Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Af hverju heitir Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi þessu nafni?

Birna Lárusdóttir

Drápuhlíðarfjall er í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi, sunnan við Stykkishólm. Það er helst þekkt fyrir fjölskrúðuga liti en þeir stafa af bergtegund sem nefnist ríólít. Forðum var álitið að það væri ríkt af málmum og náttúrusteinum sem gæddir væru yfirnáttúrulegum krafti. Þjóðsögur greina frá tjörn uppi á fjallinu þar sem alls konar töfrasteinar áttu að fljóta á Jónsmessunótt: óskasteinar, lausnarsteinar og hulinhjálmssteinar.

Norðan undir fjallinu stóð bærinn Drápuhlíð og dregur það nafn sitt af honum. Þar var lengi þríbýli en síðasti bærinn fór í eyði um miðja 20. öld. Ljóst er að nafnið er gamalt, enda er bæjarins getið í Eyrbyggja sögu, en þar bjó Vigfús nokkur, ódældarmaður mikill. Elsta handrit Eyrbyggju er talið frá því um 1300 en um svipað leyti, í landamerkjalýsingu frá því um 1250, er bærinn ekki kallaður Drápuhlíð heldur bara Hlíð. Líklegt er að forskeytinu Drápu- hafi verið bætt við til aðgreiningar frá öðrum bæjum með sama nafni, en algengt er að slíkt gerist með einföld náttúrunöfn á borð við Hvamm, Hól og Hlíð. Annar Hlíðabær er vestar á nesinu en sá heitir Mávahlíð og kemur einnig fyrir í Eyrbyggju. Það hefði valdið ruglingi ef báðir bæir hefðu heitað Hlíð eingöngu.

Drápuhlíðarfjall er helst þekkt fyrir fjölskrúðuga liti sem stafa af bergtegundinni ríólít.

En hver eða hvað er þá þessi Drápa sem bærinn var kenndur við? Örnefnið kemur víða fyrir eitt og sér og er oftast heiti á tjörnum, gjarnan ferginstjörnum í mýrlendi en fergin (eða fergini, lat. Equisetum fluviatile) er tegund af elftingu og þótti mjög gott skepnufóður. Drápuörnefnum fylgja oft sögur um að fé hafi farist eða drepist þar, og af því sé nafnið dregið. Sem dæmi má nefna Drápu, stöðulón í landi Syðri-Steinsmýrar (Leiðvallahreppi, V-Skaft.), en hún „hafði drepið marga kind“. Önnur tjörn með sama nafni var í Koteyjarhverfi í sama hreppi, en hún þótti mikill drápspyttur. Nákvæmlega sama skýring er uppi með Drápu sem er á landamerkjum Leysingjastaða og Steinness í Sveinsstaðahreppi (A-Hún.), en hún var ferginstjörn, áður hættuleg skepnum. Tekið er fram í annarri lýsingu að hún hafi ekki síst verið hættuleg þegar fraus og skepnur hættu sér út á ísinn. Drápa, sem var ferginstjörn út við hreppamót í Marbælisengi, var hins vegar þeirrar náttúru að þegar hey úr henni var þurrkað kom ávallt heyskaðaveður. Einnig eru nokkur dæmi um Drápur sem eru ekki tjarnir heldur jarðföll eða jafnvel annars konar landslagsfyrirbæri en oftast fylgja þeim sögur um skepnudauða.

Engin sögn af þessu tagi er þekkt í landi Drápuhlíðar svo vitað sé og alls ekki augljóst að bærinn hafi verið kenndur við sérstaka tjörn. Þar er þó talsvert votlendi, eða voru í það minnsta góðar engjar forðum og sú jörð sem á land að Drápuhlíð að norðan dregur einmitt nafn sitt af votlendi, Saurar – þar var mikið og grösugt engi.

Heimildir:
  • Íslenzk fornrit IV: Eyrbyggja saga: Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson gáfu út. Hið íslenzka fornritafélag, 1957.
  • Ýmsar örnefnalýsingar í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sjá Nafnið.is.
  • Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I. Safnað hefur Jón Árnason. Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954.

Mynd:

Höfundur

Birna Lárusdóttir

fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

14.2.2022

Spyrjandi

Lilja Ýr Víglundsdóttir, 4. bekkur Grunnskólans í Stykkishólmi, Ásdís

Tilvísun

Birna Lárusdóttir. „Af hverju heitir Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi þessu nafni?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2022. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=82878.

