Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er virðiskeðja?

Runólfur Smári Steinþórsson

Virðiskeðja er eitt af þeim fræðilegu lykilhugtökum sem mikið eru notuð í tengslum við stefnumótun og stefnumiðaða stjórnun fyrirtækja. Það má einnig nota hugtakið við greiningu á annars konar skipulagsheildum en fyrirtækjum, til að mynda nýtist það við stefnumótun opinberra stofnana og félagasamtaka.

Virðiskeðja (e. value chain) var fyrst sett fram af Michael E. Porter (1985) til þess að gera mögulegt að greina með kerfisbundnum hætti þá vinnuferla (e. activities) og starfsþætti (e. functions) innan fyrirtækja sem hafa stefnumarkandi þýðingu fyrir starfsemina. Tilgangurinn með greiningunni er að varpa ljósi á hvað það er helst í innra starfi fyrirtækja sem leggur grunn að samkeppnisforskoti og framúrskarandi árangri þeirra. Greiningin gerir einnig mögulegt að afmarka í hvaða ferlum og starfsþáttum kostnaður er mestur og hvar í virðiskeðju fyrirtækis sé helst að finna styrk og forsendu til að gera stefnu þess árangursríka. Litið er á virðiskeðju sem eitt mikilvægasta verkfærið í stefnumótunarvinnu fyrirtækja.

Virðiskeðja er eitt af þeim fræðilegu lykilhugtökum sem mikið eru notuð í tengslum við stefnumótun og stefnumiðaða stjórnun fyrirtækja. Það má einnig nota við greiningu á annars konar skipulagsheildum, eins og opinberra stofnana og félagasamtaka.

Virðiskeðja sem hugtak var kynnt af Porter sem hluti af stærra virðiskerfi (e. value system). Þetta þýðir að ekki er horft á fyrirtæki eða aðrar gerðir af skipulagsheildum sem einingu út af fyrir sig. Fyrirtæki er alltaf hluti af stærra samhengi og virðiskerfið sýnir það. Með hugtakinu virðiskerfi er boðið upp á aðferð til að greina fyrirtæki í umhverfi sínu. Fyrirtækið er þá virðiskeðja sem er tengd við aðrar virðiskeðjur í umhverfi fyrirtækisins. Þær sýna starfsemi birgja og samstarfsaðila annars vegar og starfsemi dreifiaðila og viðskiptavina hins vegar. Greining á virðiskerfi getur leitt í ljós að grundvöllur að samkeppnisforskoti fyrirtækis liggur mögulega í þeirri aðstöðu eða tengslum sem það býr við í virðiskerfinu. Porter hefur jafnframt þróað önnur hugtök og verkfæri til að varpa nánara ljósi á þær ytri aðstæður sem fyrirtæki býr við. Þar má nefna samkeppniskraftalíkan Porters, demant Porters og hugtakið klasa (e. cluster) sem gerir mögulegt að greina tiltekin hóp fyrirtækja og stofnana á ákveðnu svæði þar sem tengsl og samvirkni á milli aðila getur haft veruleg áhrif á verðmætasköpun og árangur fyrirtækja á viðkomandi svæði (Michael E. Porter, 2008).

Sem verkfæri er virðiskeðja notuð til að ná utan um svokallaðar viðskiptaeiningar í fyrirtæki. Ef fyrirtæki eru stór og með fjölbreytta starfsemi þá er nauðsynlegt að átta sig á hversu margar virðiskeðjur er að finna í starfsemi fyrirtækisins. Rétt skilgreining og afmörkun á virðiskeðjum innan fyrirtækis er forsenda þess að greiningin á helstu vinnuferlum og starfsþáttum viðkomandi viðskiptaeininga sé gagnleg og skili framlagi við mótun á viðskiptastefnu (e. business strategy) fyrir einingarnar sem um ræðir. Nauðsynlegt er að móta viðskiptastefnu fyrir sérhverja viðskiptaeiningu. Ef fyrirtæki eru lítil er oft aðeins um eina viðskiptaeiningu að ræða í fyrirtækinu en ef fyrirtæki eru stærri þá má greina fleiri virðiskeðjur í starfseminni og þannig sést að stórt fyrirtæki með fjölbreytta starfsemi er hluti af margþættu og flóknu virðiskerfi.

