Sólin Sólin Rís 03:49 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:41 • Sest 03:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:46 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík

Hafa lifandi dúfur verið notaðar í skotkeppni á Ólympíuleikunum?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Upprunalega spurningin var:

Er hægt að segja aðeins frá því þegar það voru notaðar alvöru dúfur á Ólympíuleikunum í skotkeppninni?

Margt af því sem einhvern tíma hefur átt sér stað í sögu Ólympíuleikanna kann að koma spánskt fyrir sjónir í dag. Meðal þess er notkun á lifandi dúfum í keppni í skotfimi.

Þegar fyrstu Ólympíuleikar nútímans voru haldnir í Aþenu árið 1896 var keppt í níu íþróttagreinum sem skiptust í 43 keppnisgreinar. Allar götur síðan hafa leikarnir tekið einhverjum breytingum, nýjar greinar bæst við, sumar tímabundið eða aðrar varanlega. Keppnisfyrirkomulag einstakra greina hefur einnig tekið breytingum í takt við nýja þekkingu, tækni, færni, búnað, innviði og breytt viðhorf.

Árið 1900 voru Ólympíuleikarnir haldnir í París samhliða heimssýningunni sem haldin var þar í borg. Fyrirkomulagið var þannig að leikarnir náðu yfir fimm mánaða tímabil og voru mót haldin á hinum ýmsu stöðum. Ekki var alltaf ljóst hvað nákvæmlega var hluti Ólympíuleikanna og hvað ekki, og þar sem lítil áhersla var lögð á að kynna mótin sem hluta leikanna vissu þátttakendur í mörgum tilfellum ekki að þeir væru í raun að keppa á Ólympíuleikum.

Á Ólympíuleikunum í París árið 1900 voru lifandi dúfur skotmarkið í einni grein skotfiminnar.

Eins og á leikunum fjórum árum fyrr var skotfimi meðal þeirra íþróttagreina sem voru á dagskrá í París. Á vef Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) er að finna úrslit í átta skotkeppnum en ýmsir aðrir skotviðburðir voru haldnir í tengslum við leikana. Einn þeirra fólst í því að skjóta á lifandi dúfur sem sleppt var lausum. Ef keppandi missti af tveimur dúfum í röð var hann úr leik. Sigurvegari keppninnar var Belgi að nafni Leon de Lunden en hann náði 21 dúfu. Alls voru nærri 300 dúfur skotnar og var keppnisvöllurinn frekar sóðalegur þegar á leið, þakinn dauðum og særðum fuglum, blóði og fjöðrum. Rétt er að geta þess að úrslitin úr þessari tilteknu keppni er ekki að finna á vef IOC.

Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem lifandi dýr hafa verið skotmörk í keppni á Ólympíuleikum. Á næstu leikum á eftir París, árið 1904, voru notaðar leirdúfur.

Dúfur hafa þó komið við sögu á Ólympíuleikum á annan hátt og gera enn. Við lok fyrstu nútíma Ólympíuleikanna 1896 var dúfum sleppt lausum og það sama átti sér stað við opnunarathöfn leikanna í Antwerpen í Belgíu árið 1920. Þar áttu dúfurnar að vera tákn um frið og í kjölfarið komst á margra áratuga hefð þar sem dúfum var sleppt við upphaf leikanna. Rétt eins og keppendur undirbúa sig fyrir leikana þurftu dúfurnar líka að æfa, ef marka má frétt í íþróttablaði Morgunblaðsins um opnunarathöfn leikanna í Seoul í Suður-Kóreu 1988. Þar segir meðal annars:

Það er ekki aðeins mannfólkið sem hefur æft grimmt. 2.400 hvítar dúfur hafa verið á séræfingum í nær tvö ár, eða frá því í nóvember 1986. Þær hafa verið þjálfaðar í að fljúga beint upp í 200 metra hæð.

Þrátt fyrir þessar miklu æfingar fór eitthvað úrskeiðis og hluti dúfnanna flaug ekki á brott heldur settist á skálina þar sem Ólympíueldurinn átti að loga. Það varð til þess að þær brunnu til bana þegar eldurinn var tendraður. Eftir þetta var hætt að sleppa dúfum við opnunarathöfn Ólympíuleika en þess í útfærður táknrænn viðburður sem tengist dúfum og friði. Á leikunum í Sidney í Ástralíu 2000 var mynd af dúfu varpað á risastóran dúk sem íþróttamenn á leikvanginum héldu uppi. Í Peking 2008 voru gulir flugeldar notaðir til að tákna dúfur, í London 2012 voru hjólreiðamenn með vængi eins og dúfur sem lýstir voru með LED-ljósum og í Ríó 2016 hlupu börn með flugdreka sem minntu á dúfur.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

26.7.2021

Spyrjandi

Karítas

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hafa lifandi dúfur verið notaðar í skotkeppni á Ólympíuleikunum?“ Vísindavefurinn, 26. júlí 2021. Sótt 22. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78904.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2021, 26. júlí). Hafa lifandi dúfur verið notaðar í skotkeppni á Ólympíuleikunum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78904

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hafa lifandi dúfur verið notaðar í skotkeppni á Ólympíuleikunum?“ Vísindavefurinn. 26. júl. 2021. Vefsíða. 22. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78904>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hafa lifandi dúfur verið notaðar í skotkeppni á Ólympíuleikunum?
Upprunalega spurningin var:

Er hægt að segja aðeins frá því þegar það voru notaðar alvöru dúfur á Ólympíuleikunum í skotkeppninni?

