Sólin Sólin Rís 06:37 • sest 20:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:16 • Síðdegis: 22:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:58 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:37 • sest 20:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:16 • Síðdegis: 22:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:58 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er vitað um örnefnin Fagridalur og Fagradalsfjall á Reykjanesskaga?

Birna Lárusdóttir

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Fagradalsörnefni hafa verið mikið í umræðunni undanfarið í kjölfar eldgoss í Geldingadölum, en lítið hefur þó farið fyrir sjálfum Fagradal sem er norðan undir Fagradalsfjalli. Honum hefur verið lýst sem uppblásnu landi eða aurmelum, en svæðið hefur í seinni tíð einfaldlega verið kallað Aurar af heimamönnum ef marka má örnefnalýsingar, þótt Fagradalsnafnið lifi góðu lífi á ýmsum kortum.

Örnefnið Fagridalur á sér langa sögu. Þess er getið í gömlu skjali sem var skrifað upp eftir afgömlum og rotnum blöðum úr bréfabók Gísla Jónssonar sem líklegast er frá því um 1500 — en nafnið gæti hæglega verið eldra. Í skjalinu er fjallað um landamerki milli Voga og Grindavíkur og talið að Vogar eigi land neðan frá að Kálfsfelli og upp að Vatnskötlum fyrir innan Fagradal. Markalínan milli hreppanna tveggja hefur annars löngum verið umdeild og Fagridalur komið þar við sögu. Í upphafi 18. aldar var til að mynda uppi ágreiningur um selstöðu í dalnum og vildu hvorir tveggja, Stóru-Vogamenn og Járngerðarstaðamenn, eigna sér hana fyrir búpening sinn. Það gæti bent til að þar hafi enn verið einhverjar gróðurtorfur og þótt vænlegt til sumarbeitar, en mörg örnefni með forliðnum Fagri-/Fagra- vísa einmitt til grænku og góðra nytja — ekki síst ef samanburðurinn er kolsvört hraun eða örfoka svæði. Tóftir selsins sem rifist var um, Dalssels, eru enn sýnilegar. Í heimildum frá árinu 1840 er dalurinn sagður stórgrýttur af skriðum og graslítill, þó er tekið fram að hann hafi fyrrum verið fagur.

Örnefni á korti danska herforingjaráðsins, að stofni til frá 1910. Landmælingar Íslands.

Þótt Fagridalur sé ekki í alfaraleið, og formlega séð hafi nafnið verið fallið úr notkun staðkunnugra um miðja 20. öld, hefur hann sett ótvírætt mark á önnur örnefni í kring. Fagradalsfjall er kennt við dalinn og sömuleiðis hefur nafni hans verið skeytt framan við nöfn tveggja fella sem eru kölluð Fagradals-Vatnsfell og Fagradals-Hagafell — til aðgreiningar frá öðrum samnefndum fellum sem eru austar og kennd við Hraunssel. Þetta eitt og sér bendir til að Fagridalur hafi verið vel þekktur og miðlægur í vitund þeirra sem þekktu til landslags á svæðinu, kannski ekki síst vegna landamerkjadeilna, selstöðunnar og götu sem tengdi byggðir á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga og lá um dalinn.

Nýlega hefur enn eitt örnefni bæst í afsprengjahóp Fagradals, Fagradalshraun, sem dregur þó nafn sitt ekki beint af dalnum (enda rennur það ekki um hann) heldur fremur af Fagradalsfjalli og eldstöðvarkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu.

Heimildir:
  • Diplomatarium Islandicum/Íslenzkt fornbréfasafn, 7. bindi, Reykjavík 1902-1907.
  • „Fagradalshraun og Fagrahraun urðu fyrir valinu.“ [Skoðað 31. maí 2021]
  • Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Sögufélag 2007.
  • Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. bindi. Kaupmannahöfn 1923-24.
  • Sesselja G. Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla Keflavíkurvegarins). 2. útg. aukin og endurskoðuð. Lionsklúbburinn Keilir 2007.
  • Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Ara Gíslason. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. [Skoðað 30. maí 2021.]
  • Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Loft Jónsson. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. [Skoðað 30. maí 2021.]

Mynd:

Höfundur

Birna Lárusdóttir

fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

3.6.2021

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Birna Lárusdóttir. „Hvað er vitað um örnefnin Fagridalur og Fagradalsfjall á Reykjanesskaga?“ Vísindavefurinn, 3. júní 2021, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81912.

