrannasveit Kinnarinnar er Hverfell eða Hverfjall í Mývatnssveit.

Mynd:...