Til að varpa nánara ljósi á virðiskeðju sem verkfæri er gagnlegt að skoða mynd af virðiskeðju. Í myndinni hér fyrir neðan, sem er útfærð eftir fyrirmyndinni frá Porter (1985), má sjá dæmi um virðiskeðju. Grunnlíkanið (e. the generic value chain) skiptist í vinnuferla og starfsþætti sem í grundvallaratriðum skiptast í tvo hluta sem tengjast saman með gagnvirkum hætti. Annars vegar er um að ræða fimm flokka af helstu vinnuferlum og starfsþáttum (e. primary activities) í viðskiptaeiningu fyrirtækis. Þessa flokka má skilgreina sem aðalstarfsemi viðskiptaeiningarinnar og eru þeir jafnframt hlekkirnir í virðiskeðjunni. Hvern hlekk má sjá lóðrétt í líkaninu og saman mynda hlekkirnir lárétta keðju. Ofan á hlekkina koma svo fjórir tilgreindir ferlar sem styðja við aðalstarfsemina (e. support activities). Þessir stuðningsferlar eru sýndir lárétt í líkaninu og eru þannig stuðningur við aðalstarfsemina, það er alla helstu vinnuferla og starfsþætti í þeirri viðskiptaeiningu og virðiskeðju sem er til skoðunar í fyrirtæki hverju sinni.

Mynd af virðiskeðju Porters.

Virðiskeðja er hugtak sem gerir kleift að sjá hvaða vinnuferlar og starfsþættir það eru, bæði í aðalstarfsemi og stoðstarfsemi, sem eiga þátt í þeirri verðmætasköpun hjá því fyrirtæki, eða viðskiptaeiningu innan fyrirtækis, sem er til skoðunar hverju sinni. Tilgangurinn með greiningunni er að sjá svart á hvítu hvað það er sem stuðlar að samkeppnisforskoti og viðvarandi árangri hjá fyrirtækinu. Það er lykilatriði í greiningunni að horfa á allt ferlið og framvinduna í starfseminni sem á sér stað. Litið er á innra starf fyrirtækisins sem samhangandi og hvað árangur varðar þá er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn.

Heimildir:
  • Michael E. Porter (1985). Competitive Advantage: Creating and Sustaining Superior Performance. New York, Free Press.
  • Michael E. Porter (2008). On Competition: Updated and Expanded Edition. Boston, Harvard Business School Press.

Myndir:
  • Pixabay. (Sótt 14.02.2022).
  • Myndin er útfærð eftir fyrirmyndinni í riti Porters (1985). Útfærsla og þýðing: Runólfur Smári Steinþórsson, 11. feb. 2022.

Höfundur

Runólfur Smári Steinþórsson

prófessor í stjórnun og stefnumótun við HÍ

Útgáfudagur

15.2.2022

Spyrjandi

Sigurjón Pálsson

Tilvísun

Runólfur Smári Steinþórsson. „Hvað er virðiskeðja?“ Vísindavefurinn, 15. febrúar 2022, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83217.

Runólfur Smári Steinþórsson. (2022, 15. febrúar). Hvað er virðiskeðja? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83217

Runólfur Smári Steinþórsson. „Hvað er virðiskeðja?“ Vísindavefurinn. 15. feb. 2022. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83217>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er virðiskeðja?
Virðiskeðja er eitt af þeim fræðilegu lykilhugtökum sem mikið eru notuð í tengslum við stefnumótun og stefnumiðaða stjórnun fyrirtækja. Það má einnig nota hugtakið við greiningu á annars konar skipulagsheildum en fyrirtækjum, til að mynda nýtist það við stefnumótun opinberra stofnana og félagasamtaka.

Virðiskeðja (e. value chain) var fyrst sett fram af Michael E. Porter (1985) til þess að gera mögulegt að greina með kerfisbundnum hætti þá vinnuferla (e. activities) og starfsþætti (e. functions) innan fyrirtækja sem hafa stefnumarkandi þýðingu fyrir starfsemina. Tilgangurinn með greiningunni er að varpa ljósi á hvað það er helst í innra starfi fyrirtækja sem leggur grunn að samkeppnisforskoti og framúrskarandi árangri þeirra. Greiningin gerir einnig mögulegt að afmarka í hvaða ferlum og starfsþáttum kostnaður er mestur og hvar í virðiskeðju fyrirtækis sé helst að finna styrk og forsendu til að gera stefnu þess árangursríka. Litið er á virðiskeðju sem eitt mikilvægasta verkfærið í stefnumótunarvinnu fyrirtækja.

Virðiskeðja er eitt af þeim fræðilegu lykilhugtökum sem mikið eru notuð í tengslum við stefnumótun og stefnumiðaða stjórnun fyrirtækja. Það má einnig nota við greiningu á annars konar skipulagsheildum, eins og opinberra stofnana og félagasamtaka.

