Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á bloggi sínu, Hungurdiskar, fjallar Trausti Jónsson veðurfræðingur iðulega um veður tiltekinna ára undir yfirskriftinni „Hugsað til ársins ....“ Þar er að finna mikinn fróðleik sem tengist veðurari tiltekinna ára. Í þessu svari er birtir nokkrir bútar úr umfjölluninni um árið 1951 og sérstaklega horft til febrúar. Lesendur eru eindregið hvattir til að kynna sér pistilinn í heild sinni.
Veturinn (desember til mars) 1950 til 1951 var kaldur, á landsvísu sá kaldasti frá 1920 og kaldari vetur kom ekki aftur fyrr en 1965 til 1966. Séu nóvember og apríl einnig taldir til vetrarins kemur í ljós að ekki hafa nema tveir vetur síðan verið kaldari, 1967 til 1968 og 1978 til 1979. Snjóhuluathuganir hafa nú verið gerðar á landinu í nærri hundrað ár. Á Norður- og Austurlandi er þessi vetur sá snjóþyngsti frá upphafi, sá 14. snjóþyngsti á Suður- og Vesturlandi og sá næstsnjóþyngsti á landsvísu, ásamt vetrinum 1982 til 1983. Snjóþyngstur á landinu öllu var veturinn 1994 til 1995.
Lýsing á veðri febrúarmánaðar 1951: "Óhagstæð tíð. Mikil snjóþyngsli, nema v-lands og samgöngur erfiðar. Sæmilegar gæftir fyrir sunnan, en annars lélegar. Hiti var nærri meðallagi" (Fylgiskjal með pistli á Hungurdiskum). Myndin tekin 67 árum síðar, 6. febrúar 2018.
Alhvítir dagar voru 166 á Akureyri veturinn 1950 til 1951 og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi snjóathugana 1924. Alhvítt var allan desember, janúar, mars og apríl, og 24 daga í febrúar. Í Reykjavík var fjöldi alhvítra daga 58, örlítið færri heldur en í meðalári. Þar var aðeins einn alhvítur dagur í desember, 7 í janúar, en 27 í febrúar og 20 í mars ....
… Mestallan veturinn eru dagblöð full af fréttum af miklum snjó, ófærð og vandræðum af þeim sökum. Mjólkurflutningar gengu illa, líka á Suðurlandi, þó mun meiri snjór væri fyrir norðan og austan. Við veljum hér nokkuð tilviljanakennt úr fréttum ...
… Snemma í febrúar losnaði lagnaðarís á Skutulsfirði, Tíminn segir frá þann 4. febrúar:
Allmikið ísrek er nú út Skutulsfjörð og norður í Ísafjarðardjúp. Hafnarstjórinn á Ísafirði hefur af þessum sökum aðvarað sjófarendur, þar eð skipaleið er talin hættuleg af völdum ísreksins, ef ekki er fullrar varúðar gætt.
Í febrúar voru enn stöðugar fréttir af ófærð og samgönguvandræðum. Við grípum niður í nokkrar fréttir í Tímanum:
[22.] Í aftaka hvassviðri og hríðarbyl, urðu í fyrrinótt skemmdir á hitaveitunni í Ólafsfirði, svo að hún er nú óstarfhæf. Féll snjóskriða sunnanvert í Garðsdal einmitt þar sem upptök hitaveitunnar eru. Lenti skriðan á mannvirkinu, svo að hitaveitan kemur ekki að notum. Hvassviði og snjókoma hélst enn í allan gærdag svo ekki reyndist unnt að aðgæta skemmdirnar.
[23.] Gífurlegt fannfergi komið á Norðurlandi Látlaus stórhríð í þrjá sólarhringa. Á Norðurlandi hefir nú verið látlaus stórhríð í þrjá sólarhringa. og er fannfergi ofan á gamla hjarninu orðið gífurlegt, svo að víða verður vart farið á milli bæja nema á skíðum í Suður-Þingeyjarsýslu er fannkyngið orðið mjög mikið, en þó var brotist til Húsavíkur með mjólk í gær á sleðum aftan í ýtum. Hafði bærinn þá verið mjólkurlaus um skeið. Allar samgöngur milli byggðarlaga i héraði eru að öðru leyti tepptar. — Heldur var þó að rofa til í gærkveldi.
Á Akureyri er vetrarlegt um að lítast. Mannhæðarháir skaflar eru víða á götunum. Í gær voru stórar ýtur að vinna að því að ryðja braut fyrir bíla um miðbæinn.
[24.] Bílar allan daginn í gær að brjótast til mjólkurbús [Flóamanna]. Mjólkurbílar 10 klst frá Reykjavík til Selfoss. Margt fólk varð að gista í Krísuvík í fyrrinótt. Mjólkurbílar komust við illan leik úr flestum eða öllum sveitum Suðurlandsundirlendisins til Mjólkurbús Flóamanna í gær og eins þaðan til Reykjavíkur. Snjóýtur unnu á Krísuvíkurleiðinni og vegum í nánd við Selfoss í gær og er búist við sæmilegu færi í dag, ef ekki tekur að snjóa á ný
Um mánaðamótin hlánaði um stund syðra, flæddi allvíða yfir vegi og í hús:
Tíminn 1. mars:
Vatn hefir runnið inn í mörg hús í Keflavík og Ytri-Njarðvík og sums staðar valdið skemmdum á innanstokksmunum. Úr einni íbúð í kjallara húss við Kirkjuveg í Keflavík hefir fólkið orðið að flytja brott. Skemmdir hafa orðið á einni götu.
Tíminn 2. mars:
Síðdegis í fyrradag [28. febrúar] féll snjó- aurskriða á 20—30 metra löngum kafla yfir veginn norðan í Reynivallaháls. Bifreiðar, sem komu þar að um kl. 7 um kvöldið, komust ekki lengra og urðu frá að hverfa. Var vegurinn því tepptur í fyrrinótt. Flóir yfir veginn hjá Kleifarvatni Flæðir yfir Keflavíkurveginn.
Í lok pistilsins bendir Trausti á að ítarlegri veðurlýsingar sé að finna í Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands sem lesa má á timarit.is. Mánaðaryfirlitið fyrir febrúar 1951 byrjar á þessa leið:
Tíðarfarið var óhagstætt, snjóþyngsli mikil nema um miðbik Vesturlands og samgöngur oft mjög erfiðar. Gæftir voru sæmilegar sunnan lands, en yfirleitt lélegar annars staðar. Afli var tregur.
Síðan er haldið áfram og rakið hvernig hitafar, vindur og úrkoma voru flesta daga mánaðarins. Lesendur eru hvattir til að kynna sér umfjöllun Veðráttunnar nánar.
Mynd:
Trausti Jónsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvernig var veðrið í febrúar 1951?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2022, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81140.
Trausti Jónsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2022, 1. desember). Hvernig var veðrið í febrúar 1951? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81140
Trausti Jónsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvernig var veðrið í febrúar 1951?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2022. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81140>.