Birna Lárusdóttir. (2022, 14. febrúar). Af hverju heitir Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi þessu nafni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82878

Birna Lárusdóttir. „Af hverju heitir Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi þessu nafni?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2022. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82878>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju heitir Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi þessu nafni?
Drápuhlíðarfjall er í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi, sunnan við Stykkishólm. Það er helst þekkt fyrir fjölskrúðuga liti en þeir stafa af bergtegund sem nefnist ríólít. Forðum var álitið að það væri ríkt af málmum og náttúrusteinum sem gæddir væru yfirnáttúrulegum krafti. Þjóðsögur greina frá tjörn uppi á fjallinu þar sem alls konar töfrasteinar áttu að fljóta á Jónsmessunótt: óskasteinar, lausnarsteinar og hulinhjálmssteinar.

Norðan undir fjallinu stóð bærinn Drápuhlíð og dregur það nafn sitt af honum. Þar var lengi þríbýli en síðasti bærinn fór í eyði um miðja 20. öld. Ljóst er að nafnið er gamalt, enda er bæjarins getið í Eyrbyggja sögu, en þar bjó Vigfús nokkur, ódældarmaður mikill. Elsta handrit Eyrbyggju er talið frá því um 1300 en um svipað leyti, í landamerkjalýsingu frá því um 1250, er bærinn ekki kallaður Drápuhlíð heldur bara Hlíð. Líklegt er að forskeytinu Drápu- hafi verið bætt við til aðgreiningar frá öðrum bæjum með sama nafni, en algengt er að slíkt gerist með einföld náttúrunöfn á borð við Hvamm, Hól og Hlíð. Annar Hlíðabær er vestar á nesinu en sá heitir Mávahlíð og kemur einnig fyrir í Eyrbyggju. Það hefði valdið ruglingi ef báðir bæir hefðu heitað Hlíð eingöngu.

Drápuhlíðarfjall er helst þekkt fyrir fjölskrúðuga liti sem stafa af bergtegundinni ríólít.

En hver eða hvað er þá þessi Drápa sem bærinn var kenndur við? Örnefnið kemur víða fyrir eitt og sér og er oftast heiti á tjörnum, gjarnan ferginstjörnum í mýrlendi en fergin (eða fergini, lat. Equisetum fluviatile) er tegund af elftingu og þótti mjög gott skepnufóður. Drápuörnefnum fylgja oft sögur um að fé hafi farist eða drepist þar, og af því sé nafnið dregið. Sem dæmi má nefna Drápu, stöðulón í landi Syðri-Steinsmýrar (Leiðvallahreppi, V-Skaft.), en hún „hafði drepið marga kind“. Önnur tjörn með sama nafni var í Koteyjarhverfi í sama hreppi, en hún þótti mikill drápspyttur. Nákvæmlega sama skýring er uppi með Drápu sem er á landamerkjum Leysingjastaða og Steinness í Sveinsstaðahreppi (A-Hún.), en hún var ferginstjörn, áður hættuleg skepnum. Tekið er fram í annarri lýsingu að hún hafi ekki síst verið hættuleg þegar fraus og skepnur hættu sér út á ísinn. Drápa, sem var ferginstjörn út við hreppamót í Marbælisengi, var hins vegar þeirrar náttúru að þegar hey úr henni var þurrkað kom ávallt heyskaðaveður. Einnig eru nokkur dæmi um Drápur sem eru ekki tjarnir heldur jarðföll eða jafnvel annars konar landslagsfyrirbæri en oftast fylgja þeim sögur um skepnudauða.

Engin sögn af þessu tagi er þekkt í landi Drápuhlíðar svo vitað sé og alls ekki augljóst að bærinn hafi verið kenndur við sérstaka tjörn. Þar er þó talsvert votlendi, eða voru í það minnsta góðar engjar forðum og sú jörð sem á land að Drápuhlíð að norðan dregur einmitt nafn sitt af votlendi, Saurar – þar var mikið og grösugt engi.

Heimildir:
  • Íslenzk fornrit IV: Eyrbyggja saga: Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson gáfu út. Hið íslenzka fornritafélag, 1957.
  • Ýmsar örnefnalýsingar í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sjá Nafnið.is.
  • Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I. Safnað hefur Jón Árnason. Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954.

Mynd:...