Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Mállýskumunur er lítill hér á landi ef hann er til dæmis borinn saman við nágrannamálin norrænu, ensku eða þýsku þar sem algengt er að menn skilji ekki hver annan ef þeir nota mállýskur sínar í samtali. Því er ekki til að dreifa hér á landi og þess vegna er því stundum haldið fram að íslenska sé án mállýskna.
Ýmis atriði í framburði manna geta þó sagt til um hvaðan af landinu þeir eru enda er mállýskumunur hérlendis að mestu leyti hljóðfræðilegur. Vissulega eru sum orð og orðasambönd staðbundin, það er að segja að þau eru aðeins notuð á ákveðnu takmörkuðu svæði eða í ákveðnum landshluta, en slíkur munur hefur ekki talist til eiginlegra mállýskna enda oft erfitt að draga mörkin. Þau atriði sem talin hafa verið til mállýskueinkenna eru einkum sex:
harðmæli – linmæli
raddað – óraddað
einhljóðaframburður á undan ng og nk
einhljóðaframburður á undan gi
hv - kv framburður
rl - rn framburður
Munur á harðmæli og linmæli felst í því hvort menn bera fram lokhljóðin p, t, k fráblásin inni í orði á eftir löngu sérhljóði eða ófráblásin. Með því er átt við hvort okkur heyrist sagt /tapa/ með p-i eða /taba/ með b-i, /fata/ með t-i eða /fada/ með d-i og /taka/ með k-i eða /taga/ með g-i. Fráblásni framburðurinn hefur verið ríkjandi á Norðurlandi öllu.
Munur á rödduðum og órödduðum framburði felst í því hvort l, m, n, ð eru rödduð eða órödduð á undan p, t, k. Þessa framburðar gætir helst á Eyjafjarðarsvæðinu.
Einhljóðaframburður á undan ng og nk er vestfirskt einkenni. Annars staðar á landinu er borið fram tvíhljóð á undan þessu stafasambandi. Munurinn er því sá að fyrir vestan er sagt /langur/, /löng/ og /lengi/ þar sem annars staðar er sagt /lángur/, /laung/ og /leingi/.
Einhljóðaframburður á undan gi heyrist einkum í Skaftafellssýslum. Annars staðar er borið fram tvíhljóð. Þetta er í orðum eins og /vegi/, /stigi/, /logi/, /hugi/, /lögin/ þar sem annars staðar en fyrir austan er borið fram /veiji/, /stíji/, /loji/, /huji/ og /löjin/.
hv-framburður heyrist helst á Suðurlandi og er fremur á undanhaldi. Þar er sagt /hvítur/, /hveiti/, /hver/ þar sem annars staðar er borið fram /kvítur/, /kveiti/, /kver/.
rl- og rn-framburður er að mestu bundinn við Austur-Skaftafellssýslu. Þar er sagt /barn/, /varla/ þar sem annars staðar á landinu er sagt /bardn, baddn/, /vardla, vaddla/.
Guðrún Kvaran. „Hvað eru margar mállýskur í íslensku og hverjar eru þær?“ Vísindavefurinn, 17. apríl 2001, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1506.
Guðrún Kvaran. (2001, 17. apríl). Hvað eru margar mállýskur í íslensku og hverjar eru þær? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1506
Guðrún Kvaran. „Hvað eru margar mállýskur í íslensku og hverjar eru þær?“ Vísindavefurinn. 17. apr. 2001. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1506>.