Margt af því sem einhvern tíma hefur átt sér stað í sögu Ólympíuleikanna kann að koma spánskt fyrir sjónir í dag. Meðal þess er notkun á lifandi dúfum í keppni í skotfimi.

Þegar fyrstu Ólympíuleikar nútímans voru haldnir í Aþenu árið 1896 var keppt í níu íþróttagreinum sem skiptust í 43 keppnisgreinar. Allar götur síðan hafa leikarnir tekið einhverjum breytingum, nýjar greinar bæst við, sumar tímabundið eða aðrar varanlega. Keppnisfyrirkomulag einstakra greina hefur einnig tekið breytingum í takt við nýja þekkingu, tækni, færni, búnað, innviði og breytt viðhorf.

Árið 1900 voru Ólympíuleikarnir haldnir í París samhliða heimssýningunni sem haldin var þar í borg. Fyrirkomulagið var þannig að leikarnir náðu yfir fimm mánaða tímabil og voru mót haldin á hinum ýmsu stöðum. Ekki var alltaf ljóst hvað nákvæmlega var hluti Ólympíuleikanna og hvað ekki, og þar sem lítil áhersla var lögð á að kynna mótin sem hluta leikanna vissu þátttakendur í mörgum tilfellum ekki að þeir væru í raun að keppa á Ólympíuleikum.

Á Ólympíuleikunum í París árið 1900 voru lifandi dúfur skotmarkið í einni grein skotfiminnar.

Eins og á leikunum fjórum árum fyrr var skotfimi meðal þeirra íþróttagreina sem voru á dagskrá í París. Á vef Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) er að finna úrslit í átta skotkeppnum en ýmsir aðrir skotviðburðir voru haldnir í tengslum við leikana. Einn þeirra fólst í því að skjóta á lifandi dúfur sem sleppt var lausum. Ef keppandi missti af tveimur dúfum í röð var hann úr leik. Sigurvegari keppninnar var Belgi að nafni Leon de Lunden en hann náði 21 dúfu. Alls voru nærri 300 dúfur skotnar og var keppnisvöllurinn frekar sóðalegur þegar á leið, þakinn dauðum og særðum fuglum, blóði og fjöðrum. Rétt er að geta þess að úrslitin úr þessari tilteknu keppni er ekki að finna á vef IOC.

Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem lifandi dýr hafa verið skotmörk í keppni á Ólympíuleikum. Á næstu leikum á eftir París, árið 1904, voru notaðar leirdúfur.

Dúfur hafa þó komið við sögu á Ólympíuleikum á annan hátt og gera enn. Við lok fyrstu nútíma Ólympíuleikanna 1896 var dúfum sleppt lausum og það sama átti sér stað við opnunarathöfn leikanna í Antwerpen í Belgíu árið 1920. Þar áttu dúfurnar að vera tákn um frið og í kjölfarið komst á margra áratuga hefð þar sem dúfum var sleppt við upphaf leikanna. Rétt eins og keppendur undirbúa sig fyrir leikana þurftu dúfurnar líka að æfa, ef marka má frétt í íþróttablaði Morgunblaðsins um opnunarathöfn leikanna í Seoul í Suður-Kóreu 1988. Þar segir meðal annars:

Það er ekki aðeins mannfólkið sem hefur æft grimmt. 2.400 hvítar dúfur hafa verið á séræfingum í nær tvö ár, eða frá því í nóvember 1986. Þær hafa verið þjálfaðar í að fljúga beint upp í 200 metra hæð.

Þrátt fyrir þessar miklu æfingar fór eitthvað úrskeiðis og hluti dúfnanna flaug ekki á brott heldur settist á skálina þar sem Ólympíueldurinn átti að loga. Það varð til þess að þær brunnu til bana þegar eldurinn var tendraður. Eftir þetta var hætt að sleppa dúfum við opnunarathöfn Ólympíuleika en þess í útfærður táknrænn viðburður sem tengist dúfum og friði. Á leikunum í Sidney í Ástralíu 2000 var mynd af dúfu varpað á risastóran dúk sem íþróttamenn á leikvanginum héldu uppi. Í Peking 2008 voru gulir flugeldar notaðir til að tákna dúfur, í London 2012 voru hjólreiðamenn með vængi eins og dúfur sem lýstir voru með LED-ljósum og í Ríó 2016 hlupu börn með flugdreka sem minntu á dúfur.

Heimildir og mynd:...