Birna Lárusdóttir. (2021, 3. júní). Hvað er vitað um örnefnin Fagridalur og Fagradalsfjall á Reykjanesskaga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81912

Birna Lárusdóttir. „Hvað er vitað um örnefnin Fagridalur og Fagradalsfjall á Reykjanesskaga?“ Vísindavefurinn. 3. jún. 2021. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81912>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er vitað um örnefnin Fagridalur og Fagradalsfjall á Reykjanesskaga?
Fagradalsörnefni hafa verið mikið í umræðunni undanfarið í kjölfar eldgoss í Geldingadölum, en lítið hefur þó farið fyrir sjálfum Fagradal sem er norðan undir Fagradalsfjalli. Honum hefur verið lýst sem uppblásnu landi eða aurmelum, en svæðið hefur í seinni tíð einfaldlega verið kallað Aurar af heimamönnum ef marka má örnefnalýsingar, þótt Fagradalsnafnið lifi góðu lífi á ýmsum kortum.

Örnefnið Fagridalur á sér langa sögu. Þess er getið í gömlu skjali sem var skrifað upp eftir afgömlum og rotnum blöðum úr bréfabók Gísla Jónssonar sem líklegast er frá því um 1500 — en nafnið gæti hæglega verið eldra. Í skjalinu er fjallað um landamerki milli Voga og Grindavíkur og talið að Vogar eigi land neðan frá að Kálfsfelli og upp að Vatnskötlum fyrir innan Fagradal. Markalínan milli hreppanna tveggja hefur annars löngum verið umdeild og Fagridalur komið þar við sögu. Í upphafi 18. aldar var til að mynda uppi ágreiningur um selstöðu í dalnum og vildu hvorir tveggja, Stóru-Vogamenn og Járngerðarstaðamenn, eigna sér hana fyrir búpening sinn. Það gæti bent til að þar hafi enn verið einhverjar gróðurtorfur og þótt vænlegt til sumarbeitar, en mörg örnefni með forliðnum Fagri-/Fagra- vísa einmitt til grænku og góðra nytja — ekki síst ef samanburðurinn er kolsvört hraun eða örfoka svæði. Tóftir selsins sem rifist var um, Dalssels, eru enn sýnilegar. Í heimildum frá árinu 1840 er dalurinn sagður stórgrýttur af skriðum og graslítill, þó er tekið fram að hann hafi fyrrum verið fagur.

Örnefni á korti danska herforingjaráðsins, að stofni til frá 1910. Landmælingar Íslands.

Þótt Fagridalur sé ekki í alfaraleið, og formlega séð hafi nafnið verið fallið úr notkun staðkunnugra um miðja 20. öld, hefur hann sett ótvírætt mark á önnur örnefni í kring. Fagradalsfjall er kennt við dalinn og sömuleiðis hefur nafni hans verið skeytt framan við nöfn tveggja fella sem eru kölluð Fagradals-Vatnsfell og Fagradals-Hagafell — til aðgreiningar frá öðrum samnefndum fellum sem eru austar og kennd við Hraunssel. Þetta eitt og sér bendir til að Fagridalur hafi verið vel þekktur og miðlægur í vitund þeirra sem þekktu til landslags á svæðinu, kannski ekki síst vegna landamerkjadeilna, selstöðunnar og götu sem tengdi byggðir á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga og lá um dalinn.

Nýlega hefur enn eitt örnefni bæst í afsprengjahóp Fagradals, Fagradalshraun, sem dregur þó nafn sitt ekki beint af dalnum (enda rennur það ekki um hann) heldur fremur af Fagradalsfjalli og eldstöðvarkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu.

Heimildir:
  • Diplomatarium Islandicum/Íslenzkt fornbréfasafn, 7. bindi, Reykjavík 1902-1907.
  • „Fagradalshraun og Fagrahraun urðu fyrir valinu.“ [Skoðað 31. maí 2021]
  • Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Sögufélag 2007.
  • Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. bindi. Kaupmannahöfn 1923-24.
  • Sesselja G. Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla Keflavíkurvegarins). 2. útg. aukin og endurskoðuð. Lionsklúbburinn Keilir 2007.
  • Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Ara Gíslason. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. [Skoðað 30. maí 2021.]
  • Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Loft Jónsson. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. [Skoðað 30. maí 2021.]

Mynd:...