Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:51 • Sest 07:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:40 • Síðdegis: 21:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:39 • Síðdegis: 14:42 í Reykjavík

Er norðlenska flokkuð sem hreimur eða mállýska?

Eiríkur Rögnvaldsson

Þegar talað er um „norðlensku“ er venjulega átt við ákveðin einkenni í framburði, einkum svokallað harðmæli og raddaðan framburð. Harðmæli felst í því að bera lokhljóðin p, t og k fram fráblásin inni í orðum, t.d. æpa, vita, vaka ([aiːpʰa], [vɪːtʰa], [vaːkʰa]), í stað ófráblásinna lokhljóða ([aiːpa], [vɪːta] [vaːka]) í framburði meirihluta þjóðarinnar. Í rödduðum framburði eru l, n og m rödduð (með ákveðnum undantekningum) og eftirfarandi lokhljóð fráblásin á undan p, t og k, í orðum eins og hálka, vanta, svampur ([haulkʰa], [vantʰa], [svampʰʏr]), í stað óraddaðra og ófráblásinna hljóða ([haul̥ka], [van̥ta], [svam̥pʏr]) í framburði meginhluta þjóðarinnar.

Tvö önnur framburðartilbrigði eru bundin við Norðurland en útbreiðsla þeirra er mun takmarkaðri. Þetta er svokallaður ngl-framburður, þar sem lokhljóð er borið fram í orðum eins og kringla ([kʰriŋkla] í stað [kʰriŋla] í framburði flestra), og bð-/gð-framburður, sem nú er nánast horfinn, þar sem borið var fram lokhljóð í orðum eins og hafði og sagði ([hapðɪ], [sakðɪ], í stað önghljóðs, [havðɪ], [saɣðɪ]). Auk þess er stundum talað um að sums staðar á Norðurlandi, einkum á Ólafsfirði, sé notað sérstakt tónfall. En vegna fólksflutninga og annarra þjóðfélagsbreytinga eru skil milli framburðartilbrigða nú mun óskýrari en þau voru fyrir 80 árum þegar Björn Guðfinnsson kannaði fyrstur manna framburð um allt land.

Sums staðar á Norðurlandi, einkum á Ólafsfirði, er notað sérstakt tónfall. Myndin er tekin af Brynjólfi Sveinssyni á skíðastökksmóti á Ólafsfirði um miðja 20. öld.

Það er oft talað um mállýskumun í framburði Íslendinga, og Björn Guðfinnsson nefndi grundvallarrit sitt um tilbrigði í íslenskum framburði Mállýzkur. En orðið mállýska (e. dialect) vísar þó oftast til margfalt meiri og fjölbreyttari tilbrigða en fram koma í venjulegum framburði Íslendinga. Víða kemur mállýskumunur fram á mörgum sviðum málsins – ekki einungis í framburði, heldur einnig í orðaforða og merkingu orða, beygingum og setningagerð. Sums staðar skilur fólk sem talar eina mállýsku tæpast eða ekki fólk sem talar aðra mállýsku sama tungumáls.

Vissulega má finna einstöku staðbundin tilbrigði í orðaforða, beygingum og setningagerð í máli Íslendinga. En vegna þess að framburðartilbrigðin eru langmest áberandi er yfirleitt vísað til þeirra þegar átt er við staðbundinn mun á máli fólks og talað um norðlensku, vestfirsku, skaftfellsku og svo framvegis. Þar sem tilbrigðin eru auk þess tiltölulega lítil er eðlilegt að líta á þau sem hreim (e. accent) frekar en mállýsku og tala um norðlenskan hreim.

Mynd:

Höfundur

Eiríkur Rögnvaldsson

prófessor emeritus í íslenskri málfræði

Útgáfudagur

1.9.2022

Spyrjandi

Hermundur Sigurðsson

Tilvísun

Eiríkur Rögnvaldsson. „Er norðlenska flokkuð sem hreimur eða mállýska?“ Vísindavefurinn, 1. september 2022. Sótt 25. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=83909.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2022, 1. september). Er norðlenska flokkuð sem hreimur eða mállýska? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=83909

Eiríkur Rögnvaldsson. „Er norðlenska flokkuð sem hreimur eða mállýska?“ Vísindavefurinn. 1. sep. 2022. Vefsíða. 25. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=83909>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er norðlenska flokkuð sem hreimur eða mállýska?
Þegar talað er um „norðlensku“ er venjulega átt við ákveðin einkenni í framburði, einkum svokallað harðmæli og raddaðan framburð. Harðmæli felst í því að bera lokhljóðin p, t og k fram fráblásin inni í orðum, t.d. æpa, vita, vaka ([aiːpʰa], [vɪːtʰa], [vaːkʰa]), í stað ófráblásinna lokhljóða ([aiːpa], [vɪːta] [vaːka]) í framburði meirihluta þjóðarinnar. Í rödduðum framburði eru l, n og m rödduð (með ákveðnum undantekningum) og eftirfarandi lokhljóð fráblásin á undan p, t og k, í orðum eins og hálka, vanta, svampur ([haulkʰa], [vantʰa], [svampʰʏr]), í stað óraddaðra og ófráblásinna hljóða ([haul̥ka], [van̥ta], [svam̥pʏr]) í framburði meginhluta þjóðarinnar.

Tvö önnur framburðartilbrigði eru bundin við Norðurland en útbreiðsla þeirra er mun takmarkaðri. Þetta er svokallaður ngl-framburður, þar sem lokhljóð er borið fram í orðum eins og kringla ([kʰriŋkla] í stað [kʰriŋla] í framburði flestra), og bð-/gð-framburður, sem nú er nánast horfinn, þar sem borið var fram lokhljóð í orðum eins og hafði og sagði ([hapðɪ], [sakðɪ], í stað önghljóðs, [havðɪ], [saɣðɪ]). Auk þess er stundum talað um að sums staðar á Norðurlandi, einkum á Ólafsfirði, sé notað sérstakt tónfall. En vegna fólksflutninga og annarra þjóðfélagsbreytinga eru skil milli framburðartilbrigða nú mun óskýrari en þau voru fyrir 80 árum þegar Björn Guðfinnsson kannaði fyrstur manna framburð um allt land.

Sums staðar á Norðurlandi, einkum á Ólafsfirði, er notað sérstakt tónfall. Myndin er tekin af Brynjólfi Sveinssyni á skíðastökksmóti á Ólafsfirði um miðja 20. öld.

Það er oft talað um mállýskumun í framburði Íslendinga, og Björn Guðfinnsson nefndi grundvallarrit sitt um tilbrigði í íslenskum framburði Mállýzkur. En orðið mállýska (e. dialect) vísar þó oftast til margfalt meiri og fjölbreyttari tilbrigða en fram koma í venjulegum framburði Íslendinga. Víða kemur mállýskumunur fram á mörgum sviðum málsins – ekki einungis í framburði, heldur einnig í orðaforða og merkingu orða, beygingum og setningagerð. Sums staðar skilur fólk sem talar eina mállýsku tæpast eða ekki fólk sem talar aðra mállýsku sama tungumáls.

Vissulega má finna einstöku staðbundin tilbrigði í orðaforða, beygingum og setningagerð í máli Íslendinga. En vegna þess að framburðartilbrigðin eru langmest áberandi er yfirleitt vísað til þeirra þegar átt er við staðbundinn mun á máli fólks og talað um norðlensku, vestfirsku, skaftfellsku og svo framvegis. Þar sem tilbrigðin eru auk þess tiltölulega lítil er eðlilegt að líta á þau sem hreim (e. accent) frekar en mállýsku og tala um norðlenskan hreim.

Mynd:...