Virðiskeðja sem hugtak var kynnt af Porter sem hluti af stærra virðiskerfi (e. value system). Þetta þýðir að ekki er horft á fyrirtæki eða aðrar gerðir af skipulagsheildum sem einingu út af fyrir sig. Fyrirtæki er alltaf hluti af stærra samhengi og virðiskerfið sýnir það. Með hugtakinu virðiskerfi er boðið upp á aðferð til að greina fyrirtæki í umhverfi sínu. Fyrirtækið er þá virðiskeðja sem er tengd við aðrar virðiskeðjur í umhverfi fyrirtækisins. Þær sýna starfsemi birgja og samstarfsaðila annars vegar og starfsemi dreifiaðila og viðskiptavina hins vegar. Greining á virðiskerfi getur leitt í ljós að grundvöllur að samkeppnisforskoti fyrirtækis liggur mögulega í þeirri aðstöðu eða tengslum sem það býr við í virðiskerfinu. Porter hefur jafnframt þróað önnur hugtök og verkfæri til að varpa nánara ljósi á þær ytri aðstæður sem fyrirtæki býr við. Þar má nefna samkeppniskraftalíkan Porters, demant Porters og hugtakið klasa (e. cluster) sem gerir mögulegt að greina tiltekin hóp fyrirtækja og stofnana á ákveðnu svæði þar sem tengsl og samvirkni á milli aðila getur haft veruleg áhrif á verðmætasköpun og árangur fyrirtækja á viðkomandi svæði (Michael E. Porter, 2008).

Sem verkfæri er virðiskeðja notuð til að ná utan um svokallaðar viðskiptaeiningar í fyrirtæki. Ef fyrirtæki eru stór og með fjölbreytta starfsemi þá er nauðsynlegt að átta sig á hversu margar virðiskeðjur er að finna í starfsemi fyrirtækisins. Rétt skilgreining og afmörkun á virðiskeðjum innan fyrirtækis er forsenda þess að greiningin á helstu vinnuferlum og starfsþáttum viðkomandi viðskiptaeininga sé gagnleg og skili framlagi við mótun á viðskiptastefnu (e. business strategy) fyrir einingarnar sem um ræðir. Nauðsynlegt er að móta viðskiptastefnu fyrir sérhverja viðskiptaeiningu. Ef fyrirtæki eru lítil er oft aðeins um eina viðskiptaeiningu að ræða í fyrirtækinu en ef fyrirtæki eru stærri þá má greina fleiri virðiskeðjur í starfseminni og þannig sést að stórt fyrirtæki með fjölbreytta starfsemi er hluti af margþættu og flóknu virðiskerfi.

Til að varpa nánara ljósi á virðiskeðju sem verkfæri er gagnlegt að skoða mynd af virðiskeðju. Í myndinni hér fyrir neðan, sem er útfærð eftir fyrirmyndinni frá Porter (1985), má sjá dæmi um virðiskeðju. Grunnlíkanið (e. the generic value chain) skiptist í vinnuferla og starfsþætti sem í grundvallaratriðum skiptast í tvo hluta sem tengjast saman með gagnvirkum hætti. Annars vegar er um að ræða fimm flokka af helstu vinnuferlum og starfsþáttum (e. primary activities) í viðskiptaeiningu fyrirtækis. Þessa flokka má skilgreina sem aðalstarfsemi viðskiptaeiningarinnar og eru þeir jafnframt hlekkirnir í virðiskeðjunni. Hvern hlekk má sjá lóðrétt í líkaninu og saman mynda hlekkirnir lárétta keðju. Ofan á hlekkina koma svo fjórir tilgreindir ferlar sem styðja við aðalstarfsemina (e. support activities). Þessir stuðningsferlar eru sýndir lárétt í líkaninu og eru þannig stuðningur við aðalstarfsemina, það er alla helstu vinnuferla og starfsþætti í þeirri viðskiptaeiningu og virðiskeðju sem er til skoðunar í fyrirtæki hverju sinni.

Mynd af virðiskeðju Porters.

Virðiskeðja er hugtak sem gerir kleift að sjá hvaða vinnuferlar og starfsþættir það eru, bæði í aðalstarfsemi og stoðstarfsemi, sem eiga þátt í þeirri verðmætasköpun hjá því fyrirtæki, eða viðskiptaeiningu innan fyrirtækis, sem er til skoðunar hverju sinni. Tilgangurinn með greiningunni er að sjá svart á hvítu hvað það er sem stuðlar að samkeppnisforskoti og viðvarandi árangri hjá fyrirtækinu. Það er lykilatriði í greiningunni að horfa á allt ferlið og framvinduna í starfseminni sem á sér stað. Litið er á innra starf fyrirtækisins sem samhangandi og hvað árangur varðar þá er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn.

Heimildir:
  • Michael E. Porter (1985). Competitive Advantage: Creating and Sustaining Superior Performance. New York, Free Press.
  • Michael E. Porter (2008). On Competition: Updated and Expanded Edition. Boston, Harvard Business School Press.

Myndir:
  • Pixabay. (Sótt 14.02.2022).
  • Myndin er útfærð eftir fyrirmyndinni í riti Porters (1985). Útfærsla og þýðing: Runólfur Smári Steinþórsson, 11. feb. 2022.
...